Sumarmarkmið 2017

Listinn yfir sumarmarkmið ársins 2017 er þriðji listinn yfir sumarmarkmið sem ég hef sett saman. Í grófum dráttum er fyrirkomulagið á þann veg að ég set saman lista yfir markmið sem ég vil stefna á að ljúka fyrir tiltekna dagsetningu. Dagsetningin í ár er 1. september 2017 og vísað til hennar sem lokafrests. Til að veita sjálfum mér aðhald er fresturinn túlkaður afar strangt og verður ekki færður. Annar þáttur sem hvetur til aðhalds er að sett eru skilyrði og skilgreiningar við hvert markmið sem eiga að leysa úr helstu óvissuþáttum sem gætu valdið vandræðum og fækka matskenndum þáttum.

Ár hvert auglýsi ég eftir tillögum að markmiðum og gef tiltekinn frest til þess. Fyrst var auglýst eftir tillögum þann 12. apríl og var frestur veittur út 31. apríl til að afhenda mér þær. Tillögufresturinn átti einnig við um mínar eigin tillögur. Einnig var litið til tillagna sem höfðu þegar borist vegna fyrri sumarmarkmiðalista.

Á listanum í ár eru 22 aðalmarkmið og 23 uppfyllingarmarkmið. Aðalmarkmiðin eru þau markmið sem áherslan er á og álitið raunhæft að ljúka þeim fyrir lokafrestinn með hliðsjón af öðrum aðalmarkmiðum, ef allt gengur vel. Uppfyllingarmarkmiðin lúta ekki þeim viðmiðum og er aðallega unnið í þeim þegar ekki er hægt að vinna í aðalmarkmiði þá stundina eða sérstaklega hliðhollar aðstæður séu til staðar.

Listinn er birtur til þess að veita möguleika á enn frekara aðhaldi gagnvart mér sjálfum og jafnframt gefa öðrum hugmyndir hvað þau geta gert í sumar (þar sem við á). Þegar nánari skilgreining og skilyrði hafa sett eru þau einnig tekin fram. Áætlað er að uppfæra listann yfir sumarið eða í seinasta lagi stuttu eftir að lokafresturinn er liðinn. Staðan sem gefin er upp er staðan þegar seinasta uppfærsla fór fram.

Skýrsla um framkvæmd sumarmarkmiða árið 2017

Almennt um sumarmarkmið


Aðalmarkmið

Klára að skanna tíu árganga af bindum með hæstaréttardómum 1920-1995
Staða: Klárað (10 / 10 lokið)
Skilgreiningar / skilyrði:
– Koma þarf a.m.k. tíu árgöngum af hæstaréttardómum yfir á rafrænt form.

Fara þrisvar í sund
Staða: Klárað (3 / 3 lokið)
Skilgreiningar / skilyrði:
– Fara í almenningssundlaug og vera þar í a.m.k. klukkustund.

Lesa bók um málefni sem ég veit lítið eða ekkert um
Staða: Klárað
Skilgreiningar / skilyrði:
– Bókin má vera í formi hljóðbókar.
– Þarf að lesa bókina eða hlusta á hljóðbókina frá upphafi til enda.
– Þarf að vera í góðri trú gagnvart sjálfum mér um að ég hafi enga eða nær enga þekkingu á málefninu sem bókin fjallar um.

Hlusta á sjö hljóðbækur
Staða: Klárað (7 / 7 lokið)
Skilgreiningar / skilyrði:
– Þarf að hlusta á hverja hljóðbók frá upphafi til enda.
– Má ekki hafa lesið bókina sjálfa áður.

Klára einn leik af parís
Staða: Klárað
Skilgreiningar / skilyrði:
– Þarf að hafa farið í einn leik af parís frá upphafi til enda.

Hringja úr almenningssíma
Staða: Klárað
Skilgreiningar / skilyrði:
– Símtalið skal standa yfir í a.m.k. tvær mínútur.

Skjóta minnst 10 skotum úr skammbyssu
Staða: Klárað (10 / 10 lokið)
Skilgreiningar / skilyrði:
– Ég þarf persónulega að skjóta minnst 10 skotum úr skammbyssu.

Klára að skanna inn bréfapóst sem hafði borist mér fyrir 1. maí 2017 og er enn í fórum mínum
Staða: Óklárað (342 / 343+)
Skilgreiningar / skilyrði:
– Bréfapóstur sem þegar hefur verið skannaður fyrir setningu markmiðsins telst ekki með.
– Pósturinn þarf enn að vera geymdur í bréfaumslaginu sem hann (líklega) kom í.
– Dagsetning á póststimpli á umslaginu verður að vera fyrir 1. maí 2017. Sé hún ólæsileg eða illlæsileg skal hún teljast með, svo framarlega sem innihaldið bendi ekki bersýnilega til þess að bréfið var sent eftir þann dag.
– Ef ég hef ekki orðið var við tiltekinn bréfapóst fyrir 12. ágúst 2017, þrátt fyrir yfirferð á íbúðinni í leit að óskönnuðum bréfapósti, mun það ekki teljast gegn markmiðinu að ég hafi ekki skannað hann fyrir lokafrestinn.
– Ekki þarf að skanna inn bækur eða tímarit sem er í umslagi. Sé ekkert annað innihald í umslaginu telst það ekki með.
– Póstkort skulu teljast með þó þau séu ekki í umslagi, uppfylli þau önnur skilyrði og eiga við um bréfapóst, eftir því sem við á.

Klára húsnúmerasöfnun fyrir OpenStreetMap í tilteknum fjölda sveitarfélaga utan höfuðborgarsvæðisins
Staða: Óklárað (1 / 3 lokið)
Skilgreiningar / skilyrði:
– Þegar vísað er í húsnúmer í þessu markmiði er átt við auðkenni lóðarinnar sem byggingin stendur á, sem getur verið myndað út frá götunafni og númeri, og/eða sérstöku nafni.
– Húsnúmerum fyrir þetta markmið verður að vera safnað með því að ganga um viðkomandi svæði í eigin persónu.
– Ljúka skal húsnúmerasöfnuninni í minnst þremur sveitarfélögum á Íslandi.
– Svo sveitarfélag teljist fyrir þetta markmið þarf meira en helmingur bygginga að vera húsnúmeralaus á OpenStreetMap þegar ég byrja að safna húsnúmerum þar, eftir setningu markmiðsins.
– Svo húsnúmerasöfnun í sveitarfélagi teljist lokið skal ég hafa safnað húsnúmerum í öllum þéttbýlum þess sveitarfélags með nægilega tæmandi hætti ásamt því að skrá afraksturinn inn á OpenStreetMap.
– Ekki er gerð krafa um söfnun húsnúmera á þeim svæðum sem þegar hafa nægilega tæmandi skráningu húsnúmera á OpenStreetMap.
– Ekki er gerð krafa um að húsnúmerasöfnun fari fram utan þéttbýlis sveitarfélags.
– Mörk sveitarfélaga skulu miðast við þau lögformlega viðurkenndu stjórnsýslusvæði sveitarstjórna þann 1. maí 2017.
– Höfuðborgarsvæðið í skilningi þessa markmiðs samanstendur af Garðabæ, Hafnarfirði, Kjósarhrepp, Kópavogi, Mosfellsbæ, Reykjavík og Seltjarnarnesi.

Fara á aðalmeðferð í a.m.k. einu dómsmáli fyrir héraðsdómi og Hæstarétti
Staða: Klárað (1 fyrir héraðsdómi, 1 fyrir Hæstarétti)
Skilgreiningar / skilyrði:
– Ég má ekki vera aðili máls eða hafa nákomin tengsl við neinn þeirra.
– Þetta skal vera munnlegur málflutningur í efnislegri meðferð máls.
– Ekki þarf að vera um eitt og sama málið að ræða fyrir báðum dómstigum.
– Þarf að vera viðstaddur munnlega málflutninginn frá upphafi til enda.

Bæta tiltekinn fjölda af greinum á íslensku Wikipediu með því að þýða gæða- og/eða úrvalsgreinar á ensku Wikipediu
Staða: Óklárað (0 / 2 lokið)
Skilgreiningar / skilyrði:
– Fjöldi betrumbættra greina á íslensku Wikipediu skal vera tvær talsins.
– Hver hinna þýddu greina skal hafa verið samþykkt sem gæðagrein og/eða úrvalsgrein á ensku Wikipediu.

Taka a.m.k. 42 myndir af 42 sem ég hef ekki tekið áður
Staða: Klárað (42 / 42 lokið)
Skilgreiningar / skilyrði:
– Myndir teknar af öðrum en mér teljast ekki með.
– Hver mynd þarf að vera af fyrirbærinu 42 hvort sem það er táknað með tölustöfum, bókstöfum, eða blöndu af hvorutveggja.
– Sé fyrirbærið 42 hluti af táknarunu telst það ekki við eftirfarandi aðstæður:
– – a) Tölustafur kemur strax á eftir 42
– – b) Annar tölustafur en 0 kemur á undan 42
– Til að mynd teljist þarf hún að vera tekin á tímabilinu frá því markmiðið var sett og fyrir lokafrestinn.
– Séu teknar margar myndir af sama eintakinu af 42 innan tímabilsins getur það ekki talist oftar en einu sinni fyrir þetta markmið.
– Hafi ég áður tekið mynd af sama eintakinu af 42 fyrir upphaf tímabilsins telst eintakið ekki með þrátt fyrir að ég taki nýja mynd af því innan tímabilsins.

Fara í sjósund í Nauthólsvík
Staða: Klárað
Skilgreiningar / skilyrði:
– Þarf að fara í sjóinn í Nauthólsvík og synda þvert yfir hana frá einni steinhleðslunni til hinnar.

Halda matardagbók í a.m.k. sjö samfellda daga
Staða: Klárað
Skilgreiningar / skilyrði:
– Skrá skal niður hvaða mat ég innbyrði og í hvaða magni.
– Ekki skal gerð krafa um að skráningin sé íþyngjandi nákvæm.

Setja inn 500 hljóðupptökur á Wikimedia Commons þar sem borin eru fram ýmis íslensk sérheiti
Staða: Óklárað (305 / 500 lokið)
Skilgreiningar / skilyrði:
– Hljóðupptakan skal vera af mér að bera fram íslenskt sérheiti.
– Hljóðupptökur sem teknar voru upp fyrir setningu markmiðsins teljast ekki með.
– Hljóðupptaka telst gild fyrir markmiðið þegar hún hefur verið sett inn á Wikimedia Commons.

Horfa á tiltekinn fjölda kvikmynda sem ég hef ekki séð af topp 250 lista IMDb
Staða: Óklárað (1 / 10 lokið)
Skilgreiningar / skilyrði:
– Ef ég man eftir að hafa séð kvikmyndina áður telst hún ekki.
– Fjöldi kvikmynda skal vera 10 talsins.

Faðma stórt tré
Staða: Klárað
Skilgreiningar / skilyrði:
– Sá hluti trésins sem nær upp úr jörðu skal vera lengri en ég.
– Bolur trésins skal vera nógu þykkur þannig að útbreiddar hendur mínar ná ekki að snertast.
– Faðmlagið skal standa yfir í a.m.k. tíu sekúndur.

Reisa spilahús (card house)
Staða: Óklárað
Skilgreiningar / skilyrði:
– Spilahúsið skal vera þriggja hæða.
– Eftir að seinasta spilinu hefur verið bætt við skal það standa óstutt í a.m.k. þrjátíu sekúndur.

Fara í handsnyrtingu og fótsnyrtingu
Staða: Klárað (bæði handsnyrting og fótsnyrting)

Púsla púsl
Staða: Klárað
Skilgreiningar / skilyrði:
– Púslið þarf að hafa verið framleitt sem að minnsta kosti 500 hluta púsl.
– Að mesta lagi einn hlutur þess má vera týndur.

Taka stiga í þrjá (aðskilda) daga en aldrei lyftu
Staða: Klárað (3 / 3 lokið)
Skilgreiningar / skilyrði:
– Dagur í þessu samhengi skilgreinist sem heill almanaks-sólarhringur.
– Fjöldi ferða hvern daganna þarf að vera a.m.k. fjórar talsins.
– Hver bygging telst eingöngu einu sinni fyrir hvora átt óháð bili milli ferða innan hvers dags.
– Svo ferð teljist gagnvart markmiðinu þarf lyfta að vera í boði fyrir a.m.k. hluta leiðarinnar.
– Sé tekin lyfta þegar leyfilegt er fyrir mig að taka stigann, telst sá dagur ekki gagnvart markmiðinu.

Sjá „sjálfstæða kvikmynd“ í kvikmyndahúsi
Staða: Klárað
Skilgreiningar / skilyrði:
– Finna sýningu á kvikmynd sem fellur undir hina almennu skilgreiningu sem sjálfstæð kvikmynd og horfa á hana frá upphafi til enda.


Uppfyllingarmarkmið

Klára að skanna alla árgangana af bindum með hæstaréttardómum 1920-1995 sem ég hef í fórum mínum
Staða: Óklárað (9 árgangar umfram aðalmarkmið)
Skilgreiningar / skilyrði:
– Koma þarf öllum bindum af hæstaréttardómum fyrir tímabilið 1920-1995 sem ég hef í fórum mínum yfir á rafrænt form.

Gróðursetja tré
Staða: Óklárað
Skilgreiningar / skilyrði:
– Ég þarf persónulega að hafa gróðursett tréð.
– Tréð má jafnframt enn þá vera fræ.

Fara til Vestfjarða
Staða: Óklárað
Skilgreiningar / skilyrði:
– Skal hafa sofið þar í a.m.k. eina nótt.

Synda í Bláa lóninu
Staða: Óklárað
Skilgreiningar / skilyrði:
– Þarf að fara ofan í Bláa lónið sjálft.
– Viðvera mín ofan í lóninu skal vera a.m.k. þrjátíu mínútur.

Kíkja í heimsókn á Árbæjarsafn þegar Hafdís er að spinna á rokkinn og kemba ull
Staða: Klárað
Skilgreiningar / skilyrði:
– Þarf að vera þar í að minnsta kosti þrjátíu mínútur á meðan Hafdís er á staðnum.

Fara til Austurlands
Staða: Óklárað
Skilgreiningar / skilyrði:
– Skal hafa sofið þar í a.m.k. eina nótt.

Fara á ströndina við Vík
Staða: Óklárað
Skilgreiningar / skilyrði:
– Þarf að hafa stoppað þar og litið um án þess að vera í ökutæki.

Fara á Þórsmörk
Staða: Óklárað
Skilgreiningar / skilyrði:
– Þarf að hafa stoppað þar og litið um án þess að vera í ökutæki.

Sjá Jökulsárlón
Staða: Klárað
Skilgreiningar / skilyrði:
– Þarf að hafa stoppað þar og litið um án þess að vera í ökutæki.

Baka súkkulaði Rice Krispies muffins kökur
Staða: Óklárað
Skilgreiningar / skilyrði:
– Ég þarf sjálfur að hafa framkvæmt öll handtökin sem uppskriftin kveður á um.

Prjóna eitthvað
Staða: Óklárað
Skilgreiningar / skilyrði:
– Skal klára að minnsta kosti einn hlut samkvæmt uppskrift.
– Ekki skal gerð krafa um að farið sé villulaust eftir uppskrift.
– Útskiptingar á litum skulu leyfðar.

Fara í myndatöku í ljósmyndaklefa/-bás með öðrum
Staða: Klárað

Ganga á stultum
Staða: Óklárað
Skilgreiningar / skilyrði:
– Ég þarf að ganga tvö skref á stultunum.
– Á meðan ég geng skrefin á stultunum má líkaminn minn ekki styðjast við neitt annað en stulturnar sjálfar.

Setja skiptimynt í stöðumæli einhvers með útrunnum tíma
Staða: Klárað
Skilgreiningar / skilyrði:
– Peningurinn sem ég set í stöðumælinn þarf að vera skiptimynt sem stöðumælirinn tekur gilda sem greiðslu.
– Stöðumælirinn má ekki vera augljóslega bilaður.
– Þegar ég set pening í stöðumælinn þarf, á þeirri stundu, að vera ökutæki í því bílastæði sem stöðumælirinn þjónar og hann þarf að sýna að tíminn er útrunninn.
– Þegar ég set pening í stöðumælinn má ég ekki vita til þess að ég þekki bílstjóra, eigendur, né farþega þess persónulega.

Taka ákveðnar margar myndir fyrir greinar á íslensku Wikipediu sem ekki hafa þá þegar mynd af viðfangsefninu
Staða: Óklárað (0 / 5 lokið)
Skilgreiningar / skilyrði:
– Taka þarf og setja inn myndir fyrir fimm mismunandi greinar á íslensku Wikipediu.
– Ég þarf sjálfur að taka hverja mynd fyrir þetta markmið, setja inn á Wikimedia Commons, og tengja á hana út frá viðeigandi grein á íslensku Wikipediu.
– Til að grein teljist fyrir markmið þetta má hún annaðhvort ekki hafa neina mynd eða að hún hafi enga mynd af viðfangsefninu sjálfu.
– Sé tengt inn tiltekna mynd út frá mörgum greinum á íslensku Wikipediu telst hún einvörðungu einu sinni.
– Ferlið frá því hver mynd er tekin og tengd við grein á íslensku Wikipediu þarf allt að fara fram á tímabilinu frá setningu markmiðsins og fyrir lokafrestinn.

Fara einn hring í kringum landið
Staða: Óklárað
Skilgreiningar / skilyrði:
– Ferðin skilgreinist sem ferð um þjóðveg nr. 1, sem almennt er vísað til sem hringvegarins.
– Ferðin skal vera á a.m.k. 80% af lengd hringvegarins, sbr. þó:
– – a) Þeim hluta hringvegarins sem sleppt er vegna leiðarstyttinga um göng koma ekki til frádráttar.
– – b) Sé ekki farið um tiltekinn hluta hringvegarins vegna force majure ástæðna, kemur sá hluti ekki til frádráttar.

Prófa Segway
Staða: Óklárað
Skilgreiningar / skilyrði:
– Að klára heilan Segway túr sé leiga tækisins háð því.
– Sé leiga tækis ekki háð fyrir fram skilgreindum túr, að prófa það í a.m.k. þrjátíu mínútur.

Hvalaskoðun
Staða: Óklárað
Skilgreiningar / skilyrði:
– Skal hafa farið í a.m.k. eina sjóferð sem skilgreind er sem hvalaskoðunarferð.
– Þarf ekki að hafa séð hval í þeirri ferð.

Hestatúr
Staða: Óklárað
Skilgreiningar / skilyrði:
– Að ferðast um á baki hests í að minnsta kosti tíu mínútur utandyra.

Sjóstangaveiði
Staða: Óklárað
Skilgreiningar / skilyrði:
– Skal hafa farið í a.m.k. eina ferð sem boðið er upp á sjóstangaveiði.
– Skilyrt er þátttaka í sjóstangaveiðinni.

Stíga fæti á jökul
Staða: Óklárað
Skilgreiningar / skilyrði:
– Með jökli er átt við landfræðilega fyrirbærið.
– Að hafa stigið fæti á jökul.

River rafting
Staða: Óklárað
Skilgreiningar / skilyrði:
– Að hafa tekið þátt í river rafting ferð frá upphafi til enda.

Fljóta á kajak
Staða: Óklárað
Skilgreiningar / skilyrði:
– Að hafa stigið upp í og ferðast á kajak í a.m.k. tíu mínútur.