Sumarmarkmið 2020

Listinn yfir sumarmarkmið ársins 2020 er sjötti listinn yfir sumarmarkmið sem ég hef sett saman. Í grófum dráttum er fyrirkomulagið á þann veg að ég set saman lista yfir markmið sem ég vil stefna á að ljúka fyrir tiltekna dagsetningu. Dagsetningin í ár er 22. ágúst 2020 og vísað til hennar sem lokafrests. Til að veita sjálfum mér aðhald er fresturinn túlkaður afar strangt og verður ekki færður. Annar þáttur sem hvetur til aðhalds er að sett eru skilyrði og skilgreiningar við hvert markmið sem eiga að leysa úr helstu óvissuþáttum sem gætu valdið vandræðum og fækka matskenndum þáttum.

Ár hvert auglýsi ég eftir tillögum að markmiðum og gef tiltekinn frest til þess. Fyrst var auglýst eftir tillögum þann 21. maí og var frestur veittur út 31. maí til að senda mér þær. Tillögufresturinn átti einnig við um mínar eigin tillögur. Haldið var áfram þeirri nýjung að vinna úr tillögum eftir sérstaklega skráðum viðmiðum og mat á samræmi hverrar þeirrar við langtímaáherslurnar.

Á listanum í ár eru 14 aðalmarkmið og 5 uppfyllingarmarkmið, sem eru talsvert færri sumarmarkmið en árið áður. Aðalmarkmiðin eru þau markmið sem áherslan er á og álitið raunhæft að ljúka þeim fyrir lokafrestinn með hliðsjón af öðrum aðalmarkmiðum, ef allt gengur vel. Uppfyllingarmarkmiðin lúta ekki þeim viðmiðum og er aðallega unnið í þeim þegar ekki er hægt að vinna í aðalmarkmiði þá stundina eða sérstaklega hliðhollar aðstæður séu til staðar.

Listinn er birtur til þess að veita möguleika á enn frekara aðhaldi gagnvart mér sjálfum og jafnframt gefa öðrum hugmyndir hvað þau geta gert í sumar (þar sem við á). Þegar nánari skilgreining og skilyrði hafa sett eru þau einnig tekin fram. Áætlað er að uppfæra listann yfir sumarið með stöðunni hverju sinni eða í seinasta lagi stuttu eftir að lokafresturinn er liðinn. Staðan sem gefin er upp er staða viðkomandi markmiðs seinast þegar stöðu þess var breytt.

Skýrsla um framkvæmd sumarmarkmiða árið 2020

Almennt um sumarmarkmið

Hlekkir sem eru á sumarmarkmiðalistanum sjálfum eru eingöngu til upplýsinga en eru ekki endilega hluti af skilgreiningu einstakra markmiða.

Aðalmarkmið

Læra eitt tiltekið tungumál almennilega
Staða: Klárað
Skilgreiningar/skilyrði:
— Hinn mælanlegi þáttur markmiðsins skal fara fram með þátttöku minni á námskeiði á Duolingo.com (og/eða öðru tilheyrandi undirléni þess léns) í völdu tungumáli. Klingonese/Klingon telst ekki sem gilt námskeið hvað þetta markmið varðar.
— Eingöngu ég sjálfur má leysa þau verkefni sem sett eru fram á námskeiðinu, og er mér hvorki heimilt að sækjast eftir né nýta svör frá öðrum.
— Markmiðið telst klárað þegar ég hef á framkvæmdartímabilinu unnið mér inn alls 2.500 XP á námskeiðinu eða lokið því, hvort sem á sér stað fyrr.

Læra Klingonese
Staða: Klárað
Skilgreiningar/skilyrði:
— Hinn mælanlegi þáttur markmiðsins skal fara fram með þátttöku minni á námskeiði á Duolingo.com (og/eða öðru tilheyrandi undirléni þess léns) í Klingon (Klingonese).
— Eingöngu ég sjálfur má leysa þau verkefni sem sett eru fram á námskeiðinu, og er mér hvorki heimilt að sækjast eftir né nýta svör frá öðrum.
— Markmiðið telst klárað þegar ég hef á framkvæmdartímabilinu unnið mér inn alls 1.500 XP á námskeiðinu eða lokið því, hvort sem á sér stað fyrr.

Horfa á tiltekinn fjölda kvikmynda sem ég hef ekki séð af topp 250 lista IMDb
Staða: Klárað (16 af 16 lokið)
Skilgreiningar/skilyrði:
— Ég þarf að hafa séð hverja kvikmynd frá upphafi hennar og þar til birting er hafin á nafnalistanum við lok hennar eða henni sannanlega lokið með öðrum hætti, hvort sem fyrr kemur.
— Ég má ekki muna eftir að hafa séð kvikmyndina áður en henni telst lokið í undanförnum skilningi. Síðari endurminningar um að hafa séð kvikmyndina áður eftir það tímamark teljast ekki gegn þessu markmiði.
— Fjöldi kvikmynda skal vera 16 talsins.

Skrifa tiltekinn fjölda greina á Íslensku Wikipediu
Staða: Klárað (100 af 100 stofnaðar)
Skilgreiningar/skilyrði:
— Fjöldi greina skal vera skilgreindur sem hundrað talsins.
— Til að grein teljist til markmiðsins skal hún hafa verið stofnuð og rituð af mér sjálfum á framkvæmdartímabili sumarmarkmiðalistans.
— Greinin skal uppfylla viðmið Wikipediu um markvert efni og vera lengri en ein setning. Viðfangsefnið má ekki hafa þegar fengið umfjöllun í sérstakri grein á Íslensku Wikipediu fyrir stofnun minnar greinar né má grundvöllur greinarinnar byggjast að meginefninu til á afritun hluta af umfjöllun annarrar greinar á Íslensku Wikipediu sem fjallar meðal annars um viðfangsefnið.

Púsla púsl
Staða: Klárað
Skilgreiningar/skilyrði:
— Púslið þarf að hafa verið framleitt sem að minnsta kosti 500 hluta púsl.
— Í mesta lagi einn hlutur þess má vera týndur.

Grill og borðspil
Staða: Klárað
Skilgreiningar/skilyrði:
— Maturinn sem ég borða skal vera að öllu eða einhverju leyti grillaður innan þeirrar fasteignar sem ég er á, og þarf ég að hafa verið staddur á þeirri fasteign á einhverjum tímapunkti matreiðslu hans.
— Í sömu heimsókn skal ég taka þátt í að spila borðspil innan sömu fasteignar. Þetta skilyrði skal teljast uppfyllt ef ég spila eitt borðspil frá upphafi til enda eða ver alls þrjátíu mínútum í að spila borðspil, hvort sem þau eru eitt eða fleiri.
— Atburðir markmiðsins mega ekki fara fram innan þeirrar fasteignar sem lögheimili mitt er staðsett á.
— Markmiðið telst klárað þegar tvær aðskildar heimsóknir af þessu tagi hafa farið fram í samræmi við áðurgreind skilyrði. Heimsóknirnar mega hvort sem er vera á sömu fasteign í bæði skiptin eða á mismunandi fasteignum.
— Merking hugtaksins fasteign skal miðast við hina lögfræðilegu, en þó þannig að íbúð í fjöleignarhúsi telst til skráðrar fasteignar þess landsvæðis sem húsið er á.

Fara tiltekna gönguleið um Þverfellshorn á Esju
Staða: Óklárað
Skilgreiningar/skilyrði:
— Ég skal hafa gengið þessa leið frá bílastæðinu við fjallsrætur Esjunnar til kennimerkisins Steins, og einnig skal ég ganga frá honum til bílastæðisins á sama degi.
— Gangan þarf ekki að hafa verið samfelld né óslitin að öðru leyti.
— Krókaleiðir milli þessara staðsetninga, þar á meðal ferð ofar á fjallið, teljast ekki gegn markmiðinu svo framarlega sem þær séu gengnar.
— Líkamlegar aðgerðir, svo sem klifur, skulu ekki telja gegn þessu markmiði svo framarlega sem ganga milli þeirra staða sé ekki í boði eða leiði til of mikillar líkamlegrar áhættu.

Fara tiltekna gönguleið á Úlfarsfelli
Staða: Klárað
Skilgreiningar/skilyrði:
— Ég skal hafa gengið til og frá efsta hluta Úlfarsfells, þ.e. innan fimm metra frá hnitinu N 64.1469800, W -21.7102300 í WGS84.
— Miðað skal við næstu staðsetningu við þau hnit sem bæði er mögulegt og löglegt fyrir mig er að ganga að á þeim tíma. Uppfylli engin staðsetning innan þeirra skekkjumarka skulu þau útvíkkuð um þrjá metra endurtekið þar til staðsetning er uppfyllir skilyrðin er í boði eða að hámarki fimmtíu metra, hvort sem fyrr verður.
— Ekki er gerð krafa um tiltekna upphafsstaðsetningu göngunnar en gangan til og frá áðurnefndum hnitum þarf að hafa verið að lágmarki þrír kílómetrar í heildina, án þess að nýtt séu rafknúin og/eða pedalaknúin farartæki í millitíðinni.
— Gangan sjálf þarf ekki að hafa verið samfelld né óslitin að öðru leyti.

Fara þrjár fjallaferðir
Staða: Óklárað (0 af 3 lokið)
Skilgreiningar/skilyrði:
— Fjallaferð í þessum skilningi telst ferðin frá fjallsrótum til efsta hluta fjalls. Ekki er krafist þess að öll fjallaferðin sé samfelld eða óslitin.
— Eingöngu þau fjöll teljast fyrir þetta markmið sem eru að lágmarki 300 metra yfir sjávarmáli þegar ferðin er farin hverju sinni.
— Ég þarf að hafa ferðast fótgangandi eða með öðrum líkamsdrifnum hætti á efsta hluta fjallsins frá rótum þess án þess að nýta mér stuðning vélræns tækis.
— Markmiðið telst klárað þegar farnar hafa verið þrjár fjallaferðir í samræmi við áðurgreind skilyrði. Fjallaferð skal teljast þrátt fyrir að farið sé aftur á sama fjallið, en þó ekki innan sama almanaksdags.
— Ferðin niður af hverju fjalli er markmiðinu óviðkomandi.

Göngugreining og skókaup
Staða: Klárað
Skilgreiningar/skilyrði:
— Ég þarf að fara í göngugreiningu og veita niðurstöðum hennar móttöku.
— Gefi niðurstöður slíkrar greiningar til kynna að ég þurfi á sérstökum innleggjum að halda, skal ég festa kaup á slíkum.
— Ég þarf að festa kaup á skóm að eigin vali, óháð niðurstöðu göngugreiningarinnar. Ráðgjöf og önnur álitsgjöf annarra við val mitt á skóm telur ekki gegn þessu.

Kíkja í fjöruferð og skoða skeljar
Staða: Klárað
Skilgreiningar/skilyrði:
— Með fjöru er átt við þá landræmu sem sjór fellur af og er á milli meðalstórstraumsflóðs og meðalstórstraumsfjöru, auk sands á ströndu innan þess svæðis eða leiðir beint af því svæði.
— Með fjöruferð er átt við ferð af minni hálfu innan fjöru í áðurgreindum skilningi.
— Með skel í þessu samhengi er átt við skeljar dýra sem eru lífs eða liðin á þeirri stundu.
— Fjöruferðin skal vara í a.m.k. fimm mínútur frá þeirri stundu sem ég finn fyrstu skelina, og á því tímabili skal ég vera allan tímann innan fjörunnar.

Horfa á Tiger King
Staða: Klárað
Skilgreiningar/skilyrði:
— Markmiðið telst klárað þegar ég hef horft á fyrstu sjö þættina í fyrstu þáttaröðinni af ‚Tiger King: Murder, Mayhem and Madness‘ frá upphafi til enda.

Fá samþykkta innsenda grein til birtingar í fjölmiðli
Staða: Klárað
Skilgreiningar/skilyrði:
— Markmiðið telst klárað þegar fjölmiðill hefur samþykkt að birta innsenda grein er ég samdi sjálfur.
— Þó telst það ekki klárað ef hætt er við birtingu greinarinnar, innan framkvæmdartímabilsins, af minni beiðni. Þetta á þó ekki við ef fyrir liggur einhver innsend grein eftir mig sem uppfyllir fyrsta skilyrðið sem hefur verið birt innan framkvæmdartímabilsins eða þegar samþykkt grein er enn að bíða birtingar við lok þess.
— Fjölmiðill í skilningi markmiðsins telst vera hver sá lögaðili sem er skráningarskyldur skv. 14. gr. laga um fjölmiðla, nr. 38/2011, og er á opinberri skrá fjölmiðlanefndar yfir fjölmiðla þá þeim tíma sem ég sendi greinina til viðkomandi fjölmiðils.

Lesa eða hlusta á tiltekinn fjölda bóka sem ég hef ekki lesið eða hlustað á áður
Staða: Klárað (10 af 10 lokið)
Skilgreiningar/skilyrði:
— Bækurnar skulu vera a.m.k. tíu talsins og geta verið prentaðar og/eða í formi hljóðbóka.
— Hver bók skal vera a.m.k. 100 blaðsíður að lengd skv. blaðsíðutölu eða a.m.k. ein klukkustund í upplestri.
— Sé prentuð bók lesin skal það gert frá upphafi fyrstu blaðsíðu til loka seinustu blaðsíðu. Í tilviki hljóðbóka skal hlustað á upplesturinn í heild frá upphafi til enda.
— Lestur og/eða hlustun hverrar bókar þarf ekki að vera í einni lotu.

Uppfyllingarmarkmið

Kasta smámynt í „brunn“
Staða: Klárað
Skilgreiningar/skilyrði:
— Með smámynt er vísað til myntar úr málmi/málmum sem er löglega útgefinn gjaldmiðill af hálfu íslenskra stjórnvalda og/eða erlendra ríkja sem íslenska ríkið er í stjórnmálasambandi við.
— Með brunni í skilningi markmiðs þessa er vísað til vatnsbóls á almannafæri ekki bersýnilega ætluðu til að geyma drykkjarvatn.
— Markmiðið telst klárað þegar ég hef kastað smámynt, óháð fjölda eða upphæð, ofan í brunn, eða annars konar vatnsból, sem bersýnilega er þá þegar með myntir ofan í því.

Fara á kajak
Staða: Óklárað
Skilgreiningar/skilyrði:
— Að hafa stigið upp í og ferðast á kajak í a.m.k. tíu mínútur.

Ljúka eftirvinnslu á tilteknum fjölda skannaðra ljósmyndaalbúma
Staða: Óklárað (0 af 30 lokið)
Skilgreiningar/skilyrði:
— Ljósmyndaalbúm í samhengi þessa markmiðs er skilgreint sem albúm með ljósmyndum sem ég fékk frá foreldrum mínum og skannaði inn á stafrænt form. Þá telst það einnig ljósmyndaalbúm í sama samhengi ef ljósmyndum hafði verið safnað saman í einstaka umbúðir, t.a.m. framköllunarumslög.
— Eftirvinnsla í samhengi þessa markmiðs telst sú aðgerð að vinna með þær stafrænu útgáfur af skönnuðu myndunum.
— Eftirvinnslu einstakrar ljósmyndar telst lokið þegar vistuð hafa verið tvö önnur stafræn eintök byggt á upprunalega stafræna eintakinu þar sem eftirfarandi á við:
— — Þeir hlutar myndarinnar sem ekki eru hluti af ljósmyndinni hafa verið klipptir af eða gerðir gegnsæir að svo miklu leyti sem sanngjarnt megi búast.
— — Annað eintakið skal vera á upprunalega skráarsniðinu í sömu upplausn. Hitt eintakið skal vera smækkað eintak sem hentar til dreifingar á samfélagsmiðlum, ef ákvörðun væri tekin um slíkt.
— Eftirvinnslu skal lokið á öllum skönnuðum myndum 30 ljósmyndaalbúma til að markmiðið teljist klárað.

Fara í litbolta
Staða: Óklárað
Skilgreiningar/skilyrði:
— Ég þarf að hafa tekið þátt í að lágmarki einum leik af litbolta frá upphafi og þar til honum er lokið eða ég úr leik, hvort sem fyrr verður.

Einnar helgar tjaldferðalag
Staða: Óklárað
Skilgreiningar/skilyrði:
— Ferðin skal samanstanda af að lágmarki tveggja nótta samfleytt þar sem gist er í tjaldi utan höfuðborgarsvæðisins.
— Landmannalaugar skulu á einhverjum tímapunkti gegna hlutverki í ferðalaginu, hvort sem það er í formi gistingar eða viðkomustaðar.