Bingójátning 2013

Þann 15. mars síðastliðinn skilaði ég inn játningu til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem ég játaði að hafa tekið þátt í framkvæmd ólögmæts bingóhalds. Fyrir tveim dögum, þann 9. júlí 2013, barst mér bréf með afstöðu ríkissaksóknara til þessa máls.

Það er afstaða ríkissaksóknara að „umrædd háttsemi kæranda, og eftir atvikum annarra sem stóðu að páskabingóinu, verði fyrst og fremst virt sem liður [í] stjórnarskrárvörðum rétti manna til tjáningar- og fundafrelsis, sbr. 73. gr. og 74. gr. stjórnarskrárinnar“.

Áður en ég lagði fram játninguna hugsaði ég út í mögulegar afleiðingar þess ef málið hefði lent fyrir dómstólum með ákæru. Líkurnar voru nokkuð lágar en áhætta sem ég var reiðubúinn til þess að horfast í augu við og reka málið áfram til enda, jafnvel með málarekstri fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sem hefði líklegast dæmt mér í vil.

Þrátt fyrir að málið hafði ekki verið lokið á þann hátt er ég ánægður með útkomuna, enda er það núna yfirlýst mat bæði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og ríkissaksóknara að stjórnarskrárvarinn réttur fólks til tjáningar- og fundafrelsis vegur þyngra en rétturinn til að banna bingóhald á grundvelli helgidagafriðs. Vegna jafnræðisreglunnar á þetta mat einnig við um aðrar tegundir af skemmtanahaldi en bingó óháð því hvort peningar séu í spilinu eða ekki. Augljóslega á þetta mat eingöngu við um atburði sem annars hefðu verið leyfðir á þessum tilteknum helgidögum.

Vil samt setja fyrirvara um að það er samt ekki algerlega afgreitt þegar um er að ræða staði sem reiða sig á starfsleyfi eða önnur opinber leyfi. Þó ég telji að það sama gildir í slíkum tilvikum er samt sem áður gríðarlega mikil hætta á að fyrsti aðilinn sem heldur slíka skemmtun gæti lent í leyfissviptingu ef lögreglan telur þessa afstöðu ríkissaksóknara ekki eiga við um leyfisskylda starfsemi.

Hér eru helstu skjöl málsins svo almenningur hafi tækifæri til að meta niðurstöðuna á eigin forsendum:

Bingójátningarmálið 2013

Tvö réttindamál komin í ferli

Ræsti tvö réttindamál í dag.

Fyrra málið er ræst með óvenjulegu móti. Þar sendi ég játningu til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um að ég hafi tekið þátt í bingóstarfsemi föstudaginn langa, en slík starfsemi er ólögleg á þeim degi. Framfylgni laganna af hálfu lögreglu er nokkuð mismunandi eftir landshlutum og eftir því hver kvartar. Með játningunni neyðist lögreglan til að rannsaka málið af alvöru og taka ákvörðun hvort hægt sé að sækja mig til saka eða ekki fyrir það sem ég gerði. Óháð úrslitum málsins er komin betri sýn á hvað getur kallað á aðgerðir lögreglu og hvað ekki.

Hitt málið snýr að því að ég vil gera tilraun til þess að fella út ‚Lúthersson‘ úr nafninu mínu þannig að það verði eingöngu Svavar Kjarrval. Í því máli notfæri ég mér svokallaðan Blævar-dóm en það var niðurstaðan sú að nafngjafir falla undir stjórnarskrárákvæðið um friðhelgi einkalífs og því ekki hægt að takmarka þær nema undir þröngum skilyrðum sem ég tel að eigi ekki við í þessu máli.

 

Vantrúarbingó - játning til lögreglu

 

Nafnbreyting (fella út kenninafn)

 

Þar sem Þjóðskrá Íslands hefur ekkert eyðublað fyrir það sem ég vildi gera ákvað ég að rita yfirlýsingu með upplýsingunum sem stofnunin myndi biðja um ef þetta væri eðlileg beiðni.

Kirkjujarðapælingar

Nokkrar fréttir hafa verið birtar í kjölfar færslu minnar sem innihélt svar við upplýsingabeiðni minni varðandi kirkjujarðirnar sem samið var um 1997. Mér þykir nokkuð gott að Morgunblaðið, mbl.is og Smugan hafi sýnt áhuga á málinu. Umfjöllun miðlanna, séu þær réttar, koma bæði á óvart og ekki á óvart. Til dæmis hafa tölur um 29 milljarða greiðslur (að núvirði) ekki verið teknar saman áður og setur upphæðirnar í samhengi.

Og þá eru hin svokölluðu félagsgjöld (sóknargjöld) ekki tekin inn en þær greiðslur (þær eru skilgreindar í útfærslu annars samnings frá 1998 sem á að vera nánari útfærsla samningsins 1997). Samtals hafa sóknargjöld í fjárlögum 1998 til 2013 verið um 27 milljarðar (ekki núvirt) en þá eru tekin inn sóknargjöld til allra trúfélaga. Það er augljóst að sóknargjöld til annarra trúfélaga voru til málamynda enda gat ríkið ekki réttlætt greiðslu þeirra til Þjóðkirkjunnar eingöngu og því eru sóknargjöld til annarra afleiðing þess. Eitt besta dæmið um það er að á hverju ári sem bráðabirgðaákvæði er sett til að lækka greiðsluna er eingöngu samið við Þjóðkirkjuna en ekki hin trúfélögin. Annað dæmi um að þetta séu ekki félagsgjöld er að fólk skráð utan trúfélaga þarf samt sem áður að greiða jafnmikið í ríkissjóð og einhver sem greiðir sóknargjöld og hefur nákvæmlega sömu tekjur. Séu þau í alvöru félagsgjöld ætti fólk utan trúfélaga að fá endurgreiðslu sem þeim nemur eða sóknargjöld skilgreind sem nefskattur sem eingöngu fólk skráð í slík félög ætti að greiða. Því er augljóst að sóknargjöld eru ríkisstyrkir en ekki félagsgjöld nema ríkið vilji játa brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Það hefur lengi verið augljóst að jarðasamningurinn var nokkuð óhagstæður fyrir ríkið, það hefði fólk átt að sjá áður en hann var samþykktur á Alþingi á sínum tíma. Enginn þingmannanna sem greiddu atkvæði kusu að hafna honum þrátt fyrir að sumir hafi talað fyrir því að hann væri afar óhagstæður fyrir ríkið. Einhverjir sem töluðu sérstaklega á móti honum enduðu á því að samþykkja hann, sem hljómar rosalega mótsagnakennt, og meðal þeirra var núverandi forsætisráðherra. Af hverju atkvæðin fóru samt á þann veg yrði bara ágiskun af minni hálfu.

Eftir því sem málið er rannsakað meir og meir koma upp fleiri og fleiri spurningar, sem ég ætla að reyna að bera hér fram í pælingarformi:

  1. Samkvæmt fjármálaráðuneytinu hefði þurft að rannsaka eignarhald og sögu þeirra jarða sem samkomulagið náði yfir. Af hverju var það ekki gert? Er ekki eðlilegt að ríkið, áður en það kaupir jörð, viti örugglega hver á jörðina með réttu? Með allan þennan fjölda jarða, sem ekki er vitað nákvæmlega hverjar voru, hverjar voru líkurnar á að ríkið var að kaupa jörð sem það átti þá þegar? Hvað um einfaldlega að staðfesta að kirkjan ætti löglega það sem hún var að selja? Engin afsöl fylgdu gildistöku samningsins sem þýðir að eignarhaldið er enn óljóst.
  2. Samkvæmt þágildandi lögum um fasteignamat (lög nr. 94/1976) átti slíkt mat að fylgja öllum jörðum (með nokkrum undantekningum). Af hverju var ekki leitað í þá skrá og í það minnsta fengið út virði jarðanna sem höfðu slíkt mat? Í það minnsta hefði slík uppfletting verið góð byrjun á slíku mati, enda voru slík fasteignamöt lögbundin á sínum tíma.
    Í sömu lögum er sú skylda á hinu opinbera að nota skrána (í 15. gr.) í öllum verðmætaviðskiptum þegar slíkt á við. Jafnvel þótt það lægi ekki fyrir vegna einstakra jarða bar ríkinu skylda að sjá til þess að eitthvað verðmætamat yrði framkvæmt, í það minnsta af siðferðislegum ástæðum. Slíkt er sérstaklega mikilvægt þegar um er að ræða svo háar skuldbindingar.
  3. Af hverju fór ríkið ekki þá leið að semja um fasta upphæð sem yrði greidd öll í einu eða í áföngum? Óháð upphæðinni sem um ræðir í samningnum, þá er rökrétt að ætla að á endanum greiðir ríkið kirkjunni miklu meira en virði jarðanna. Hvort það sé búið að gera það nú þegar eða ekki er óvíst, enda fylgja engar upplýsingar um hvaða tekjur ríkið hafði af samningnum, ef einhverjar.
  4. Pæling 3 leiðir af sér spurninguna: Hvaða hag hafði ríkið af þessum samningi?
    Ekkert sem lagt var fram við meðferð samningsins á Alþingi benti til þess að ríkissjóður myndi bera fjárhagslegan hag af þessum samningi. Það vekur auðvitað upp spurningar af hverju fjármálaráðuneytið gagnrýndi ekki samninginn á þeim forsendum og á forsendum upplýsingaskorts. Það er rétt að ráðuneytið nefndi að ekki lægju öll gögn fyrir en hér er um að ræða svo stórar breytur að þær ættu skilið sérstaka gagnrýni. Af hverju samþykkti Alþingi samninginn á sínum tíma þegar það var augljóst að það hallaði á hag ríkisins í honum?
    Samkvæmt útreikningum Jóhönnu Sigurðardóttur sem hún gerði varðandi samninginn, og nefndi í ræðu sinni um samninginn nefndi hún að 20 jarðir hafi selst á árunum 1984-1996 og fengist 71 milljón króna fyrir þær. Samt sem áður voru árlegar greiðslur áætlaðar miklu hærri sem þýðir að það er öruggt að hagnaðurinn sé langt frá því talinn vera í jarðasölu eingöngu. Auk þess er rökrétt að ætla að takmarkaður fjöldi jarða gæti ekki staðið einar og sér undir greiðslunum, nema virðið væri það hátt að ríkið gæti selt þær á nógu háu verði að það geti lagt söluverðið í sjóð og greitt úr honum og þar að auki fengið hagnað sjálft þegar rekstrarkostnaður væri tekinn með.
    En hvað um leigutekjur eða jafnvel aðrar tekjulindir? Ekkert er minnst á slíkt í greinargerð frumvarpsins eða í umsögn fjárlagastofu. Þær komu heldur ekki fram í þeim skjölum sem fjárlagastofa hafði undir höndum, sbr. þau skjöl sem ég fékk vegna téðrar upplýsingabeiðni.
  5. Segjum að virðið sé það mikið að tekjurnar dekki greiðslur vegna samningsins nokkuð auðveldlega. Af hverju gerði kirkjan þá þennan samning? Þá hefði verið augljóst að hún hefði frekar átt að sleppa ríkinu og einfaldlega afla teknanna sjálf af jörðunum, t.d. með sölu þeirra, leigu eða nýtingu. Hún sagðist enn eiga jarðirnar sem þá voru „í umsjá ríkisins“ síðan 1907 og hefði hún getað höfðað dómsmál til að fá þær aftur formlega.
    Slíkt tekjufyrirkomulag var reynt árið 1907 með prestlaunasjóði þar sem selja átti jarðir kirkjunnar, laun prestanna greidd af vöxtum sjóðsins og landsjóður greiddi það sem vantaði upp í þau. Allir sjóðir tengdir því fyrirkomulagi fóru endanlega á hausinn árið 1919. Árið 1997 var greinilega ákveðið að gera aðra tilraun en í það skipti var ákveðið að sleppa formlegheitunum að hafa sérstakan sjóð um launagreiðslurnar og nota í stað ríkissjóð, enda er það augljóst að jafnvel jarðasala seinustu 12 áranna á undan hefði aldrei staðið undir launagreiðslum nema fyrir nokkra mánuði, hvað þá undir fyrirkomulagi að standa undir launagreiðslunum á vöxtunum einum.
    Þetta bendir til þess að málin voru ekki augljós á þeim tíma, hvort sem það varðaði eignarhald eða möguleika jarðanna til að standa undir slíku fyrirkomulagi. Jarðirnar virðast hafa verið aukaafurð í samkomulaginu og að um væri að ræða málamyndarsamkomulag árið 1997 til að tryggja stöðu og völd Þjóðkirkjunnar sem ríkiskirkju.
  6. Nú höfum við þann kost að geta metið stöðuna aftur í tímann. Nú er komið á 15. ár frá því að samningurinn var samþykktur og tími til að endurskoða hann skv. samningsákvæðum þaraðlútandi. Ríkið hlýtur að hafa framkvæmt, eða er að framkvæma, mat á því hvort það hafi hagnast af þessum samningi eða tapað og um hversu stórar fjárhæðir er að ræða. Það væri afar áhugavert að sjá þær tölur. Hins vegar hef ég mínar efasemdir þar sem jarðalistinn er ekki einu sinni á borði fjármálaráðuneytisins og ríkið hefur enn ekki hugmynd hvert virði þeirra er eða jafnvel nákvæmlega um hvaða jarðir er að ræða, þrátt fyrir að hafa átt þær með formlegum hætti í næstum 15 ár.

Upplýsingabeiðni um kirkjueignir

Þann 10. janúar 2013 sendi ég upplýsingabeiðni til fjármálaráðuneytisins og bað um ýmis gögn í krafti nýrra upplýsingalaga, aðallega um það sem gerðist 1907 og 1997 á milli ríkiskirkjunnar og ríkisins. Í dag fékk ég svar við henni og birti það hér. Beiðnin var í 4 liðum og svarað í jafnmörgum.

Beiðni #1:

Í krafti upplýsingalaga og annarra viðeigandi laga óska ég eftir því að fá eintak af lista yfir þær jarðir og kirkjueignir sem íslenska ríkið fékk við samning sinn við Þjóðkirkjuna sem undirritaður var 10. janúar 1997 og vísað er til í 63. gr. laga um stöðu þjóðkirkjunnar nr. 78/1997. Þá óska ég eftir verðmati jarðanna sem um ræðir, liggi það fyrir, eða öðrum áætlunum um verðmæti þeirra sem ríkið hefur gert á þeim.

Svar ráðuneytisins:

Benda má á samkomulag milli Íslenska ríkisins og Þjóðkirkjunnar um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar ásamt skýringum nefndarmanna. Samkomulagið var ritað 10. janúar 1997. Það er m.a. að finna í greinargerð laganna er urðu síðar að lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997 (frekar aftarlega, auðkennt fylgiskjal I). Sjá: http://www.althingi.is/altext/121/s/0557.html
Kirkjujarðir og aðrar kirkjueignir sem þeim fylgja, að frátöldum prestssetrum og því sem þeim fylgir, urðu eign íslenska ríkisins, samkvæmt samningum um kirkjueignir milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar. Andvirði seldra jarða rennur í ríkissjóð.
Við leit í skjalasafni ráðuneytisins fannst ekki yfirlit frá þessum tíma yfir þessar kirkjujarðir sem urðu eftir hjá ríkinu.
Enginn listi fannst í málaskrá yfir þær jarðir og kirkjueignir sem íslenska ríkið fékk við samning sinn við Þjóðkirkjuna sem undirritaður var 10. janúar 1997. Ekki er því hægt að skoða tilteknar eignir eða jarðir, hvorki verðmæti þeirra né hvort útbúið hafi verið sérstakt afsal frá Þjóðkirkjunni til Ríkissjóðs Íslands.
Næsta áratug á eftir, til október 2006, var síðan unnið áfram með þennan fjárhagslega aðskilnað Þjóðkirkjunnar og Ríkissjóðs Íslands. Þ.m.t. ákvörðun um afhendingu tiltekinna fasteigna og jarða til Þjóðkirkjunnar, sem höfðu verið skráðar á ríkissjóð.

Af svarinu að dæma vissi ríkið ekki hvaða jarðir það var að kaupa né hversu mikils virði þær voru. Fjármálaráðuneytið hafði það hlutverk að meta fjárhagsleg áhrif frumvarpa og veita umsögn um þær. Slíkt mat á verðmæti jarða hefði talist eðlilegt, enda var um að ræða nokkuð stóran samning.

Beiðni #2:

Einnig óska ég eftir þeim skjölum, eða lista yfir þau skjöl, sem fjárlagastofa hafði undir höndum við vinnslu umsagnar sinnar við frumvarp er varð að lögum 78/1997, s.s. 301. mál á 121. löggjafarþingi.

Svar ráðuneytisins:

Fyrst og fremst er hér bent á frumvarp til laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar (lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996-97). Sjá:
http://www.althingi.is/altext/121/s/0557.html
Í svari fjármálaráðherra á þinginu 1998-1999 við fyrirspurn Ólafs Hannibalssonar er farið yfir samkomulag þjóðkirkju og kirkjumálaráðherra. Sjá:
http://www.althingi.is/altext/123/s/0432.html
Í svarinu var sérstaklega bent á neðangreind fylgiskjöl og fylgdu þau með svarinu. (Hér er hægt að sækja þau skjöl sem notuð voru á tölvutæku formi á Alþingi.is).
Fylgiskjal I. Íslenska ríkið og þjóðkirkjan gera með sér eftirfarandi samning um rekstrarkostnað vegna prestsembætta og prófasta, rekstrarkostnað biskupsstofu, framlag til kristnisjóðs og sérframlög til þjóðkirkjunnar. Dags. 4. september 1998.
Ásamt ítarlegum skýringum við einstakar greinar samningsins.
Fylgiskjal II. Kostnaðaryfirlit yfir kostnaðarliði.
Fylgiskjal III. Frásögn af fundi nefnda ríkis og kirkju um kirkjujarðir í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu 10. janúar 1997. En á fundinum var gert samkomulag íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar.
Öll gögn, þ.m.t. vinnugögn málsins er stofnað var í kringum kostnaðarumsögnina í janúar 1997 voru ljósrituð og send á lögheimilið þitt [tekið út – heimilisfang]. Um er að ræða myndarlegan blaðabunka. 

Eðlilega er pósturinn ekki kominn svo ég get ekki komið með athugasemdir um skjölin sjálf. En af ofangreindum lista að dæma virðist vera að einu gögnin sem lágu fyrir hafi verið téðir samningar og frumvarp sem samningurinn kveður á um að eigi að leggja fram.

Beiðni #3:

Þá óska ég eftir skjölum, samningum eða samkomulögum sem varða þær breytingar sem urðu á sambandi ríkisvaldsins og þjóðkirkju árið 1907 sem urðu til þess að lög nr. 46/1907 og lög nr. 50/1907 voru sett.

Svar ráðuneytisins:

Þessi gögn frá 1907 eru geymd hjá Þjóðskjalasafninu. Almenningur hefur aðgang að þeim gögnum sem sett hafa verið í geymslu hjá þeim. Þessi gögn eru ekki lengur í ráðuneytinu.

Nokkuð eðlilegt svar, enda gögnin gömul. Það sakaði þó ekki að spyrja.

Beiðni #4:

Í svari fjármálaráðherra á þskj. 432 á 123. löggjafarþingi er getið þess að mögulega verði gerð sérstök afsöl fyrir eignarhaldi og/eða ráðstöfunarrétti ríkisins á umræddum jörðum. Hafi verið gerð slík afsöl óska ég eftir afriti af þeim.

Svar ráðuneytisins:

Í svari fjármálaráðherra á þinginu 1998-1999 við fyrirspurn Ólafs Hannibalssonar er farið yfir samkomulag þjóðkirkju og kirkjumálaráðherra. Sjá:
http://www.althingi.is/altext/123/s/0432.html
Kirkjujarðir og aðrar kirkjueignir sem þeim fylgja, að frátöldum prestssetrum og því sem þeim fylgir, urðu eign íslenska ríkisins, samkvæmt samningum um kirkjueignir milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar. Andvirði seldra jarða rennur í ríkissjóð.
Við leit í skjalasafni ráðuneytisins fannst ekki yfirlit frá þessum tíma yfir þessar kirkjujarðir sem urðu eftir hjá ríkinu.
Enginn listi fannst í málaskrá fjármála- og efnahagsráðuneytisins yfir þær jarðir og kirkjueignir sem íslenska ríkið fékk við samning sinn við Þjóðkirkjuna sem undirritaður var 10. janúar 1997. Ekki er því hægt að skoða tilteknar eignir eða jarðir, hvorki verðmæti þeirra né hvort útbúið hafi verið sérstakt afsal frá Þjóðkirkjunni til Ríkissjóðs Íslands.

Þetta má líklegast túlka þannig að ekkert sérstakt afsal hafi verið gert, enda lá ekki fyrir hvaða jarðir voru keyptar og líklegast engar deilur sem kröfðust þess að gert yrði sérstakt afsal.

Umsögn um frumvarp til nýrrar stjórnarskrár

Í dag skilaði ég til Alþingis umsögn minni um frumvarp til nýrrar stjórnarskrár. Í þetta sinn ákvað ég að skoða frumvarpið sjálfstætt frá fyrri útgáfum og sleppa því að nefna suma vankanta hversu freistandi sem það var. Sumir sem ég hef rætt við hafa látið í ljós þá skoðun að allar efnislegar breytingar á frumvarpi stjórnlagaráðs séu af hinu illa, óháð því hversu bætandi þær eru fyrir mannréttindi. Augljóslega er ég ekki sömu skoðunar enda legg ég til margar efnislegar breytingar á frumvarpi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Nefndin hefur lagt til breytingar á frumvarpi stjórnlagaráðs nú þegar svo ég efast ekki um að hún sé opin fyrir efnislegum breytingum, svo framarlega sem þær uppfylli þau skilyrði sem nefndin setti fyrir sérfræðihópinn.

Aðferð mín við samningu umsagnarinnar var nokkuð einföld. Nýmæli eru tekin fyrir fyrst og síðan samkvæmt greinaröð frumvarpsins sjálfs. Auk þess kláraði ég að skrifa umsögnina efnislega í seinustu viku og lét hana liggja þar til í dag þar sem ég las hana yfir upphátt og gerði smávægilegar breytingar.

Í henni geri ég tillögu að eftirfarandi nýmælum:

  • Stýringu og skráningu á beitingu stjórnskipulegs neyðarréttar.
  • Viðurlög vegna brota á stjórnarskránni skulu skilgreind í almennum lögum.
  • Framsal á íslenskum ríkisborgunum skal vera óheimilt.
  • Óleyfilegt sé að framselja fólki til ríkja þar sem dauðarefsing er í gildi.
  • Þagnarrétturinn sé tryggður í stjórnarskrá. Útfærsla hans í almennum lögum þessa stundina er nokkuð veik.
  • Tryggja að allir hafi rétt til lögmanns í sakamálum og að sakborningur geti gagnspurt vitni og kveðið til vitna.
  • Meðalhófsregla refsinga og frelsistrygginga sé í viðurlögum. Aðallega byggt á 8. viðbót stjórnarskrár Bandaríkjanna.
  • Nefndarfundir ættu einnig að vera opnir en ekki bara þingfundir.
  • Ef forseti Íslands synjar samþykkt laga ættu þau ekki að hljóta gildi fyrr en í fyrsta lagi að þjóðin samþykkir þau. Sé ósátt við neyðarlög er hvort sem er hægt að tefja framgang frumvarpsins með því að skjóta frumvarpinu til Lögréttu skv. 62. gr.
  • Koma aftur inn ákvæði stjórnlagaráðs um að dómstólar geti dæmt að lög samrýmist ekki stjórnarskrá. Þá legg ég til tilkynningarskyldu af hálfu dómstóla séu slíkir dómar kveðnir upp þar sem engin skylda er í frumvarpinu að dómar skuli vera birtir.

Þá geri ég athugasemdir við eftirfarandi í frumvarpinu:

  • Fara skuli sérstaklega yfir almenna skerðingarheimild réttinda í 9. gr. frumvarpsins.
  • Tryggja að ekki skuli heimilt að dæma fólk vegna ummæla sem eru sönn.
  • Ákvæðið um kirkjuskipan eigi ekki að vera óbreytt frá núverandi stjórnarskrá. Staða ríkiskirkjunnar gæti verið táknræn.
  • Viðbót sérfræðihópsins í 24. gr. um menntun barna í samræmi við trúar- og lífsskoðanir gæti leitt til vandræða, t.d. ef börn eiga foreldra sem eru sköpunarsinnar og þeir vilja ekki að það læri um þróunarkenninguna. Samkvæmt orðalagi eru það eingöngu foreldrar sem ákveða slíkt en börnin sjálf hafi enga heimild til þess. Áhersla á kristna trú sé gegn jafnræðisreglunni.
  • Tryggja að við rannsókn sakamála sé einnig gætt þess að málsmeðferð sé réttlát, úrlausn fáist innan hæfilegs tíma og að rannsókn sé óhlutdræg. Þá skuli önnur meðferð ríkis á málum, eins og stjórnsýslumálum, lúta sama lögmáli.
  • Vísað er til meginreglna umhverfisréttar í 35. gr. og gæti slík tilvísun valdið stöðnun í þróun umhverfisréttar.
  • Miða ætti við fyrsta samkomutíma Alþingis eftir kosningar við birtingu niðurstaðna í stað kjördags þar sem úrslit geta tafist vegna málaferla eða ófyrirséðra atburða.
  • Þingsályktunartillögur ættu ekki að falla sjálfkrafa niður við lok löggjafarþings, heldur við lok kjörtímabils. Sama ætti að gilda um þær og meðferð lagafrumvarpa.
  • Þjóðin ætti að fá að leggja fram frumvarp og krefjast atkvæðagreiðslu um þau án íþyngjandi takmarkana sem stjórnlagaráð setti fram. Þjóðaratkvæðagreiðslurnar væru án takmarkana en framlögn frumvarpa takmörkuð við að þau standist stjórnarskrá og mögulega mannréttinda- og umhverfissáttmála.
  • Legg til að nefndin íhugi hvort önnur manneskja en forseti Alþingis yrði fyrsti staðgengill forseta. Ástæðan er sú að embætti forseti Íslands tilheyrir framkvæmdavaldi og forseti Alþingis starfar á sviði löggjafarvalds. Þá væri betra ef fyrsti staðgengill tilheyri framkvæmdavaldi en síðan gæti forseti Alþingis verið annar staðgengillinn í röðinni.
  • Allar náðanir og sakaruppgjafir ættu að vera opinberar og rökstuddar til að sporna gegn misnotkun á ákvæðinu.
  • Að ráðherra fenginn úr röðum þingmanna sé látinn rita undir eiðstaf er tvíverknaður þar sem hann hefur áður gert það sem þingmaður.
  • Í bráðabirgðaákvæði er getið þess að tímasetningar á takmörkun á setutíma ráðherra og forseta Íslands skuli hefjast frá setningu stjórnarskrárinnar. Mældi með því að frekar ætti að heimila núverandi ráðherrum og forseta Íslands að klára kjörtímabil sín í þeim embættum. Þá er minnst á að núverandi dómarar njóti ákveðinna réttinda sem eldri stjórnarskrá gaf en slíkt myndi skapa ójafnræði meðal þeirra dómara sem skipaðir eru fyrir og eftir gildistöku nýrrar stjórnarskrár. Séu réttindin svo mikilvæg ætti frekar að íhuga að færa réttindin í bráðabirgðaákvæðinu yfir í varanlega hluta stjórnarskrárinnar.

Umsögnin sjálf

Minnkað traust gagnvart Alþingi

Verð að segja að traust mitt á Alþingi minnkaði nokkuð mikið. Það var ekki vegna málþófsins sem er í fréttum heldur afgreiðslu allsherjar- og menntanefndar á lífsskoðunarfrumvarpinu. Þar átti meðal annars að breyta sjálfkrafa skráningu barna í trúfélög þannig að taka ætti tillit til skráningar beggja foreldra í stað móður. Hins vegar komu margar tillögur í umsögnum um að grípa tækifærið og einfaldlega afnema sjálfkrafa skráningar barna þar sem það bryti á réttindum barnanna til sjálfsákvörðunar.

Viðbrögð nefndarinnar? Í nefndarálitinu nefnir hún að hún sé fyllilega sammála þessu sjónarmiði og er fullur vilji til að breyta þessu. Niðurstaðan var samt sú að hún vill „að tiltöluleg sátt sé um þau viðkvæmu mál sem hér um ræðir og leggur því ekki til breytingar í þessa veru að svo stöddu“. Þá nefnir hún að það skipti máli að leiðréttingar séu framkvæmdar í smáum skrefum í svo viðkvæmum málum frekar en að kollvarpa núverandi kerfi.

Þetta er nokkuð skrítin aðstaða þar sem afnám þessarar sjálfkrafrar skráningar mun ekki hafa fjárhagsleg áhrif á ríkissjóð né þau félög sem lögin ná yfir á næstu 16 árum því þá loksins er úthlutað sóknargjöldum vegna skráningar í trúfélög. Nema væntanlega útprentanir á skráningarblöðum og vinnslu umsókna en hér er um lítilvægar fjárhæðir að ræða. Hér er eingöngu um sjálfkrafa skráningu að ræða en breytingarnar hefðu ekki hindrað foreldra í að skrá börnin sérstaklega, ef þeir hefðu talið mikilvægt að barnið sitt sé skráð í ákveðið trúfélag í skrám ríkisins. Ég held að 16 ár sé meira en nægur tími fyrir trú- og lífsskoðunarfélög til að aðlagast þessari breytingu.

Þegar tvær fylkingar (eða fleiri) etjast saman er afar erfitt að fá ‚tiltölulega sátt‘ um neitt mál, sérstaklega ef sjónarmiðin eru gjörólík. Þá vildi ég meta sérstaklega, vegna þessara orða meiri hluta nefndarinnar, hver afstaða umsagnaraðila var til þessa eina máls, hvort skrá ætti börn sjálfkrafa í félög:

Alda Björg Lárusdóttir – Engin afstaða.
Betelsöfnuðurinn, Snorri Óskarsson – Engin afstaða.
Dögg Harðardóttir – Engin afstaða.
Femínistafélag Íslands – Á móti sjálfkrafa skráningu.
Hvítasunnukirkjan á Íslandi – Trúfélagsskráning skal fara fram en engin afstaða um sjálfkrafa skráningu.
Íslenska kristskirkjan – Engin afstaða.
KFUM og KFUK – Með sjálfkrafa skráningu vegna hefðar. Ekki á móti afnámi sjálfkrafa skráningar ef foreldrar eru neyddir til að taka afstöðu.
Mannréttindaskrifstofa Íslands – Á móti sjálfkrafa skráningu.
Ólafur Jón Jónsson – Á móti sjálfkrafa skráningu.
Sálarrannsóknarfélag Íslands – Engin afstaða.
Siðfræðistofnun – Engin afstaða.
Siðmennt – Á móti sjálfkrafa skráningu.
Umboðsmaður barna – Engin afstaða.
Vantrú – Á móti sjálfkrafa skráningu.

Staðan er því sú að 8 af 14 umsagnaraðilum taka ekki afstöðu til þessa máls, 5 eru á móti sjálfkrafa skráningu og 1 aðili er fylgjandi. Á fundi fyrir nefndinni tjáði biskupsstofa að afstaða sín væri sú að þeir væru fylgjandi því að afnema sjálfkrafa skráningu. Er þetta ekki nóg til að það teljist vera tiltöluleg sátt í þessu máli af hálfu þeirra sem tóku afstöðu?

Eins og Matthías Ásgeirsson nefnir, hvað ef sama hugarfar hefði verið við lýði ef taka ætti ákvörðun um afnám þrælahalds? Það er ekki eins og þrælahaldararnir séu sammála afnámi þrælahalds og þá væri engin ‚tiltöluleg sátt í því viðkvæma máli‘. Ætti þá að halda áfram þrælahaldi en með smá breytingu til batnaðar þar til þrælahald  fjarar út smám saman?

Svo við komum með íslenskt dæmi, hvað ef sama hugarfar hefði verið við lýði þegar taka átti ákvörðun um að slíta konungssambandi við Dani í Seinni heimstyrjöldinni? Alþingi tók samt ákvörðun um að bíða í 3 ár til að sjá hvernig heimstyrjöldin myndi enda og þar að auki var Ísland hernumið á þeim tíma. Sú ákvörðun er svo sannarlega skiljanleg þar sem erfitt er að fá alþjóðlega viðurkenningu á sjálfstæði ef helstu herveldi þess tíma hafa hagsmuni af því að halda völdum. Hér er hins vegar ekki um svo stóra ákvörðun sem snertir sjálfstæði heillar þjóðar, heldur einfalt lagalegt mál sem mun ekki hafa teljandi áhrif næstu 16 árin nema þau að bæta sjálfsákvörðunarrétt barna til hins betra.

Hvað fór úrskeiðis?

Það er góð spurning en miðað við fyrirliggjandi gögn hafði nefndin enga rökræna ástæðu til þess að fá þessa niðurstöðu. Ef við hugsum málið er augljóst að þrýstingurinn barst ekki í gegnum umsagnir, enda er erfitt að sjá hvernig hægt sé að styðja slíka niðurstöðu á þeim einum. Fundir nefnda Alþingis eru almennt lokaðir og því höfum við engar forsendur til þess að meta hvaða rökfærslur leiða til þeirra niðurstaðna sem nefndir koma sér saman um. Þá vitum við ekki hvort niðurstaðan ræðst af pólítísku makki eða hvort niðurstaða er fengin með rökrænni umræðu þar sem hvert og eitt atriði er vegið og metið. Í þessu máli hallast ég að því fyrrnefnda.

Einhverjir koma líklega með þá staðhæfingu að málamiðlanir þurfa að eiga sér stað og fórna þurfi litlum málum fyrir þau stóru. En er þetta mál þannig úr garði gert að hótanir um málþóf ættu að bera árangur? Myndi einhver mæta á ræðustól og tala um þetta eina litla mál og tefja afgreiðslu þingfunda á því máli sem og öðrum? Er þetta mál það stórt að fjöldi einstaklinga væri tilbúinn til þess að hefja eða viðhalda málþófi vegna þess? Og af hverju að láta undan slíkum hótunum? Flokkur sem beitir málþófi vegna mála sem teljast lítilvæg fyrir heildarmyndina myndi líklegast fá færri atkvæði á næsta þingi og þá yrði enn auðveldara að ná árangri í þessu máli og öðrum. Ef stöðugt er látið undan slíkum hótunum fæst hvort sem er lítill árangur þar sem stöðugt þarf að gera málamiðlanir sem draga tennurnar úr hverju máli fyrir sig.

Segjum að nefndin leggi til breytingartillögu um að afnema sjálfkrafa skráningu barna í félög. Hún leggur fram breytingartillögu sem er samþykkt eða felld, sem er í samræmi við lýðræðisfyrirkomulagið. Ef meiri hluti þingmanna er á móti henni er breytingartillagan felld og niðurstaða Alþingis hvað þetta varðar er þá komin. Vandamál?

Veðmál Pascals

Veðmál Pascals er þriðja greinin sem ég hef fengið birta á vefriti Vantrúar. Hér er greinin endurbirt.

Margir trúaðir beita einhverri útgáfu af veðmáli Pascals í von um að sannfæra aðra um að það sé þess virði að trúa á æðri mátt. Ætlunin mín er að taka fyrir helstu rökin fyrir því að veðmálið standist enga skoðun í von um að fólk hætti að beita því sem rökum fyrir því að trúa á ákveðinn æðri mátt.

Stutta útgáfan af veðmálinu er þannig að fólk hefur óendanlega meiri ávinning af því að trúa frekar en að trúa ekki, óháð því hvort guð sé til eða ekki. Niðurstaðan er samkvæmt veðmálinu að maður hefur allt til að vinna og engu að tapa á því að trúa. Það eru fjórar mögulegar útkomur eftir að maður deyr:

1. Ef guð er til og þú trúir = Óendanleg hamingja í himnaríki.
2. Ef guð er til og þú trúir ekki = Ekkert gerist eða óendanlega slæmar afleiðingar. (fer eftir söfnuðnum)
3. Ef guð er ekki til og þú trúir = Ekkert.
4. Ef guð er ekki til og þú trúir ekki = Ekkert.

Sjónarhornsgalli

Þegar veðmálinu er beitt er einn galli sem trúaðir gera sér sjaldan grein fyrir: hinn trúlausi trúir ekki á eftirlíf. Það þýðir lítið að reyna að bera gull og græna skóga á hinn trúlausa þegar hann hefur engar forsendur til að trúa því að eftirlífið sé raunverulegt. Sama gildir um hótanir um slæmar afleiðingar ef hann óhlýðnast. Endilega hótið okkur vist á slæmum stað sem við trúum ekki á, það mun örugglega sannfæra okkur trúlausa um að trúa á ykkar eftirlíf.

Að sama skapi er erfitt að réttlæta það að hinn trúlausi ætti að verja lífi sínu á að trúa í þeirri von að hann komist til himnaríkis. Í augum þeirra eiga allir bara eitt líf og því ber að njóta. Af hverju ætti hann að tileinka það veru sem hann trúir ekki að sé til?

Segjum að hinn trúlausi kaupi rökin að hann ætti að tilbiðja æðri máttinn í þeirri von að ef hann er til, þá lendi hann í himnaríki. Væri slíkt ekki blekking sem æðri mátturinn myndi sjá í gegnum? Myndi trúaða manneskjan (sem væri að beita veðmálinu) ekki vilja að allir fylgjendur síns æðri máttar væru heiðarlegir hvað trúrækni þeirra varðar?

Fleiri en ein trúarbrögð

Segjum svo að búið sé að sannfæra trúleysingjann um að það sé eftirlíf. En hverjar eru kröfurnar (ef einhverjar) svo hægt sé að njóta þess? Nú vandast málin þar sem trúfélagsgreinarnar eru nokkuð margar. Svo dæmi sé tekið eru að minnsta kosti 33 stórar greinar út frá kaþólsku kirkjunni. Sumar greinar eru útilokandi frá öðrum svo það er ekki hægt að vera í náð beggja á sama tíma, jafnvel þótt um sé að ræða sama guðinn. Eitt besta dæmið um þetta er gyðingdómurinn og kristni þar sem ekki er hægt að afneita Jesú og upphefja hann sem son guðs á sama tíma. Hvað ef allir hafa rangt fyrir sér og ?hinn sanni? æðri máttur hefur ekki verið uppgötvaður? Hvað ef þetta líf hefur engin áhrif á stöðu manns í eftirlífinu?

Hvað ef við tökum veðmálinu?

Nú hefur fyrrverandi trúleysinginn tekið veðmálinu og byrjar að rækja ákveðna trú sem hann telur að sé líklegust til að koma á góðan stað í eftirlífinu – ef það er til. Líf hans mun nú snúast um það að lifa af, eins og áður, en núna þarf hann að finna tíma til að gera það sem trúin krefst af honum. Sum trúarbrögð krefjast þess að fólk verji aukatíma sínum í að breiða út boðskapinn til annarra eða í aðrar athafnir.

Ekki nóg með að þau krefjist þess að maður geri eitthvað, heldur fara þau líka út í það að banna manni að gera hluti. Ef þetta væru hlutir sem trúleysingjum langar að gera, þá þyrfti þeir ekkert að trúa til þess að gera þá. Trúin væri sem sagt byrjuð að stjórna lífi fyrrverandi trúleysingjans og eyða þeim dýrmæta tíma sem hann hefur í þessu lífi vegna fáránlegs veðmáls sem stenst enga skoðun.

Fer þjóðkirkjan enn eftir konungstilskipunum?

Ég hef verið að lesa gamlar tilskipanir um málefni tengd þjóðkirkjunni og ýmislegt forvitnilegt hefur komið í ljós. Þess ber að geta að þessar tilskipanir hafa enn lagagildi.

Kristniréttur Árna biskups Þorlákssonar:

11. Um forræði biskups á kirkjum ok eignum þeirra.
Landeigandi er skyldr at láta gera kirkju á bæ sínum, hverr sem fyrr lét gera.

Löngu hætt að framkvæma þetta.

Erindisbréf handa biskupum:

14. Enn fremur skulu meðhjálparar vera viðstaddir, þegar biskup eða prófastur koma, og skulu þeir allir spurðir, hvernig ástandið sé í söfnuðinum, hvort þar tíðkist nokkrir sérstakir ósiðir eða guðleysi, hvernig hver um sig ræki embætti sitt, og fái stoð til þess eða sæti tálmunum, og skal biskup eða prófastur eigi láta undir höfuð leggjast að áminna menn í því efni.

Áminna presta ef guðleysi tíðkast… hmmm…

Tilskipun um húsvitjanir:

4. Til meðhjálpara skulu útveljast þeir upprigtugustu, bestu og umhyggjusömustu menn í hverri sókn, og ber engum, hvort þeir eru hreppstjórar eða virðingarmenn frá þessu embætti undantakast, þá þeir eru þar til af prestinum útséðir, ekki heldur byrjar þeim þar fyrir að uppástanda, að fríast frá öðrum verslegum útréttingum.

Ég ætla að velja…forsætisráðherra og dóms- og mannréttindamálaráðherra. Þau yrðu fljót að afnema þetta ef það myndi reyna á þessi lög.

Þetta var annars bara hluti af því sem ég fann. Til hvers eru þessi lög annars enn í gildi ef það er varla farið eftir þeim? Af hverju er ekki nú þegar búið að fara í almennilega tiltekt á þeim?

Frumvarp til laga um afnám sóknargjalda o.fl.

Í gær kláraði ég gerð frumvarps sem ég kom á framfæri við Hreyfinguna. Þessa stundina veit ég ekki hvort þau muni leggja það fram eða ekki en ég vona það svo sannarlega. Frumvarpið felst í því að afnema sóknargjöld ásamt því að leggja niður þrjá sjóði sem þjóðkirkjan ræður ein yfir.

Það sem ég vildi samt koma á framfæri var hversu lítill tími fór í það miðað við þann sparnað sem það hefur í för með sér. Ein kvöldstund fór í að finna allar lagagreinar þar sem minnst er á sóknargjöld og meta hverju þyrfti að breyta til að ná því fram. Síðan fór önnur kvöldstund í að skrifa frumvarpið og greinargerðina. Tvær kvöldstundir af mínum tíma í eitthvað sem gæti sparað ríkissjóð um 2,5 milljarða á ári. Ég er jafnvel óvanur frumvarpsgerð og dágóður tími fór í að yfirfara frumvarpið svo það yrði „á lagasniði“. Hvað í fjandanum er starfsfólkið í ráðuneytunum að gera?

Læt drögin fylgja í PDF svo þið getið metið vinnu mína. Ef þú ert þingmaður, endilega leggðu frumvarpið fram.

Frumvarp til laga – afnám sóknargjalda