Niðurhalsskattur STEF

Í Fréttablaðinu 8. október er sagt frá því að Eiríkur Tómasson hafi kynnt hugmynd á fundi hjá STEF um að setja gjöld á nettengingar á Íslandi gegn því að í boði verði svæði þar sem fólk getur náð sér í tónlistina löglega. Hugmyndin um gjöld á nettengingar er alls ekki ný en álíka hugmyndir hafa verið bornar upp af rétthafasamtökum erlendis. Þetta er þó í fyrsta sinn sem ég hef heyrt af þeirri útfærslu að samtökin bjóði upp á niðurhal í staðinn.

En hvað er að þessari hugmynd? Er ekki allt í lagi að borga smá gjald og í staðinn má niðurhala eins mikið af tónlist og maður vill? Misskilningurinn kemur fram í seinni hluta spurningarinnar. Meðal gallanna er sú staðreynd að ekkert mun breytast hvað varðar það niðurhal sem netverjar hafa stundað. Ef við ímyndum okkur það sem gerist ef þetta verður að veruleika, þá er það eina sem breytist er að netreikningurinn hækkar og í staðinn fáum við aðgang að svæði til að niðurhala tónlist. Það verður áfram ólöglegt að niðurhala tónlist frá öðrum stöðum. Í grunninn séð er verið að neyða okkur til að greiða fyrir þjónustu óháð því hvort við höfum nokkurn áhuga á að nota hana eða ekki.

Og hvað þýðir þetta? Neydd viðskipti. Allir nettengdir Íslendingar yrðu neyddir til að eiga viðskipti við STEF, hvort sem þeim líkar betur eða verr. Hvernig litist þér á ef þú yrðir einnig neyddur til að greiða gjald til rithöfunda í hverjum mánuði ofan á nettenginguna þína? Ekki fá rithöfundar neitt í hvert sinn sem þú flettir upp á einhverju á netinu. Ef þetta verður að lögum er ríkið að blanda sér í mál sem það ætti ekki að snerta á.

STEF eru auðvitað ekki einu rétthafasamtökin. Um leið og við höfum samþykkt hugmyndina um að gjald sé sett á nettengingar vegna einna rétthafasamtaka, af hverju ættum við að hafna beiðni annarra samtaka ef þau óska eftir því að taka líka þátt? Gjaldið sem átti að vera lítið og nett er allt í einu orðið byrði á netnotendur. 500 króna gjaldið gæti orðið að 2000 króna gjaldi og gæti orðið að helmingnum af því sem netaðgangurinn kostar.

Samkomulagið yrði auðvitað nokkuð auðvelt fyrir STEF. Þeir bjóða nú þegar upp á sömu þjónustu gegn gjaldi og því væri lítið mál fyrir samtökin að efna sinn hluta af því. Núna eru þau að reyna að koma því í gegn að allir netnotendur á Íslandi séu neyddir til að greiða fyrir þjónustuna og auðvitað hlustar sokkabrúða þeirra, Katrín Jakobsdóttir, á rétthafasamtökin.

STEF er einnig á rangri leið, hugmyndafræðilega séð. Ef við ímyndum okkur fræðilegt hlutverk þeirra, þá á það að vera að vernda rétt höfundanna sem það samanstendur af. En núna virðast samtökin ætla að fara út í það að bjóða upp á niðurhal gegn greiðslu. Hver verndar rétt höfunda gagnvart STEF í þessum málum? Hvað um rétt höfunda sem vilja ekkert með þetta samkomulag að gera? Það á ekki að vera hlutverk samtakanna að fara út í slík viðskiptamódel. Hugmyndafræðin styður ekki að samtökin sjálf gerist dreifingaraðilar á verkum meðlima þess.

Annáll 2008

Ýmislegt og ekkert hefur gerst fyrir mig á árinu 2008. Það versta er að maður er ekkert að skrifa niður árið jafnóðum sem orsakar að sumir hlutir eru ekki nefndir en eiga það svo sannarlega skilið. Einnig vil ég minnist á hluti sem eru svo sannarlega þess virði að rifja upp.

Istorrent málið
Ekki er hægt að komast hjá því að minnast á hið margumtalaða Istorrent mál sem ég er einna þekktastur fyrir. Málið hefur verið í gangi alveg frá því í nóvember 2007 og er því ekki enn lokið. Fyrsta umferð þess var í gangi þegar árið hófst og voru það rétthafasamtökin SMÁÍS, STEF, Framleiðendafélagið SÍK og Félag Hljómplötuframleiðenda (FHF) sem stefndu mér og fyrirtækinu sem ég stofnaði í kringum reksturinn.

Fyrsta krafa okkar var að vísa ætti málinu frá en kröfu okkar var hafnað í febrúarmánuði og hélt þá málið áfram. 11. mars var nokkuð viðburðarríkur dagur þar sem munnlegur málflutningur fór fram fyrir Héraðsdómi Reykjaness og stóð hann frá kl. 9 og til um 16:30. Þann 27. sama mánaðar átti að lesa upp úrskurð í málinu. Þetta var stóri dagurinn og bjóst ég við því að þarna væri ákveðið hvernig málið færi en í stað þess var ákveðið að vísa málinu frá. Það kom nokkuð á óvart en mér var létt. Ég vissi það frá upphafi að málið myndi enda hjá Hæstarétti svo ég vissi sömuleiðis að þessi úrskurður væri ekki lokaorðið.

Innan við viku síðar var úrskurðurinn kærður til Hæstaréttar þar sem niðurstöðunni var auðvitað mótmælt. Við studdum auðvitað niðurstöðuna í megindráttum og sendum auðvitað okkar eigin greinargerð. Síðan gerðist það 8. maí að Hæstiréttur ákvað að vísa málinu frá hvað varðar SMÁÍS, Framleiðendafélagið SÍK og FHF en kröfum STEF yrði hafnað. Þetta var stór sigur fyrir Istorrent og var ákveðið að opna skráardeilingahluta vefsins aðfaranótt 16. maí ef ekkert stæði því fyrir vegi. Snæbjörn Steingrímsson gaf út þá tilkynningu að rétthafarnir myndu þá sjálfir krefjast lögbanns í eigin nafni en ekkert varð úr því.

Hins vegar vissi ég frá upphafi að þeir gætu gefið út nýja stefnu í þessu tilviki og vildi því ekki vera að byggja upp miklar vonir innra með mér – allavega ekki fyrr en fresturinn væri örugglega liðinn. Undirbúningur fyrir opnun fór samt fram ef það myndi gerast að þeir myndu ekki gera neitt. Ætlunin var að framkvæma ýmsar breytingar sem myndi krefjast þess að vefurinn myndi verða niðri en það gekk ekki svo vel. Það var því bæði fagnaðarefni og vonbrigði þegar stefna kom frá STEF.

Tafir urðu á flutningi málsins vegna sumarfría en á þeim tíma árs er réttarkerfið rosalega hægvirkt. Við kröfðust aftur frávísunar á málinu og fór málflutningurinn fram 3. september. Peter Sunde hafði samband við mig og minntist á að hann yrði á landinu og það vildi svo til að hann hafði lausan tíma til að fylgjast með málflutningnum. Hann var einn af þeim fáu sem mættu en það gerði lítið til þar sem hópurinn fór síðan á Dominos og ræddi um ýmsa hluti yfir flatböku.

Þann 26. september náðist einhver árangur hvað Héraðsdóm Reykjaness varðaði. Málinu var vísað frá að hluta til en hún fólst í 4 orðum í einni kröfunni og síðan kröfunni um staðfestingu lögbannsins. Ákveðið var að kæra þá hluta úrskurðsins sem var ekki vísað frá en við vildum ekki gera það nema STEF kærði þann hluta sem vísað var frá. Til að gera langa sögu styttri vísaði Hæstiréttur kærunni okkar frá en dæmdi í kæru STEF. Hann vísaði þó „sambærilega vefsíðu“-kröfunni frá en krafan um staðfestingu lögbannsins ætti að vera tekin fyrir hjá héraðsdómi. Í fyrirtöku í nóvember var ákveðið að munnlegur málflutningur í málinu færi fram 7. janúar 2009.

Bónusvídeó
Þeir ákváðu að nýta sér það að ég væri þekktur og létu útvarpa auglýsingu í júní þar sem nafn mitt var notað. Það var gert án samráðs við mig en sumir héldu að ég hefði samþykkt notkun þeirra á nafninu mínu. Þótt auglýsingin fór fögrum orðum um mig innihélt hún samt lygi og vildi ég að þeir tækju hana úr umferð. Eigandi Bónusvídeó bauðst til að láta mig hafa tvær fríar spólur en ég afþakkaði. Auglýsingin var síðan tekin úr umferð skömmu síðar. Frétt um atburðinn var síðan birt í Fréttablaðinu.

Síðar um árið lét Bónusvídeó gera aðra auglýsingu með nafni mínu en hún var heldur ekki gerð í samráði við mig eins og hin auglýsingin. Þar sem auglýsingin innihélt ekki lygi ákvað ég að gera ekkert í því. Auk þess grunaði mig að hún myndi njóta meiri athygli ef ég gerði það (og niðurstaðan væri álík Streisand Effect).

Dauðsföll
Stuttu eftir að auglýsingin frá Bónusvídeó var tekin úr loftinu gerðist sá sorglegi atburður að amma mín í föðurætt dó eftir langvær veikindi. Verð að játa það að jarðarförin var mjög sorgleg en ég var samt ánægður með það að þjáningum hennar væri lokið.

Skólaganga
Ég fór aftur í skólann í ágúst eftir að hafa tekið mér frí á vorönninni. Það mætti segja að sú önn hafi valdið því að ég hafi orðið að vera mikið meira upp í skóla en undanfarnar annir. Orsökin var sú að sumir kennararnir höguðu náminu þannig að það væri umfangsmeira en námsskipulagið gerði ráð fyrir. Þá voru margir nemendur í vandræðum með að anna álaginu og í framhaldi kvartana ákváðu kennararnir að minnka umfangið verulega. Það var þó ekki beint frí þar sem hinir kennararnir settu skiladaga á stórum verkefnum með stuttu millibili. Prófatímabilið hafi því verið frí í samanburði við það sem undan var. Niðurstaða hennar var sú að ég náði öllum áföngunum. Þá er að sjá hvað mun gerast á næstu önn.

Tanntakan
Einn sársaukafyllsti atburður lífs mín (til þessa) gerðist þann 26. ágúst en þá var vinstri endajaxlinn minn á neðri góm tekinn. Þar sem hluti af tönninni var undir þeirri næstu tók aðgerðin lengri tíma en áætlað var Þessar 50 mínútur sem aðgerðin tók voru mjög sársaukafullar og nefndi tannlæknirinn jafnval það að þetta væri ein erfiðasta tönn sem hann hefði þurft að taka út. Það kom mér á óvart að hann skuli hafa skrifað á mig pensillín en engin verkjalyf. Sem betur fer fékk ég verkjalyf heima sem höfðu samt því miður takmarkað gagn. Næstu daga hafði ég mjög litla lyst á mat en ef ég borðaði eitthvað, þá varð það að vera mjög mjúkt.

Kreppan
Fáir Íslendingar hafa ekki heyrt um slæma efnahagsástandið sem hafa dunið yfir í þjóðfélaginu. Sem betur fer var ég ekki með nein bankalán en féð hjá mér var samt sem áður af skornum skammti. Því ákvað ég í nóvember að taka á í fjármálunum og setja mér stefnu. Stefnan byggðist á því að skera á allt sem ég taldi óþarfa og stofna ekki til nýrra útgjalda ef ég gæti forðast þau.

Stjórnsýslukæra
Eftir að hafa sent inn beiðni um endurtöku í janúar og beðið án þess að fá svar, ákvað ég að senda inn stjórnsýslukæru. Hún var samin yfir margra mánaða tímabil þar sem ég lét ekki verða af því að senda hana inn. Í desember ákvað ég þó að láta til skarar skríða og gerði eitthvað í því. Fékk ég síðar bréf um að ráðuneytið teldi sig ekki hafa heimild til að skipa nefndinni fyrir en sendi samt áminningu til hennar. Ég á enn eftir að taka ákvörðun hvort ég eigi að ýta á eftir málinu á þessu stigi.

Önnur dauðsföll
Á árinu dóu því miður einstaklingar sem voru merkilegir í mínum augum. Læt ég mér nægja að tengja inn á Wikipedia síður um þá ásamt því að nefna í stuttu máli hvað þeir gerðu.
Gary Gygax – dó 4. mars – Þekktastur fyrir sinn þátt í hönnun Dungeons & Dragons spilanna. Mörg spil eiga uppruna að rekja til „D&D“.
George Carlin – dó 22. júní – Uppistandari sem var óhræddur við að nota þau orð sem hann lysti.
Horst Tappert – dó 13. desember – Horfði mikið á sjónvarpsþættina Derrick áður fyrr en hann lék samnefndan rannsóknarlögreglumann.
Robert James Fischer – dó 17. janúar – Fyrrverandi heimsmeistari í skák.

Áríð í heild
Hægt er að líkja bróðurhluta ársins 2008 við berfættan dans á þyrnirósum. Slæm reynsla getur samt einnig verið góð reynsla vegna lærdómsins sem við fáum út úr henni. Get þó ekki neitað því að það hafa ánægjulegir hlutir gerst yfir árið og er ég þakklátur fyrir það. Einhver þróun hefur átt sér stað í mínu lífi og er ég ánægður með að þær breytingar hafi átt sér stað. Skrefið er ekki fullstigið en ég vonast til þess að ganga lengra í þeim breytingum á nýju ári.

Næsta árið
Þetta er varla hluti af annálnum en það væri hægt að líta til baka og bera saman spá mína við raunverulega atburði ársins. Ég sé fyrir mér að úrskurður í Istorrent málinu muni líta dagsins ljós um mánaðarmótin janúar/febrúar (vika til eða frá) sem mun síðan vera kærður til Hæstaréttar (hver sem niðurstaðan verður). Ætli það taki ekki Hæstarétt 1-2 mánuði að komast að niðurstöðu svo hún ætti að vera birt í mars eða byrjun apríl. Ætla ekki að spá um niðurstöðuna á þessu stigi en ég vonast eftir sigri. Hef ekki ákveðið mig hvort ég opni Istorrent aftur ef sigur næst en það fer fyrst og fremst eftir niðurstöðu málsins og tíðarandanum.

Það er grafið djúpt í stein að ég mun taka vorönnina á tölvunarfræðibraut í Háskólanum í Reykjavík. Sumarið mun fara í að vinna en ekki liggur fyrir hvar eða við hvað ég mun vinna. Í ágúst mun ég hefja þriðja og síðasta árið mitt á tölvunarfræðibraut. Þegar líður á sumarið og út árið mun ég líklegast vinna í gæluverkefnum eftir því sem tími gefst til. Vonandi mun 2009 ganga betur en 2008.

Istorrent-málinu vísað frá dómi

Þann 27. mars sl. var Istorrent-málinu vísað frá dómi. Átti ég ekki von á slíkum dómi þar sem fyrri frávísunarkröfunni var hafnað. Frávísunin virðist byggja á því að dómendur hafi ekki þótt umfjöllun aðila málsins um túlkun laga 30/2002 (lög um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu) vera nógu fullnægjandi. Samkvæmt úrskurðinum þóttu dómendur túlkun laganna hafa afgerandi áhrif á úrslit málsins og væri því til staðar sterk ástæða fyrir því að vísa málinu frá af fyrrgreindum ástæðum. Nú þarf bara að bíða eftir því hvernig stefnendur munu orða þessa áfrýjun sem þeir sögðust ætla að setja fram. Síðan er að bíða eftir því hvað Hæstarétti finnst um ástæðu þessarar frávísunar.

Þessi úrskurður og málið í heild sinni vakti upp áhuga minn og var ég að spá hvort ég ætti að skella mér í lögfræði. Áhuginn hefur verið til staðar í fjölda ára og síðan er líklegt að í framtíðinni munu koma upp einhver mál hjá öðrum aðilum sem krefjast tækniþekkingar og það væri flott ef það væru til staðar fleiri aðilar á landinu sem byggju bæði yfir lögfræði- og tækniþekkingu. Þetta er samt eitthvað sem ég ætti að ákveða þessa helgina því að ég þarf að velja áfangana sem ég fer í næsta vetur fyrir 1. apríl næstkomandi.

Istorrent málið

Margir þekkja mig sem Kjarrval – rekstraraðila Istorrents. Eins og margir vita var sett lögbann á starfrækslu vefsins torrent.is, sem Istorrent ehf. rekur, þann 19. nóvember síðastliðinn. Vefurinn gerir notendum kleift að deila skrám sín á milli en hins vegar hafa ákveðin samtök ákveðið að kæra mig ásamt Istorrent fyrir að eiga hlutdeild í höfundarréttarbrotum en ákváðu að hefja málið með lögbanni á aðalstarfsemi fyrirtækisins. Persónulega tel ég þetta vera tilraun til þess að koma í veg fyrir að fyrirtækið fái inn tekjur til að verjast ásökunum fyrir rétti. Sumir hafa líklegast forvitnast af hverju ég hef þagað allan tímann hér á blogginu en það hefur ekki verið viljandi. Til að rjúfa þögnina, þá hef ég sett upp blogg á www.istorrent.is sem fjallar um málið þar til því er lokið. Einnig mun ég fjalla smá um það hér en allt sem kemur fram hér er mitt persónulega álit og þarf ekki endilega að vera álit annarra sem tengjast málinu.

Hverjir standa fyrir lögbanninu?
Lögbannið var sett á að beiðni SMÁÍS, Framleiðendafélaginu SÍK, STEF og Félags hljómplötuframleiðenda. Hins vegar eru Samtök myndrétthafa á Íslandi (SMÁÍS) ekki kæruaðili í staðfestingarmálinu en þá eru þeir eingöngu fyrir hönd 365 miðla ehf. Þetta er ein ástæða fyrir því að málinu verður líklegast vísað frá. Samkvæmt því munstri sem ég hef upplifað, þá standa SMÁÍS fyrir því að farið var út í lögbann en hin samtökin eru þarna eingöngu að nafninu til.

Hvað mun gerast þegar rétthafasamtökin tapa málinu?
Þessi spurning hefur verið ofarlega í huga mér þar sem ég hugsa oft til framtíðar. Það er auðvitað ætlunin að halda áfram rekstri torrent.is um leið og lögbanninu hefur verið aflétt. Að auki tel ég að tapið verði mikill skellur fyrir öll rétthafasamtökin sem standa fyrir lögbanninu, bæði hvað varðar almenningsálitið og fjárhagslega séð. Ástæða þess að það muni gerast er að síðar í ferlinu mun það vera opinbert að málið hefur verið sérstaklega illa unnið af hálfu kærenda og að þeir hafi ekki átt neina von á að vinna málið frá upphafi. Stóra spurningin er auðvitað hvort að hinir stóru fjölmiðlar muni greina frá því eða ekki þegar vísbendingarnar fara að hrannast upp.

Hvaða heimild hafa samtökin til þess að krefjast lögbanns?
Samtökin hafa ekki heimild til þess skv. lögum til að krefjast lögbanns. Skv. 3. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála (91/1991) geta félagasamtök rekið einkamál til viðurkenningar á tilteknum réttindum félagsmanna eða lausnar undan tilteknum skyldum þeirra, enda samrýmist það tilgangi félagsins eða samtakanna að gæta hagsmuna sem dómkrafan tekur til. Augljóst er að hvorki sé um að ræða viðurkenningu á réttindum né lausn undan skyldu í þessu máli. Þann 13. nóvember sl. féll dómur í Hæstarétti (Hrd. 575/2007) þar sem SMÁÍS var hafnað kröfu um lögbann af þeim ástæðum og staðfestir það heimildarleysi þeirra til að fá í gegn lögbann. Hins vegar var gerð einkar léleg tilraun til þess að fara í kringum dóminn með því að afhenda svokölluð málsóknarumboð en þau hafa litla sem enga þýðingu í málinu. Þá er komin önnur ástæða fyrir afnámi lögbannsins.

Það er ekki ætlun mín að rekja í gegnum allar ástæður þess að málið mun vera Istorrent í hag á þessari stundu. Það verður líklegast gert þegar líður á málið. Greinilegt er að málið mun samt sem áður taka einhvern tíma þar sem flutningur þess verður tímafrekur. Þess ber að geta að málið mun reyna sérstaklega á sjóði fyrirtækisins og mína eigin og hvet ég því alla til þess að styrkja málstaðinn á þessum þarfatíma. Til að leggja beint inn á fyrirtækið, þá er það bankareikningur 0135-26-072153 kt. 670807-2150 en einnig er hægt að leggja inn á bankareikning 0327-13-003120 kt. 071183-2119. Margt smátt gerir eitt stórt.