Upplýsingabeiðni um kirkjueignir

Þann 10. janúar 2013 sendi ég upplýsingabeiðni til fjármálaráðuneytisins og bað um ýmis gögn í krafti nýrra upplýsingalaga, aðallega um það sem gerðist 1907 og 1997 á milli ríkiskirkjunnar og ríkisins. Í dag fékk ég svar við henni og birti það hér. Beiðnin var í 4 liðum og svarað í jafnmörgum.

Beiðni #1:

Í krafti upplýsingalaga og annarra viðeigandi laga óska ég eftir því að fá eintak af lista yfir þær jarðir og kirkjueignir sem íslenska ríkið fékk við samning sinn við Þjóðkirkjuna sem undirritaður var 10. janúar 1997 og vísað er til í 63. gr. laga um stöðu þjóðkirkjunnar nr. 78/1997. Þá óska ég eftir verðmati jarðanna sem um ræðir, liggi það fyrir, eða öðrum áætlunum um verðmæti þeirra sem ríkið hefur gert á þeim.

Svar ráðuneytisins:

Benda má á samkomulag milli Íslenska ríkisins og Þjóðkirkjunnar um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar ásamt skýringum nefndarmanna. Samkomulagið var ritað 10. janúar 1997. Það er m.a. að finna í greinargerð laganna er urðu síðar að lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997 (frekar aftarlega, auðkennt fylgiskjal I). Sjá: http://www.althingi.is/altext/121/s/0557.html
Kirkjujarðir og aðrar kirkjueignir sem þeim fylgja, að frátöldum prestssetrum og því sem þeim fylgir, urðu eign íslenska ríkisins, samkvæmt samningum um kirkjueignir milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar. Andvirði seldra jarða rennur í ríkissjóð.
Við leit í skjalasafni ráðuneytisins fannst ekki yfirlit frá þessum tíma yfir þessar kirkjujarðir sem urðu eftir hjá ríkinu.
Enginn listi fannst í málaskrá yfir þær jarðir og kirkjueignir sem íslenska ríkið fékk við samning sinn við Þjóðkirkjuna sem undirritaður var 10. janúar 1997. Ekki er því hægt að skoða tilteknar eignir eða jarðir, hvorki verðmæti þeirra né hvort útbúið hafi verið sérstakt afsal frá Þjóðkirkjunni til Ríkissjóðs Íslands.
Næsta áratug á eftir, til október 2006, var síðan unnið áfram með þennan fjárhagslega aðskilnað Þjóðkirkjunnar og Ríkissjóðs Íslands. Þ.m.t. ákvörðun um afhendingu tiltekinna fasteigna og jarða til Þjóðkirkjunnar, sem höfðu verið skráðar á ríkissjóð.

Af svarinu að dæma vissi ríkið ekki hvaða jarðir það var að kaupa né hversu mikils virði þær voru. Fjármálaráðuneytið hafði það hlutverk að meta fjárhagsleg áhrif frumvarpa og veita umsögn um þær. Slíkt mat á verðmæti jarða hefði talist eðlilegt, enda var um að ræða nokkuð stóran samning.

Beiðni #2:

Einnig óska ég eftir þeim skjölum, eða lista yfir þau skjöl, sem fjárlagastofa hafði undir höndum við vinnslu umsagnar sinnar við frumvarp er varð að lögum 78/1997, s.s. 301. mál á 121. löggjafarþingi.

Svar ráðuneytisins:

Fyrst og fremst er hér bent á frumvarp til laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar (lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996-97). Sjá:
http://www.althingi.is/altext/121/s/0557.html
Í svari fjármálaráðherra á þinginu 1998-1999 við fyrirspurn Ólafs Hannibalssonar er farið yfir samkomulag þjóðkirkju og kirkjumálaráðherra. Sjá:
http://www.althingi.is/altext/123/s/0432.html
Í svarinu var sérstaklega bent á neðangreind fylgiskjöl og fylgdu þau með svarinu. (Hér er hægt að sækja þau skjöl sem notuð voru á tölvutæku formi á Alþingi.is).
Fylgiskjal I. Íslenska ríkið og þjóðkirkjan gera með sér eftirfarandi samning um rekstrarkostnað vegna prestsembætta og prófasta, rekstrarkostnað biskupsstofu, framlag til kristnisjóðs og sérframlög til þjóðkirkjunnar. Dags. 4. september 1998.
Ásamt ítarlegum skýringum við einstakar greinar samningsins.
Fylgiskjal II. Kostnaðaryfirlit yfir kostnaðarliði.
Fylgiskjal III. Frásögn af fundi nefnda ríkis og kirkju um kirkjujarðir í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu 10. janúar 1997. En á fundinum var gert samkomulag íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar.
Öll gögn, þ.m.t. vinnugögn málsins er stofnað var í kringum kostnaðarumsögnina í janúar 1997 voru ljósrituð og send á lögheimilið þitt [tekið út – heimilisfang]. Um er að ræða myndarlegan blaðabunka. 

Eðlilega er pósturinn ekki kominn svo ég get ekki komið með athugasemdir um skjölin sjálf. En af ofangreindum lista að dæma virðist vera að einu gögnin sem lágu fyrir hafi verið téðir samningar og frumvarp sem samningurinn kveður á um að eigi að leggja fram.

Beiðni #3:

Þá óska ég eftir skjölum, samningum eða samkomulögum sem varða þær breytingar sem urðu á sambandi ríkisvaldsins og þjóðkirkju árið 1907 sem urðu til þess að lög nr. 46/1907 og lög nr. 50/1907 voru sett.

Svar ráðuneytisins:

Þessi gögn frá 1907 eru geymd hjá Þjóðskjalasafninu. Almenningur hefur aðgang að þeim gögnum sem sett hafa verið í geymslu hjá þeim. Þessi gögn eru ekki lengur í ráðuneytinu.

Nokkuð eðlilegt svar, enda gögnin gömul. Það sakaði þó ekki að spyrja.

Beiðni #4:

Í svari fjármálaráðherra á þskj. 432 á 123. löggjafarþingi er getið þess að mögulega verði gerð sérstök afsöl fyrir eignarhaldi og/eða ráðstöfunarrétti ríkisins á umræddum jörðum. Hafi verið gerð slík afsöl óska ég eftir afriti af þeim.

Svar ráðuneytisins:

Í svari fjármálaráðherra á þinginu 1998-1999 við fyrirspurn Ólafs Hannibalssonar er farið yfir samkomulag þjóðkirkju og kirkjumálaráðherra. Sjá:
http://www.althingi.is/altext/123/s/0432.html
Kirkjujarðir og aðrar kirkjueignir sem þeim fylgja, að frátöldum prestssetrum og því sem þeim fylgir, urðu eign íslenska ríkisins, samkvæmt samningum um kirkjueignir milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar. Andvirði seldra jarða rennur í ríkissjóð.
Við leit í skjalasafni ráðuneytisins fannst ekki yfirlit frá þessum tíma yfir þessar kirkjujarðir sem urðu eftir hjá ríkinu.
Enginn listi fannst í málaskrá fjármála- og efnahagsráðuneytisins yfir þær jarðir og kirkjueignir sem íslenska ríkið fékk við samning sinn við Þjóðkirkjuna sem undirritaður var 10. janúar 1997. Ekki er því hægt að skoða tilteknar eignir eða jarðir, hvorki verðmæti þeirra né hvort útbúið hafi verið sérstakt afsal frá Þjóðkirkjunni til Ríkissjóðs Íslands.

Þetta má líklegast túlka þannig að ekkert sérstakt afsal hafi verið gert, enda lá ekki fyrir hvaða jarðir voru keyptar og líklegast engar deilur sem kröfðust þess að gert yrði sérstakt afsal.