Sumarmarkmið 2018

Listinn yfir sumarmarkmið ársins 2018 er fjórði listinn yfir sumarmarkmið sem ég hef sett saman. Í grófum dráttum er fyrirkomulagið á þann veg að ég set saman lista yfir markmið sem ég vil stefna á að ljúka fyrir tiltekna dagsetningu. Dagsetningin í ár er 18. ágúst 2018 og vísað til hennar sem lokafrests. Til að veita sjálfum mér aðhald er fresturinn túlkaður afar strangt og verður ekki færður. Annar þáttur sem hvetur til aðhalds er að sett eru skilyrði og skilgreiningar við hvert markmið sem eiga að leysa úr helstu óvissuþáttum sem gætu valdið vandræðum og fækka matskenndum þáttum.

Ár hvert auglýsi ég eftir tillögum að markmiðum og gef tiltekinn frest til þess. Fyrst var auglýst eftir tillögum þann 7. janúar og var frestur veittur út 31. maí til að afhenda mér þær. Tillögufresturinn átti einnig við um mínar eigin tillögur. Einnig var litið til tillagna sem höfðu þegar borist vegna fyrri sumarmarkmiðalista.

Á listanum í ár eru 19 aðalmarkmið og 25 uppfyllingarmarkmið. Aðalmarkmiðin eru þau markmið sem áherslan er á og álitið raunhæft að ljúka þeim fyrir lokafrestinn með hliðsjón af öðrum aðalmarkmiðum, ef allt gengur vel. Uppfyllingarmarkmiðin lúta ekki þeim viðmiðum og er aðallega unnið í þeim þegar ekki er hægt að vinna í aðalmarkmiði þá stundina eða sérstaklega hliðhollar aðstæður séu til staðar.

Listinn er birtur til þess að veita möguleika á enn frekara aðhaldi gagnvart mér sjálfum og jafnframt gefa öðrum hugmyndir hvað þau geta gert í sumar (þar sem við á). Þegar nánari skilgreining og skilyrði hafa sett eru þau einnig tekin fram. Áætlað er að uppfæra listann yfir sumarið eða í seinasta lagi stuttu eftir að lokafresturinn er liðinn. Staðan sem gefin er upp er staða viðkomandi markmiðs seinast þegar stöðu þess var breytt.

Skýrsla um framkvæmd sumarmarkmiða árið 2018

Almennt um sumarmarkmið


Aðalmarkmið

Læra floss
Staða: Klárað
Skilgreiningar / skilyrði:
– Um er að ræða floss, sbr. myndbandið á https://www.youtube.com/watch?v=7ANa71ZGPYU. Myndbandið er þó eingöngu til leiðbeiningar en ekki endilega tæmandi skilgreining á flossi.
– Ég þarf að hafa framkvæmt floss-hreyfingarnar villulaust í tíu skipti samfellt.

Fara a.m.k. tvisvar í almenningssundlaugar út á landi, minnst klukkutíma akstur frá Reykjavík
Staða: Klárað (2 / 2 lokið)
Skilgreiningar / skilyrði:
– Um þarf að vera að ræða sundlaug sem rekin er af hinu opinbera.
– Sundlaugin þarf að vera í a.m.k. 90 kílómetra fjarlægð frá miðpunkti gatnamóta Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar í Reykjavík, hnit 64.1331013, -21.8981856 í WGS84, og að þeirri staðsetningu lóðar sundlaugarinnar sem styst er að keyra til, eftir þeim vegum sem liggja þar á milli. Sé ekki akstursfært eða löglegt að keyra á milli þessara tveggja punkta á þeim tíma sem ferðast er á milli staðanna skal miða við loftlínu.
– Ég þarf að hafa verið í sundlaugaraðstöðu viðkomandi laugar, utan búningsklefa hennar, í alls 30 mínútur ásamt því að hafa farið á einhverjum tímapunkti alla leið ofan í sundlaugina sjálfa.

Baka súkkulaðiköku og bjóða einhverjum til að koma og smakka á henni
Staða: Klárað
Skilgreiningar / skilyrði:
– Ég þarf að hafa bakað súkkulaðikökuna.
– Ég þarf að bjóða annarri manneskju heim til mín í þeim tilgangi að smakka á umræddri köku.
– Ekki er gerð krafa um að viðkomandi þekkist boðið eða smakki kökuna að endingu.

Bjóða Eddu í heimsókn
Staða: Klárað
Skilgreiningar / skilyrði:
– Edda í þessu samhengi er Edda móðursystir mín.
– Sú tímasetning sem heimsóknin á að fara fram samkvæmt boði skal vera fyrir lokafrestinn.
– Edda þarf að hafa staðfest á einhverjum tímapunkti að heimsóknartíminn henti henni.
– Það skal eigi telja gegn markmiðinu ef heimsókninni er aflýst eða eigi sér ekki stað ef ástæðuna megi réttilega rekja til force majure aðstæðna. Þrátt fyrir þetta skal reynt að finna annan heimsóknartíma tímasettan fyrir lokafrestinn eftir því sem kostur er. Sé slíkt ekki heldur hægt og/eða raunhæft sökum force majure aðstæðna skal það ekki telja gegn markmiðinu ef hinn nýi heimsóknartími er tímasettur eftir lokafrestinn, en þá skal miða við hvort boðið standi enn þegar lokafresturinn á sér stað. Framangreindar force majure aðstæður eru eingöngu tækar hvað þetta markmið varðar ef Edda lýsir sig sammála því mati áður en lokafresturinn rennur upp.
– Ef ég á frumkvæðið að frestun skal það eigi telja gegn markmiðinu ef hinn nýi tími er tímasettur fyrir lokafrestinn og að Edda staðfesti að sá heimsóknartími henti henni.

Klára að skanna inn bréfapóst sem hafði borist mér fyrir 1. júní 2018 og er enn í fórum mínum
Staða: Óklárað (16 / ? lokið)
Skilgreiningar / skilyrði:
– Bréfapóstur sem þegar hefur verið skannaður fyrir setningu markmiðsins telst ekki með.
– Pósturinn þarf enn að vera geymdur í bréfaumslaginu sem hann (líklega) kom í.
– Dagsetning á póststimpli á umslaginu verður að vera fyrir 1. júní 2018. Sé hún ólæsileg eða illlæsileg skal hún teljast með, svo framarlega sem innihaldið bendi ekki bersýnilega til þess að bréfið var sent eftir þann dag. Hið sama á við um ópóststimpluð umslög sem afar líklegt er að voru borin út af Íslandspósti.
– Ef ég hef ekki orðið var við tiltekinn bréfapóst fyrir 1. ágúst 2018, þrátt fyrir yfirferð á íbúðinni í leit að óskönnuðum bréfapósti, mun það ekki telja gegn markmiðinu að ég hafi ekki skannað hann fyrir lokafrestinn. Fari framangreind yfirferð/leit ekki fram eða er ekki lokið fyrir þá dagsetningu telst markmiðið óklárað óháð árangri að öðru leiti.
– Ekki þarf að skanna inn bækur eða tímarit sem eru í umslagi. Sé ekkert annað innihald í umslaginu utan gildissviðs þessarar undanþágu, telst umræddur bréfapóstur ekki með.
– Póstkort skulu teljast með þó þau séu ekki í umslagi, uppfylli þau önnur skilyrði og eiga við um bréfapóst, eftir því sem við á.

Ljúka úrvinnslu á þeim bindum af hæstaréttardómum sem hafa nú þegar verið skönnuð inn á þann hátt að bindin séu birtingarhæf á netinu
Staða: Klárað (134 / 134 lokið)
Skilgreiningar / skilyrði:
– Um er að ræða þau 134 bindi af hæstaréttardómum ásamt meðfylgjandi registurum sem var þegar búið að skanna af minni hálfu þegar markmið þetta var sett.
– Afurð úrvinnslu allra umræddra binda skal vera á veraldarvefnum (e. world wide web) á þann hátt að almenningur geti niðurhalað þeim skrám og viðeigandi slóð að staðsetningunni tilkynnt með opinberum hætti.
– Vanti blaðsíðu í upprunalegu skönnunina eða bersýnilegur galli er á skönnun hennar skal það ekki telja gegn markmiðinu ef blaðsíðuna vanti jafnframt í hið prentaða eintak eða endurtekin skönnun myndi bersýnilega ekki bæta úr þeim annmarka, að því gefnu að gerð sé grein fyrir honum með augljósum hætti. Sé blaðsíðuna að finna í hinu prentaða eintaki, og/eða endurtekin skönnun gæti bætt úr annmarkanum, er heimilt að skanna hana inn eftir setningu markmiðsins og setja inn á viðeigandi stað.
– Nú er tilkynnt um blaðsíðuskort í bindi, eða ég uppgötva hann sjálfstætt, sem er afurð framkvæmdar þessa markmiðs og, sé blaðsíðuskorturinn staðfestur, skal þá bætt úr honum fyrir lokafrestinn, ellegar skal það bindi ekki teljast með. Tilkynningin eða vitneskjan, svo hún hafi framangreind áhrif, skal þó hafa komist mér til vitundar fyrir 13. ágúst 2018 nema um sé að ræða bindi sem birt var opinberlega fyrir færri en fjórum sólarhringum áður en hún kom mér til vitundar. Framangreindir málsliðir eiga einnig við um aðra annmarka á bindunum sem nánari skilyrði markmiðsins ná yfir, að breyttu breytanda.
– Svo bindi teljist birtingarhæft í samhengi þessa markmiðs skal það að lágmarki uppfylla eftirfarandi skilyrði:
– – Skráin með bindinu skal vera af sniði sem er opinberlega skilgreint og aðgengilegt með opnum eða frjálsum hugbúnaði, án þess að settar séu varnir á skrána sem séu til þess gerðar að hindra eða takmarka dreifingu eða nýtingu þeirra.
– – Það skal innihalda allar þær blaðsíður þess sem voru skannaðar. Heimilt er þó að sleppa auðum og/eða tvíteknum/margteknum blaðsíðum, sé um slíkar að ræða.
– – Allar blaðsíður bindisins skulu vera af sömu eða sambærilegri stærð, þó víkja megi frá því í tilviki blaðsíðna með kortum, uppdráttum og/eða öðru myndefni.
– – Upplausn hverrar blaðsíðu skal vera nógu góð til þess að hægt sé að lesa letrið beint af skjá með (nær) venjulegri sjón eða með aðstoð gleraugna með viðeigandi styrkleika.
– – Hver blaðsíða skal keyrð í gegnum OCR hugbúnað og afurð hennar skal fylgja með í skránni með bindinu og/eða birt í aðskildu skjali.
– Ekki er gerð krafa í samhengi þessa markmiðs að breyta halla blaðsíðnanna.

Ferðast á fótunum tiltekna vegalengd utandyra
Staða: Óklárað (118,5 km* / 200 km lokið)
Skilgreiningar / skilyrði:
– Vegalengdin er 200 kílómetrar og þarf hún ekki vera samfelld.
– Fara verður vegalengdina utandyra, þ.e. án þess að vera í byggingu eða utan á byggingu.
– Ég sjálfur þarf að ferðast vegalengdina með tilstilli hreyfinga minna eigin fóta með snertingu á yfirborðinu, þ.m.t. fótgangandi, hoppandi, hlaupandi, skokkandi og skríðandi. Notkun tækja eða tóla, hvort sem þau eru vélræn eða ekki, til að ferðast með þessum hætti telst ekki, óháð því hvort ég stjórna þeim með einhverjum líkamshreyfingum eða ekki. Hið sama gildir um tæki eða önnur tól sem auðvelda slíkt ferðalag, t.a.m. hjólabretti.
– Eingöngu vegalengd sem mæld hefur verið jafnóðum með skráningu GPS hnita, eða með öðru sambærilegu hnitakerfi, telst með.
Athugasemdir:
* (Stjörnumerking við vegalengd) Vegalengdin er samlagning námundaðra talna af mismunandi nákvæmni, og sett fram með fyrirvara um endurskoðun og/eða endurútreikning síðar ef þörf er talin á.

Fara á aðalmeðferð í a.m.k. einu dómsmáli fyrir héraðsdómi, Landsrétti og Hæstarétti
Staða: Klárað (3 / 3 lokið)
Skilgreiningar / skilyrði:
– Ég má ekki vera aðili máls eða hafa nákomin tengsl við neinn þeirra.
– Þetta skal vera munnlegur málflutningur í efnislegri meðferð máls.
– Ekki þarf að vera um eitt og sama málið að ræða fyrir öllum dómstigum.
– Þarf að vera viðstaddur munnlega málflutninginn frá upphafi til enda.

Semja og keyra skröpunartól sem skrapar saman lista yfir dómsúrlausnir tiltekinna dómstóla yfir á gagnagrunn
Staða: Óklárað (3 / 6 lokið)
Skilgreiningar / skilyrði:
– Kóðinn fyrir skröpunartólið skal hafa verið skrifaður og viðeigandi kóði til staðar fyrir hvern þann einstaka dómstól sem skrapa á.
– Með dómsúrlausn í þessu samhengi er vísað til dóma og/eða úrskurða tilgreindra dómstóla sem eru aðgengilegir á vef viðkomandi dómstóls.
– Dómstóll telst kláraður í þessu samhengi ef skröpunartólið hefur hafið söfnun inn á lista yfir dómsúrlausnir þess dómstóls með því að hafa lokið söfnun heils almanaksárs eða lokið henni alveg á einhverjum tímapunkti.
– Dómstóll gæti einnig talist kláraður ef skröpunartólið hefur verið sett upp til að ná í lista yfir nýjustu dómana, t.a.m. með RSS-aðgangi, en nægilega tæmandi listi yfir eldri dómsúrlausnir sé fenginn með öðrum hætti með eða án milligöngu skröpunartólsins og sá listi sé kominn yfir á gagnagrunninn.
– Til að dómsúrlausn telst hafa verið safnað fyrir listann þurfa eftirfarandi upplýsingar að liggja fyrir í gagnagrunninum um hvert einstaka mál:
– – Auðkenning máls og/eða dómsúrlausnar, eftir því hvort á við
– – Dagsetning, nema hún liggi ekki fyrir
– – Tilgreining á málsaðilum skv. upplýsingum viðkomandi dómstóls
– Dómstólarnir skulu vera:
– – EFTA-dómstóllinn
– – Evrópudómstóllinn, öll dómstig
– – Héraðsdómur Íslands, allar þinghár
– – Hæstiréttur Íslands
– – Landsréttur
– – Mannréttindadómstóll Evrópu

Fara yfir fataeign mína og endurnýja eftir þörfum
Staða: Óklárað
Skilgreiningar / skilyrði:
– Setja skal saman lista yfir helstu tegundir fatnaðar sem ég ætti að hafa í mínum fórum yfir allar árstíðir. Við hverja færslu skal nefna við hverja tegund fatnaðar í hversu marga daga æskilegt sé að að vera í slíkri flík að hámarki þar til hún þarf að vera sett í þvott.
– Setja skal saman lista yfir fatnað notaðan vegna helstu óreglulegra tilefna/atburða sem hafa óskrifaðar kröfur sem fatnaðurinn þarf að uppfylla. Við hverja færslu skal áætlað hversu oft sé áætlað að hinn tiltekni fatnaður sé notaður á ári eða tilteknu tímabili.
– Gera skal ráð fyrir að reglulegt millibil milli þvotta séu fimm vikur. Lágmarksfjöldi fata skal ákveðinn miðað við þá forsendu að hver einstakur fatnaður sé ekki notaður oftar en hámarkstími hans kveður á um og í tilviki fatnaðar vegna óreglulegra tilefna/atburða skal athuga tímasetningu þeirra á árinu með tilliti til þess hversu líklegt sé að ég þurfi að nota sömu fötin innan tveggja þvotta. Gera skal ráð fyrir tveggja vikna tímabili milli þvotta að auki vegna skekkjumarka, þ.e. sjö vikur alls.
– Þau föt sem ég á skulu yfirfarin í þeim tilgangi að sjá hvort ástæða sé til þess að losa mig við þau.
– Sé fjöldi fata sem ég á af tiltekinni tegund lægri en það lágmark skal bæta úr því á þann hátt að fataeign mín fyrir lokafrestinn verði á einhverjum tímapunkti á því lágmarki eða meiri.
– Markmiðið telst eingöngu klárað ef framangreind yfirferð hefur farið fram, lágmarkið hefur verið ákvarðað í samræmi við áðurgreind skilyrði, og téð lágmörk eru uppfyllt á einhverjum tímapunkti eftir það fyrir lokafrestinn. Þó skal telja fatnað sem pantaður hafði verið fyrir lokafrestinn þótt hann sé ókominn, sé pöntunin enn virk eða í sendingu þegar lokafresturinn rennur upp.

Snæða á tilteknum fjölda veitingastaða sem ég man ekki til þess að hafa snætt á áður
Staða: Klárað (10 / 10 lokið)
Skilgreiningar / skilyrði:
– Veitingastaðirnar skulu vera tíu talsins.
– Veitingastaður í samhengi markmiðsins skal vera skilgreindur sem staður sem býður upp á heitan mat til átu á staðnum og gerir út á það. Staður sem býður upp á heitan mat en gerir einnig út að meginstefnu að fólk sæki matinn til átu annars staðar og/eða sendir hann heim til fólks telst ekki sem veitingastaður í þessu samhengi.
– Ég má ekki hafa munað eftir að hafa snætt á þeim veitingastað áður á þeim tíma sem ég legg pöntunina fram. Eftir að pöntun hefur verið lögð fram hafa síðari endurminningar um að hafa snætt áður á þeim veitingastað ekki slík áhrif.
– Hafi ég snætt á veitingastað sem er hluti af veitingastaðakveðju skulu síðari heimsóknir á aðra veitingastaði sömu keðju ekki teljast með.
– Veitingastaður telst með í markmiðinu ef hann uppfyllir áðurgreind skilyrði og að ég hafi byrjað að borða matinn.

Reisa spilaborg
Staða: Óklárað
Skilgreiningar / skilyrði:
– Spilaborgin skal vera þriggja hæða.
– Óheimilt er að nota lím eða annan efnivið til þess að festa spilin við hvert annað eða ólíklegri til þess að falla niður.
– Eftir að seinasta spilinu hefur verið bætt við skal spilaborgin hafa staðið óstutt í a.m.k. þrjátíu sekúndur án þess að nokkur hluti hennar hrynji.

Taka a.m.k. 42 myndir af 42 sem ég hef ekki tekið áður
Staða: Klárað (42 / 42 lokið)
Skilgreiningar / skilyrði:
– Myndir teknar af öðrum en mér teljast ekki með.
– Hver mynd þarf að vera af fyrirbærinu 42 hvort sem það er táknað með tölustöfum, bókstöfum, eða blöndu af hvorutveggja.
– Sé fyrirbærið 42 hluti af táknarunu telst það ekki við eftirfarandi aðstæður:
– – a) Tölustafur kemur strax á eftir 42
– – b) Annar tölustafur en 0 kemur á undan 42
– Til að mynd teljist þarf hún að vera tekin á tímabilinu frá því markmiðið var sett og fyrir lokafrestinn.
– Séu teknar margar myndir af sama eintakinu af 42 innan tímabilsins getur það ekki talist oftar en einu sinni fyrir þetta markmið.
– Hafi ég áður tekið mynd af sama eintakinu af 42 fyrir upphaf tímabilsins telst eintakið ekki með þrátt fyrir að ég taki nýja mynd af því innan tímabilsins.

Klára húsnúmerasöfnun fyrir OpenStreetMap í tilteknum fjölda sveitarfélaga utan höfuðborgarsvæðisins
Staða: Klárað (2 / 2 lokið)
Skilgreiningar / skilyrði:
– Fjöldi sveitarfélaga skal vera tveir.
– Þegar vísað er í húsnúmer í þessu markmiði er átt við auðkenni lóðarinnar sem byggingin stendur á, sem getur verið myndað út frá götunafni og númeri, og/eða sérstöku nafni.
– Húsnúmerum fyrir þetta markmið verður að vera safnað með því að ganga um viðkomandi svæði í eigin persónu. Slík yfirferð er óþörf á svæðum sem þá þegar höfðu nægilega tæmandi skráningu húsnúmera á OpenStreetMap.
– Ljúka skal húsnúmerasöfnuninni í minnst tveimur sveitarfélögum á Íslandi.
– Svo sveitarfélag teljist fyrir þetta markmið þarf meira en helmingur bygginga að vera húsnúmeralaus á OpenStreetMap þegar ég byrja að safna húsnúmerum þar, eftir setningu markmiðsins.
– Svo húsnúmerasöfnun í sveitarfélagi teljist lokið skal ég hafa safnað húsnúmerum í öllum þéttbýlum þess sveitarfélags með nægilega tæmandi hætti ásamt því að skrá afraksturinn inn á OpenStreetMap.
– Ekki er gerð krafa um að húsnúmerasöfnun fari fram utan þéttbýlis sveitarfélags.
– Mörk sveitarfélaga skulu miðast við þau lögformlega viðurkenndu stjórnsýslusvæði sveitarstjórna þann 1. maí 2018. Telja skal hið sameinaða sveitarfélag Garðs og Sandgerðis sem eitt sveitarfélag.
– Höfuðborgarsvæðið í skilningi þessa markmiðs samanstendur af Garðabæ, Hafnarfirði, Kjósarhrepp, Kópavogi, Mosfellsbæ, Reykjavík og Seltjarnarnesi.

Lesa eða hlusta á tiltekinn fjölda bóka sem ég hef ekki lesið eða hlustað á áður
Staða: Óklárað (1 / 5 lokið)
Skilgreiningar / skilyrði:
– Bækurnar skulu vera a.m.k. fimm talsins og geta verið prentaðar og/eða í formi hljóðbóka.
– Hver bók skal vera a.m.k. 100 blaðsíður að lengd skv. blaðsíðutölu eða a.m.k. ein klukkustund í upplestri.
– Sé prentuð bók lesin skal það gert frá upphafi fyrstu blaðsíðu til loka seinustu blaðsíðu. Í tilviki hljóðbóka skal hlustað á upplesturinn í heild frá upphafi til enda.
– Lestur og/eða hlustun þarf ekki að vera í einni lotu.

Yfirferð á WikiData færslum um ráðherra Íslands þannig að hver færsla innihaldi að lágmarki tilteknar tegundir upplýsinga
Staða: Klárað (161 / 161 lokið)
Skilgreiningar / skilyrði:
– Fjöldi ráðherra skulu vera allir þeir einstaklingar sem hafa gegnt ráðherrastöðu innan íslenska stjórnkerfisins frá og með árinu 1904, eða 150 af þeim einstaklingum, hvort sem uppfyllist áður.
– Búa skal til eða uppfæra þær færslur um þá ráðherra, eftir því sem við á, þannig að þær innihaldi að lágmarki eftirfarandi upplýsingar um hann:
– – Nafn (P1559)
– – Fyrsta nafn (P735)
– – Kyn (P21)
– – Ríkisfang (P27)
– – Fæðingardagur (P569)
– – Tenging við greinar á íslensku og/eða ensku Wikipediu, séu þær til staðar
– – Embættisseta viðkomandi sem ráðherra og þar af:
– – – Nafn ráðherraembættis
– – – Upphafsdagsetning (P580)
– – – Tenging við fyrri ráðherra í sama embætti (P1365), ef við á
– – – Lokadagsetning (P582), ef við á
– – – Tenging við næsta ráðherra í sama embætti (P1366), ef við á

Horfa á fyrstu þáttaröðina af Babylon 5
Staða: Klárað (23 / 23 lokið)
Skilgreiningar / skilyrði:
– Skal hafa horft á hvern og einn þátt í téðri þáttaröð, þ.m.t. „pilot-þáttinn“ frá upphafi til enda.

Ljúka eftirvinnslu á einu skönnuðu ljósmyndaalbúmi
Staða: Klárað
Skilgreiningar / skilyrði:
– Ljósmyndaalbúm í samhengi þessa markmiðs er skilgreint sem albúm með ljósmyndum sem ég fékk frá foreldrum mínum og skannaði inn á stafrænt form. Þá telst það einnig ljósmyndaalbúm í sama samhengi ef ljósmyndum hafði verið safnað saman í einstaka umbúðir, t.a.m. framköllunarumslag.
– Eftirvinnsla í samhengi þessa markmiðs telst sú aðgerð að vinna nánar með þær stafrænu útgáfur af skönnuðu myndunum. Eftirvinnslu einstakrar ljósmyndar telst lokið þegar vistuð hafa verið tvö önnur stafræn eintök byggt á upprunalega stafræna eintakinu þar sem eftirfarandi á við:
– – Þeir hlutar myndarinnar sem ekki eru hluti af ljósmyndinni hafa verið klipptir af og/eða gerðir gegnsæir.
– – Annað eintakið skal vera á upprunalega skráarsniðinu í sömu upplausn. Hitt eintakið skal vera smækkað eintak sem hentar til dreifingar á samfélagsmiðlum, ef ákvörðun væri tekin um slíkt.
– Eftirvinnslu skal lokið á öllum innskönnuðum myndum eins ljósmyndaalbúms til að markmiðið teljist klárað.

Rita í tilfinningadagbók þar sem ég rita eitthvað um það sem gerðist fyrir mig hvern dag eða ég hugsaði um, og reyna að koma tilfinningum mínum í orð.
Staða: Klárað
Skilgreiningar / skilyrði:
– Tilfinningadagbók í samhengi þessa markmiðs er skrifanleg bók eða stafrænt forrit þar sem ég get ritað um tilfinningar mínar á tilteknu tímabili, að gættu nægjanlegu öryggi upplýsinganna.
– Ekki er gerð krafa um opinbera birtingu færslanna sem ég rita í tilfinningadagbókina, hvorki í heild eða hluta, og er það markmiðinu óviðkomandi.
– Markmiðið telst klárað á þeim tímapunkti þar sem ég hef ritað færslu í tilfinningadagbókina fyrir einhverja tólf daga af fjórtán daga samfelldu tímabili innan þess tíma frá því markmiðið var sett og fyrir lokafrestinn.
– Færsla telst einungis fyrir markmiðið ef hún var rituð á þeim degi sem hún er fyrir, eða áður en ég sofna fyrst í kjölfar vöku á þeim degi.


Uppfyllingarmarkmið

Heimsækja Lindu og Ægi í Hollandi
Staða: Óklárað
Skilgreiningar / skilyrði:
– Heimsóknin skal eiga sér stað heima hjá þeim í Hollandi og vara í a.m.k. þrjár klukkustundir.

Gista a.m.k. eina nótt í tjaldi á tjaldsvæði að eigin vali, annað hvort með öðrum eða bara ég sjálfur
Staða: Óklárað

Fara að skoða Hvítserk
Staða: Óklárað
Skilgreiningar / skilyrði:
– Hvítserkur í samhengi þessa markmiðs er klettur í Húnafirði undir því nafni.
– Ég þarf að vera á svæðinu í sjónmáli við Hvítserki í fimmtán mínútur án þess að vera í ökutæki.

Heimsókn til Hafdísar í Vesturbæinn, fá pönnukökur og spila eina umferð af heimagerða spilinu „Bjarnastríð“
Staða: Klárað
Skilgreiningar / skilyrði:
– Sú Hafdís sem vísað er til er Hafdís Bjarnadóttir.
– Heimsóknin skal vara í a.m.k. þrjátíu mínútur.
– Ég þarf að fá mér pönnukökur á meðan heimsókninni stendur.
– Ég þarf að spila eina umferð af heimagerða spilinu „Bjarnastríð“ á meðan henni stendur, eða annað spil sé „Bjarnastríð“ ekki til staðar þá stundina.

Hitta og spjalla við Kristján bróður
Staða: Óklárað
Skilgreiningar / skilyrði:
– Kristján bróðir er líffræðilegur hálfbróðir minn.
– Hittingur okkar beggja skal vara í a.m.k. þrjátíu mínútur og við spjallað á meðan hittingnum stendur.

Kortleggja Fjölskyldu- og húsdýragarðinn fyrir OpenStreetMap
Staða: Óklárað
Skilgreiningar / skilyrði:
– Kortlagningin skal fela í sér að ég fari í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn og framkvæmdar viðeigandi mælingar og skráningar á upplýsingum sem þar er að finna, og setja afurðina inn á OpenStreetMap.
– Markmiðið telst klárað þegar eftirfarandi mælingar og öflun upplýsinga í tengslum við Fjölskyldu- og húsdýragarðinn í Reykjavík er lokið og þær nýttar til að framkvæma viðeigandi aðlaganir inn á OpenStreetMap, að því marki og með þeim hætti sem OpenStreetMap styður og/eða viðurkennir að megi skrá:
– – Útlínur rýma utandyra sem dýrin hafa til umráða.
– – Merking svæði eftir aðgengisheimildum.
– – Skráning svæða þar sem starfsemi og önnur þjónusta fer fram.
– – Hvar megi búast við því að hver dýrategund haldi sig, innandyra sem og utandyra.
– – Staðsetning leiktækja, helst útlínur, og helstu upplýsingar um þau.
– Ekki skal krafist þess að mælingar eða öflun upplýsinga fari fram á svæðum sem almennir gestir garðsins hafa að jafnaði ekki aðgang að, nema fyrir liggi sérstakt leyfi eða heimild frá viðeigandi aðilum um slíkt.

Bæta við tilteknum fjölda hugtaka við íslenska Wiktionary
Staða: Óklárað (0 / 100 lokið)
Skilgreiningar / skilyrði:
– Fjöldi hugtaka skal vera hundrað talsins.
– Ég þarf að nýskrá þann fjölda hugtaka inn á íslenska Wiktionary á tímabilinu frá setningu markmiðsins og fyrir lokafrestinn.
– Skráningin þarf, strax frá upphafi eða einhvern tímann fyrir lokafrestinn, að innihalda eftirfarandi upplýsingar:
– – Stutta skilgreiningu á merkingu eða merkingum þess
– – Upplýsingar um orðflokkagreiningu
– – Málfræðilegar fallbeygingar þess samkvæmt viðeigandi beygingarsniði eða -sniðum, hafi það slíkar fallbeygingar yfir höfuð.

Klára að skanna inn fundargögn tiltekins fjölda funda sem ég hef í fórum mínum
Staða: Óklárað (0 / 30 lokið)
Skilgreiningar / skilyrði:
– Fjöldi funda skal skilgreindur sem þrjátíu talsins.
– Fundargögn í samhengi markmiðsins eru þau gögn sem dreift var á fundi sem ég sótti og ég hef enn í fórum mínum.
– Skanna þarf öll fundargögn viðkomandi fundar til þess að hann teljist fyrir þetta markmið, sbr. fyrri skilgreiningar og skilyrði.
– Ekki er gerð krafa um að birta opinberlega lista yfir þá fundi sem fundargögnin tilheyra.

Fara einn hring í kringum landið
Staða: Óklárað
Skilgreiningar / skilyrði:
– Ferðin skilgreinist sem ferð um þjóðveg nr. 1, sem almennt er vísað til sem hringvegarins.
– Ferðin skal vera á a.m.k. 80% af lengd hringvegarins, sbr. þó:
– – a) Þeim hluta hringvegarins sem sleppt er vegna leiðarstyttinga um göng kemur ekki til frádráttar.
– – b) Sé ekki farið um tiltekinn hluta hringvegarins vegna force majure ástæðna, kemur sá hluti ekki til frádráttar.

Fara til Vestmannaeyja
Staða: Óklárað
Skilgreiningar / skilyrði:
– Skal hafa verið þar í a.m.k. tvær klukkustundir samfellt.

Fara til Vestfjarða
Staða: Óklárað
Skilgreiningar / skilyrði:
– Skal hafa sofið þar í a.m.k. eina nótt.

Fara til Austurlands
Staða: Óklárað
Skilgreiningar / skilyrði:
– Skal hafa sofið þar í a.m.k. eina nótt.

Fara á ströndina við Vík
Staða: Klárað
Skilgreiningar / skilyrði:
– Þarf að hafa stoppað þar og litið um í a.m.k. 15 mínútur alls, utan ökutækis.

Fara á Þórsmörk
Staða: Óklárað
Skilgreiningar / skilyrði:
– Þarf að hafa stoppað þar og litið um í a.m.k. 15 mínútur alls, utan ökutækis.

Fara til Mývatns og umhverfis
Staða: Óklárað
Skilgreiningar / skilyrði:
– Þarf að hafa stoppað þar og litið um í a.m.k. 15 mínútur alls, utan ökutækis.

Heimsækja tiltekinn fjölda safna sem ég hef ekki heimsótt áður eða í langan tíma
Staða: Klárað (5 / 5 lokið)
Skilgreiningar / skilyrði:
– Fjöldi safnanna skal vera fimm talsins.
– Eingöngu söfn sem ég hef ekki heimsótt áður eða í langan tíma teljast með.
– Almenningsbókasöfn teljast ekki.

Stíga fæti á jökul
Staða: Óklárað
Skilgreiningar / skilyrði:
– Með jökli er átt við landfræðilega fyrirbærið.
– Að hafa stigið fæti á jökul.

Prófa Segway
Staða: Óklárað
Skilgreiningar / skilyrði:
– Að klára heilan Segway túr sé leiga tækisins háð því.
– Sé leiga tækis ekki háð fyrir fram skilgreindum túr, að prófa það í a.m.k. þrjátíu mínútur eða klára heilan Segway túr sé hann valkvæður.

Gróðursetja tré
Staða: Óklárað
Skilgreiningar / skilyrði:
– Ég þarf persónulega að hafa gróðursett tréð.
– Tréð má jafnframt enn þá vera fræ.

Sjá „sjálfstæða kvikmynd“ í kvikmyndahúsi
Staða: Klárað
Skilgreiningar / skilyrði:
– Finna sýningu á kvikmynd sem fellur undir hina almennu skilgreiningu sem sjálfstæð kvikmynd og horfa á hana frá upphafi til enda.

Skrifa og keyra skröpunartól sem skrapar auglýsingar Stjórnartíðinda yfir á gagnagrunn
Staða: Óklárað
Skilgreiningar / skilyrði:
– Stjórnartíðindi í samhengi markmiðsins vísar til þeirrar útgáfu sem íslensk stjórnvöld gefa út á netinu samkvæmt lögum nr. 15/2005.
– Þeir hlutar Stjórnartíðinda sem skröpunin skal ná yfir eru:
– – A-deild
– – B-deild
– – C-deild
– Kóðinn fyrir skröpunartólið skal hafa verið skrifaður og viðeigandi kóði til staðar fyrir hvern einstaka hluta Stjórnartíðinda.
– Markmiðið telst klárað ef skröpunartólið er komið í gang og hefur náð að safna saman í lista yfir heilt almanaksár af auglýsingum í hverjum hluta Stjórnartíðinda sem skröpunin á að ná yfir.
– Markmiðið gæti einnig talist klárað ef skröpunartólið hefur verið sett upp til að ná í lista yfir nýjustu auglýsingarnar, t.a.m. með RSS-aðgangi, en nægilega tæmandi listi yfir eldri auglýsingar sé fenginn með öðrum hætti með eða án milligöngu skröpunartólsins og sá listi sé kominn inn á gagnagrunninn.
– Hver færsla um auglýsingu á listanum skal að lágmarki innihalda eftirfarandi upplýsingar:
– – Deild Stjórnartíðinda
– – Útgáfunúmer
– – Útgáfudag
– – Titilinn sem hún gengur undir
– – Einkvæmt auðkenni hennar á vef Stjórnartíðinda

Ljúka eftirvinnslu á öllum skönnuðu ljósmyndaalbúmunum
Staða: Óklárað (1 / 60 lokið)
Skilgreiningar / skilyrði:
– Ljósmyndaalbúm í samhengi þessa markmiðs er skilgreint sem albúm með ljósmyndum sem ég fékk frá foreldrum mínum og skannaði inn á stafrænt form. Þá telst það einnig ljósmyndaalbúm í sama samhengi ef ljósmyndum hafði verið safnað saman í einstaka umbúðir, t.a.m. framköllunarumslög.
– Eftirvinnsla í samhengi þessa markmiðs telst sú aðgerð að vinna með þær stafrænu útgáfur af skönnuðu myndunum. Eftirvinnslu einstakrar ljósmyndar telst lokið þegar vistuð hafa verið tvö önnur stafræn eintök byggt á upprunalega stafræna eintakinu þar sem eftirfarandi á við:
– – Þeir hlutar myndarinnar sem ekki eru hluti af ljósmyndinni hafa verið klipptir af eða gerðir gegnsæir.
– – Annað eintakið skal vera á upprunalega skráarsniðinu í sömu upplausn. Hitt eintakið skal vera smækkað eintak sem hentar til dreifingar á samfélagsmiðlum, ef ákvörðun væri tekin um slíkt.
– Eftirvinnslu skal lokið á öllum innskönnuðum myndum allra ljósmyndaalbúmanna til að markmiðið teljist klárað, eða 60 ljósmyndaalbúm, hvort sem uppfyllist áður.

Svifvængjaflug í Vík í Mýrdal
Staða: Óklárað
Skilgreiningar / skilyrði:
– Að hafa tekist á loft í svifvængju innan stjórnsýslusvæðis Víkur í Mýrdal og svifið um í a.m.k. eina heila mínútu.

Ganga á Úlfarsfell, Helgafell og Keili
Staða: Óklárað (0 / 3 lokið)
Skilgreiningar / skilyrði:
– Helgafell í þessu samhengi er Helgafell sem er í Hafnarfirði.
– Í tilviki gönguleiða að fara alla gönguleiðina frá upphafi til enda. Í tilviki fjalla/hæða/hóla að komast fótgangandi á toppinn frá rótum fjallsins/hæðarinnar/hólsins án þess að nýta mér stuðnings vélræns tækis.

Fara á hestanámskeið
Staða: Óklárað
Skilgreiningar / skilyrði:
– Ég þarf að hafa skráð mig á hestanámskeið sem er í boði fyrir almenning og hafa mætt á það.
– Með mætingu á hestanámskeið er vísað í mætingu í þau skipti sem námskeiðshaldari boðar og eru formlegur hluti námskeiðsins.
– Samanstandi hestanámskeiðið af þremur eða fleiri skiptum má ég að hámarki missa af einu þeirra að því gefnu að ég hafi bersýnilega æðri skyldu sem hindri mætingu mína og/eða vottorð fagaðila því til staðfestingar.
– Ef námskeiðinu lýkur ekki fyrr en eftir lokafrestinn skal ekki telja það með nema 3/4 allra áætlaðra skipta á sér stað fyrir lokafrestinn, og skulu framangreind skilyrði þá miða við þann fjölda skipta sem eiga sér stað fyrir lokafrestinn.