Icesave í þjóðaratkvæðagreiðslu

Alþingi tók í gær slæma ákvörðun sem í sjálfu sér kemur ekki á óvart. Í raun og veru voru þær í það minnsta tvær: Að samþykkja Icesave frumvarpið og að fella niður breytingartillögur um þjóðaratkvæðagreiðslu. Fyrrnefnda ákvörðunin er örugglega útrædd á öðrum stöðum á netinu en sú seinni þarfnast meiri pælingar.

Svo mikill er hrokinn í ríkisstjórninni núna að hún telur sig geta tekið hvaða ákvörðun sem er í skjóli kosningar sem fór fram árið 2009. Ekki misskilja mig en þetta er eitthvað sem hefur plagað ríkisstjórnir á Íslandi í nokkuð mörg kjörtímabil. Hugmyndin virðist vera sú að þegar kosið er á Alþingi sé fólk því að fela hverjum þeim sem endar í ríkisstjórn umboð til að sjá um málefni þjóðarinnar og skiptir ekki máli hvaða mál enda á borðinu. En það er rangt.

Á endanum munu koma mál sem eru svo stór að það hefur stórvirk áhrif á meirihluta þjóðarinnar og jafnvel alla. Þegar slíkt kemur upp ætti það að vera eðlilegt og jafnvel skylda að þau mál séu borin undir þjóðina. Tilgangur ríkisvaldsins er fyrst og fremst að sjá um daglegan rekstur ríkisins og afgreiðslu minniháttar mála svo ekki þurfi að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir hvert einasta smámál sem kemur upp. En Icesave er ekkert smámál og ætti það að vera eðlileg skylda ríkisvaldsins að leita álits hjá þjóðinni.

Við skulum bera stjórnarhætti ríkisins við stjórnarhætti sem taldir eru eðlilegir í íslenskum fyrirtækjum. Árlega er haldinn svokallaður aðalfundur þar sem stjórn fyrirtækisins er kosin og hefur hún umboð hluthafa að næstu kosningu sem er þá endurnýjað ef hluthafar samþykkja það. Öðru hvoru koma upp stórmál hjá fyrirtækinu milli aðalfunda sem krefjast aukningu á hlutafé eða stórra breytinga. Þá er það talið eðlilegt að stofna til annars hluthafafundar sem snýst einvörðungu um það mál.

Og hvernig er þetta núna hjá íslenska ríkinu? Á fjögurra ára fresti er kosin stjórn (Alþingi) í þjóðaratkvæðagreiðslu (hluthafafundur) og hún hefur umboð þjóðarinnar (hluthafa) að næstu kosningum. Þessi stjórn hefur (nær) ótakmarkað umboð til að sjá um mál þjóðarinnar og kallar aldrei til þjóðaratkvæðagreiðslu nema hún sé neydd til þess.

Hvernig þætti ykkur að vera hluthafar í fyrirtæki með stjórn sem ræður sér sjálf og getur spanderað fé ykkar án þess að þið fáið nokkru um það ráðið?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.