Icesave í þjóðaratkvæðagreiðslu

Alþingi tók í gær slæma ákvörðun sem í sjálfu sér kemur ekki á óvart. Í raun og veru voru þær í það minnsta tvær: Að samþykkja Icesave frumvarpið og að fella niður breytingartillögur um þjóðaratkvæðagreiðslu. Fyrrnefnda ákvörðunin er örugglega útrædd á öðrum stöðum á netinu en sú seinni þarfnast meiri pælingar.

Svo mikill er hrokinn í ríkisstjórninni núna að hún telur sig geta tekið hvaða ákvörðun sem er í skjóli kosningar sem fór fram árið 2009. Ekki misskilja mig en þetta er eitthvað sem hefur plagað ríkisstjórnir á Íslandi í nokkuð mörg kjörtímabil. Hugmyndin virðist vera sú að þegar kosið er á Alþingi sé fólk því að fela hverjum þeim sem endar í ríkisstjórn umboð til að sjá um málefni þjóðarinnar og skiptir ekki máli hvaða mál enda á borðinu. En það er rangt.

Á endanum munu koma mál sem eru svo stór að það hefur stórvirk áhrif á meirihluta þjóðarinnar og jafnvel alla. Þegar slíkt kemur upp ætti það að vera eðlilegt og jafnvel skylda að þau mál séu borin undir þjóðina. Tilgangur ríkisvaldsins er fyrst og fremst að sjá um daglegan rekstur ríkisins og afgreiðslu minniháttar mála svo ekki þurfi að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir hvert einasta smámál sem kemur upp. En Icesave er ekkert smámál og ætti það að vera eðlileg skylda ríkisvaldsins að leita álits hjá þjóðinni.

Við skulum bera stjórnarhætti ríkisins við stjórnarhætti sem taldir eru eðlilegir í íslenskum fyrirtækjum. Árlega er haldinn svokallaður aðalfundur þar sem stjórn fyrirtækisins er kosin og hefur hún umboð hluthafa að næstu kosningu sem er þá endurnýjað ef hluthafar samþykkja það. Öðru hvoru koma upp stórmál hjá fyrirtækinu milli aðalfunda sem krefjast aukningu á hlutafé eða stórra breytinga. Þá er það talið eðlilegt að stofna til annars hluthafafundar sem snýst einvörðungu um það mál.

Og hvernig er þetta núna hjá íslenska ríkinu? Á fjögurra ára fresti er kosin stjórn (Alþingi) í þjóðaratkvæðagreiðslu (hluthafafundur) og hún hefur umboð þjóðarinnar (hluthafa) að næstu kosningum. Þessi stjórn hefur (nær) ótakmarkað umboð til að sjá um mál þjóðarinnar og kallar aldrei til þjóðaratkvæðagreiðslu nema hún sé neydd til þess.

Hvernig þætti ykkur að vera hluthafar í fyrirtæki með stjórn sem ræður sér sjálf og getur spanderað fé ykkar án þess að þið fáið nokkru um það ráðið?

Ég vil banna bindi á Alþingi

Í gær bar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingkona í Sjálfstæðisflokknum, upp þá fyrirspurn hvort Ögmundi Jónassyni þætti rétt að banna búrkur. Þykir henni (og fleirum) rétt að banna þær vegna þess að þær séu tákn um kúgun í garð kvenmanna. Ögmundur tók að mínu mati rétta afstöðu í þessu máli og vildi ekki banna þær af þeirri einföldu ástæðu að slíkt bann leysir ekkert.

Ekki veit ég hversu margir á Íslandi klæðast búrkum en ég efast um að þeir séu nokkuð margir. Óháð því hversu margir þeir eru, þá myndi slíkt bann samt ganga á rétt þeirra sem vilja ganga í búrkum. Að sama skapi er það ekkert grín eða spurning með fjölda þegar einhver er neyddur til að ganga í ákveðnum fötum.

Það er nokkuð ‘fyndið’ að Þorgerður Katrín skuli minnast á að banna búrkur vegna kúgunar kvenna og að það sé gegn kvenfrelsi. Hvað um karlfrelsi í sal Alþingis? Alþingi sjálft var sjálft með skyldu til að klæðast ákveðnum fatnaði í þingsal. Nú er ekki lengur skylda að vera með bindi en þau eru tákn um kúgun gagnvart karlkyns þingmönnum og því myndi ég vilja banna þau. Væri slík beiðni ekki fáránleg? Það þætti mér. Ekki sé ég að Þorgerður Katrín hafi kvartað yfir þessari skyldu (opinberlega) síðan hún hóf þingmennsku árið 1999.

Hvers konar lausn væri bann á búrkum? Maður sem væri í raun og veru að neyða konu sína til að vera með búrku myndi í staðinn halda henni heima í stað þess að hleypa henni út án búrku. Segjum að ekkert svoleiðis eigi sér stað, þá er samt búið að lögleiða öðruvísi kúgun. Hún er þá farin úr „þú skalt vera í þessum og þessum klæðnaði‟ og í „þú mátt ekki vera í þessum og þessum klæðnaði‟. Rosalegt frelsi þar.

Ein pælingin sem Tinna Gígja hafði á sínum tíma var hver viðurlögin við slíku banni ættu að vera. Á að refsa konunni fyrir það að vera kúguð? Þær sem klæðast búrkunni af fúsum og frjálsum vilja er þá refsað fyrir fataval sitt. Að banna búrkur blákalt kemur niður á konunum sem eru með þær en ráðast ekki á rót vandans – kúguninni sjálfri. Betri aðferð til að leysa þetta væri sú að vinna í að gefa fólkinu val um það hvort það klæðist búrku eða ekki. Slíkt væri vænlegra til árangurs.

Spurningar frá Samtökunum ’78

Seinustu daga hef ég frétt af því að ýmsir frambjóðendur til stjórnlagaþings hafa fengið sendar spurningar frá Samtökunum ’78 en þótt leitt að ég skuli ekki enn hafa fengið þær. Hjörtur Smárason, frambjóðandi 9618, var svo elskulegur að senda þær áfram á mig svo ég geti svarað þeim jafnvel áður en formlega eintakið bærist. Spurningarnar eru þrjár sem ég mun svara hér opinberlega;

1) Hver eru viðhorf þín til hinsegin fólks (Hommar, Lesbíur, tvíkynhneigðir og transgender)?
Viðhorf mín eru þannig að ég lít ekki til hinsegins fólks sem hinsegin og er það jafnvel orðalag sem mig langar helst ekki að nota. Ég lít á allt fólk sem manneskjur sem eiga sín réttindi og skoðanir.

2) Hvað munt þú gera ef sú hugmynd kemur upp að bæta orðinu kynhneigð inn eða áfram útiloka þennan hóp samfélagsins úr stjórnarskránni?
Hugmyndir mínar fyrir téða grein eru þannig að mig langar helst að sleppa þessari upptalningu svo ekki þurfi að bæta sífellt inn atriðum sem verja á gegn mismunun. Reynist það ekki fýsilegt skal ég glaður styðja það að bæta inn kynhneigð í upptalninguna.

Síðan vil ég bæta við að spurningin er nokkuð leiðandi og hefði verið hægt að orða hana á betri hátt.

3) Ert þú jákvæð/ur í garð réttinda hinsegin fólks?
Já, ég er nokkuð jákvæður. Ég er fylgjandi því að allar manneskjur hafi jafnan rétt og ‚hinsegin fólk‘ er þar engin undantekning.

Stjórnarskrárlegur aðskilnaður ríkis og kirkju

Á þjóðfundinum var greinilega rætt um aðskilnað ríkis og kirkju ef marka má niðurstöður hans og virtist hann vera á þeirri skoðun að aðskilnaðurinn ætti að fara fram. Áður en ég hef umræðuna hér vil ég nefna að aðskilnaður ríkis og kirkju er eitt helsta baráttumálið mitt enda er um mannréttindamál að ræða.

Til undirbúnings fyrir stjórnlagaþing (og af einskærum áhuga) hef ég verið að mæta á ýmsa fundi og fyrirlestra tengdum stjórnarskrármálefnum og þá hafa pælingar um aðskilnað ríkis og kirkju komið fram. Einhver ruglingur hefur komið fram á þessum vettvangi um framkvæmdina og ákvæði stjórnarskrárinnar sem snerta á þessu málefni. Vil ég fara í gegnum ferlið í von um að útskýra þetta.

Segjum svo að við ætlum að framkvæma aðskilnaðinn og breyta sem fæstum greinum í leiðinni (ef þetta væri eina málefnið á dagskrá). Rétta leiðin í þessu væri að breyta 62. gr. stjórnarskrárinnar sem hljóðar svo:

  1. Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.
  2. Breyta má þessu með lögum.

Fyrri málsgreinin er sú sem við viljum í rauninni breyta með því að annaðhvort fjarlægja hana eða breyta henni til að innihalda eitthvað annað. Takið samt eftir 2. málsgreininni þar sem stendur að breyta megi 1. mgr. með lögum. Hvað þýðir það? Hér er einfaldlega um þá heimild að hægt sé að breyta þessu með því að setja einföld lög í stað hins venjulega ferlis til að breyta stjórnarskránni.

Ef við lítum á 79. gr. stjórnarskrárinnar eru tvær málsgreinar: Sú fyrri þar sem rætt er um almennar breytingar á stjórnarskránni og sú seinni er með sértilfelli með 62. gr. Þetta þýðir einfaldlega að aðskilnaður færi ekki í gegnum sama ferli og aðrar breytingar á stjórnarskrá. Venjulega (með fáum undantekningum) þegar breytingar á stjórnarskrá eru samþykktar þarf að rjúfa Alþingi, boða til nýrra kosninga og síðan samþykkja frumvarpið óbreytt í nýskipuðu Alþingi. Breytingar á 62. gr. stjórnarskrárinnar fara hins vegar ekki í gegnum það ferli, heldur fer breytingartillagan í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslu sem ákveður síðan örlög hennar.

Lausn?
Ein lausnin sem væri hægt að íhuga til að framkvæma aðskilnaðinn væri að halda atkvæðagreiðslu um stjórnarskrána í heild eftir að Alþingi hefur samþykkt hina nýju stjórnarskrá eftir þingrof. Með því að gera það væri hægt að uppfylla kröfur 2. mgr. 79. greinar stjórnarskrárinnar og þá eðlilegu kröfu að stjórnarskráin sé samþykkt af þjóðinni.

Einnig væri hægt að fara strax í þessar breytingar í stað þess að bíða eftir að Alþingi afgreiði afganginn af tillögunum sem stjórnlagaþingið setur fram (ef það mælir með aðskilnaði). Samþykki þjóðin aðskilnaðinn má spara talsvert hærri útgjöld en þessi sér atkvæðagreiðsla myndi kosta ríkissjóð.

Helstu baráttumálin mín útskýrð nánar

Í framboðsyfirlýsingu minni tók ég fram helstu baráttumál mín á stjórnlagaþingi ef ég næði fram kjöri. Nú vil ég hins vegar skýra nánar þessi atriði svo þetta séu ekki eingöngu margræð stikkorð.

Fyrsta baráttumálið var betri skipting ríkisvalds en sú hugmynd var nánar útskýrð í samnefndri grein minni. Í stuttu máli felur hún í sér að aðskilja betur löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið þannig að um sé að ræða tvær mismunandi greinar ríkisvaldsins. Í greininni var þó lítið fjallað um dómsvaldið en í því tilfelli þarf aðeins sterkari tengingu á milli. Til að þrískipting valdsins gangi upp sbr. hugmyndafræðina þarf að vera jafnvægi milli allra greina valdsins en tengslin við dómsvaldið eru þannig að það hefur yfirhöndina. Hugmyndin er þó ekki að gefa hinum vald til að breyta dómum eða hafa óeðlileg áhrif á þá heldur gefa þeim aðhald svo þeir dæmi ekki út í bláinn eða eftir eigin geðþótta.

Við, ríkið
Í umræðum síðastliðin ár hefur bilið milli ríkisins og afgangnum af þjóðinni farið stækkandi. Kjósendur munu þá missa trúna á að ríkið sé að starfa fyrir þjóðina og óhlýðnast boðum þess (t.d. lögum). Háir skattar valda því að fólk er tregt til að tilkynna tekjur sínar til ríkisins og vinna svarta vinnu. Hið augljósa er að ríkið á að vinna fyrir okkur, ekki sjálft sig, og ákvarðanir þess eiga að vera teknar með almannahag í huga en ekki hag fárra útvaldra.

Ríkið á heldur ekki að vera sér fyrirbæri sem enginn nema innanbúðarfólk veit hvað er að gerast í. Sjálfgefna staðan á að vera sú að ríkið á að vera opið og gagnsætt. Upplýsingar eiga að vera aðgengilegar fyrir almenning nema augljósir (og sanngjarnir) hagsmunir séu gegn opinberun þeirra. Núna situr ríkið á heilu fjöllunum af upplýsingum sem eiga heima hjá almenningi og eru stundum seld afnot af þeim gegn gjaldi. Söfnun þeirra var greidd með almannafé en þær eru samt ekki aðgengilegar eða aðgengið sé bundið ósanngjörnum kvöðum.

Aðskilnaður ríkis og kirkju
Eitt skilyrði fyrir trúfrelsi er að öll trúfélög starfi á jafnræðisgrundvelli og engu trúfélagi sé úthýst eða sett á hærri stall en önnur. Þjóðkirkjan er einmitt trúfélag sem fær gríðarlega fjármuni og önnur fríðindi frá ríkinu umfram önnur trúfélög. Réttlátt væri ef meðlimir hvers trúfélags sæju sjálfir um að styrkja það í stað þess að það sé gert með framlögum af hálfu ríkisins. Trúarbrögð byggjast á meðlimum, ekki kirkjum. Ef meðlimirnir vilja kirkjur, þá geta þeir greitt fyrir þær úr eigin vasa.

Aukin mannréttindi hins almenna þegns í landinu
Sumir hafa tjáð þá skoðun að mannréttindakafli stjórnarskrárinnar sé nokkuð góður en ég tel að hann gangi ekki nógu langt. Við skoðun á honum koma í ljós afar margar undantekningar og stundum er jafnvel gefin heimild til að setja inn fleiri undantekningar í lögum. Jafnvel þótt það sé skýrt tekið fram að það verði að ríkja mikilvæg ástæða fyrir hverri undantekningu er ekki hægt að sjá að farið sé eftir því í lögum landsins. Sem dæmi má nefna að tjáningarfrelsið hefur 6 víðar undanþágur (3. mgr. 73. gr.). Í Mannréttindasáttmála Sameinuðu Þjóðanna eru engar undantekningar nefndar.

Fyrir utan að skerpa á núverandi réttindum vil ég leggja fram fleiri tillögur að réttindum. T.d. vil ég sjá ýmis réttindi tengd stafrænu öldinni, t.d. það sem kallast network neutrality. Einnig vil ég sjá ýmis réttindi gagnvart dómskerfinu. Sum þeirra eru skilgreind nú þegar í almennum hegningarlögum en ég vil sjá sum þeirra í stjórnarskránni. Stjórnarskrár annarra ríkja innihalda margar hugmyndir að sjálfsögðum réttindum.

Hlusta á hugmyndir annarra
Stjórnlagaþingið á ekki eingöngu að byggjast á því að koma með sínar hugmyndir og berjast fyrir því að þær komist í gegn. Það skiptir miklu máli að hlusta á rök og hugmyndir annarra á stjórnlagaþinginu. Síðan má ekki gleyma því að það var þjóðin sem kaus mann á þingið og því vil ég einnig hlusta á það sem almenningur hefur að segja. Jafnvel þeir sem komast ekki á þing gætu haft hugmyndir sem eru vel þess virði að íhuga. Þótt ég komist ekki á þingið mun ég samt sem áður reyna að miðla minni sýn til stjórnlagaþingmanna.

Niðurhalsskattur STEF

Í Fréttablaðinu 8. október er sagt frá því að Eiríkur Tómasson hafi kynnt hugmynd á fundi hjá STEF um að setja gjöld á nettengingar á Íslandi gegn því að í boði verði svæði þar sem fólk getur náð sér í tónlistina löglega. Hugmyndin um gjöld á nettengingar er alls ekki ný en álíka hugmyndir hafa verið bornar upp af rétthafasamtökum erlendis. Þetta er þó í fyrsta sinn sem ég hef heyrt af þeirri útfærslu að samtökin bjóði upp á niðurhal í staðinn.

En hvað er að þessari hugmynd? Er ekki allt í lagi að borga smá gjald og í staðinn má niðurhala eins mikið af tónlist og maður vill? Misskilningurinn kemur fram í seinni hluta spurningarinnar. Meðal gallanna er sú staðreynd að ekkert mun breytast hvað varðar það niðurhal sem netverjar hafa stundað. Ef við ímyndum okkur það sem gerist ef þetta verður að veruleika, þá er það eina sem breytist er að netreikningurinn hækkar og í staðinn fáum við aðgang að svæði til að niðurhala tónlist. Það verður áfram ólöglegt að niðurhala tónlist frá öðrum stöðum. Í grunninn séð er verið að neyða okkur til að greiða fyrir þjónustu óháð því hvort við höfum nokkurn áhuga á að nota hana eða ekki.

Og hvað þýðir þetta? Neydd viðskipti. Allir nettengdir Íslendingar yrðu neyddir til að eiga viðskipti við STEF, hvort sem þeim líkar betur eða verr. Hvernig litist þér á ef þú yrðir einnig neyddur til að greiða gjald til rithöfunda í hverjum mánuði ofan á nettenginguna þína? Ekki fá rithöfundar neitt í hvert sinn sem þú flettir upp á einhverju á netinu. Ef þetta verður að lögum er ríkið að blanda sér í mál sem það ætti ekki að snerta á.

STEF eru auðvitað ekki einu rétthafasamtökin. Um leið og við höfum samþykkt hugmyndina um að gjald sé sett á nettengingar vegna einna rétthafasamtaka, af hverju ættum við að hafna beiðni annarra samtaka ef þau óska eftir því að taka líka þátt? Gjaldið sem átti að vera lítið og nett er allt í einu orðið byrði á netnotendur. 500 króna gjaldið gæti orðið að 2000 króna gjaldi og gæti orðið að helmingnum af því sem netaðgangurinn kostar.

Samkomulagið yrði auðvitað nokkuð auðvelt fyrir STEF. Þeir bjóða nú þegar upp á sömu þjónustu gegn gjaldi og því væri lítið mál fyrir samtökin að efna sinn hluta af því. Núna eru þau að reyna að koma því í gegn að allir netnotendur á Íslandi séu neyddir til að greiða fyrir þjónustuna og auðvitað hlustar sokkabrúða þeirra, Katrín Jakobsdóttir, á rétthafasamtökin.

STEF er einnig á rangri leið, hugmyndafræðilega séð. Ef við ímyndum okkur fræðilegt hlutverk þeirra, þá á það að vera að vernda rétt höfundanna sem það samanstendur af. En núna virðast samtökin ætla að fara út í það að bjóða upp á niðurhal gegn greiðslu. Hver verndar rétt höfunda gagnvart STEF í þessum málum? Hvað um rétt höfunda sem vilja ekkert með þetta samkomulag að gera? Það á ekki að vera hlutverk samtakanna að fara út í slík viðskiptamódel. Hugmyndafræðin styður ekki að samtökin sjálf gerist dreifingaraðilar á verkum meðlima þess.

Framboð til stjórnlagaþings

Ég vil hér með tilkynna ætlað framboð mitt til stjórnlagaþingsins 2011. Stjórnarskráin er grunnplagg allrar þjóðarinnar og því mikilvægt að hér sé vel að verki staðið og það sé gert án mikilla hagsmunaárekstra. Með framboði mínu á stjórnlagaþingið set ég markið á að framfylgja þeirri hugsjón.

Umræðan síðastliðnu ár hefur sýnt fram á að stjórnarskráin er langt frá því að vera gallalaus og þá má sérstaklega nefna samblöndun löggjafarvaldsins og framkvæmdavaldsins. Einnig þarf að tryggja að nýja stjórnarskráin sé tekin alvarlega og ekki ýtt til hliðar eftir hentisemi. Heiti ég því að reyna mitt besta til að gera góða stjórnarskrá.

Helstu baráttumál mín, nái ég kjöri á stjórnlagaþing:
* Betri skiptingu ríkisvalds.
* Ríkið á að vera ‚við‘ en ekki ‚þeir‘.
* Aðskilnað ríkis og kirkju.
* Aukin mannréttindi hins almenna þegns í landinu.
* Hlusta á hugmyndir annarra sem eru á þinginu og einnig á almenning.

Þessa stundina er ég að safna meðmælendum svo framboð mitt er ekki enn formlega skráð.

Eyðsla skattfés og Feministafélag Íslands

Enn og aftur er Feministafélag Íslands (FÍ) og undirlægjur þeirra að stuðla að eyðslu skattfés í eitthvað sem skilar litlu. Að auki er um óþarfa tímaeyðslu að ræða þar sem átakið mun án efa tefja frekari vinnslu á rannsóknarskýrslunni.

Fyrir nokkrum dögum var Katrín Anna Guðmundsdóttir, fyrrverandi formaður (hah!) félagsins ráðin til fjármálaráðuneytisins til að sjá um kynjaða fjárlagagerð. Hún var ráðin án auglýsingar og sætir það furðu að hún hafi ekki krafist þess að starfið yrði auglýst svo að aðrir gætu sótt um. Það lítur út fyrir að besti einstaklingurinn hafi fengið starfið að hennar mati. Kveikjan að þessari pælingu var frétt um að það ætti að „kynjagreina“ rannsóknarskýrsluna, án efa framkvæmt af fjármálaráðuneytinu og þar af leiðandi af Katrínu.

Í fréttinni er vísað í Ólaf Arason, ráðskonu vefhóps FÍ, sem auðvitað fagnar þessu átaki. Ég man fyrir nokkrum árum að hið sama félag gagnrýndi notkun orðsins ráðherra fyrir bæði kynin og lagði jafnvel fram tillögu til stjórnarskrárnefndar, ásamt öðrum félögum, á sínum tíma til að því yrði breytt við næstu yfirferð. Ég veit ekki af hverju félagið ákvað að hafa þennan titil en ég hefði haldið að það gæti sýnt gott fordæmi og sett kynlausari titil en ráðskona á þá einstaklinga sem eru í forsvari fyrir hópana fyrst það telur sig á annað borð hafa rétt á að gagnrýna þennan meinta karllæga titil.

Annar vinkill sem ég vil minnast á er hið undarlega val á manneskju sem á að vera í forsvari þessa fögnuðar félagsins. Eðlilegra hefði verið að talskona félagsins myndi sjá um samskipti þess utan við. Það er ekkert í fréttinni sem gefur til kynna af hverju hann henti betur fyrir utan að hann er karlmaður. Nú veit ég ekki hvort blaðamaður eða einhver innan FÍ sá um að velja hann sem talsmann félagsins í þessu tilviki en það vekur upp grunsemdir þegar einstaklingur í forsvari fyrir vefhópinn sé valinn til að gegna hlutverki talsmanns þegar það er talskona í boði.

Almennt um Feministafélag Íslands
Feministafélag Íslands virðist vera félag þar sem tilgangurinn helgar meðalið. Því virðist vera sama um hvers kyns óréttlæti sem það veldur á meðan félagar þess halda að með því náist kynjajafnrétti á endanum. Af hverju ætti ég að treysta félagi sem hefur m.a. þetta á stefnuskrá sinni?:

  • Að bæta stöðu kvenna á vinnumarkaði, útrýma kynbundnum launamun og auka hlut kvenna í stjórnun auðlinda og fjármagns.
  • Að styrkja þátttöku kvenna í opinberu lífi, fjölmiðlum og stjórnmálum.

Þetta eru atriði sem eru listuð undir helstu markmið félagsins. Engin atriði í þessum helstu markmiðum snúast sérstaklega um að bæta og styrkja hlut karla sem gefur til kynna að stefnuskráin hallast meira í átt að kvenrétti en jafnrétti. Hér eru jafnvel tillögur að endurorðun sem félagið getur notað og þar breyti ég einvörðungu því feitletraða hér að ofan. FÍ er velkomið að nota þessar tillögur.

  • Að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði, útrýma kynbundnum launamun og jafna hlutfall kynja í stjórnun auðlinda og fjármagns.
  • Að koma á jafnvægi kynja í opinberu lífi, fjölmiðlum og stjórnmálum.

Nú er loksins komið eitthvað sem er talsvert nær jafnrétti en áður þótt ég myndi ekki skrifa undir án þessa að endurorða meira. Þó ég telji mig ekki vera sammála útværum skoðunum FÍ er ég samt sem áður ekki karlremba. Það eru félög eins og FÍ sem valda því að ég vil ekki kalla mig feminista og því gríp ég stundum til hugtaksins jafnréttissinni. Það hugtak getur náð yfir meira en jafnrétti kynja heldur einnig yfir baráttu margra annarra hópa sem vilja njóta sama réttar og aðrir en sem dæmi má nefna jafnrétti vegna þjóðernis, búsetu og lífsskoðana.

Miðað við það sem ég hef séð af starfsemi félagsins virðist eini tilgangur félagsins vera að stunda forsjárhyggju, eitthvað sem Vinstri Grænir eru duglegir við að gera. Einnig styrkir félagið framapot stjórnenda þess til að koma að fáránlegum málum eins og að endurnefna götur í miðbæ Reykjavíkur, ýtt áfram af fyrrverandi formanni FÍ, í stað þess að reyna að redda fjármálum borgarinnar. Einhverra hluta vegna virðist forgangsröðun sumra meðlima FÍ ekki vera á réttu róli.

Nokkur ráð vegna samskipta við yfirvöld

Því miður er eitthvað um að fólk klúðri samskiptum við hið opinbera með því að nefna eitthvað sem hefði ekki átt að vera nefnt eða gert eitthvað sem hefði betur verið látið ógert. Í mörgum tilvikum valda þessi mistök miklum skaða. Í tilefni af þessu tók ég saman nokkrar ráð sem gætu gagnast fólki. Sum þeirra eru fengin frá erlendum samtökum en ættu að duga ágætlega hér á landi.

1. Haltu ró þinni og vertu kurteis.
Miklu máli skiptir að æsingur hafi ekki áhrif á samskipti þín við yfirvöld. Skiptir það sérstaklega máli þegar þau fara fram í eigin persónu eins og t.d. við lögregluna. Ef þú ert sýnilega æstur munu yfirvöld líta á þig sem andstæðing og líklegra að málið fari lengra.

Bréf og skjöl ættirðu ekki að skrifa á meðan adrenalínið flæðir um líkamann. Oftast nær færðu upp í 2 vikur til að svara og það er ágætt að nota nokkra daga til að slaka á áður en þú semur svarbréfið. Ef þú ert hræddur um að gleyma einhverju máttu auðvitað taka punkta. Mundu samt að fara yfir þá svo bréfið sýnist ekki of tilfinningaþrungið.

2. Þú hefur réttinn til að þegja.
Þetta er auðvitað íslensk þýðing á enska frasanum „You have the right to remain silent“. Gildir þetta ekki bara um samskipti við lögregluna, heldur líka við önnur yfirvöld. Þótt þú sért beðinn um eitthvað þarf ekki alltaf að þýða að þú verðir að verða við því.

Hins vegar eru aðstæður þar sem er betra að verða við slíkum beiðnum eins og t.d. ef lögreglan biður þig um ökuskírteinið þitt á meðan þú ert að keyra. Lögreglan hefur hvort sem er aðgang að upplýsingunum á því (það eru jú yfirvöld sem gefa þau út) og ættir þú ekki að hafa neinu að tapa með því að sýna það. Ef þú ert farþegi ertu ekki skyldugur til að hafa ökuskírteini.

3. Gættu þín hvað þú segir.
Ef þú hefur horft mikið á CSI þáttaraðirnar ættirðu að hafa tekið eftir því að fólk segir eitthvað óvart sem kastar grun á það. Það lendir síðan undir rannsókn sem gæti eyðilagt æru þess varanlega og síðan kemur í ljós í þættinum að einhver annar framdi glæpinn. Þumalputtareglan er að hugsa út í afleiðingar þess sem maður er að fara að segja og hvernig það gæti verið túlkað. Þú hefur alltaf réttinn á að fá þér lögmann en ekki slaka á vörninni á meðan þú býður eftir komu hans.

Sumir halda að með því að kalla hluti eitthvað annað séu þeir saklausir af því að brjóta lögin. Eins og t.d. þegar einhverjir bjóða vörur eða fríðindi í skiptum fyrir lágmarksframlag. Í augum laganna er hér verið að ræða um viðskipti og er yfirvöldum nákvæmlega sama hvað aðrir kalla það. Það er undarlega algengt að einhverjir grípi til slíkra réttlætinga í samskiptum við hið opinbera í von um að bjarga sér í þeirri von að komast sem fyrst úr þessum aðstæðum.

4. Ekki samþykkja leitir.
Í samskiptum við lögregluna skiptir miklu máli að þú samþykkir ekki hvað sem er. Þá á ég sérstaklega við ef þú ert spurður hvort lögreglan megi leita í bílnum þínum. Sem betur fer er þetta ekki algengt á Íslandi en þetta er við lýði í Bandaríkjunum. Þumalputtareglan er að ef lögreglan þarf að spyrja þig um eitthvað hefurðu engu á að tapa með því að neita beiðninni. Þú þarft ekki að útskýra af hverju. Í Bandaríkjunum er fólk stundum gabbað til að verða við slíkum beiðnum með loforðum um að sleppa við sektir.

Jafnvel þótt þú hafir ekkert að fela ættirðu samt að neita slíkri beiðni. Þú hefur litla sem enga hugmynd um hvað fólk hefur skilið eftir í bílnum eða húsinu án þinnar vitneskju. Þér mun vera kennt um allt ólöglegt sem finnst við leitina. Þeir bera síðan enga ábyrgð á því að taka til eftir að þeir hafa lokið leitinni.

Ef einhver bankar hjá þér og segist hafa leitarheimild, biddu strax um lögmann til að gæta réttar þíns á meðan leitinni stendur. Farðu yfir leitarheimildina til að passa að allar upplýsingar séu réttar. T.d. hvort um sé að ræða rétt hús og/eða íbúð.

5. Má ég fara?
Ef samskipti við lögregluna á götunni eru að dragast á langinn, ekki vera hræddur um að spyrja hvort þú megir fara. Þú gætir notað „ertu að halda mér hér eða er ég frjáls ferða minna“. Ef þú ert frjáls ferða þinna, kveddu lögregluþjóninn og farðu burt. Ef svarið er á annan veg, spurðu hver sé ástæðan fyrir því.

Ef þér er haldið gegn vilja þínum, biddu strax um lögmann.

6. Ekki vera of öruggur með sjálfan þig.
Það er fátt sem öskrar sekur meira en „sannaðu það!“ því það er lítið annað en endurorðun á „ég er sekur en þú hefur ekki sannanir undir höndunum“. Þótt það sé ekki hrein játning munu yfirvöld reyna enn frekar að reyna að sanna sekt þína, sérstaklega ef þetta er sagt á hrokafullan þátt. Þess vegna borgar sig að hemja skap sitt og hugsa áður en maður tjáir sig.

Lögreglan er líklegri til að stoppa þig ef bíllinn ber merki um að þú sért vandræðagemlingur. T.d. eru stuðaramerki sem tjá stuðning þinn á einhverju vafasömu eða ólöglegu hvatning fyrir lögguna til að stoppa þig. Ef þú vilt forðast slíkt er betra að losna við allt sem sýnist grunsamlegt, hversu saklaust sem það er í raun.

7. Ekki veita nýjar upplýsingar.
Með öðrum orðum: yfirvöldum kemur ekki allt við. Haltu upplýsingagjöf í lágmarki ef þú þarft að svara yfirvöldum. Forðastu að veita nýjar upplýsingar án þess að ígrunda hvort hægt sé að nota þær gegn þér eða ekki. Það er samt þitt að meta hvort sé betra að veita þær eða ekki.

Ráðin eru meðal annars frá myndböndunum 10 Rules for Dealing with Police og BUSTED: The Citizen’s Guide to Surviving Police Encounters.

Fyrirvari: Ég er ekki lögfræðingur og tek enga ábyrgð á framkvæmd þessara ráða.