Nethleranir og lögin

Eftir að Edward Snowden, sú mæta hetja, hóf að ljóstra upp um njósnir NSA á jarðarbúum, fór ég að vera meira var um friðhelgi einkalífs míns á netinu. Þó var ég var um það áður, eins og með því að hefja notkun á OpenPGP.

Það góða við þessar uppljóstranir, fyrir utan að staðfesta það sem hefur þegar verið gert, er að fólk er núna meira vart um að netnotkun þeirra gæti verið hleruð. Áður fyrr heyrði maður varla píp í almenningi um að einhver gæti hlerað netnotkun þeirra, enda ættu lögin að verja okkur gegn slíku. En þar voru meginmistök fólks fólgin, að treysta um of á lögin. Það túlkar lögin eins og aðrir myndu framkvæma þau með sömu hugmyndafræði og það sjálft. Lagagreinar á að túlka eftir því hvernig aðrir myndi framkvæma og jafnvel fólk sem maður heldur að muni snúa út úr merkingu þeirra eftir bestu getu.

Í lögum vantar oft til dæmis viðurlög hvað gerist ef einhver brýtur gegn lögunum, sé skyldan á ríkinu að framkvæma eitthvað. Þó hættan sé alltaf að einhver fari í mál við ríkið vegna vanrækslu á lagalegri skyldu eru mögulegar bætur það lágar að ríkið vill frekar taka áhættuna. Einnig eru til aðrar óskrifaðar réttarreglur sem ríkið myndi án efa vísa til ef til þess kæmi að einhver biður um að eitthvað sé framkvæmt sem ríkið vill ekki gera. Hér þarf því að samþætta eftirlit með framkvæmd ríkisins með lögum og sjá til þess að ríkið hafi hagsmuni af því að framkvæma þau á réttan hátt.

Önnur hlerun kom í ljós þegar gögn fengin með innbroti í gagnagrunn Vodafones fóru út á netið. Þá gerði fólk sér (vonandi) grein fyrir að fjarskiptalög voru þverbrotin enda geymdi Vodafone miklu meira af gögnum en það hafði lagalega heimild fyrir. Fólk var sannfært að fyrirtæki færu eftir lögunum þegar kom að friðhelgi einkalífsins en komst svo að því, á sérlega slæman máta, að svo var ekki. Umræðan á þeim tíma var ruglandi og var fólk jafnvel á öðru máli þegar túlka átti lagagreinina sem fjallaði um heimild Vodafone á að geyma þau SMS-skeyti sem fóru í dreifingu. Sumir voru á því að geyma mætti innihald SMS-skeytanna í 6 mánuði en aðrir að það mætti ekki geyma þau eftir að þau væru komin til viðtakanda. Þessi mismunandi sjónarhorn sýna það að hugmyndir fólks um heimildir laga eru ekki þau sömu og afar frábrugðin.

Almenningur þarf hins vegar að taka meiri þátt í að verja friðhelgi síns eigin einkalífs. Svo ég nefni dæmi eru flest pósthólf ódulkóðuð og liggja tölvupóstar þar næstum á glámbekk. Ef einhver kemst inn á tölvuna sem hýsir hann mun sá aðili líklegast hafa frjálsar hendur við að afrita hann. Tugir þúsunda SMS-skeyta er ekkert miðað við ef þessi óprúttni aðili hefði komist í pósthólf viðskiptavina Vodafone og dreift tölvupóstunum sem voru þar, eða jafnvel sýnishorn af þeim. Er það, að gefnu óbreyttu öryggisástandi, bara tímaspursmál hvenær það gerist. Það er ein ástæðan fyrir því að ég reyni að hvetja fólk til þess að nota OpenPGP dulkóðunaraðferðina. Sú aðferð tryggir, eftir bestu getu, að milliliðirnir á milli sendanda og viðtakanda geta ekki lesið innihald tölvupósta sem fara þeirra á milli. Ef einhver brytist inn á pósthólfið þitt og sæi eingöngu dulkóðaðan tölvupóst, gæti hann lítið gert við þær upplýsingar.

Hér á landi, og í ýmsum öðrum ríkjum, eru til staðar flokkar sem vinna samkvæmt píratahugsjóninni og munu þeir án efa fá meira vægi núna í umræðunni um friðhelgi einkalífsins. Þá verður vonandi meiri áhersla á að hlusta á fólk sem hefur tillögur að breyttu orðalagi í lagasetningarferlinu, jafnvel þótt merkingin virðist við fyrstu sýn ekki breytast mikið. Njósnastofnanir eins og NSA nýttu sér svona orðalagsgalla og almennt orðaðar heimildir til þess að gera það sem þær voru staðnar að. Við skulum ekki endurtaka þessi sömu mistök í lagasetningu og fylgjast betur með því sem er að gerast á Alþingi.

Bingójátning 2013

Þann 15. mars síðastliðinn skilaði ég inn játningu til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem ég játaði að hafa tekið þátt í framkvæmd ólögmæts bingóhalds. Fyrir tveim dögum, þann 9. júlí 2013, barst mér bréf með afstöðu ríkissaksóknara til þessa máls.

Það er afstaða ríkissaksóknara að „umrædd háttsemi kæranda, og eftir atvikum annarra sem stóðu að páskabingóinu, verði fyrst og fremst virt sem liður [í] stjórnarskrárvörðum rétti manna til tjáningar- og fundafrelsis, sbr. 73. gr. og 74. gr. stjórnarskrárinnar“.

Áður en ég lagði fram játninguna hugsaði ég út í mögulegar afleiðingar þess ef málið hefði lent fyrir dómstólum með ákæru. Líkurnar voru nokkuð lágar en áhætta sem ég var reiðubúinn til þess að horfast í augu við og reka málið áfram til enda, jafnvel með málarekstri fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sem hefði líklegast dæmt mér í vil.

Þrátt fyrir að málið hafði ekki verið lokið á þann hátt er ég ánægður með útkomuna, enda er það núna yfirlýst mat bæði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og ríkissaksóknara að stjórnarskrárvarinn réttur fólks til tjáningar- og fundafrelsis vegur þyngra en rétturinn til að banna bingóhald á grundvelli helgidagafriðs. Vegna jafnræðisreglunnar á þetta mat einnig við um aðrar tegundir af skemmtanahaldi en bingó óháð því hvort peningar séu í spilinu eða ekki. Augljóslega á þetta mat eingöngu við um atburði sem annars hefðu verið leyfðir á þessum tilteknum helgidögum.

Vil samt setja fyrirvara um að það er samt ekki algerlega afgreitt þegar um er að ræða staði sem reiða sig á starfsleyfi eða önnur opinber leyfi. Þó ég telji að það sama gildir í slíkum tilvikum er samt sem áður gríðarlega mikil hætta á að fyrsti aðilinn sem heldur slíka skemmtun gæti lent í leyfissviptingu ef lögreglan telur þessa afstöðu ríkissaksóknara ekki eiga við um leyfisskylda starfsemi.

Hér eru helstu skjöl málsins svo almenningur hafi tækifæri til að meta niðurstöðuna á eigin forsendum:

Bingójátningarmálið 2013

Kæra vegna framkvæmd alþingiskosninganna 2013

Þrír umboðsmenn Pírata, þar á meðal ég, komum saman í gær og ræddum um okkar reynslu á talningarstað þann 27. apríl síðastliðinn. Við ræddum um framkvæmdina á talningarstaðnum og athuguðum hvort hún stæðist lög. Við vissum af ýmsum atriðum áður en töldum þau vera lítilvæg þar til við bárum saman bækur okkar. Þar komum við auga á grafalvarleg atriði er varða framkvæmdirnar og sáum ekki annan siðferðislegan kost en að leggja fram kæru, hvort sem það væri í okkar eigin nafni eða Pírata.

Helstu atriðin voru þau að verklagið var mismunandi á milli kjördæma og í mörgum tilfellum jafnvel gegn lögum. Í Suðurkjördæmi voru dyrnar jafnvel opnaðar nokkrum sinnum, í hvert skipt í að minnsta kosti stundarfjórðung, þrátt fyrir ákvæði laga um kosningar til Alþingis um að meðhöndlum atkvæða fyrir lok kjörstaða skuli vera fyrir luktum dyrum. Í sama kjördæmi voru atkvæði jafnvel talin fyrir lok kjörstaða þrátt fyrir ákvörðun Hæstaréttar Íslands um að það væri stranglega bannað. Þá voru lyklar jafnvel festir við kjörkassana í flutningi þeirra á talningarstað, sem er skýrt brot á kosningalögum.

Þá var vikið að ófullnægjandi innsiglum en í besta falli eru þau alger brandara þar sem þau eru nokkuð einföld í framleiðslu. Auk þess er nokkuð auðvelt að fjarlægja þau án þess að þau skilji eftir sjáanleg ummerki. Í nokkuð mörgum tilvikum í Suðurkjördæmi var alls ekkert innsigli yfir raufinni á kassanum, sem enn og aftur er skýrt brot á kosningalögum.

Í Reykjavíkurkjördæmunum voru atkvæðaseðlarnir ekki taldir úr kjörkössunum áður en þeim er blandað saman eins og tilgreint er í 99. gr. kosningalaga. Það var hins vegar gert í Suðurkjördæmi. Þetta uppgjör var framkvæmt í Reykjavíkurkjördæmi Norður en ekki fyrr en yfirkjörstjórnin taldi að talningu væri lokið. Þar kom í ljós að það vantaði yfir 300 atkvæði og þá var komist að því að það gleymdist að hella úr einum kjörkassanum og við tók flokkun og talning á innihaldi hans. Flokkunarfólkið var farið heim og þurftu því aðrir starfsmenn ásamt yfirkjörstjórn að sjá um flokkunina. Slíkt hefði ekki gerst ef uppgjörið hefði farið fram jafnóðum eins og kosningalög gera ráð fyrir. Rökfræðilega er ekki hægt að framkvæma slíka könnun á áreiðanlegan hátt nema með talningu úr kjörkössum. Það er auðvitað fræðilega hægt að framkvæma grófa könnun eftir á en samanburður við kjörbækur undirkjörstjórna yrði ekki eins áreiðanlegur og lögin kveða á um. Ef atkvæðaseðlar týnast er engin leið að vita frá hvaða kjörstað vantaði atkvæði, sérstaklega fjöldi þeirra er mikill, ef eina uppgjörið fer fram eftir að talningu er lokið.

Það var því niðurstaða hópsins að það sé betra upp á kosningaframkvæmdina í framtíðinni að verklagið sé í samræmi við lög í öllum kjördæmum og að það séu til betri varnir gegn kosningasvindli og kosningamistökum. Enn fremur þarf að bæta lögin sjálf og framkvæma í samræmi við þær breytingar.

Tvö réttindamál komin í ferli

Ræsti tvö réttindamál í dag.

Fyrra málið er ræst með óvenjulegu móti. Þar sendi ég játningu til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um að ég hafi tekið þátt í bingóstarfsemi föstudaginn langa, en slík starfsemi er ólögleg á þeim degi. Framfylgni laganna af hálfu lögreglu er nokkuð mismunandi eftir landshlutum og eftir því hver kvartar. Með játningunni neyðist lögreglan til að rannsaka málið af alvöru og taka ákvörðun hvort hægt sé að sækja mig til saka eða ekki fyrir það sem ég gerði. Óháð úrslitum málsins er komin betri sýn á hvað getur kallað á aðgerðir lögreglu og hvað ekki.

Hitt málið snýr að því að ég vil gera tilraun til þess að fella út ‚Lúthersson‘ úr nafninu mínu þannig að það verði eingöngu Svavar Kjarrval. Í því máli notfæri ég mér svokallaðan Blævar-dóm en það var niðurstaðan sú að nafngjafir falla undir stjórnarskrárákvæðið um friðhelgi einkalífs og því ekki hægt að takmarka þær nema undir þröngum skilyrðum sem ég tel að eigi ekki við í þessu máli.

 

Vantrúarbingó - játning til lögreglu

 

Nafnbreyting (fella út kenninafn)

 

Þar sem Þjóðskrá Íslands hefur ekkert eyðublað fyrir það sem ég vildi gera ákvað ég að rita yfirlýsingu með upplýsingunum sem stofnunin myndi biðja um ef þetta væri eðlileg beiðni.

Umsögn um frumvarp til nýrrar stjórnarskrár

Í dag skilaði ég til Alþingis umsögn minni um frumvarp til nýrrar stjórnarskrár. Í þetta sinn ákvað ég að skoða frumvarpið sjálfstætt frá fyrri útgáfum og sleppa því að nefna suma vankanta hversu freistandi sem það var. Sumir sem ég hef rætt við hafa látið í ljós þá skoðun að allar efnislegar breytingar á frumvarpi stjórnlagaráðs séu af hinu illa, óháð því hversu bætandi þær eru fyrir mannréttindi. Augljóslega er ég ekki sömu skoðunar enda legg ég til margar efnislegar breytingar á frumvarpi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Nefndin hefur lagt til breytingar á frumvarpi stjórnlagaráðs nú þegar svo ég efast ekki um að hún sé opin fyrir efnislegum breytingum, svo framarlega sem þær uppfylli þau skilyrði sem nefndin setti fyrir sérfræðihópinn.

Aðferð mín við samningu umsagnarinnar var nokkuð einföld. Nýmæli eru tekin fyrir fyrst og síðan samkvæmt greinaröð frumvarpsins sjálfs. Auk þess kláraði ég að skrifa umsögnina efnislega í seinustu viku og lét hana liggja þar til í dag þar sem ég las hana yfir upphátt og gerði smávægilegar breytingar.

Í henni geri ég tillögu að eftirfarandi nýmælum:

 • Stýringu og skráningu á beitingu stjórnskipulegs neyðarréttar.
 • Viðurlög vegna brota á stjórnarskránni skulu skilgreind í almennum lögum.
 • Framsal á íslenskum ríkisborgunum skal vera óheimilt.
 • Óleyfilegt sé að framselja fólki til ríkja þar sem dauðarefsing er í gildi.
 • Þagnarrétturinn sé tryggður í stjórnarskrá. Útfærsla hans í almennum lögum þessa stundina er nokkuð veik.
 • Tryggja að allir hafi rétt til lögmanns í sakamálum og að sakborningur geti gagnspurt vitni og kveðið til vitna.
 • Meðalhófsregla refsinga og frelsistrygginga sé í viðurlögum. Aðallega byggt á 8. viðbót stjórnarskrár Bandaríkjanna.
 • Nefndarfundir ættu einnig að vera opnir en ekki bara þingfundir.
 • Ef forseti Íslands synjar samþykkt laga ættu þau ekki að hljóta gildi fyrr en í fyrsta lagi að þjóðin samþykkir þau. Sé ósátt við neyðarlög er hvort sem er hægt að tefja framgang frumvarpsins með því að skjóta frumvarpinu til Lögréttu skv. 62. gr.
 • Koma aftur inn ákvæði stjórnlagaráðs um að dómstólar geti dæmt að lög samrýmist ekki stjórnarskrá. Þá legg ég til tilkynningarskyldu af hálfu dómstóla séu slíkir dómar kveðnir upp þar sem engin skylda er í frumvarpinu að dómar skuli vera birtir.

Þá geri ég athugasemdir við eftirfarandi í frumvarpinu:

 • Fara skuli sérstaklega yfir almenna skerðingarheimild réttinda í 9. gr. frumvarpsins.
 • Tryggja að ekki skuli heimilt að dæma fólk vegna ummæla sem eru sönn.
 • Ákvæðið um kirkjuskipan eigi ekki að vera óbreytt frá núverandi stjórnarskrá. Staða ríkiskirkjunnar gæti verið táknræn.
 • Viðbót sérfræðihópsins í 24. gr. um menntun barna í samræmi við trúar- og lífsskoðanir gæti leitt til vandræða, t.d. ef börn eiga foreldra sem eru sköpunarsinnar og þeir vilja ekki að það læri um þróunarkenninguna. Samkvæmt orðalagi eru það eingöngu foreldrar sem ákveða slíkt en börnin sjálf hafi enga heimild til þess. Áhersla á kristna trú sé gegn jafnræðisreglunni.
 • Tryggja að við rannsókn sakamála sé einnig gætt þess að málsmeðferð sé réttlát, úrlausn fáist innan hæfilegs tíma og að rannsókn sé óhlutdræg. Þá skuli önnur meðferð ríkis á málum, eins og stjórnsýslumálum, lúta sama lögmáli.
 • Vísað er til meginreglna umhverfisréttar í 35. gr. og gæti slík tilvísun valdið stöðnun í þróun umhverfisréttar.
 • Miða ætti við fyrsta samkomutíma Alþingis eftir kosningar við birtingu niðurstaðna í stað kjördags þar sem úrslit geta tafist vegna málaferla eða ófyrirséðra atburða.
 • Þingsályktunartillögur ættu ekki að falla sjálfkrafa niður við lok löggjafarþings, heldur við lok kjörtímabils. Sama ætti að gilda um þær og meðferð lagafrumvarpa.
 • Þjóðin ætti að fá að leggja fram frumvarp og krefjast atkvæðagreiðslu um þau án íþyngjandi takmarkana sem stjórnlagaráð setti fram. Þjóðaratkvæðagreiðslurnar væru án takmarkana en framlögn frumvarpa takmörkuð við að þau standist stjórnarskrá og mögulega mannréttinda- og umhverfissáttmála.
 • Legg til að nefndin íhugi hvort önnur manneskja en forseti Alþingis yrði fyrsti staðgengill forseta. Ástæðan er sú að embætti forseti Íslands tilheyrir framkvæmdavaldi og forseti Alþingis starfar á sviði löggjafarvalds. Þá væri betra ef fyrsti staðgengill tilheyri framkvæmdavaldi en síðan gæti forseti Alþingis verið annar staðgengillinn í röðinni.
 • Allar náðanir og sakaruppgjafir ættu að vera opinberar og rökstuddar til að sporna gegn misnotkun á ákvæðinu.
 • Að ráðherra fenginn úr röðum þingmanna sé látinn rita undir eiðstaf er tvíverknaður þar sem hann hefur áður gert það sem þingmaður.
 • Í bráðabirgðaákvæði er getið þess að tímasetningar á takmörkun á setutíma ráðherra og forseta Íslands skuli hefjast frá setningu stjórnarskrárinnar. Mældi með því að frekar ætti að heimila núverandi ráðherrum og forseta Íslands að klára kjörtímabil sín í þeim embættum. Þá er minnst á að núverandi dómarar njóti ákveðinna réttinda sem eldri stjórnarskrá gaf en slíkt myndi skapa ójafnræði meðal þeirra dómara sem skipaðir eru fyrir og eftir gildistöku nýrrar stjórnarskrár. Séu réttindin svo mikilvæg ætti frekar að íhuga að færa réttindin í bráðabirgðaákvæðinu yfir í varanlega hluta stjórnarskrárinnar.

Umsögnin sjálf

Tillögur stjórnlagaráðs

Sendi inn eftirfarandi umsögn til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis um tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Îslands.

Útgáfa á PDF og ODT sniði.

Eftir langt ferli í kringum stjórnlagaþing og síðar stjórnlagaráð er loks komið frumvarp um breytingar á stjórnarskrá Íslands. Ferlið var langt frá því að vera fullkomið og margt sem hefði átt að fara betur. Fólk hefur auðvitað mismunandi skoðanir um hvað það er sem mætti bæta en ég vil koma á framfæri því sem ég tel að mætti athuga við frumvarp stjórnlagaráðs.

Mögulega betra ferli
Meðal þeirra atriða sem ég hefði talið að hefði getað verið betur framkvæmt var að hafa meira skipulag í kringum starf stjórnlagaráðs. Þótt gagnsæið hafi verið meira en hefur tíðkast áður í íslenskri stjórnmálasögu hefði mátt gera það enn gagnsærra og ekki takmarka það við að almenningur megi sjá regluleg drög að texta frumvarpsins. Vinnan og hugsunin á bakvið textann skiptir gríðarlegu máli en almenningur fékk ekki heildarmyndina fyrr en búið var að skila skýrslunni til Alþingis.

Til að fá betri yfirsýn yfir verk þarf að punkta niður það sem leitað er eftir að það eigi að skila. Stjórnlagaráð hefði til dæmis getað byrjað á því að rita niður í grófum dráttum sem það vill að frumvarpið skili, t.d. „sjálfstætt löggjafarvald“ eða „minni hætta á spillingu“ og að sjálfsögðu í opnu ferli svo almenningur geti lagt til fleiri atriði sem stjórnlagaráð myndi taka fyrir. Eða það væri hægt að fara þá leið að gera grófa grind af þeim ákvæðum sem frumvarpið á að innihalda án þess að fara út í nákvæmar skilgreiningar og stórar ákvarðanatökur.

Grófa grindin væri síðan notuð til þess að gera enn fínni grind af frumvarpinu en í þetta sinn myndi stjórnlagaráð setja fram spurningar og pælingar um hvert ákvæði. Almenningur gæti þá auðvitað sent inn erindi þar sem þeir ansa því sem stjórnlagaráð setti fram og jafnvel leggja til fleiri atriði sem mætti bæta við á listann. Þá myndi stjórnlagaráð jafnframt búa til prófanir hvernig hægt væri að misnota stjórnarskrána, fræðilega séð. Þegar því ferli er (næstum) lokið myndi stjórnlagaráð gera drög að því hvernig textinn gæti litið út. Almenningur myndi enn og aftur fá tækifæri til að gera athugasemdir við orðalagið ef þörf krefur og jafnvel benda á ef einhver ákvæði myndu ekki standast fyrrgreindar prófanir.

Tilgangurinn með þessari aðferð væri sú að almenningur fái tækifæri til þess að taka meiri þátt í ferlinu og þar að auki myndi það minnka líkurnar á stórum breytingum á seinustu stundu. Því miður var mikið um þær á seinastu metrum við gerð frumvarps stjórnlagaráðs og þá fékk almenningur ekkert tækifæri til að tjá sig um tillögur sem höfðu ekki komið fram áður við vinnslu frumvarpsins. Jafnframt skiptir miklu máli að stjórnarskráin innihaldi ekki stórtæka galla sem gætu gert hana svo gott sem marklausa.

Þetta ferli hefði ekki þurft að taka meiri tíma en þá 4 mánuði sem stjórnlagaráð var að störfum og þá sérstaklega á tímum rafrænna samskipta. Að mínu leiti hefði stjórnlagaráð getað gert miklu betur á þeim tíma sem það fékk til að vinna tillögur sínar.

Athugasemdir við einstakar greinar

Aðfaraorð:
Í tillögum stjórnlagaráðs er ekkert að finna sem bendir til þess að aðfaraorðin eigi ekki að hafa lagagildi eða hið gagnstæða. Í þessari umsögn mun ég því gera ráð fyrir að þau hafi lagagildi. Í það minnsta hafa þau túlkunargildi gagnvart afgangnum af stjórnarskránni.

Í aðfaraorðum mætti sleppa að nefna að stjórnvöld skuli vinna að eflingu menningu íbúa landsins. Ég get ekki séð að það eigi að vera hlutverk stjórnvalda að hafa slík áhrif á menninguna á Íslandi. Þróun menningar á að vera í höndum þeirra sem hana iðka en ekki stjórnvalda. Menning á að lúta náttúrulögmálunum og deyja út ef enginn iðkar hana lengur. Gæti slíkt ákvæði sett skyldur á herðar stjórnvalda til þess að ganga gegn þessari þróun og viðhalda menningu sem nær enginn vill iðka.

2. grein:
Sé greinin borin saman við núverandi stjórnarskrá er augljóst að forseti Íslands á ekki lengur að deila löggjafarvaldinu með Alþingi. Í 2. mgr. er ekki kveðið á um að forseti Íslands fari með sinn hlut í framkvæmdavaldinu í umboði þjóðarinnar en stjórnlagaráð taldi sig þurfa að nefna í 1. mgr. að Alþingi þurfi að gera það. Samkvæmt tillögunum er forsetinn þjóðkjörinn og því eðlilegt, fyrst slíkt var talið nauðsynlegt í 1. mgr., að geta þess einnig hvað varðar forseta Íslands. Annars gæti það verið túlkað þannig í framtíðinni að forseti Íslands starfi ekki í umboði þjóðarinnar eða beri slíkar skyldur.

3. grein:
Hér vil ég mótmæla þeirri hugmynd stjórnlagaráðs að gefa löggjafarvaldinu heimild til þess að ákveða mörk landhelgi, lofthelgi og efnahagslögsögu. Þessi grein er í besta falli vanhugsuð því ekkert er því til fyrirstöðu að breyta téðum mörkum með einfaldri lagasetningu og þá jafnvel til minnkunar eða tilfærslu. Einfaldan atkvæðameirihluta þyrfti til þess að ákveða t.d. að ákveðin landsvæði teljist ekki til Íslands. Í það minnsta ætti að setja kröfu um aukinn meirihluta eða jafnvel einróma atkvæðagreiðslu til að breyta og setja slík lög.

4. grein:
Samanber ábendingu mína til stjórnlagaráðs um vandamál fyrirliggjandi draga að þessari grein, var hægt að túlka hana á tvennan hátt: Ein leiðin var að láta alla sækja um íslenskan ríkisborgararétt sem myndi skapa mikla vinnu fyrir íslenska ríkið; og önnur leiðin var sú að síðan gæti fólk, jafnvel án tengsla við landið, eignast íslenskan ríkisborgararétt sem myndi enda með því að nær allir jarðarbúar gætu átt tilkall til hans eftir margar kynslóðir.

Því miður forðast núverandi drög ekki fyrrgreinda vandamálið. Skýringin við greinina nefnir að leysa eigi þetta vandamál með því að veita heimild til þess að ríkisborgararétt megi veita að öðru leyti samkvæmt lögum. Gallinn er sá að slíka heimild er hægt að túlka með neikvæðum afleiðingum fyrir væntanlega íslenska ríkisborgara. Til dæmis er hægt að sleppa því að nefna í lögum sjálfkrafa veitingu ríkisborgararéttar til þeirra sem þurfa á honum að halda. Ef stjórnlagaráð hefði hugsað þetta aðeins lengra væri hægt að leysa þetta vandamál í stjórnarskránni sjálfri í stað þess að treysta á lagaheimild. Vil ég því leggja til mögulega lausn en hún felst í því að bæta við málslið fyrir aftan 1. málsl. 1. mgr:
„Börn einstaklinga með íslenskt ríkisfang sem fæðast á Íslandi skulu sjálfkrafa öðlast íslenskan ríkisborgararétt.“

5. grein:
Við þessa grein vil ég bæta við skyldu til þess að óhlýðnast ólögmætum fyrirmælum. Aðallega vegna þess að sá háttur er venjulega í íslenskri stjórnsýslu að starfsfólk hlýðir öllum fyrirmælum yfirmanns síns þrátt fyrir greinilegt ólögmæti og beita fyrir sig vinnuveitendaábyrgð ef það er gert veður út af því. Undanfarin ár virðist það vera svo að fyrirmæli séu framkvæmd og spáð í lögmæti þeirra síðar. Tel ég það veita ábyrgara aðhald ef fólk hefur stjórnarskrárvarinn rétt til þess að óhýðnast fyrirmælum sem eiga ekki stoð í lögum.

Ef vinnuveitandi lendir í því að starfsmaður hans neitar eða efast um lögmæti fyrirmæla ætti hann að geta sýnt starfsmanni sínum fram á það að fyrirmælin séu lögmæt. Ef ástæður starfsmannsins fyrir því að efast um lögmæti fyrirmælanna séu réttmætar væri ekki hægt að veita honum áminningu eða reka hann ef starfsmaðurinn hafði réttmæta ástæðu til þess að efast um lögmæti þeirra.

Ósanngjarnt væri ef ekki væri refsað fyrir að veita ólögmætu fyrirmælin. Taka þyrfti á því líka.

Legg ég því til eftirfarandi málsgrein:
„Borgurum ber skylda að óhlýðnast ólögmætum fyrirmælum. Jafnframt ber borgurum í valdastöðu skylda að veita ekki ólögmæt fyrirmæli.“

Passa þarf þó að tillagan sé ekki túlkuð þannig að foreldri sem skipar barninu sínu að taka til í herberginu sínu sé að brjóta gegn stjórnarskránni.

6. grein:
Samanber fyrri mótmæli mín við stjórnlagaráð, þá er 2. mgr. greinarinnar ofaukið þar sem þú fyrri er þegar að vernda kynjajafnrétti. Þó 2. mgr. sé fjarlægð er ekkert sem segir að stjórnarskrárvarinn réttur kynjanna sé minni gagnvart hinu í kjölfarið. Þó kynjajafnrétti sé mikilvægt að mínu mati er ég samt ekkert fyrir slíka tvítekningu.

Að auki vil ég leggja til að í tillögum nefndarinnar komi fram að bæta við orðinu ‚kynvitund‘ í upptalningu í 1. mgr.

10. grein:
Í skýringum við greinina er farið með mál eins og ætlunin með því að taka sérstaklega fram kynferðisofbeldi sé verið að vernda konur. Að því tilefni vil ég nefna að karlar lenda einnig í slíku ofbeldi og það er algengara en margan grunar. Einnig vil ég ítreka mótmæli mín gagnvart stjórnlagaráði þar sem ég mótmælti því að nota sérstaklega hugtakið ‚kynferðisofbeldi‘ í stjórnarskrá þar sem það bendir til þess að ofbeldið sé framkvæmt vegna þess að einn aðilinn sé af ákveðnu kyni. Til dæmis tel ég ofbeldi gagnvart börnum innan veggja heimila talsvert alvarlegra.

Legg ég til að þessi sérstaka upptalning á kynferðisofbeldi verði tekin út. Vil ég áminna stjórnlagaráð fyrir að leggja meiri hlutann af skýringum greinarinnar undir réttlætingu á því að tilgreina kynferðisofbeldi sérstaklega. Auðvitað er það samfélagsmein en ég hefði viljað sjá ítarlegri umfjöllun um almenna túlkun á greininni.

11. grein:
Vil ég vísa í hluta af umsögn minni við greinina á meðan hún var í vinnslu hjá stjórnlagaráði:

„Við yfirferð þessarar greinar stakk mig að heimila megi leit „með sérstakri lagaheimild“. Hér er um að ræða ákvæði sem er mikil hætta á að verði misnotað. Mæli ég með því að þetta verði rætt frekar í ráðinu og reynt að girða fyrir hvers kyns misbeitingu sem ákvæðið gæti haft í för með sér. Eðlilega væri betra að fjarlægja ákvæðið og láta dómsúrskurð nægja. Í það minnsta ætti að tiltaka takmarkanir sem slík heimild þarf að uppfylla.Einnig var frétt árið 2010 sem gat þess að Hæstiréttur hafnaði því að ógilda húsleit, sem héraðsdómur samþykkti, þar sem húsleitin hafði þegar farið fram. Þeir sem leitað er hjá hafa því enga vörn fyrir dómstólum eftir að húsleitin hefur verið framkvæmd. Því óska ég eftir því að stjórnlagaráð íhugi að kveða á um rétt fólks til að reyna á húsleitir (og aðrar leitir) fyrir dómi eftir að hún hefur verið framkvæmd. Sé leitin dæmd ólögleg skulu þau sönnunargögn sem aflað var ekki tekin til greina í sakamáli gegn þeim sem brotið var á. Þó skal íhuga sönnunargögn sem hefði verið hægt að afla með öðrum lögmætum aðferðum. Þetta ætti að vera í samræmi við dómaframkvæmd í Bandaríkjunum.“

Í skýringum stjórnlagaráðs er ekkert minnst á tengsl þessarar greinar við rannsókn sakamála eins og til dæmis að nefna í hvers konar tilfellum væri réttlætanlegt að heimila slíkar rannsóknir á einkalífi einhvers. Samt sem áður er afar mikil hætta á misnotkun ákvæðisins miðað við önnur. Lagði ég til í umsögn minni til stjórnlagaráðs að taka ætti upp nokkurs konar ákvæði eins og finna má í 4. viðbót stjórnarskrár Bandaríkjanna. Læt ég það duga að vitna í afganginn af umsögn minni um greinina:

„Við þessa grein mæli ég með takmörkunum sem finna má í 4. stjórnarskrárviðbót Bandaríkjanna. Gæti 2. efnisgreinin hljóðað svo:„Ekki má gera líkamsrannsókn eða leit á manni, leit í húsakynnum hans eða munum, eða taka hluti eignarnámi án brýnna og réttmætra ástæðna og ávallt að undangengnum dómsúrskurði. Leitarheimildir skulu ávallt studdar sönnunargögnum sem réttlæta leitina og skulu eigi ganga lengra en nauðsyn krefur.“Í þessari tillögu var bætt sérstaklega við eignarnámi en merkingin þar er að ríkisvaldið geti ekki tekið af manni eignir án réttmætrar og brýnnrar ástæðu. Ákvæðið er í samræmi við eignarréttarákvæðið sem stjórnlagaráðið leggur til en hefur þann tilgang að vernda hinn almenna borgara gegn því að lögreglan taki eignir eignarnámi í þágu rannsóknarhagsmuna nema þess sé getið í leitarheimild að hún hafi heimild til þess. Síðasti liðurinn hefur þann tilgang að vernda borgara gegn því að dómarar veiti of víðar leitarheimildir.“

13. grein:
Að mínu mati þyrfti að gæta þess í 2. mgr. að þær skyldur og takmarkanir sem fylgja eignarréttinum verði að vera réttmætar. Annars er hætta á að ríkið setji svo ströng skilyrði, með stoð í stjórnarskrá, að eignarrétturinn verði svo gott sem marklaus. Þótt skýringar við ákvæðið nefni að ætlunin sé ekki að breyta núverandi ástandi þykir rétt að girða fyrir að þróunin verði svo að slíkt yrði misnotað.

 Úr umsögn minni um greinina til stjórnlagaráðs:

„Við 1. efnisgrein legg ég til að bætt verði við lið sem bannar ríkinu að afhenda eignirnar þriðja aðila. Í Bandaríkjunum hefur það gerst að eignir hafa verið teknar eignarnámi og síðan afhentar þriðja aðila og réttlætt svo að afhendingin myndi bæta efnahaginn á svæðinu. Með því að girða fyrir það er eignarnámið takmarkað við eignir sem ríkið sjálft mun þurfa á að halda.“

14. grein:
Við þessa grein er margt sem hægt er að gagnrýna. 2. máls. 2. mgr. gerir 1. málsl. sömu greinar marklausan og virðist 1. málsl. vera til skrauts. Með hverju atriði sem nefnt er að sé undanþegið tjáningarfrelsi er verið að grafa undan því eðlilega frelsi sem við eigum að hafa til að tjá okkur. Upptalningarlega séð eru atriðin færri en í raun og veru eru þau jafnmörg eða jafnvel fleiri. Í skýringum stjórnlagaráðs er ekki getið um að atriði hafi verið fjarlægt því það teljist ósanngjarnt að skerða tjáningarfrelsi samkvæmt því, heldur eingöngu eru þau sameinuð. Fækkun atriðanna í upptalningunni er því einvörðungu sýndargerningur.

Það hættulegasta í upptalningu 2. mgr. er „til verndar börnum“ því það er afar opið fyrir túlkunum. Í Ástralíu stundar ríkisstjórnin það að ritskoða Internetið með landssíu og ritskoðar hún kvikmyndir og aðra menningu, einmitt undir þeirri sýndarástæðu að verið sé að vernda börn. Þetta er eitt hættulegasta pólítíska tól sem hægt er að veita ríkinu til þess að ritskoða þjóðfélagsumræðuna.

Þá mæli ég frekar með þeirri aðferð sem er í 1. viðbót bandarísku stjórnarskrárinnar þar sem getið er að aldrei skuli takmarka tjáningarfrelsið og engar undanþágur sérstaklega nefndar. Þó er ekki sjálfsagt þar að tjáningarfrelsið sé algert eins og dómaframkvæmd þar hefur sýnt. Þessi aðferð undirstrikar þó þær miklu kröfur sem gerðar eru fyrir hvert það tilvik sem ætlunin er að ritskoða. Ef ríkið veit að stjórnarskráin veitir undanþágu gegn ritskoðunarbanninu er ríkið gjarnara á að nýta hana.

2. málsl. 3. mgr. er einnig hættulegur og af sömu ástæðu og 2. mgr., sérstaklega þegar kemur að „réttindum annarra“. Í þessum drögum stendur jafnframt að dómarar skulu eingöngu fara eftir lögum sem þýðir að lög geta tiltekið þessi ‚réttindi annarra‘ eða afbakað túlkun eðlilegra réttinda sem af öðru leyti myndu uppfylla nauðsynjaskilyrðið í málsgreininni.

Að lokum í þessari grein vil ég gagnrýna seinustu málsgreinina í þessari grein þar sem hún gefur færi á að fólk sé dæmt fyrir sönn ummæli þrátt fyrir rétt til tjáningarfrelsis. Fyrsta og önnur málsgreinin nefnir að hver og einn hafi rétt til að tjá sig með ákveðnum undantekningum. 4. málsgreinin nefnir hins vegar að hver og einn beri ábyrgð á framsetningu þess sem hann segir. Þótt tjáning sé leyfð samkvæmt 1.-3. málsgrein þessarar greinar þurfa allir að bera sérstaka ábyrgð á henni óháð því. Þar af leiðir geta sönn ummæli eða tjáning á persónulegri skoðun leitt til dóms yfir þeim sem tjáði sig.

15. grein:
Gagnrýnin við 2. málsgr. felst aðallega í spurningunni „hvað ef lög heimila að eyða skuli gögnum jafnóðum og þau hafa verið gerð?“. Slíkt myndi örugglega ekki baka Alþingi vinsældir ef slíkt yrði samþykkt en stjórnarskráin ætti að sama leiti ekki innihalda slíkan galla. Því myndi ég mæla með því að settur yrði lágmarkstími á tilvist gagna.

Þá myndi ég mæla með því að í greininni sé tekið fram að eigi skilyrðin í 4. mgr. við um hluta gagna, skuli samt sem áður birta þá hluta sem falla ekki undir þau. Jafnframt ætti að taka fram að úrræði skv. þessari grein skuli ekki takmarka aðgengi að gögnunum í lengri tíma en nauðsyn krefur. Engin gögn eigi að hafa ótakmarkaðan leyndartíma.

Taka þarf fram að þau gögn ríkisins sem það sjálf skapar, eða greiðir fyrir sköpun á, séu ekki varin höfundarétti. Tilgangur slíks ákvæðis væri til að koma í veg fyrir að ríkið beiti þeirri afsökun að dreifing sé takmörkuð vegna höfundaréttar. Ég hef persónulega lent í því í samskiptum við ríkið að það hafi beitt ákvæðum höfundalaga til þess að neita að afhenda gögn sem það skapaði. Höfundarréttur getur hæglega verið túlkaður sem takmörkun í lýðræðislegum tilgangi og því er betra að taka það sérstaklega fram að ríkið geti ekki átt höfundarétt á neinu, enda var greitt fyrir framleiðslu gagnanna með almannafé.

19. grein:
Í skýringum stjórnlagaráðs er farið mikið í sögu ákvæðisins í meðförum ráðsins og þau helstu rök sem ráðsfólk hefur beitt fyrir sér. En eins og stendur er þetta ákvæði frumvarpsins í mótsögn við jafnræðisreglu þess.

Þeirri rökleysu var varpað fram í skýringunum að „Hæstiréttur hafi komist að þeirri niðurstöðu að þjóðkirkjuskipan brjóti ekki í sjálfu sér í bága við trúfrelsisákvæði og jafnræðisreglur, enda eru þjóðkirkjur í mörgum löndum.“ Fyrst og fremst er þessu varpað fram án þess að nefna eitt einasta dæmi um land sem hefur þjóðkirkju og hefur sambærileg ákvæði um trúfrelsi og jafnræði. Í öðru lagi teljast það ekki rök að nefna að fyrst eitthvað ástand er líka annars staðar, þá sé það í lagi hér á landi. Hvort rökleysan sé af hálfu Hæstaréttar eða mistúlkun á orðum Hæstaréttar er hún langt í frá réttlæting á því að viðhalda þjóðkirkju.

Þeir mikilvægu atburðir á mannsævinni, eins og þeir eru kallaðir í skýringunum, eru ekki þjóðkirkjunni „að þakka“, að frátöldum fermingunum sem voru innleiddar í siðaskiptunum. Það er rétt að þjóðkirkjan hafi veitt þessa þjónustu en það gera líka aðrir aðilar, meðal annars opinberir aðilar og önnur trúfélög. Ríkisvernd þjóðkirkjunnar á ekkert að koma þessari þjónustu við og er eðlilegt að trúarlegar athafnir séu kostaðar af þeim sem eru í viðkomandi trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi en ekki af skattfé. Sé talið að lagaleg skylda þjóðkirkjunnar að veita þessa þjónustu sé réttlæting á broti gegn jafnræðisreglunni er réttmætara að afnema þessa lagalegu skyldu í stað þess að viðhalda þessu broti mikið lengur.

Stjórnlagaráð kveður á um að það sé ekki hlutverk ráðsins „að kveða í eitt skipti fyrir öll um samband ríkis og þjóðkirkju“ sem er auðvitað rétt að því leiti að stjórnlagaráð er ekki löggjafarvald. Ekkert stoppaði ráðið frá því að setja það fram í tillögum sínum til Alþingis sem síðar myndi íhuga hana.

Lögfræðileg niðurstaða stjórnlagaráðs um hvort brottfelling þjóðkirkjuákvæðisins í 62. gr. núverandi stjórnarskrár myndi þýða sjálfkrafa aðskilnað ríkis og kirkju eða ekki, er heldur ekki úthugsuð. Í fyrsta lagi er í þessum drögum mælt með því að fella út 62. grein og setja í staðinn það sem er í 19. grein. Því ætti, lagalega séð, 2. mgr. 79. gr. að virkjast og kalla á þjóðaratkvæðagreiðslu þrátt fyrir að það sé, að mati stjórnlagaráðs, ekki verið að breyta greininni efnislega. Greinin er breytt efnislega séð þrátt fyrir afneitun stjórnlagaráðs. Því er eins gott að stíga það skref að mæla með stjórnarskrárlegum aðskilnaði ríkis og kirkju. Í þriðja lagi ætti að vera augljóst að ef 62. grein myndi hverfa á brott og engin grein kæmi í staðinn myndi jafnræðisreglan gilda um afstöðu ríkisins til trúmála og því bæri ríkinu að hefja aðskilnað.

Lausn stjórnlagaráðs á að vera fólgin í því að gefa ríkinu heimild til þess að ákveða kirkjuskipan ríkisins en nefna að stórvægilegar breytingar á henni krefjist staðfestingar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Tilgangurinn er, samkvæmt skýringum stjórnlagaráðs, að gefa kost á aðskilnaði ríkis og kirkju. Hins vegar eru tvö atriði sem ekki eru tekin fyrir í skýringunum sem eru jafnframt möguleg. Fyrra er að það stoppi ekkert löggjafarvaldið til þess að skipta um trúfélag sem tæplega myndi bæta aðstæður til trúfrelsis. Það síðara er að þrátt fyrir að aðskilnaður fari í gegn er ekkert sem stoppar löggjafarvaldið frá því að leggja til að taka aftur upp ríkiskirkju, hvort sem það sé hin gamla þjóðkirkja eða annað trúfélag.

Einfaldast hefði verið fyrir stjórnlagaráð að mæla með beinum aðskilnaði með þessari grein til vara og láta síðan Alþingi eftir um að ákveða hvor leiðin skuli farin af hálfu löggjafarvaldsins.

20. grein:
Skilyrði greinarinnar um að félög skuli stofnuð í löglegum tilgangi án leyfis, setur ósanngjarnar byrðar á fólk. Með því að geta um löglegan tilgang er verið að veita löggjafarvaldinu heimild til þess að setja lög sem banna ákveðna flokka af félögum eða ákveðin félög. Um leið og löggjafarvaldið hefur slíka heimild getur það ákveðið af geðþótta (svo framarlega að félagið er ekki stjórnmálafélag eða stéttarfélag) hvort félag geti fengið að starfa opinberlega eða ekki.

Hvað kæmi annars í veg fyrir að félag myndi starfa undir yfirborðinu ef það yrði leyst upp með dómi? Það myndi eingöngu leysa ítök sem félagið hefði í hendi ef það byggir afkomu sína á því að vera opinbert. Yrði það nokkuð erfitt fyrir ríkið að koma í veg fyrir að fólk hittist saman þrátt fyrir fyrirliggjandi dóm.

26. grein:
Ef við eigum að hafa lært eitthvað af Falun Gong málinu, þá er að íslensk stjórnvöld eru afar gjörn á að hindra för útlendinga inn í landið og jafnvel án réttmætrar ástæðu. Einstaklingar hafa verið útilokaðir frá því að koma inn í landið fyrir það eitt að tilheyra ákveðnum hópi. Því vil ég leggja til eftirfarandi viðbót við 2. mgr:
„Engum útlendingi skal neitað að koma til landsins nema stórfelldur og rökstuddur grunur liggi fyrir um að tilgangur ferðar hans til landsins sé til að brjóta landslög.“

27. grein:
4. mgr. kveður um að sá sem er „sviptur frelsi af öðrum ástæðum en í tengslum við sakamál“ eigi rétt á því að dómari kveði um lögmæti frelsissviptingarinnar „svo fljótt sem verða má“. Get ég ekki skilið af hverju ekki séu settar sömu skorður og vegna þeirra sem eru sviptir frelsi vegna sakamála og að kveða eigi um lögmætið innan sólarhrings. Að sama skapi er ekki krafa við slíka frelsissviptingu að frelsissvipta manneskjan eigi rétt á að skjóta úrskurðinum til æðri dóms.

Seinasta málsgrein greinarinnar er beint úr núgildandi stjórnarskrá en ég tel við hæfi að þeir sem eru sviptir frelsi að ósekju eigi einnig rétt á miskabótum, sbr. tillögu mína til stjórnlagaráðs. Frelsissvipting er afar alvarlegt mál og þá sérstaklega ef það er framkvæmt af valdstjórninni. Skaðinn sem persóna hlýtur af henni er miklu meiri en sá sem orsakast af vinnutapi eða öðru fjárhagslegu tapi eða ómaki. Andlegi skaðinn er miklu alvarlegri og ætti því að taka fram að hver sem sviptur er frelsi að ósekju skuli einnig eiga rétt til miskabóta.

Einnig er vafi um merkingu hugtaksins ‚að ósekju‘ þar sem það getur verið þýtt sem ‚án réttmæts tilefnis‘. Ef dómari samþykkir gæsluvarðhald á grundvelli rökstudds gruns er mikil hætta á að ástæðan fyrir frelsissviptingunni hafi verið réttmæt og því ætti viðkomandi ekki rétt á bótum. Þá þykir rétt að taka fram að allir þeir sem sækja slík mál (þurfi þeir þess) skuli eiga rétt á gjafsókn.

28. grein:
Ákvæðin sem eru þegar í greininni eru, svo best ég veit, nokkuð fín. Þó mætti bæta við þau réttindi sem borgarar ættu að njóta fyrir dómstólum. Því legg ég til nokkrar auka málsgreinar:
„Í öllum sakamálum skal sakborningur hafa rétt á að gagnspyrja vitni sem bera vitni gegn honum, að kveða til vitna í hans þágu og njóta aðstoðar lögmanns honum til varnar.“

Núverandi stjórnarskrá er alls ekki gert ráð fyrir að þessum réttindum handa sakborningum og væri rétt að tiltaka þau í stjórnarskrá. Þetta ákvæði er byggt á 6. viðbót stjórnarskrár Bandaríkjanna. Réttinn til að gagnspyrja vitni er þegar núverandi dómaframkvæmd en hins vegar hafa verið gerðar tillögur af hálfu framkvæmdavaldsins til þess að afnema þann rétt í ákveðnum tilfellum. Rétturinn til að kveða til vitna er einnig mikilvægur en er ekki eins sterkur í núverandi réttarkerfi þar sem hægt er að komast hjá því að veita vitnisburð af torskiljanlegum ástæðum. Að lokum mæli ég með því að allir sakborningar skuli eiga rétt á verjanda. Þótt rík lagahefð sé fyrir slíku er þó alltaf hætta á að hann gæti verið afnuminn eða dregið úr honum. Öll þessi réttindi eiga heima í stjórnarskrá til að koma í veg fyrir að hægt sé að afnema þau með einfaldri lagasetningu.

Dæmi um afnám álíkra grundvallarréttinda var í Bandaríkjunum þar sem rétturinn habeus corpus var numinn úr gildi árið 2006. Sá réttur er sem betur fer bundinn í íslensku stjórnarskránni en ekki í þeirri bandarísku.

„Enginn skal neyddur til að bera vitni gegn sjálfum sér.“

Þessi réttur er afar óljós í íslenskum lögum og jafnvel í mannréttindasáttmála Evrópu. Þurfti til þess dóm Mannréttindadómstóls Evrópu árið 19961 til þess að koma slíkri lagaskyldu á. Í dómnum var meðal annars sagt:

„…the right to remain silent under police questioning and the privilege against self-incrimination are generally recognised international standards which lie at the heart of the notion of a fair procedure under Article 6.“

Þar sem Hæstiréttur er ekki bundinn af dómum Mannréttindadómstóls Evrópu er hann því ekki bundinn því að túlka lögin á sama hátt. Í lögum um meðferð íslenskra sakamála er eingöngu getið um þann rétt eins og hann sé afleiðing neitunar þess yfirheyrða en ekki óumdeilanlegan rétt hans. Við meðferð dómsmála minnist dómari eingöngu á þagnarréttinn þegar svarið gæti falið í sér beina játningu en ekki við upphaf skýrslutöku. Til að undirstrika mikilvægi þessa réttar ætti að geta hans beint í stjórnarskrá.

„Enginn skal sæta lögsókn né refsingu að nýju í dómsmáli fyrir brot sem hann hefur verið sýknaður af eða sakfelldur um með lokadómi samkvæmt lögum. Þó skal heimilt að taka mál upp að nýju á lokadómsstigi ef lokadómurinn var falsaður.“

Þetta ákvæði er kennt við ‚double jeopardy‘. Afstaða stjórnlagaráðs við tillögu minni um að setja það inn er ekki ljós. Ákvæðið er byggt á 4. gr. 7. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu með þeirri mikilvægu breytingu að ákvæðið eigi ekki bara við um sakamál. Einnig ákvað ég að leggja til seinni málsliðinn sem sækir fyrirmynd sína í franska refsiréttarlöggjöf.

29. grein:
Fyrsta málsgreinin er lítið annað en endurtekning á ákvæðinu um meðfæddan rétt til lífs. Get ég ekki séð að ákvæðið um bann við dauðarefsingu bæti neinu við sem ákvæðið um meðfæddan rétt til lífs gerir ekki. Er því um tvítekningu að ræða.

Í þessu sambandi vil ég leggja til að ákvæðið nái einnig yfir sektir og bætur, í anda 8. viðbót bandarísku stjórnarskrárinnar. Þar er til dæmis bannað að leggja sektir eða bætur sem eru óeðlilega háar miðað við ætlaðan skaða sem af brotinu hlaust. Sá sem stelur einu epli gæti ekki verið dæmdur til þess að greiða heila milljón í sekt fyrir það eitt. Viðbótin, mögulega við 2. mgr., gæti hljómað svo:
„Ekki skal leggja óhæfilega þungar sektir, né heldur beita óvenjulegum refsingum.“

Skýringar stjórnlagaráðs nefna meðal annars að tilgangurinn með 3. mgr. sé ekki að útiloka „venjulega vinnu fanga eða samfélagsþjónustu sem refsitegund“. Skilningur minn með þessu sé að fangar geti ekki verið neyddir til þess að vinna né sé hægt að dæma einhvern til þess að vinna samfélagsþjónustu enda hafi þeir aðilar val um framkvæma ekki slíka vinnu kjósi þeir svo.

39. grein:
9. gr. kveður á um að í kosningalögum skuli greina hvernig stuðla eigi að jöfnu kynjahlutfalli á Alþingi. Hvernig slíkt er framkvæmt án þess að hafa stórfelld áhrif á lýðræðislegt val kjósenda er torséð. Sé ekki ætlunin að hafa slík áhrif ætti að nægja að hafa eingöngu venjulega lagaheimild fyrir slíku. Þær leiðir sem stjórnlagaráð tekur fram í skýringum sínum eru annaðhvort ólýðræðislegar eða sýndargerningur.

Sé sú leið sem er farin að skylda framboð til að hafa sem jafnasta kynjahlutfall á listum sínum er verið að grípa inn í stjórn félaga sem hafa mikilvægt lýðræðislegt hlutverk en það myndi stríða gegn félagafrelsisákvæði frumvarpsins með því að beita afskiptum af innri viðum félaganna.

Fléttulistar eru einnig þeim vandkvæðum búnir að vera óeðlileg afskipti af vali stjórnmálaflokka á því hvaða einstaklingar eru í hvaða sæti. Fyrrnefndur sýndargerningur væri falinn í því ef slík röðun væri einungis til leiðbeiningar og hafi engar afleiðingar í sætaúthlutun.

Þriðja leiðin sem stjórnlagaráð nefnir er að úthluta sætunum í jöfnu kynjahlutfalli „hvað sem líður fylgi einstakra frambjóðenda“. Slíkt myndi hafa alvarlegar afleiðingar og gæti haft gríðarlega neikvæðar lýðræðislegar afleiðingar þar sem einstaklingar með lítið fylgi en eru af „réttu kyni“ gætu hlotið sæti á Alþingi.

Þessar lausnir sem stjórnlagaráð varpar fram þurfa ekki að vera einu lausnirnar en miðað við það sem hefur komið fram hef ég litla trú á að Alþingi komi með lausn sem er betri en það sem stjórnlagaráð hefur komið með. Hingað til hefur löggjöf Alþingis í þessum málum litast af því að tilgangurinn helgi meðalið sem er einmitt það sem á að forðast í stjórnarskrá. Auk þess er hér verið að gefa Alþingi of víða lagaheimild til þess að hafa áhrif á kosningar.

42. grein:
Ákvæði greinanna gera ekki ráð fyrir því að banna forseta Íslands að bjóða sig fram til Alþingis.

44. grein:
Samanber ábendingu mína við stjórnlagaráð er mögulegt að úrslit alþingiskosninga tefjist um meira en tvær vikur og þá sérstaklega ef framkvæma þarf uppkosningar. Einnig getur landskjörstjórn ógilt kosningarnar eða þær geta verið ógildar af hálfu dómsvaldsins. Í slíkum tilfellum er mögulega ekki hægt að komast hjá því að brjóta þetta ákvæði stjórnarskrár. Slíkan fyrirsjáanlegan vanda hefði stjórnlagaráð átt að leysa í stað þess að gera ráð fyrir að ekkert fari úr skorðum.

50. grein:
Gæta þarf þess að til séu refsiákvæði ef þingmaður verður ekki við því að tilkynna um mögulegt vanhæfi sitt ef honum er það ljóst eða ætti að vera það ljóst að þörf sé á slíkri tilkynningu. Annars er hætta á að þingmenn hafi lítinn hvata til þess að játa vanhæfi sitt í málum sem þeir annars hefðu ekki tekið þátt í skv. þessu ákvæði.

Þá mælti ég með því við stjórnlagaráð eftirfarandi ákvæði:
„Alþingismönnum er óheimilt að hafa með höndum önnur launuð störf á vegum framkvæmdavalds eða dómsvalds á meðan þeir gegna embættinu. Sama gildir um störf í þágu einkafyrirtækja þó ólaunuð séu.“

Álíka grein er í þessum drögum fyrir ráðherra og forseta en engin fyrir þingmenn.

52. grein:
Ekki er tekið fyrir í greininni hvað gerist ef enginn nær kosningu þingforseta en í skýringunum er tekið fram að ef slíkt væri tekið fyrir væri það misnotað. Gerist sá atburður að enginn einn frambjóðandi til forseta Alþingis nái 2/3 hluta atkvæða er stjórnlagaráð því óbeint að setja á svið möguleika á stjórnarkreppu. Séu þingmenn þá neyddir til þess að semja um hver verði þingforseti og í slíkum samræðum er hætta á ofríki hópa því sá hópur sem hefur úr að ráða meira en 1/3 hluta atkvæða gæti hótað að kjósa engan annan sem þingforseta en þann sem þeir vilja að hljóti kosningu. Ef þingmaður úr þingflokki nær kjöri er samt hætta á að hann hagi afgreiðslu þingmála þannig að mál hans þingflokks hljóti hraðari afgreiðslu en mál annarra.

Stjórnlagaráð tók ekki tillögu mína gilda um að bæta við ákvæði sem skyldaði þingforseta til þess að sjá til þess að öll þingmál séu afgreidd á jafnræðisgrundvelli. Það skiptir máli, sérstaklega ef þingforseti er í ákveðnum þingflokki þegar hann er kjörinn.

56. grein:
Í anda aðskilnaðs löggjafarvalds og framkvæmdavalds mæli ég með því að ráðherrar geti ekki lagt fram lagafrumvörp eða tillögur til ályktana. Eðlilegur farvegur væri að ráðherrar þyrftu að koma þeim á framfæri við viðeigandi þingnefndir þar sem þingmenn hennar geta mælt fyrir þeim fyrir Alþingi eða við einstaka þingmenn.

Einnig mæli ég með því að ekki megi takmarka heildarræðutíma þingmanna. Í það minnsta ætti ekki að vera hægt að takmarka ræðutíma í seinustu umræðu þingmáls. Vísa ég þá í erindi mitt til stjórnlagaráðs á sínum tíma:

„Ég tók eftir því þegar ég horfði á sumar umræður á Alþingi að þingmenn kvörtuðu yfir því að þeir hefðu alltof knappan tíma til flytja mál sitt og sömuleiðis alltof knappan tíma til andsvara. Það leiddi til þess að þeir höfðu ekki þann tíma sem þingmálið krafðist til að gagnspyrja meðþingmenn sína. Einnig tók ég eftir því í umræðum um vantraust á ríkisstjórnina að þingforseti ákvað að gefa sérvöldum þingmönnum rétt til að tjá sig um málið og nefndi að andsvör væru ekki leyfð. Hvort sem fólk er sammála þessari tillögu eða ekki á Alþingi samt að hafa ráðrúm til að gera upp hug sinn.“

Mælti ég því með eftirfarandi viðbót í erindi mínu:
„Eigi má takmarka ræðutíma alþingismanna á Alþingi. Jafnframt skulu alþingismenn hafa rétt til og rúman tíma til andsvara.“

57. grein:
Til að gefa þingmönnum færi á að kynna sér lagafrumvörpin, sem er einn tilgangur þess að ferill lagafrumvarpa hefst í nefndum, skv. skýringum greinarinnar, væri betra að hafa ákvæði sem myndi gefa þingmönnum frekara tækifæri til þess að kynna sér efni þeirra og ræða sín á milli áður en framsöguræða hefst. Því myndi ég telja það eðlilegt ef sett yrði í stjórnarskrá að umræða mætti ekki hefjast áður en 2 sólarhringar eru liðnir frá dreifingu frumvarpsins. Engar undanþágur yrðu á því ákvæði til að koma í veg fyrir að málum sé ýtt í gegnum þingið án þess að þingmenn geti skoðað þau og tekið upplýsta ákvörðun.

Einnig mælti ég með málfarsbreytingu í lok greinarinnar til stjórnlagaráðs en hún var ekki tekin til greina. Seinasta mgr. yrði svo:
„Frumvörp sem hafa ekki hlotið lokaafgreiðslu við lok kjörtímabils skulu falla niður. “

58. grein:
Sbr. ummæli í seinstu efnisgrein við 57. gr. tillagnanna mæli ég með sömu málfarsbreytingu og áður við 3. mgr., sem yrði svo:
„Tillögur til þingsályktana sem hafa ekki hlotið lokaafgreiðslu við lok löggjafar þings skulu falla niður.“

Þó myndi ég að auki mæla með því að þingsályktunartillögur, í samræmi við lagafrumvörp, falli niður við lok kjörtímabils en ekki löggjafarþings. Stjórnlagaráð nefnir í skýringum sínum að „Í þessu felst ákveðin minnihlutavernd þar sem þingmenn geta þá tekið tillögur sínar upp að nýju og vakið athygli á þeim á hverju þingi í stað þess að hafa þær fastar í nefnd til loka kjörtímabils eins og ella gæti verið hætta á. “ Hins vegar er sama hætta með lagafrumvörp en samt sem áður telur stjórnlagaráð að þau eigi ekki að falla niður fyrr en í lok kjörtímabils. Það er ekki hægt að hafa súkkulaðikökuna og borða hana líka, eins og enskt máltæki segir. Séu mál afgreidd á jafnræðisgrundvelli þyrfti ekki að hafa miklar áhyggjur af slíku þar sem þingmál meiri hlutans myndu heldur ekki fá afgreiðslu úr viðkomandi nefnd.

59. grein:
Við þessa grein er aðallega tvennt að athuga:
Fyrst er hættan á fjarveru þingmanna við atkvæðagreiðslur og geta þingmál verið samþykkt með einu atkvæði meira en fjórðung þingmanna. Í tilviki 63ja þingmanna þurfa eingöngu 32 að vera viðstaddir og af þeim þurfa 17 að greiða með samþykki máls til að það verði bindandi. Slíkt getur verið afar ólýðræðislegt þar sem mörg álitamál hafa verið samþykkt af slíkum minnihluta alþingismanna. Einnig hafa ráðherrar nýtt sér ákvæðið undanfarinn áratug til þess að vera fjarverandi afgreiðslu mála.

Lagði ég til við stjórnlagaráð að mál hljóti ekki samþykki nema meiri hluti alþingismanna samþykki þau, þ.e.a.s. 32 ef þeir eru 63 að tölu. Kom þá fram sú skoðun að slíkt geti leitt til skoðanakúgunar meiri hlutans gagnvart meiri hlutanum þar sem hann getur komið í veg fyrir afgreiðslu mála með því að vera fjarverandi. Slík rökfærsla heldur vart vatni því ef meiri hlutinn er fjarverandi er hann væntanlega ekki samþykkur framgöngu málsins og því hefði það ekki verið samþykkt hvort sem er.

Í framhaldi af þeirri tillögu mæli ég með eftirfarandi ákvæði sem ætti að hvetja þingmenn til þess að mæta:
„Þingmönnum ber skylda að mæta á atkvæðagreiðslur nema nauðsyn banni. Atkvæðagreiðslur skulu tilkynntar þingmönnum með fullnægjandi fyrirvara. Almennir borgarar skulu hafa heimild til þess að kæra fjarveru þingmanna frá atkvæðagreiðslu og skulu Alþingismenn eigi hljóta friðhelgi vegna fjarvistarkæra.“

Ákvæðið er margþátta. Í fyrsta lagi er lögð nær ófrávíkjanleg skylda þingmanna til þess að mæta á atkvæðagreiðslur, að viðlagðri refsiábyrgð ef þeir mæta ekki. Undanþágur frá þessu eru aðstæður eins og þeirra eigin veikindi, veikindi annarra eða aðrar réttmætar aðstæður sem banna þeim að mæta. Atkvæðagreiðslur eiga að vera með fyrirvara svo ekki sé hægt að tilkynna fyrirvaralausa atkvæðagreiðslu og refsa þeim þingmönnum sem gátu ekki verið viðstaddir með þeim fyrirvara sem gefinn var. Rétt er að geta þess að almennir borgarar geti kært fjarveru þingmanna, enda eru þeir vinnuveitendur þingmanna, og til að koma í veg fyrir að slíkt vald sé eingöngu í höndum aðila sem er ólíklegur til þess að kæra. Að lokum er betra að taka fram að slíkar kærur hljóti eigi friðhelgi svo Alþingi geti ekki hindrað framgöngu slíkra kæra.

60. grein:
Læt ég það nægja að vísa í hluta af umsögn minni til stjórnlagaráðs um það atriði:

„Mæli með því að frumvarpið fái *ekki* lagagildi. Ef [Alþingi] samþykkir frumvarp sem veitir einhverjum réttindi og þjóðaratkvæðagreiðslan fer þannig að það er ekki samþykkt, þá geta þeir sem fengu téð réttindi farið í mál við íslenska ríkið og fengið bætur fyrir töpuðum réttindum.“

Hættan við að frumvarp hljóti lagagildi er sú að meiri hluti umræðunnar geti farið að snúast um það hvort íslenska ríkið ætti að bæta tap þeirra sem öðluðust réttindin sem lögin veittu eða leyfa þeim að halda réttindunum áfram. Atkvæðagreiðslan ætti að snúast um það hvort þjóðin vilji t.d. veita ákveðnum aðilum téð réttindi en það yrði of seint ef þeir hafa þegar fengið þau.

61. grein:
Samkvæmt orðanna hljóðan er hægt að beita þjóðréttarsamningum með íþyngjandi hætt fyrir birtingu þeirra. Gefur þetta íslenska ríkinu færi á að skrifa undir leynilega þjóðréttarsamninga en slíkt gengi gegn anda opins þjóðfélags.

63. grein:
Greinin er góð en mætti bæta við eftirfarandi aftan við 2. málsliðinn:
„ og skal hún skila áliti sínu innan hæfilegs tíma.“

Er þessi tillaga byggð á því að komast hjá því að hægt sé að svæfa slíka könnun í nefndinni og minnka hættuna á að meint brot séu fyrnd áður en álit nefndarinnar liggur fyrir.

65. grein:
Mæli ég með því að tímasetningin sem miðað er við í 2. málsl. 1. mgr. sé frá birtingu laganna. Trassist að birta lög (sem getur gerst vegna gleymsku eða með vilja) og þau ekki birt í tæka tíð fyrir 3ja mánaða frestinn er hætta á að almenningur hafi ekki nægan frest til að safna þeim fjölda undirskrifta sem þarf til að knýja um slíka atkvæðagreiðslu.

66. grein:
Seinasti málsliðurinn í 2. mgr. bendir til þess að reglan skuli vera að þjóðaratkvæðagreiðslan skuli vera ráðgefandi nema annað komi fram.

Í skýringum er gefið til kynna að 1. mgr. sé svokallaður tillöguréttur þar sem 2% kjósenda geti lagt fram tillögu að þingmáli en 2. mgr. inniheldur ákvæði um þingmál sem skylda er fyrir þingið að taka, svo framarlega sem 10% kjósenda standi að baki því. Skýringarnar eru eingöngu túlkunarlega eðlis og geta ómögulega komið í stað þess að þessi tvö hugtök eru orðuð á sama hátt í 1. málsliðum beggja málsgreina. Það er ekkert sem gefur til kynna í lagatextanum að þingmál 2% kjósenda séu eingöngu tillögur að þingmálum og þarf ekki að taka fyrir frekar en þingið vill. Séu þær eingöngu tillögur væri einfaldara að spyrja hvern og einn þingmann ef hann vill flytja málið fyrir þeirra hönd sem væri líklegra til árangurs en að safna undirskriftum 2% kjósenda í von um að þingið vilji taka það fyrir.

67. grein:
Fyrsti málsliður 1. mgr. getur þess að mál þau er lögð geta verið í þjóðaratkvæðagreiðslu skulu varða almannahag. Skýringar stjórnlagaráðs kveða á um að þetta sé til þess að koma í veg fyrir að krafist sé þjóðaratkvæðagreiðslu vegna laga er varða einkamálefni einstaklinga eða þrönga hagsmuni einstakra hópa. Telur stjórnlagaráð að ekki sé eðlilegt að almenningur geti tekið ákvörðunum slík málefni. Í fyrsta lagi eiga öll lög, siðfræðilega séð, að varða almannahag. Geri þau það ekki er réttmætt að efast um tilvistarrétt þeirra. Í öðru lagi fer misnotkun venjulega fram með lagasetningu er varða þröngan hóp einstaklinga eða einkamálefni. Þetta ákvæði hefði til dæmis ekki komið í veg fyrir afskipti almennings að eftirlaunafrumvarpinu fræga sem forseti Íslands samþykkti á sínum tíma en það vakti mikla hneyksli á sínum tíma.

Ástæður stjórnlagaráðs til þess að mæla fyrir undanþágum á rétti kjósenda til þess að skjóta máli til þjóðarinnar eða þingmálum sem kjósendur geta lagt fram, teljast ekki fullnægjandi að mínu mati. Verið er að vernda afar þröngan flokk mála með of víðum skilgreiningum.

Almenningur á að hafa rétt á að hafa áhrif á öll lög landsins, enda telur almenningur að Alþingi sé ekki að sinna starfi sínu á fullnægjandi hátt. Með því að taka fram 5 víðskilgreinda flokka málefna er verið að útiloka helstu umdeildu efnin frá almenningsáhrifum. Það er rétt að sumt ætti ekki að vera á forsjá almennings en ef Alþingi endurspeglar almenning er það á sama stað, nema þá er það miklu takmarkaðri fjöldi einstaklinga en ella sem sér um þá málaflokka sem undanskildir eru.

Margar ástæður eru til fyrir því að almenningur eigi rétt á að hafa áhrif á þá málaflokka sem undanskyldir eru. Nái til dæmis spillt Alþingi völdum gæti það samþykkt fjárlög eða fjáraukalög uppfull af eiginhagsmunadóti sem almenningur hefur enga leið til að losna við nema kjósa nýtt Alþingi eða framkvæma byltingu. Sama gildir um skattamálefni þar sem fátt kemur í veg fyrir að Alþingi samþykki ósanngjarna skatta sem almenningur er alls ekki sáttur með. Réttlætingin að slíkt sé í framkvæmd annars staðar er ekki réttlæting fyrir sömu framkvæmd á Íslandi.

Engin réttlæting liggur fyrir upptalningu stjórnlagaráðs á málefnum er varða ríkisborgararétt. Þar sem ekki er hægt að svipta íslenskum ríkisborgara ríkisfanginu sínu eru slík mál þegar undanþegin afskiptum almennings skv. 65. gr. og 66. gr. (og 60. gr. hljóti lög gildi þrátt fyrir synjun forseta). Einu málin sem geta komið til greina eru því ríkisborgaramálefni sem koma að veitingu ríkisborgararéttar eða meðför hans. Þetta eru tvö svið sem Alþingi þarf á aðhaldi að halda sem og á öðrum sviðum. Nýleg umræða um veitingu ríkisborgararéttar til ríkisbubba gegn skuldbindingu um fjárfestingu er dæmi um slíkt mál.

Að lokum er það upptalningin á lögum „sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum“. Samanber ábendingu mína til stjórnlagaráðs myndi slík heimild tefla lýðræðislegu úrræði almennings skv. 65. gr. og 66. gr. í hættu. Gangi Ísland í ESB tekur íslenska ríkið á sig skyldur til þess að innleiða lög og reglugerðir þess og myndi Ísland vera skuldbundið samkvæmt þjóðarrétti til þess að gera það. Almenningur getur því ekki haft nein úrræði fyrir utan málskot forseta til þess að kjósa um lög sem sett eru með tilvísun í ESB samninginn. Sama gildir ef Ísland heldur sig í EES en þó ekki í jafn ríkum mæli og ef það gengur í sambandið.

Með framangreint að leiðarljósi tel ég það miklu hættulegra að þessar undanþágur séu gefnar upp til að koma í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu.

68. grein:
Í tillögum mínum til stjórnlagaráðs mælti ég með eftirfarandi viðbót:
„Nú hafa fjárlög eigi verið samþykkt fyrir tímabil sem gengið er í garð. Er þá eingöngu heimilt að verja fjármunum ríkisins í starfsemi sem nauðsynleg er til reksturs þess og til verndar stjórnarskrárvörðum réttindum eftir því sem nauðsyn krefur.“

Helstu ástæður þess að stjórnlagaráð vildi telja upp fjárlög í 67. gr. voru þær að almenningur gæti ekki stöðvað starfsemi ríkisins með því að afnema fjárlög í þjóðaratkvæðagreiðslu. Með þessari viðbót er verið að girða fyrir það auk þess að koma í veg fyrir hið sama ef fjárlög eru ekki samþykkt fyrir upphaf tímabilsins.

75 grein:
Geri eftirfarandi tillögu að úrbótum á þessari grein, sbr. erindi mitt til stjórnlagaráðs:

„Mæli með því að umboðsmaður geti farið í mál við stjórnvöld ef þau hlýta ekki fyrirmælunum. Jafnframt geti stjórnvöld leitað til dómstóla til að fá úr því skorið hvort þau verði að hlýta þeim eða ekki.“

85. grein:
Geri ég sömu tillögu tillögu og til stjórnlagaráðs, sem er svohljóðandi:

„Hér vil ég mæla með því að þessi takmörkun nái einnig til annarra embættismanna ef þeir hafa verið dæmdir fyrir brot í starfi. Það var t.d. reynt í Bandaríkjunum fyrir einhverjum árum síðan að nefnd var að rannsaka meint brot forsetans en embættismenn neitað að koma fram fyrir nefndina. Þeir voru því sekir um ‚impeachment‛ en forsetinn náðaði þá síðan jafnóðum. Sem betur fer tók stjórnarskráin það fram að forsetinn gæti ekki náðað fyrir slík brot. Með þessari tillögu vil ég tryggja að slíkt gerist ekki hér á landi.Einnig vil ég setja athugasemd varðandi partinn þar sem tillögu ráðherra þarf til að náða menn eða veita almenna uppgjöf saka. Ráðherrann sem fer með málefni [ákæru-] og rannsóknarvalds (núna innanríkisráðherra) er skv. stöðu sinni vanhæfur til að geta lagt hlutlaust mat á hvort skilyrði náðunar eða sakauppgjafar séu uppfyllt. Ekki skil ég af hverju ráðherra ætti að vera í þessu nema tilgangurinn sé að forsetinn geti ekki náðað fólk án frumkvæðis annarra.“

86. grein:
Árétta þarf í 3. mgr. að um er að ræða sé að ræða heildartíma en ekki samfleyttan tíma, þá sé ekki hægt að vera yfir einu ráðuneyti í 8 ár, fara yfir í annað ráðuneyti í einn dag eða viku og síðan aftur til baka í mögulega 8 ár.

91. grein:
Við 2. mgr. mæli ég með eftirfarandi viðbót:
„Sé vantraust samþykkt á ráðherra skal hann ekki eiga afturkvæmt í ráðherraembætti út kjörtímabilið.“

Er þetta í samræmi við framkvæmd annarra stjórnarskráa og til að tryggja að forsætisráðherra geti ekki endurskipað ráðherrann strax eða veitt honum annað ráðherraembætti síðar á sama kjörtímabili.

95. grein:
Taka ætti fram lágmarksfyrningartíma ráðherraábyrgðar svo ekki sé hægt að lækka hann óhóflega samkvæmt lögum. Ákvæðið gæti hljómað svo:
„Meint embættisbrot sem heyra undir ráðherraábyrgð skulu eigi fyrnast fyrr en 5 árum eftir næstu reglulegu alþingiskosningar.“

Ástæðan fyrir því að ég legg til 5 ár er til að koma í veg fyrir að stórfelld brot, sem til dæmis valda efnahagsglundroða, geti ekki gert löggjafarvaldið svo upptekið við að bjarga efnahagnum að það hafi ekki tíma til að rannsaka meint embættisbrot. Rannsókn eða björgun undan því ástandi sem embættisbrot geta valdið gætu tekið heilt kjörtímabil og einnig er hætta á því að áhrif spilltrar ríkisstjórnar ráði því að Alþingi taki málið ekki fyrir á því kjörtímabili sem hún er við völd. Þó ráðherrar hafi ekki atkvæðarétt geta þeir samt sem áður haft nógu mikil áhrif á samflokksfólk sitt til þess að komast annars hjá saksókn.

113. grein:
1. mgr. greinarinnar er fín en hins vegar varpar 2. mgr. skugga á ágæti greinarinnar í heild. Skýringar stjórnlagaráðs kveða á um að dæmi um notagildi slíkrar undanþágu væri að innleiða minni háttar þjóðréttarsamninga. Hins vegar má réttilega koma með þau mótrök að þjóðarréttarsamningur sem myndi krefjast breytinga á stjórnarskrá væri alls ekki minniháttar. Almenningur á þar að auki að hafa tækifæri til að hafa áhrif á stjórnarskrá sem hann er skyldugur til þess að hlýta, sbr. önnur ákvæði hennar. Breytingar á stjórnarskrá varða alla sem á landinu búa, ekki bara fólkið á Alþingi.

Mæli ég með því að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd íhugi þau atriði sem ég ber fram í þessari umsögn og leggi fram breytingar í samræmi við þau.

1Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu, Murray v. UK, 1996

102. gr. umferðarlaga brýtur gegn Mannréttindasáttmála Evrópu

Umfjöllun Pressunar um mál Hildar Líf veitti athygli minni að dómi héraðsdóms í máli hennar en þar er vísað til 102. gr. umferðarlaga. Í greininni var sagt að fjarvera hennar var ígildi játningar og vildi ég athuga hvort tilvísuð lög nefndu þetta beint eða hvort þetta væri svokallaður útivistardómur (dæmt þrátt fyrir fjarveru þess sem er borinn sökum). Því miður hef ég ekki texta dómsins sjálfs nema það sem kemur fram á Pressunni en ég rakst samt á áhugaverð ákvæði í 102. gr. umferðarlaga:

1. mgr. Nú hefur stjórnandi vélknúins ökutækis brotið gegn ákvæðum 1. mgr. 45. gr. eða 45. gr. a eða neitað að veita atbeina sinn við rannsókn máls skv. 3. mgr. 47. gr. og skal hann þá sviptur ökurétti. Ef sérstakar málsbætur eru og ökumaður hefur ekki áður gerst sekur um sams konar brot eða annað verulegt brot gegn skyldum sínum sem ökumaður má sleppa sviptingu ökuréttar vegna brota á ákvæðum 1. mgr. 45. gr., sbr. 2. mgr. þeirrar greinar, eða 45. gr. a.
2. mgr. Neiti stjórnandi vélknúins ökutækis að veita atbeina sinn við rannsókn máls skv. 3. mgr. 47. gr. skal svipting ökuréttar eigi vara skemur en eitt ár.

Skoðum nú hver þessi 3. mgr. 47. gr. er:

Lögregla annast töku öndunar-, svita- og munnvatnssýnis. Læknir, hjúkrunarfræðingur eða lífeindafræðingur annast töku blóðsýnis og eftir atvikum munnvatns-, svita- og þvagsýnis. Ökumanni er skylt að hlíta þeirri meðferð sem talin er nauðsynleg við rannsókn skv. 2. mgr.

Í framhaldi af þessu þurfum við að rekja leið okkar í 2. mgr:

Lögreglan getur fært ökumann til rannsóknar á öndunar-, svita- og munnvatnssýni eða til blóð- og þvagrannsóknar ef ástæða er til að ætla að hann hafi brotið gegn ákvæðum 2. eða 4. mgr. 44. gr., 45. gr. eða 45. gr. a eða hann neitar lögreglunni um að gangast undir öndunarpróf eða láta í té svita- eða munnvatnssýni eða er ófær um það. Liggi fyrir grunur um önnur brot en akstur undir áhrifum áfengis getur lögreglan auk þess fært ökumann til læknisskoðunar. Sama á við þegar grunur er um akstur undir áhrifum áfengis og sérstakar ástæður mæla með því.

Skv. 1. mgr. (tölulið d) sömu greinar getur lögreglan stöðvað mig vegna umferðareftirlits og krafist þess að ég gangist undir öndundarpróf og láta í té svita- og munnvatnssýni. En ef ég neita þeirri beiðni (segjum að ég sé alveg edrú) get ég verið sviptur ökurétti í heilt ár og verið ákærður fyrir að vera ósamvinnuþýður.

Hins vegar eru önnur lög sem mæla gegn þessari meðferð en það er Mannréttindasáttmáli Evrópu (MSE). En eins og margir vita fer íslenska ríkið bara eftir alþjóðlegum mannréttindasáttmálum eftir hentisemi. Lagasetning hér á landi er sérlega óvönduð og þó handbók stjórnarráðsins um samningu frumvarpa geti t.d. á um athugun á samræmi þeirra við stjórnarskrá er það bara tikkbox sem alltaf er hakað í.

En þvi miður vandast málin þar sem MSE nefnir svokallaðan þagnarrétt (e. „right to silence“) ekki beinum orðum, heldur er hann afleiðing dóms Mannréttindadómstóls Evrópu þar sem hann túlkar 6. grein sáttmálans. Mat hans á því er:

„…the right to remain silent under police questioning and the privilege against self-incrimination are generally recognised international standards which lie at the heart of the notion of a fair procedure under Article 6.“

Þetta voru dómsorð hans í málinu Murray v. UK frá 1996. En nú er líklegt að einhver segi „en lögin voru sett 1987 og dómurinn var kveðinn eftir það“. Það er skiljanleg pæling en þá myndi ég spyrja spurningarinnar „af hverju er þetta enn þá í lögunum?“. Fyrir utan það var þessu bætt við umferðarlögin árið 2006, um 10 árum eftir dóm mannréttindadómstólsins.

En í hverju felst þessi þagnarréttur? Hann felst bæði í því að vera ekki neyddur til að bera vitni gegn sjálfum sér ásamt því að vera ekki neyddur til að útvega sönnunargögn gegn sjálfum sér. Því á lögreglan ekki að geta neytt fólk til að gangast undir slíka sýnatöku nema nægar grunsemdir séu sem réttlæti sýnatökuna. Séu engin merki um að viðkomandi sé brotlegur um lög á lögreglan ekki að hafa rétt á að beita íþyngjandi aðgerðum gegn þeim einstaklingi.

Það kæmi mér ekki á óvart ef það væru margir staðir í íslenskum lögum þar sem mannréttindasáttmálar eru brotnir eftir hentugleika.

Fyrstu frumvarpsdrög stjórnlagaráðs

Stjórnlagaráð hefur nú opinberað fyrstu drög sín að frumvarpi að nýrri stjórnarskrá og verð ég að segja að ég er í heildina afar vonsvikinn. Fyrst vil ég taka það fram að sumar tillögurnar sem koma fram eru afar góðar eins og t.d. greinin um upplýsingafrelsi. Sumar tillögur eru góðar en mættu ganga lengra og sumar aðrar gera hlutina verri en áður.

Þessi umfjöllun mín gildir um frumvarpsdrögin eins og þau voru þegar greinin var rituð og þau geta auðvitað tekið breytingum eftir því sem líður á þegar stjórnlagaráð vinnur frekar með þær. Ég hef ritað athugasemdir við hverja grein sem ég sá ástæðu til að setja athugasemd við svo stjórnlagaráð mun (vonandi) íhuga þær og að mínu leiti vona ég að það bæti drögin til hins betra.

Það er ekki ætlun mín að skrifa um hverja einustu grein þótt það gæti litið út fyrir það í upphafi. Best er að lesa greinina og hafa frumvarpsdrögin við hendina til að vita hvað ég á við í hvert sinn.

Aðfaraorðin

„Stjórnvöld skulu vinna að velferð íbúa landsins, efla menningu þeirra og virða margbreytileika mannlífs, lands og lífríkis.“

Skv. athugasemdum sem hafa borist um  4. gr. draganna er fólk að spyrja hvað margbreytileiki þýði. Eftir smá Google leit fann ég út að það merki að hér sé átt að virða það að enginn er alveg eins og ættum við að virða það. Betra orð í þessu tilfelli væri fjölbreytileiki. Ég hef ekki hugmynd hvaðan orðið margbreytileiki kemur.

Þótt textinn hafi eingöngu túlkunarlegt gildi þegar kemur að afgangnum af stjórnarskránni verð ég að gagnrýna ætlað hlutverk stjórnvalda til að efla menningu íbúa landsins. Af hverju ætti það að vera hlutverk stjórnvalda að gera það? Er ekki betra að íbúar landsins þrói sína eigin menningu án afskipta stjórnvalda?

Undirstöður

1. grein. Handhafar ríkisvalds
Sé að stjórnlagaráð treystir almenningi ekki fyrir því að kjósa framkvæmdavaldið beint. Einnig tek ég eftir því að það er sérstaklega nefnt að ráðherrar, ríkisstjórn og önnur stjórnvöld fari með framkvæmdavaldið ásamt forseta Íslands. En samt sem áður á forsetinn að hafa málskotsrétt (58. grein), sem er réttur tengdur löggjafarvaldinu. Sömuleiðis á forseti Íslands að stefna saman Alþingi og setja það hvert ár (44. grein).

2. grein. Yfirráðasvæði
Í greininni er hættulegt ákvæði sem nefnir að „[m]örk íslenskrar landhelgi, lofthelgi og efnahagslögsögu skulu ákveðin með lögum“. Samkvæmt þessu getur Alþingi ákveðið að minnka eða færa yfirráðasvæðið án þess að varnagli sé til staðar sem kemur í veg fyrir slíka umsýslan á því. Tja, nema forseti og þriðjungur þingmanna, en þeir varnaglar eru því sem næst gagnslausir. Lögin hljóta lagagildi þrátt fyrir synjun forseta (sem þýðir að yfirráðasvæðið breytist samt sem áður) og þótt lögin séu numin úr gildi myndi það þýða að áhrifin væru svo að við værum að taka yfirráðasvæðið aftur. Þriðjungur þingmanna (ef það fylgi næst) mun ekki hafa rétt til þess að skjóta frumvarpinu til þjóðaratkvæðagreiðslu af ástæðum sem ég mun fara nánar í í tengslum við þá grein (þá 65.).

3. grein. Ríkisborgararéttur
Afar góð grein en þó með túlkunarlegan galla sem ég kom á framfæri við stjórnlagaráð. Hann felst í því að fólk sem flyst til útlanda og er með íslenskan ríkisborgararétt eignast síðan börn. Ef þau hljóta ríkisborgararéttinn sjálfkrafa munu börnin þeirra jafnframt hljóta hann sjálfkrafa. Áhrifin eru að á endanum mun hver einasti jarðarbúi hafa íslenskan ríkisborgararétt. Þann vanda er hægt að leysa með því að hafa í lögum að þeir sem hafa íslenskt foreldri með lögheimili á Íslandi skulu sjálfkrafa hljóta ríkisborgararéttinn en þeir sem búa í útlöndum þurfi að sækja um hann sérstaklega. Á þeirri lausn er hins vegar sá galli að hún væri brot á jafnræðisreglunni (5. grein) þar sem bannað er að mismuna eftir búsetu.

Önnur lausn væri sú að hver og einn þurfi að sækja um ríkisborgararéttinn sérstaklega en slíkt myndi skapa rosaleg skriffinskuvandamál og umfangið væri nokkuð mikið. Þá væru stjórnvöld einnig komin í þá yfirburðastöðu að geta hafnað umsóknum um íslenskan ríkisborgararétt. Hvað þá ef maður sækir um og síðan týnist umsóknin og maður gleymir því þar til maður þarf á honum að halda?

Mannréttindi

5. grein. Jafnræði
Er á móti því að tvíhnykkt sé á jafnrétti kynjanna í þessari grein. Bæði er kynferði sett fremst í upptalningunni í 1. efnisgrein en síðan er það sérstaklega nefnt í 2. efnisgrein að kynjajafnrétti sé í gildi. Þetta er þó ekki það mikið atriði að ég fari að hafna greininni vegna þess. Myndi þó vilja sjá kynvitund þarna inni en skv. Katrínu Oddsdóttur er breytingartillaga um að bæta því inn.

6. grein. Vernd réttinda
Skil alveg tilgang greinarinnar en svo virðist vera að yfirvöld skulu verja mannréttindi fólks gagnvart mögulegum ágangi sínum. Who watches the watchers?

7. grein. Mannhelgi
Hér tek ég undir marga þá sem hafa sent inn athugasemdir. Af hverju að taka kynferðisofbeldi sérstaklega fram þar sem ‚hvers kyns ofbeldi‛ er bannað? Síðan voru lagðar fram athugasemdir um að gera greinina almennari.

8. grein. Friðhelgi einkalífs
Þessi grein er að mestu óbreytt frá núverandi stjórnarskrá en þó með marklausum fegrunum með því að færa til hér og þar. Hér lagði ég til ákvæði sem gæti verið í staðinn fyrir 2. efnisgrein greinarinnar, sem yrði svona:

Ekki má gera líkamsrannsókn eða leit á manni, leit í húsakynnum hans eða munum, eða taka hluti eignarnámi án brýnna og réttmætra ástæðna og ávallt að undangengnum dómsúrskurði. Leitarheimildir skulu ávallt studdar sönnunargögnum sem réttlæta leitina og skulu eigi ganga lengra en nauðsyn krefur.

Þeir sem eru kunnir 4. viðbót stjórnarskrár Bandaríkjanna ættu að kannast við þessa aðlögun. Hún gengur talsvert lengra en núverandi stjórnarskrá og veitir meiri vernd gegn yfirvöldum. Þá er sérstaklega tekið fram að leitarheimildir skulu vera eins takmarkandi og mögulegt er og studd sönnunargögnum.

11. grein. Skoðana- og tjáningarfrelsi
Í þessari grein er ein versta undanþága sem ég veit af þar sem hana má túlka rosalega vítt. Hún er sú að það má skerða tjáningarfrelsi „til verndar börnum“. Mikil ritskoðun fer fram í mörgum löndum Jarðar vegna barnanna. Netsíur hafa verið settar því börnin mega ekki komast í ákveðið efni. Í hverju felst þessi vernd? Ég skil að það eru til góðar ástæður fyrir því að sía ætti netsamskipti (t.d. barnaklám) en ég treysti bara alls ekki ríkisvaldinu til að taka ákvörðun um það hvað telst hæft börnum og hvað ekki. T.d. í Ástralíu er bannað að sýna ákveðnar kvikmyndir í kvikmyndahúsum „vegna barnanna“.

Hvað ef sama púrítanafólk kemst til valda og lét banna áfengi snemma á 20. öld og vill gera allt til að tryggja að börnin hljóti fullkomna vernd?

Einnig gagnrýndi ég í greininni að hana mætti skilja svo að fólk sem kæmi með skoðanir (sem reynast réttar) gæti verið refsað ef litið væri til 3. efnisgreinarinnar.

12. grein. Upplýsingaréttur
Vildi bara nefna að þessi grein er mikil framför og vonast ég til þess að henni verði ekki breytt frekar nema til að bæta réttindi almennings.

15. grein. Trúfrelsi
Greinin er góð fyrir utan eftirfarandi: „Stjórnvöldum ber að vernda öll skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög.“

Í hverju felst þessi vernd? Gegn hverju á að vernda? Af hverju eiga trúfélög og lífsskoðunarfélög að fá sérstaka vernd en ekki önnur félög? Dögg Harðardóttir nefndi í viðtali við Útvarp Sögu 13. júlí síðastliðinn að enginn í nefndinni sem tók þetta fyrir vissi í hverju verndin fælist. Þetta var líklegast tilraun til að fá ekki öll þessi félög til að mótmæla stjórnarskránni vegna sérstöðu þjóðkirkjunnar í henni.

16. grein. Kirkjuskipan
Er þetta í alvöru það sem við viljum sjá í stjórnarskrá á 21. öldinni? Að ríkið hafi ákveðna kirkjuskipan? Segjum að aðskilnaður ríkis og kirkju fari fram í kjölfar samþykktar þessa ákvæðis. Við munum samt þurfa að lifa við þetta forneskjulega ákvæði í stjórnarskrá þar til það er fjarlægt sérstaklega og það mun líklegast ekki gerast næstu tugi ára.

Önnur spurning sem ég vil koma á framfæri er: Í hverju felst þessi stjórnarskrárlega kirkjuskipan? Hvaða breytingar má gera á kirkjuskipan ríkisins, ef einhverjar, án þess að neyðast til að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um það? Má ríkið t.d. draga úr stuðningi sínu í formi fjármuna án þess að til þjóðaratkvæðagreiðslu komi? Ákvæðið er svo óljóst að það verður afar erfitt að framfylgja því rétt.

17. grein. Félagafrelsi
Greinin er að mestu óbreytt frá núverandi stjórnarskrá en gallar hennar frá fyrri stjórnarskrá eru þar enn. Þeir eru að hægt sé að skylda fólk til að vera í ákveðnu félagi svo það geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra.

Svona ákvæði ber að túlka alvarlega. Með því að skylda mann til að vera í félagi er maður t.d. skyldaður til að greiða félagsgjöld (eða iðgjöld) séu þau rukkuð. Engin trygging er fyrir því að stjórn félagsins sé í raun og veru að vinna fyrir þá sem eru í félaginu. Þá þarf að athuga hvort réttmætt sé að skylda fólk til að vera í ákveðnu félagi en ekki takmarka ófrelsið með því að skylda fólk til að vera í ákveðinni tegund af félagi. Ef fólk er ósátt með stjórn félags, gjöldin sem það greiðir til þess eða finnst það ekki sinna hlutverki sínu með metnaði væri fólk frjálst til að skipa yfir í félag sem býður betur.

Ef ég væri skyldaður til að ganga í ákveðið félag og ég myndi mótmæla því að fyrirkomulagið uppfyllti skilyrði stjórnarskrár að ég verði að vera í því vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra, myndi sönnunarbyrðin vera á mínum höndum að sannfæra dómstólinn um að svo sé ekki. ‚Réttindi annarra‛ er þar að auki afar erfitt að mótmæla og of vítt túlkað.

21. grein. Menntun
Bara ein viðbót. Leikskóli mætti einnig vera í boði án endurgjalds.

23. grein. Dvalarréttur og ferðafrelsi
Stjórnlagaráð virðist ekki hafa lært mikið af Falun Gong málinu fyrir nokkrum árum þar sem fólki var hindrað inngöngu í landið án réttmætrar ástæðu. Ég myndi telja það rétt að taka fram að hindrun á inngöngu í landið skuli eingöngu vera með ákvörðun dómstóla eða brýnar ástæður séu fyrir henni (eins og hryðjuverkamaður sem hefur hótað að sprengja upp Ísland ef hann kemst þangað).

25. grein. Réttlát málsmeðferð
Greinin er ágæt þó hún gangi ekki eins langt og ég vildi óska. Læt fylgja hér viðbætur sem ég hefði óskað að væru þar inni líka:

Enginn skal sæta lögsókn né refsingu að nýju í dómsmáli fyrir brot sem hann hefur verið sýknaður af eða sakfelldur um með lokadómi samkvæmt lögum. Þó skal heimilt að taka mál upp að nýju á lokadómsstigi ef lokadómurinn var falsaður.

Í öllum sakamálum skal sakborningur hafa rétt á að gagnspyrja vitni sem bera vitni gegn honum, að kveða til vitna í hans þágu og njóta aðstoðar lögmanns honum til varnar.

Enginn skal neyddur til að bera vitni gegn sjálfum sér.

 Fyrsta tillagan er tengd ‚double jeopardy‛ sem tryggt er gagnvart í helstu mannréttindasáttmálum. Önnur tillagan er byggð á 6. viðbót stjórnarskrár Bandaríkjanna og sú þriðja er byggð á þeirri fimmtu.

28. grein. Bann við herskyldu
Engin efnisleg athugasemd en vildi hamra á því, svo enginn misskilji greinina, að hér er átt við herskyldu en ekki herþjónustu. Ríkið getur stofnað her en má ekki skylda fólk til þess að fara í hann.

32. grein. Upplýsingar um umhverfi og málsaðild

Lögfræðingarnir í stjórnlagaráði hafa örugglega komist í þetta þar sem kveðið er á um að fara skuli eftir meginreglum umhverfisréttar. Hverjar eru þessar meginreglur? Síðan þróast meginreglur í takt við landslög sem þýðir að löggjafarvaldið mun hvort sem er móta þær. Af hverju er ekki bara skrifað að fara skuli eftir lögum og síðan getur Alþingi sett meginreglur umhverfisréttar í lög?

Mér finnst afar ljótt að sjá tilvísun í réttarframkvæmd sem er líklegast ekki byggð á beinum lagaheimildum, heldur dómvenjum. Þótt lög verði síðar sett um slíkar ákvarðanir stjórnvalda geta þau vísað til þess að í stjórnarskrá standi að þetta fari eftir framangreindum dómvenjum en ekki lögum.

Alþingi

36. grein. Alþingiskosningar
Ekki skil ég rökstuðning fólksins í stjórnlagaráði sem segir að það geti verið kjördæmaskipting en samt skuli atkvæði allra vega jafnt. Það gengur ekki upp nema sama hlutfall kjósenda mæti á kjörstað í hverju einasta kjördæmi. Því fleiri kjördæmi, því erfiðara.

Því miður breytti nefndin um stöðu í seinustu drögunum og tóku út ákvæði þar sem hægt var að bjóða fram 2ja manna lista og með því minnkað til muna þá möguleika fólks til að bjóða sig fram til Alþingis. Núna er það komið í gamla horfið þar sem fólk verður að bjóða sig fram sem hluti af fullmönnuðu framboði.

Samkvæmt drögunum er þingsætum eingöngu úthlutað til þeirra sem hafa a.m.k. 4% af gildum atkvæðum á landinu öllu. Samkvæmt útreikningum mínum koma flokkar ekki til greina við úthlutun þingsæta nema þeir hafi næg atkvæði fyrir þremur þingsætum. Þetta gerir nýjum framboðum erfitt að komast að og tryggir í sessi þá flokka sem eru nú við völd, nema nægur fjöldi ákveði að styðja eitt einstakt framboð. Ef fólki finnst að þáverandi þingflokkar standi sig ekki nógu vel og vilji spreyta sig inn á Alþingi í von um að bæta fyrir það sem því finnst að þeir hafi klúðrað þarf fólkið að stofna flokk til að koma sér að á þingi. Gallinn er sá ef nokkur ný framboð ákveða að bjóða sig fram í sömu kosningum. Fólk hefur þá litla trú á að eitthvað ákveðið framboð nái þessu 4% lágmarki og kýs þann flokk sem er skástur af þeim sem það telur að nái örugglega inn. Þetta kallast Lesser of Two Evils principle.

Umfjöllun minni um þessa grein er ekki enn lokið en til að stytta greinina vil ég minnast á næstseinustu efnisgreinina, en það er svokallað kynjajafnréttisgrein. Þar er gefin heimild til að kveða á um í kosningalögum hvernig skuli stuðla að sem jöfnustu kynjahlutfalli á Alþingi. Einhver í nefndinni er staðráðinn í að halda þessari grein þar sem hún hefur farið í gegnum margar breytingar í meðförum hennar en ekki verið tekin út. Sú meginregla sem á að gilda í kosningum, hvort sem það er til Alþingis eða á American Idol, er að þau hæfustu eiga að vinna – óháð kyni. Kyn á ekki einu sinni að vera þáttur í kosningum. Þetta verður sérlega vandasamt í framkvæmd þegar fólk getur kosið þvert á listi í hálfgerðu persónukjöri.

38. grein. Kosningaréttur
Hver er tilgangurinn með því að takmarka kosningaréttinn við þá sem eiga lögheimili á Íslandi? Íslendingar sem búa í útlöndum eiga að vera jafnréttháir Íslendingum með lögheimili á Íslandi. Auk þess brýtur þetta í bága við jafnræðisregluna (5. grein) sem kveður á um bann gegn mismunun vegna búsetu.

39. grein. Kjörgengi
Hvað er óflekkað mannorð? Það er mikilvægt að svarið liggi fyrir þar sem það hefur áhrif á kjörgengi fólks til Alþingis.

Man að ég nefndi við nokkra meðlimi stjórnlagaráðs á hittingi einum (fyrir mörgum vikum síðan) að forseti Íslands geti boðið sig fram til Alþingis og sögðu þau að það myndi vera farið í það. Drögin gefa það ekki til kynna.

41. grein. Gildi kosninga
Þetta er framför frá eldra ákvæði þar sem Alþingi sjálft ákveður hvort kosning til þess sjálfs var gild. Já, núverandi ákvæði er nokkuð skrítið.

42. grein. Starfstími
Nú stendur í drögunum að Alþingi komi saman eigi síðar en tveimur vikum eftir hverjar alþingiskosningar. Hvað ef úrslitin liggja ekki fyrir á þeim tíma? Hvað ef kosningin er úrskurðuð ógild?

45. grein. Eiðstafur
Á nokkrum stöðum í drögunum stendur að viðkomandi undirriti eiðstaf að stjórnarskránni þegar hann hlýtur kosningu eða embætti. Hverjar eru afleiðingarnar ef eiðstafurinn er brotinn?

47. grein. Friðhelgi alþingismanna
Sumir hafa gagnrýnt greinina því hún sé brot á jafnræðisreglunni, þ.e.a.s. að alþingismaður skuli fá friðhelgi gagnvart framkvæmdavaldinu í flestum málum en hinn almenni borgari hljóti ekki sömu vernd. Þessi vernd er talin réttlát til að framkvæmdavaldið ofsæki ekki þingmenn til að koma í veg fyrir t.d. að þeir kjósi um ákveðin mál eða geti hótað þeim um ákveðnar afleiðingar ef þeir hlýði ekki ákveðnum fyrirmælum.

48. grein. Hagsmunaskráning og vanhæfi
Hér myndi ég vilja fá skýringu á því hvað stjórnlagaráð var að hugsa þegar það ákvað að nefna sérstaklega að vanhæfi þingmanns hafi ekki áhrif á gildi settra laga. Hvað ef þingmaður laug eða hélt upplýsingum leyndum sem hefðu gert hann vanhæfan og atkvæði hans hefði úrslitaáhrif? Þetta myndi hvetja þingmenn til að halda þessu leyndu ef þeir vilja fá að kjósa um mál sem skiptir þá eða nákomna máli.

53. grein. Opnir fundir
Reglan ætti að vera að fundir þingnefnda ættu að vera opnir nema brýnur ástæður séu fyrir því að hafa þá lokaða.

55. grein. Meðferð lagafrumvarpa
Stjórnlagaráð er ekki með öllum mjalla. Fyrir 16. ráðsfund virtist stjórnlagaráð ákveðið í að framkvæmdavaldið gæti ekki lagt fram frumvörp en á téðum fundi virtist allt hafa snúið við og núna hafa þau lagt til að ríkisstjórnin geti lagt fram lagafrumvörp. Er stjórnlagaráð að klúðra þessum aðskilnaði rétt eins og aðskilnaði ríkis og kirkju?

Einnig benti ég á rökfræðilega betri orðaröð á seinustu efnisgreininni. Hún færi þá frá því að vera:

Frumvörp sem hafa ekki hlotið lokaafgreiðslu falla niður við lok kjörtímabils.

Yfir í:

Frumvörp sem hafa ekki hlotið lokaafgreiðslu við lok kjörtímabils falla niður.

Mér finnst það hljóma miklu betur. Álíka tillaga var nefnd vegna sambærilegrar efnisgreinar í 56. grein.

58. grein. Staðfesting laga
Hér eru aðallega tvennir hlutir sem eru stórgallaðir. Sá fyrri er frá núverandi stjórnarskrá þar sem getið er að þrátt fyrir synjun forseta hljóta lögin samt lagagildi. Kosningar um lögin verða því um hvort afnema skuli lögin eða halda þeim í stað þess að ákveða hvort lögin hljóti gildi eður ei. Þá getur gerst að lögin kveði á um að veita einhverjum réttindi og ef lögin eru felld í þjóðaratkvæðagreiðslu er ríkið skaðabótaskylt gagnvart þeim sem réttindin fengu. Möguleg skaðabótaskylda gæti haft áhrif á atkvæðagreiðsluna þar sem hún gæti snúist um það hvort það eigi að borga skaðabæturnar eða ekki.

Seinni stórgallaði hluturinn er ómálefnaleg takmörkun á málskotsrétti forseta. Þetta er vegna mýta og sögusagna sem fólkið í stjórnlagaráði hefur heyrt og telur betra að koma með víðtúlkanlegar greinar í stað þess að ráðast á vandann og takmarka eða koma alveg í veg fyrir að mögulegan skaða sem ótakmarkaður málskotsréttur veitir.

60. grein. Lögrétta
Sé fyrir tól sem hægt er að beita til að tefja mál en hins vegar er miklu minni hætta á að tafirnar valdi niðurfalli málsins þar sem lagafrumvörp falla ekki niður fyrr en við lok kjörtímabils hafi þau ekki verið afgreidd fyrir þann tíma. En þetta er samt öflugt tól við lok kjörtímabils.

63. grein. Málskot til þjóðarinnar
Greinilegt er að stjórnlagaráð ætlar hér að gefa Alþingi meiri völd en forseta til að beita málskoti til þjóðarinnar því ef þriðjungur þingmanna óska eftir málskoti fær frumvarpið ekki lagagildi nema það sé samþykkt við þjóðaratkvæðagreiðslu. Krefjist kjósendur málskots hljóta lögin samt lagagildi en verða auðvitað felld ef úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar kveða á um brottfall þeirra.

Hér hefði verið betra að gefa ákveðinn fastan frest til að safna undirskriftum til að knýja á um þjóðaratkvæðagreiðslu áður en lögin hljóta gildi. Náist stuðningurinn hljóta þau ekki gildi nema þau séu staðfest í þjóðaratkvæðagreiðslu.

64. grein. Þingmál að frumkvæði kjósenda
Hér er of mörgum spurningum ósvarað. Af hverju er krafist 15% stuðnings við frumvarp? Alþingi hefur rétt á að breyta eða hafna frumvarpinu svo hér er ekkert verið að vega að sjálfstæði þess eða kveða á um að frumvarpið skuli vera óbreytt.

Tveggja ára frestur til að afgreiða frumvarpið er líka alltof langur og miðað við fjögurra ára kjörtímabil er vel hægt að svæfa afgreiðslu frumvarpsins í heil tvö ár svo það falli sjálfkrafa niður. Þetta úrræði væri því gagnslaust seinustu tvö ár kjörtímabilsins.

65. grein. Framkvæmd undirskriftasöfnunar og þjóðaratkvæðagreiðslu
Þetta er eitt hættulegasta ákvæðið í öllum drögunum, sé virkni þess íhuguð í samræmi við önnur ákvæði. Ástæðan eru þær undantekningar á málskotsréttinum sem nefndar eru og mun ég nefna dæmi.

Fjárlög: Hræðileg fjárlög sem kveða á um of mikil útgjöld í hluti sem almenningur vill ekki að féð fari í eða of lítið útgjöld í hluti sem almenningur vill að meira fari í. Sérstaklega ef spillt Alþingi ákveður að skammta velunnurum sínum fé eða fríðindum.
Fjáraukalög: Sama ástæða og fyrir fjárlög.
Lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum: Ef helmingur Alþingis ákveður að samþykkja þjóðréttarskuldbindingu en lagaleg framkvæmd hennar gengur á borgaraleg réttindi ríkisborgara.
Skattamálefni: Á almenningur ekki að hafa neitt að segja ef ákveðið er t.d. að lækka skatta á fyrirtæki en hækka tekjuskattinn, svo tekið sé dæmi?
Ríkisborgararéttur:  Þannig að ef Alþingi samþykkir lög sem veitir erlendum ríkisbubbum ríkisborgararétt gegn ákveðinni fjárfestingu má almenningur ekkert hafa neitt að segja um það?

Við hverju dæmi hér að ofan nefndi ég dæmi þar sem hver undanþága er tekin fyrir. Víðtækasta finnst mér ákvæðið með þjóðréttarskuldbindingum en þá getur Alþingi gengið að skuldbindingu að þjóðarrétti og samþykkt fáránleg lög sem Alþingi segist vera að setja til að framfylgja téðri skuldbindingu. Þriðjungur þingmanna, forseti og þjóðin skulu ekkert hafa um það að segja.

Önnur pæling sem ég hef er hversu mikill hluti samþykkts lagafrumvarps þarf að falla undir téðar undanþágur til að undanþiggja það málskoti? Er nóg að ein grein þess innihaldi grein um upptöku skatts? Eða þarf tvær? Hvað um helmingur hennar? Hvað um allar greinar nema eina? Eða þarf allt frumvarpið að fjalla um undanþegin málefni?

67. grein. Greiðsluheimildir
Hvað ef heimildinni er hafnað? Hvað gerist þá? Endurheimta féð? Hvað ef það er ekki hægt?

70. grein. Eignir og skuldbindingar ríkisins
Sbr. athugasemd mína við greinina, þá hvet ég stjórnlagaráð (eða einhvern annan) til að koma með dæmi um aðstæður þar sem ríkisábyrgð á fjárhagslegum skuldbindingum einkaaðila vegna almannahagsmuna er réttlát.

Ráðherrar og ríkisstjórn

84. grein. Ráðherrar
Í seinustu efnisgrein er sagt að enginn geti gegnt sama ráðherraembætti lengur en 8 ár. Þetta þýðir að fólk getur orðið rótgróið í ráðherrastól út ævi sína en þarf bara að skipta um stól á 8 ára fresti.

85. grein. Ríkisstjórn
Vildi bara nefna að ég tel málsliðinn „Bóki ráðherra andstöðu sína við ákvörðun ríkisstjórnar ber hann ekki ábyrgð á henni“ afar mikilvægan þar sem það verður (vonandi) til þess að þeir sem gegni ráðherraembætti segi að þeir séu á móti ákvörðun ef þeir efast um réttmæti hennar.

88. grein. Stjórnarmyndun
Mér finnst skrítið að Alþingi kýs forsætisráðherra en samt skipar forseti Íslands forsætisráðherra í embætti og veitir honum lausn. Væri ekki réttara að nefna að Alþingi gegni því hlutverki?

Dómsvald

96. grein. Sjálfstæði dómara
Hér mæli ég með því að dómararnir sjálfir gegni ekki öðrum störfum á meðan þeir gegna embætti dómara. T.d. geti framkvæmdavaldið ekki ráðið dómara til að sitja í nefndum sem veldur vanhæfi þeirra ef málin koma til kasta dómstóla.

99. grein. Skipun dómara
Væri ekki rangt að segja að ráðherra veiti dómurum lausn ef þeim er ekki vikið úr embætti nema með dómi?

Viðbót: Þessu hefur verið svarað á þann hátt að ráðherra veiti þeim lausn ef þeir vilja sjálfviljugir fara úr embætti eða komist á aldur.

Meðferð utanríkismála

107. grein. Meðferð utanríkismála
Af hverju á forseti Íslands að vera háður ríkisstjórn í utanríkismálum? Í öðrum stöðum draganna virðist forsetinn vera æðsti partur framkvæmdavaldsins en í þessari grein er hann dúkkan þeirra og þarf að spila allt eftir stefnu ríkisstjórnar hverju sinni.

108. grein. Þjóðréttarsamningar
Stjórnlagaráð hlýtur að lifa í útópíu þar sem að þeirra mati virðast allir þjóðréttarsamningar snúast um að bæta réttindi okkar. Fyrst má ekki kjósa um þjóðréttarskuldbindingar og núna mega ráðherrar gera þjóðréttarsamninga án samþykkis Alþingis. Þetta ákvæði er hægt að misnota þar sem Alþingi getur valið úr þjóðréttarskuldbindingum sem ráðherra gerir, sem annars krefjast ekki breytinga á lögum, og samþykkt frumvarp þar sem meirihluti Alþingis segir að þeir séu að framfylgja samningnum (betur) með því að breyta lögum. Þá komast þeir hjá þjóðaratkvæði enn og aftur.

Stjórnlagaráð hlýtur að hata þjóðaratkvæðagreiðslur eða fulltrúar þess eru alls ekki að íhuga mögulega mistnotkun á þessum ákvæðum.

109. grein. Framsal ríkisvalds
Þá er komið að enn öðru slysinu og nægir mér að umskrifa athugasemd sem ég gerði við greinina: Samkvæmt greininni er hægt að fullgilda samninga um framsal ríkisvalds og gilda um þær sömu reglur og eiga við um breytingar á stjórnarskránni. Hins vegar kemur fram í 111. grein. að 5/6 hlutar Alþingis geti afnumið þjóðaratkvæðagreiðsluna og því gæti verið að þjóðin hafi ekkert færi á að kjósa um framsalið fyrr en það hefur verið sett í lög og mögulega framfylgt.

Lokaákvæði

111. grein. Stjórnarskrárbreytingar
Fyrsta efnisgreinin er fín en sú önnur er það ekki. Þar kemur fram, sbr. athugasemd við 109. grein, að hafi 5/6 hluta þingmanna samþykkt frumvarpið geti Alþingi ákveðið að fella niður þjóðaratkvæðagreiðsluna. Orðalagið er áhugavert þar sem það býður upp á að ef 5/6 þingmanna samþykkja frumvarpið er nóg að einfaldur meirihluti samþykki að fella niður þjóðaratkvæðagreiðsluna.

Eins og ég nefndi í upphafi eru gallar þessarar stjórnarskrár of margir til að ég geti samþykkt hana eins og drögin eru. Ég vona að stjórnlagaráð lagfæri hana svo Íslendingar geti fengið stjórnarskrá sem þeir geta verið stoltir af.

Réttindi að forgörðum

Um daginn fékk ég að vita að margir þeirra sem leitað var hjá í tengslum við BitTorrent mál þann 1. desember síðastliðinn voru kallaðir til skýrslutöku hjá lögreglunni og spurðu þeir mig ráða. Eitt aðalráðið sem ég gaf var að nýta réttinn til að þegja (svokallaður þagnarréttur) og það kom mér á óvart að þeir hafi ekki vitað af þeim rétt.

Í framhaldinu leit ég á lagaumhverfið í kringum þann rétt og verð að segja að það er ekki nógu gott. Hvergi er sagt beinum orðum að þagnarrétturinn sé eitthvað sem fólk hefur í skýrslutökum. Það er auðvitað viðurkennt að hann sé við lýði í dómsal en það efast ég ekki. 6. grein Mannréttindasáttmála Evrópu gefur þann rétt en hann er þó ekki nefndur berum orðum í greininni sjálfri heldur í gegnum túlkun Mannréttindadómstóls Evrópu sem hefur (því miður í þessu tilviki) ekki lagagildi hér á landi. Það næsta sem kemst þessum rétti í skýrslutökum er 64. mgr. laga um meðferð sakamála (lög nr. 88/2008). Það er samt ekki tilgangur greinarinnar að fara yfir það.

Því miður er það þannig að fólk hér á landi veit oftast ekki af þagnarréttinum eða öðrum réttindum eins og má sjá á nýlegri frétt á vefnum visir.is. Ekki nóg með að maðurinn hafi talað við lögregluna, heldur samþykkti hann húsleit þrátt fyrir að dómari hafi hafnað beiðni um húsleitarheimild. Hvað ef lögreglan hefði fundið eitthvað ólöglegt við leitina? Leitin hefði verið fullkomlega lögleg þar sem eigandinn leyfði þeim að leita!

Til hvers að hjálpa lögreglunni?
Sumir myndu spyrja á móti: „Ég hef ekkert að fela svo að hvers vegna ekki?“ og halda síðan að þeir hafi afgreitt málið. En málið er nær lengra en það. Gallinn er að fólk getur aldrei verið fullvisst um að ekkert ólöglegt sé á staðnum því það er aldrei að vita hvort annað fólk hafi skilið eitthvað ólöglegt eftir sem að lögreglan finnur. Reyndu síðan að segja lögreglunni að þú vissir ekki af hlutnum og athugaðu hvort hún trúi þér (spoiler: líklegast ekki).

Önnur rök sem ég hef heyrt með því að leyfa lögreglunni að leita sé til að tefja ekki lögregluna svo hún geti farið í önnur gagnlegri verk í staðinn fyrir að hanga í manni fyrir að neita að verða við beiðni lögreglunnar. Þau rök eru fáránleg þar sem leitin er miklu tímafrekari en tíminn sem það tekur að neita. Ef lögreglan myndi í alvörunni telja að það skipti svo miklu máli að leita í bílnum þínum eða húsinu, þá fengi hún leitarheimild. Síðan hey, hvernig væri að lögreglan myndi gera eitthvað gagnlegra en að biðja þig (sem ert væntanlega saklaus af því athæfi sem hún er að athuga með) um að leyfa sér að snúa öllu við í þínu lífi bara til að spara smá tíma. Sá tími sem það tæki að leita hjá þér gæti farið í að halda áfram leitinni annars staðar.

Af hverju að nýta þagnarréttinn?
Þagnarrétturinn er best þekktur í tengslum við 5. viðbót bandarísku stjórnarskrárinnar og aðallega í tengslum við hina frægu setningu „I plead the fifth“. Þagnarrétturinn er sá að allir eiga rétt á að sakfella ekki sjálfa sig. Það má því ekki neyða neinn til að játa glæp, hvort sem það er vitandi eða óafvitandi. Sá réttur er í gildi hér á Íslandi þó hann sé veikur.

Þá kemur aftur sú staðhæfing að maður hafi ekkert að fela og ætti því að vera óhætt að ræða við lögregluna. Þar er gallinn sá að það hafa allir eitthvað að fela. Sá sem segist hafa ekkert að fela er að ljúga. Við veljum öll hluti sem við segjum og hvað við ætlum ekki að segja. Með því að velja að segja ekki eitthvað er aðilinn að fela það. Næst þegar þú ræðir við einhvern ókunnugan, taktu eftir því hvort þú velur að halda aftur af staðreyndum um þig eða eitthvað annað. Þá ættirðu að komast að því að þú hefur víst eitthvað að fela.

Lög landsins og reglugerðir og allur sá pakki er flókinn og veit ég ekki um eina einustu persónu sem ég þekki ágætlega sem hefur aldrei brotið nein lög. Það er ómögulegt að fara í gegnum lífið án þess að brjóta nokkur lög í því ferli. Fólk ætti ekki að vera svo öruggt með sig að halda að það geti talað við rannsóknarlögreglumann í nokkrar klukkustundir án þess að hjálpa honum að sakfella sig. Það sem þú segir í skýrslutökum (sem er annað orð yfir yfirheyrslu) er eingöngu notað gegn þér í dómsmáli en ekki með þér. Jafnvel þó þú sért saklaus af hinu meinta broti er samt hægt að sakfella þig byggt á einhverri vanhugsaðri yfirlýsingu sem þú lést frá þér og virðist saklaus á þeim tíma sem þú gafst hana. Til hvers að hjálpa lögreglunni að sakfella þig? Sjáðu hvaða sönnunargögn lögreglan hefur gegn þér og svaraðu fyrir þig í fyrsta lagi þegar málið fer fyrir dómstólana, ef málið fer svo langt.

Einn af þeim sem ég ráðlagði fyrir skýrslutökuna lét mig vita eftir skýrslutökuna að lögreglan hafði ekkert á hann og það leit út fyrir að þeir vonuðu að hann myndi sakfella sjálfan sig í skýrslutökunni. Hann gaf þeim ekki það tækifæri þar sem hann nýtti sér þagnarréttinn. Það borgar sig að nýta hann!

Frumvarp til laga um afnám sóknargjalda o.fl.

Í gær kláraði ég gerð frumvarps sem ég kom á framfæri við Hreyfinguna. Þessa stundina veit ég ekki hvort þau muni leggja það fram eða ekki en ég vona það svo sannarlega. Frumvarpið felst í því að afnema sóknargjöld ásamt því að leggja niður þrjá sjóði sem þjóðkirkjan ræður ein yfir.

Það sem ég vildi samt koma á framfæri var hversu lítill tími fór í það miðað við þann sparnað sem það hefur í för með sér. Ein kvöldstund fór í að finna allar lagagreinar þar sem minnst er á sóknargjöld og meta hverju þyrfti að breyta til að ná því fram. Síðan fór önnur kvöldstund í að skrifa frumvarpið og greinargerðina. Tvær kvöldstundir af mínum tíma í eitthvað sem gæti sparað ríkissjóð um 2,5 milljarða á ári. Ég er jafnvel óvanur frumvarpsgerð og dágóður tími fór í að yfirfara frumvarpið svo það yrði „á lagasniði“. Hvað í fjandanum er starfsfólkið í ráðuneytunum að gera?

Læt drögin fylgja í PDF svo þið getið metið vinnu mína. Ef þú ert þingmaður, endilega leggðu frumvarpið fram.

Frumvarp til laga – afnám sóknargjalda