Frá því ég varð 30 ára 7. nóvember 2013 hef ég haldið afmælisveislu á hádegi afmælisdags míns hvert ár með því að mæta á tiltekinn stað, fyrst um sinn á hádegishlaðborðið hjá Pizza Hut í Smáralindinni (ath. breytta staðsetningu). Til að sporna vegna brostnum væntingum, m.a. sökum afboðana, er ég sá eini sem fær formlegt boð í veisluna. Öðru fólki er velkomið að mæta og snæða með mér ef það hefur áhuga (hver greiðir fyrir sig). Hver og einn ber ábyrgð á að muna eftir að mæta.
Ákjósanlegast er að fólk hvorki boði sig eða afboði sig í veisluna. Hins vegar er í lagi ef fólk hefur samband stuttu áður til þess að staðfesta að hún fari örugglega fram í það skiptið, að hún sé örugglega á tilteknum stað, hvort ég muni örugglega vera á staðnum á ákveðnum tíma, o.s.frv. Nærveran er eina afmælisgjöfin sem ég þarf en fyrir þau sem vilja ekki sætta sig við það má styrkja Kattavinafélag Íslands eða Villiketti í mínu nafni.
Hér eru svo upplýsingarnar sem ég mun ganga út frá hvert ár, en ef það verða marktæk frávik með litlum fyrirvara mun ég setja inn sérstaka færslu;
Staðsetning:
Salatbarinn, Faxafeni 9, Reykjavík (treysti á að þau verði byrjuð að hafa opið um helgar árið 2026).
Hvenær:
Stefni að því að mæta eða vera mættur kl. 11:30 á staðinn. Verð þar svo í um 30 mínútur ef ég verð einn, mögulega lengur ef fleiri mæta.