Kirkjan uppfyllir félagslega þörf

Þegar ég hugsaði málin um samband ríkis og kirkju datt ég inn á þá línu að meta hvað kirkjan hefur en samfélög trúlausra hafa ekki. Orðið kirkja veitir auðvitað vísbendingu en það er samnefnari yfir tegund bygginga. Og hvað fer fram í þessum byggingum? Fólk hittist.

Einmitt, fólk hittist. Ein tökin sem kirkjan hefur á fólki er að hún er tengd við félagsstarfsemi. Þótt trúin sé ekki endilega drifkrafturinn á bakvið sumt af félagsstarfinu, sér fólk auðvitað að tilvera kirkjunnar tengist möguleika þeirra til þess að iðka félagsstarfið. Það er hins vegar ekki sá hluti sem færslan á að snúast um heldur félagslíf trúlausra.

Trúlausir hafa eitthvað félagslíf. Það er ekki eins og allir með tölu sitji heima og sötri kaffi hvert kvöld á meðan þeir horfa á trúleysismyndbönd á YouTube og setji linka á þau inn á Facebook. Þeir haga sér að miklu leiti eins og aðrir, nema að þeir eru trúlausir. En það vantar samt eitthvað upp á samstöðuna. Félög sem halda upp á trúleysi hafa hittinga og það er samstaða innan þeirra en það er gallinn. Samstaðan er að mestu leyti innan þeirra.

Einhver lausn þarf að vera á þessu en sú sem ég aðhyllist mest er að koma upp samstöðu óháð félögum, eða allavega í upphafi. Hins vegar væri ekki svo slæmt ef að félögin myndu opna arma sína og skipuleggja félagslega atburði sem almenningur hefur áhuga á. Þá á ég ekki við um fyrirlestra eða umræðufundi, heldur atburði þar sem umræðurnar væru aukaatriði og skemmtunin aðalatriðið. Dæmi um slíkt væri að fara í keilu, göngutúra, bíó og svo framvegis.

Þá er líka hægt að stofna óformlega eða formlega hópa trúleysingja sem hjálpa öðrum án þess að blanda trú í hjálpina. Hópar gætu stundað hjálparstarf innanlands eins og að hjálpa til við matarúthlutun á skipulögðum tíma, gengið um bjóðandi upp á faðmlög eða hvaðeina sem gæti hjálpað fólki líkamlega og/eða andlega. Kosturinn við það er að fólk hjálpar til og um leið er verið að sanna að trúað fólk er ekki eina fólkið sem getur það.

Félög sem viðhalda trúleysi eru að gera góða hluti þessa stundina en auðvitað mætti víkka starfsemina aðeins án þess að það kosti meira en smá fyrirhöfn. Þau mættu t.d. halda opna hittinga þar sem fólk í félaginu og trúlausir utan þeirra eru velkomnir. Siðmennt hefur gert það í einhvern tíma en hefur ekki verið nógu duglegt að láta vita af því. Það stendur samt til innan Siðmenntar að bæta úr því í vetur.

En auðvitað má alltaf gera betur en til þess þarf fleiri meðlimi í trúleysisfélög en með því er hægt að hafa fleiri hugmyndir á lofti. Þá þarf alltaf fleiri meðlimi með framkvæmdaþörf svo öll vinnan lendi ekki á litlum kjarna félagsmanna. Þeir sem eru trúlausir, prófið að taka að minnsta kosti einn hálftíma í hverri viku, eða jafnvel mánuði, sem þið tileinkið framför málstaðar trúleysingja á Íslandi.

Kærði þjóðaratkvæðagreiðsluna 20. október 2012 til landskjörstjórnar

Rétt í þessu var ég að kæra framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar þann 20. október 2012 til landskjörstjórnar.

Kæra til landskjörstjórnar vegna framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu 20. okt. 2012

Hins vegar er ég ekki að krefjast ógildingar kosninganna sbr. orð mín í kærunni. Þar að auki vildi ég kæra núna þann 18. október til að fólki væri ljóst að forsendur kærunnar hafi ekkert með úrslit atkvæðagreiðslunnar að gera, enda er það ómögulegt fyrir mig að vita úrslit þjóðaratkvæðagreiðslu sem fer ekki fram fyrr en eftir 2 daga.

Er núverandi þjóðkirkjuskipulag ólöglegt skv. frumvarpi stjórnlagaráðs?

Í gær fór ég á fund Stjórnarskrárfélagsins um Þjóðkirkjuna og stjórnarskrána. Á þeim fundi bar ég upp þá spurningu hvort núverandi kirkjuskipan ríkisins stæðist stjórnarskrá ef frumvarp stjórnlagaráðs yrði samþykkt. Því miður voru svörin sem gefin voru upp byggð á misskilningi sem enginn af svarendunum vissi af eða vildi vita af.

Í 19. gr. frumvarps stjórnlagaráðs stendur að „[í] lögum má kveða á um kirkjuskipan ríkisins“. Hins vegar er ljóst að þessi kirkjuskipan ríkisins getur ekki verið hver sem er og hún mætti sérstaklega ekki brjóta gegn ákvæðum stjórnarskrár. Pælingin mín var hvort núverandi kirkjuskipan myndi standast jafnræðisreglu frumvarpsins. Sé svo að hún geri það ekki, þá geta dómstólar dæmt svo að kirkjuskipan með trúfélagi í forréttindastöðu standist ekki stjórnarskrána (sbr. 2. mgr. 100 gr. frumvarpsins) og þar af leiðandi dæmd gegn stjórnarskrá og því ógild.

Á téðum fundi vísuðu allir svarendur á það að spurningunni hafi verið svarað 2007 og þá væntanlega að vísa í dóm Hæstaréttar í máli Ásatrúarfélagsins. Svarið stenst ekki rök þar sem dómurinn byggði á að staða þjóðkirkjunnar væri réttlæt með vísan í auknar skyldur hennar miðað við önnur trúfélög. Þær skyldur eru hins vegar með stoð í núgildandi stjórnarskrá um að Þjóðkirkjan sé þjóðkirkja á Íslandi og að ríkið skuli með tilliti til þess vernda hana og styðja. Sé frumvarp stjórnlagaráðs samþykkt óbreytt hefur Þjóðkirkjan engan beinan stjórnarskrárlegan stuðning né hefur ríkið engar skyldur til þess að vernda eða styðja slíka kirkju.

Slík setning skylda á hendur eins trúfélags stæðist alls ekki jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og geta dómstólar dæmt hana ólögmæta. Einhverjir gætu sagt að það sé í lagi þar sem um er að ræða ríkjandi ástand sem var leyft í fyrri stjórnarskrá. Slíka túlkun yrði þá einnig að beita á önnur landslög sem eru í gildi með öllu því óréttlæti sem þeim fylgja, en slíkt stæðist ekki skoðun og myndi alls ekki hvetja til breytinga eða afnámi ósanngjarnra laga.

Við skoðun á því hvort kirkjuskipan ríkisins stæðist stjórnarskrá, yrði að skoða hvernig aðstæðurnar væru ef þágildandi kirkjuskipan væri lögð fram sem ný kirkjuskipan. Með það að leiðarljósi gæti það varla staðist jafnræðisreglu stjórnarskrár ef Alþingi setti lög um að eitt ákveðið trúfélag, eða ákveðinn hópur trúfélaga, hefðu slíka forréttindastöðu.

Þessa grein má endurbirta að vild án endurgjalds með því skilyrði að hún sé birt í heild og ég sé látinn vita af birtingunni.

Laug Valitor að dómstólum?

Eftir að hafa lesið fréttir um dómsmál Datacell gegn Valitor rakst ég á sjónarhorn sem mér þykir að fjölmiðlar hafi ekki fjallað betur um.

Í tilkynningu til Alþingis segir Valitor eftirfarandi:

VALITOR vill koma á framfæri að á umræddum fundi Allherjarnefndar í morgun voru einnig fulltrúar Kortaþjónustunnar ásamt þremur fulltrúum Teller, en Kortaþjónustan er umboðsaðili Teller AS á Íslandi. Fram hefur komið að Teller AS/Kortaþjónustan sá um að móttaka greiðslur fyrir Wikileaks sem nú hefur verið lokað fyrir. Við viljum því ítreka að VALITOR er ekki aðili að þessu máli.

Árni Þór Sigurðsson kemur fram með eftirfarandi vitnisburð á Facebook síðu sinni:

En fyrirtækin vildu ekki kannast við það þegar þau mættu fyrir þingnefnd, að þau ættu aðild að málinu og væru einungis að fylgja fyrirskipunum að utan og ætluðu sér alls ekki að taka þátt í því að brjóta lög hérlendis

Hins vegar segir í dómi héraðsdóms um skýrslu Viðars Þorkelssonar í málinu:

Viðar Þorkelsson, forstjóri stefnda, gaf skýrslu fyrir dómi.  Hann kvaðst ekki hafa komið að málum þegar gengið var frá samningi við stefnanda.  Hann sagði að WikiLeaks hefði leitað eftir samningi á árinu 2010, en beiðni þeirra hefði verið hafnað.  Hann sagði að umsókn væri metin eftir þeim upplýsingum sem þar kæmu fram.  Hér hafi komið í ljós að stefnandi hafi veitt þjónustu við fjársöfnun fyrir þriðja aðila.  Upplýsingar hafi því ekki verið réttar í umsókn.  Þess vegna hafi samningnum verið sagt upp.

Viðar kvaðst hafa talað í síma við starfsmann Visa í Evrópu, sem hefði sagt honum frá þessum færslum á WikiLeaks og bent á að Teller hefði sagt upp viðskiptum við DataCell vegna þess að kortasamtökin töldu viðskiptin ekki í samræmi við starfs­reglur þeirra.  Hann hafi þó ekki gefið honum bein fyrirmæli.

Hér er bullandi ósamræmi í yfirlýsingum. Fyrir dómi sagði forstjóri stefnda, Valitors hf., að hér væri að ræða um aðgerð að frumkvæði Valitors en Alþingi fékk á sínum tíma þá sögu að Valitor hafi eingöngu verið að framfylgja fyrirskipunum frá erlendum aðilum.

Mér þykir líklegra að fyrri útgáfan sé sú sanna en síðan hafi sögunni verið breytt vegna atburða sem gerðust á milli. Forstjóri Valitor hafi túlkað símtalið sem fyrirmæli og framkvæmt þau en síðan hafi erlendu aðilarnir ekki viljað kannast við það og því hafi hann breytt frásögninni. Síðan er þessi málsvörn afar lík Nuremberg vörninni sem var kollvarpað á sínum tíma í samnefndu dómsmáli.

Spurningin ætti þá frekar að endurspegla alvarleika málsins og orðast svo:
Laug Valitor að dómstólum?

Forsetinn sem ég vil

Nú þegar væntanlegir forsetaframbjóðendur eru að koma sér á framfæri ákvað ég, sem einstaklingur á kjörskrá, að nefna hvers konar forseta ég myndi vilja sjá á Íslandi. Ef einhver frambjóðandi kemur fram sem ber þau einkenni sem ég vil í forseta, þá fær hann líklegast mitt atkvæði, ellegar mun ég skila auðu.

Ég vil forseta…

…sem verndar almenning frá ágangi stjórnvalda. Ef Alþingi samþykkir lög sem ganga inn á frelsi almennings vil ég að forsetinn neiti að skrifa undir þau, sama hversu lítilvæg frelsisskerðingin er. Þetta er eitt mikilvægasta hlutverk forseta sem hefur því miður verið of lítið beitt frá lýðveldisstofnun. Alþingi er ekki fullkomið og það þarf aðhald. Það er ekki nóg að treysta á dómstóla til að veita aðhald gegn Alþingi því oftast er skaðinn skeður þegar þeir loksins sjá að sér. Hvað er annars að því að koma í veg fyrir að eitthvað slæmt gerist í upphafi í stað þess að treysta á dómstóla til þess að hreinsa upp eftir löggjafar- og framkvæmdavaldið?

…sem skrifar ekki undir neitt sem gengur gegn almennri skynsemi eða lýðræði. Með öðrum orðum vil ég forseta sem er trúr sjálfum sér og skrifar ekki undir hluti nema þeir séu örugglega í samræmi við stjórnarskrá og við almenna skynsemi.

…sem er gagnrýninn á núverandi ferli og hefðir. Ekki fer ég að kjósa forseta sem skrifar undir allt hugsanalaust og lætur óréttlæti viðgangast bara því „það hefur verið þannig“. T.d. er hefð fyrir því að ríkisstjórnin þurfi að fá samþykki forseta til þess að geta lagt fram stjórnarfrumvörp eða stjórnartillögur en ég myndi vilja að forseti neiti að samþykkja slíkt ef þau ganga of mikið inn á frelsi almennings. Ríkisstjórnin gæti þá auðvitað lagt fram frumvörpin í nafni þingmannanna sem að henni standa ef hún vill að þau nái framgöngu á Alþingi.

Sumir myndu segja að þessar kröfur myndu kalla á pólítískan forseta en svo þarf ekki að vera. Það er munur á forseta sem rækir hlutverk sitt sem verndari almennings og forseta sem gerir hluti því ákveðin stjórnmálastefna segir að þeir verði að gera eitthvað með einum hætti eða öðrum. Í stuttu máli vil ég gagnrýninn forseta sem þorir að framkvæma.

Neytendamál í Bandaríkjunum

Í ferð minni til Bandaríkjanna í febrúar lærði ég ýmislegt um viðskiptahættina þar og sá að sumir þeirra mættu alveg taka fótfestu á Íslandi. Síðan neita ég því ekki að ég stalst til þess að panta nokkrar pítsur og því er aðaláherslan á þær. Hér eru nokkur þeirra atriða sem ég tók eftir:

Pizza Hut er venjulegur pítsastaður
Á Íslandi er ímynd Pizza Hut sú að þetta sé háklassaveitingastaður þar sem borðað er í fínum sal og verðið samkvæmt þeirri ímynd. Stór margaríta er á 3.141 krónur (ódýrasta í þeirri stærð) á meðan á öðrum pítsastöðum er hún á rétt yfir þúsund krónum. Á meðan Pizza Hut í Bandaríkjunum eru með heimsendingu er það alls ekki í boði á Íslandi. Eigendur Pizza Hut á Íslandi vilja greinilega halda í þessa ýktu ímynd til þess að halda verðinu svo háu og það kostaði þá það að þeir urðu að loka tveim af veitingastöðunum sínum um árið.

Heimsendingin er ekki innifalin
Og það er gott. Þetta gefur fólki raunverulegt tækifæri til að bera saman verð. Venjan hér er að gefið er upp ákveðið verð og síðan fær fólk „afslátt“ ef það sækir. Þessi afsláttur er auðvitað heimsendingarkostnaðurinn eða ætti að vera það undir venjulegum kringumstæðum.

Sumum finnst það eðlilegt þar sem það er ódýrara fyrir pítsastaðinn að þurfa ekki að standa í heimsendingu. En ef við íhugum þetta nánar og hugsum upp aðstæður þar sem fólk pantar 2 eða fleiri pítsur í einu. Af hverju margfaldast heimsendingarkostnaðurinn í nákvæmu samræmi við fjölda pítsa sem skutlað er heim? Það er ekki eins og bensínkostnaðurinn sé það mikið hærri við að hafa einu boxi meira.

Væri ekki í staðinn eðlilegt að hafa eitt verð og síðan tiltaka sérstakan heimsendingarkostnað ef fólk vill nýta heimsendingarþjónustu fyrirtækisins? Ástæðan fyrir þessu fyrirkomulagi er auðvitað til þess að blekkja viðskiptavininn með loforði um afslátt og við vitum hversu vitlausir Íslendingar eru í afslætti.

Þjórfé er sjálfsagður hlutur
Eftir að ég lærði um þjórfé átti ég í stökustu vandræðum við að reikna út hversu mikið var viðeigandi í hvert skipti. Í stuttu máli er tilgangur þjórfés sá að vera aðhald fyrir þjónustufólkið svo það veiti góða þjónustu og síðan líka svo eigendur staðanna geti komist upp með að greiða því lægra kaup. Sem betur fer er það ekki hluti af menningunni hér.

Skammtarnir eru stærri
Þegar ég var að panta gerði ég alltaf ráð fyrir því að ef ég pantaði hluti eins og kartöflustöppu að þar kæmi smá skammtur til að borða með matnum en ó hvað ég hafði rangt fyrir mér. Ekki aðeins fékk ég þann skammt sem ég bjóst við, heldur margfalt það. Fyrir um 10 bandaríkjadollara gat ég fengið fullan disk af gómsætum mat en ef ég væri á Íslandi fengi ég bara…næstum ekkert. Það má auðvitað spá í það hvort þetta sé ein ástæðan fyrir því að íbúar Bandaríkjanna séu meðal þeirra feitustu en hins vegar fá þau það sem þau borga fyrir.

Læt þetta nægja í bili.

Opinber umfjöllun um Asperger

Fjölmiðlar hafa byrjað að ræða um einhverfurófið, og finnst mér mikil þörf á að taka upp þá umræðu opinberlega. Fyrst var rætt við Mamiko Dís Ragnarsdóttur, sem rekur bloggið sjalfhverfa.wordpress.com, í fréttatíma Stöðvar 2. Síðan ræddi mbl.is sjónvarp við mig. Í gær fjallaði Stöð 2 aftur um málið en í þetta sinn var rætt við Laufeyju Gunnarsdóttur.

Orsök Aperger heilkennisins eru ekki fullkomlega ljós en einkenni þess er að heilinn þróast öðruvísi en hjá öðrum, sem áfram leiðir til einkenna sem fólk upplifir í gegnum ævina. Rannsóknir benda þó til þess að Asperger heilkennið erfist þó ekki sé vitað um hvaða gen sé að ræða. Einu greiningartólin sem eru í boði þessa stundina byggjast á því að greina atferli og hegðun viðkomandi. Í fyrstu umfjölluninni var nefnt að um 1% fólks sé á einhverfurófi en í Bretlandi er hlutfallið 63 á hver 10 þúsund, sem sagt 0,63%. Séu bresku tölurnar færðar yfir á mannfjöldann á Íslandi er hægt að áætla að um 2 þúsund manns séu á einhverfurófi hér á landi (m.v. mannfjöldatölu Hagstofu fyrir 1. janúar 2011).

Greining á Asperger þarf ekki að þýða endalok lífs manneskju, heldur veitir hún upplýsingar sem manneskjan vissi væntanlega ekki áður. Það er ekki eins og líkaminn breytist um leið og greiningin staðfestir heilkennið. Greiningin er tækifæri til þess að skoða líf manns og skilja betur af hverju það leiddi til manneskjunnar sem maður er núna. Hvað maður gerir í framhaldinu er undir manni sjálfum komið. Hvers vegna ekki að reyna að njóta þess sem eftir er lífsins?

The great spouse hunt

Author’s note:
This is an English translation of the article „Makaleitin mikla„. It is translated by request because the Google translate version of it is horrible. It can provide an insight to my preferences for future spouses from an Aspie point of view.

I am 28 years old now and have yet to enter a relationship but then people start to suspect I set my standards too high when it comes to the attributes of my spouse. Some also suspect that I’m gay but I don’t think I am. However, I think there’s a different reason: My isolation as a child which impaired my abilities to communicate socially to this day. The few who I’ve been in contact with regularly (and are not my relatives) are usually of the male gender which causes inexperience when talking to females. Even if I see a female I’m attracted to does not automatically mean that I have the courage or ability to „get her“. It also doesn’t help that sometimes I have difficulties determining where people are located in the friend pyramid.

My mother is even trying to plug me to a relationship by mentioning at regular intervals that I’m single, but not so often it’s annoyingly irritating. My siblings have also tried to introduce me to women but without success. The main reason things haven’t worked out when people play the relationship manager role is because they don’t know what I’m looking for. To give people a better understanding of what I’m seeking, I decided to make a list over the qualities I’m looking for in potential spouses (not ordered by priority).

Looks:
Look like a female.
Not look like a monster.
Preferably on my age range or younger. But I’m open to older females.
Regular body caring (cleans herself, and so on).
Fine and soft skin.
Not very far from ideal weight. Can differ by 10-15 kg (22-33 lbs).
Would be ideal if she had some breasts. But not a requirement.

Personality / behaviour:
Smart (at least not stupid).
Logical.
Fairly black humour. Few or no topics so holy that they cannot be joked about.
Preferably doesn’t hold any dogmas.
Not prejudiced.
Understanding / Not too quick to judge.
Happy with life. That is, not a robot.
Not a snob.
Decisive.
Dependable.
Open. Can talk about things regarding herself, like feelings.
Doesn’t just think about herself.
Has sexual needs.
Can take criticism.
Good self-esteem. Secure with herself and won’t be jealous over nothing.
Strong sense of justice. Tries to be honest in what she does.
Courage to express her own opinions.
Not pushy.
Not clingy.
Not submissive. That is, independant thinker and do-er.
Not very codependant.

And of course I’m ready to lower my demands for any of those qualities if she is overall good. Also, everything is good in moderation because, for example, it’s not good to be a cleaning freak or Ms. Everything-is-positive.

Makaleitin mikla

Nú er ég 28 ára og hef ekki enn verið í sambandi og þá fer fólk að gruna að ég setji of strangar kröfur þegar kemur að eiginleikum þeim sem sambandsefnið á að vera gætt. Einnig gruna sumir að ég sé samkynhneigður en ég veit ekki til þess að svo sé. Hins vegar tel ég raunina vera aðra, nánar sagt vegna einangrunar minnar þegar ég var yngri, sem olli því að félagsleg samskipti eru ekki auðveld fyrir mig. Þeir fáu aðilar sem ég ræddi við með reglulegu millibili (og eru ekki ættingjar mínir) hafa aðallega verið af karlkyninu sem leiðir til þess að ég er alls ekki vanur að ræða við kvenfólk. Þótt ég sjái kvenmann sem mér líst vel á er ekki sjálfsagt að ég hafi þor eða getu til þess að „næla mér í hana“. Ekki hjálpar það til að stundum á ég erfitt með að meta hvar fólk er statt á vinapýramídanum.

Mamma er jafnvel að reyna að „plögga mig“ í samband með því að minnast reglulega á að ég sé á lausu, þó ekki svo oft að það sé yfirgengilega pirrandi. Einnig hafa systkini mín reynt að koma mér í kynni við kvenfólk en án árangurs. Aðalástæðan fyrir því að hlutir hafa ekki gengið upp þegar fólk hefur farið í sambandsráðgjafahlutverkið er að það veit ekki hvað ég er að leitast eftir. Til að gefa því fólki betri hugmynd yfir það sem ég sækist eftir ákvað ég að setja saman smá lista yfir þá eiginleika sem ég sækist eftir í tilvonandi mökum (ekki raðað eftir mikilvægi).

Útlit:
Líta út eins og kvenmaður.
Lítur ekki út eins og skrímsli.
Helst á sama aldursbili og ég eða yngri. Þó opinn fyrir eldra kvenfólki.
Stundar reglulega líkamlega umhirðu (þrífur sig reglulega, o.s.frv.).
Fín og mjúk húð.
Ekkert rosalega langt frá kjörþyngd. Má alveg muna 10-15 kg.
Myndi ekki saka ef hún væri með einhver brjóst. Þó ekki krafa.

Persónuleiki / hegðun:
Gáfuð (allavega ekki heimsk).
Rökvís.
Ágætlega svartur húmor. Fá eða engin umræðuefni svo heilög að það megi ekki grínast með þau.
Helst laus við kreddur.
Ekki fordómafull.
Skilningsrík / Ekki of fljót að dæma.
Lífsglöð. Sem sagt, ekki vélmenni.
Ekki snobbhænsni.
Ákveðin.
Áreiðanleg.
Opin. Getur rætt um hluti sem varðar hana, t.d. um tilfinningar.
Hugsar ekki eingöngu um sjálfa sig.
Hefur kynhvatir.
Kann að taka gagnrýni.
Gott sjálfstraust. Örugg með sjálfa sig og verður ekki afbrýðssöm út af engu.
Sterk réttlætiskennd. Leitast eftir því að vera heiðarleg í því sem hún gerir.
Þorir að segja sína skoðun á málum.
Ekki frekja.
Ekki clingy.
Ekki undirgefin. Þ.e.a.s. sjálfstæð í hugsun og gerðum.
Ekki ofsalega meðvirk.

Og auðvitað er ég tilbúinn til þess að slá af einhverju af þessum eiginleikum ef hún er í heildina góð. Að sama skapi er allt gott í hófi því, sem dæmi, er ekki gott að vera með „cleaning freak“ eða „Ms. Everything-is-positive“.