Niðurhalsskattur STEF

Í Fréttablaðinu 8. október er sagt frá því að Eiríkur Tómasson hafi kynnt hugmynd á fundi hjá STEF um að setja gjöld á nettengingar á Íslandi gegn því að í boði verði svæði þar sem fólk getur náð sér í tónlistina löglega. Hugmyndin um gjöld á nettengingar er alls ekki ný en álíka hugmyndir hafa verið bornar upp af rétthafasamtökum erlendis. Þetta er þó í fyrsta sinn sem ég hef heyrt af þeirri útfærslu að samtökin bjóði upp á niðurhal í staðinn.

En hvað er að þessari hugmynd? Er ekki allt í lagi að borga smá gjald og í staðinn má niðurhala eins mikið af tónlist og maður vill? Misskilningurinn kemur fram í seinni hluta spurningarinnar. Meðal gallanna er sú staðreynd að ekkert mun breytast hvað varðar það niðurhal sem netverjar hafa stundað. Ef við ímyndum okkur það sem gerist ef þetta verður að veruleika, þá er það eina sem breytist er að netreikningurinn hækkar og í staðinn fáum við aðgang að svæði til að niðurhala tónlist. Það verður áfram ólöglegt að niðurhala tónlist frá öðrum stöðum. Í grunninn séð er verið að neyða okkur til að greiða fyrir þjónustu óháð því hvort við höfum nokkurn áhuga á að nota hana eða ekki.

Og hvað þýðir þetta? Neydd viðskipti. Allir nettengdir Íslendingar yrðu neyddir til að eiga viðskipti við STEF, hvort sem þeim líkar betur eða verr. Hvernig litist þér á ef þú yrðir einnig neyddur til að greiða gjald til rithöfunda í hverjum mánuði ofan á nettenginguna þína? Ekki fá rithöfundar neitt í hvert sinn sem þú flettir upp á einhverju á netinu. Ef þetta verður að lögum er ríkið að blanda sér í mál sem það ætti ekki að snerta á.

STEF eru auðvitað ekki einu rétthafasamtökin. Um leið og við höfum samþykkt hugmyndina um að gjald sé sett á nettengingar vegna einna rétthafasamtaka, af hverju ættum við að hafna beiðni annarra samtaka ef þau óska eftir því að taka líka þátt? Gjaldið sem átti að vera lítið og nett er allt í einu orðið byrði á netnotendur. 500 króna gjaldið gæti orðið að 2000 króna gjaldi og gæti orðið að helmingnum af því sem netaðgangurinn kostar.

Samkomulagið yrði auðvitað nokkuð auðvelt fyrir STEF. Þeir bjóða nú þegar upp á sömu þjónustu gegn gjaldi og því væri lítið mál fyrir samtökin að efna sinn hluta af því. Núna eru þau að reyna að koma því í gegn að allir netnotendur á Íslandi séu neyddir til að greiða fyrir þjónustuna og auðvitað hlustar sokkabrúða þeirra, Katrín Jakobsdóttir, á rétthafasamtökin.

STEF er einnig á rangri leið, hugmyndafræðilega séð. Ef við ímyndum okkur fræðilegt hlutverk þeirra, þá á það að vera að vernda rétt höfundanna sem það samanstendur af. En núna virðast samtökin ætla að fara út í það að bjóða upp á niðurhal gegn greiðslu. Hver verndar rétt höfunda gagnvart STEF í þessum málum? Hvað um rétt höfunda sem vilja ekkert með þetta samkomulag að gera? Það á ekki að vera hlutverk samtakanna að fara út í slík viðskiptamódel. Hugmyndafræðin styður ekki að samtökin sjálf gerist dreifingaraðilar á verkum meðlima þess.

8 athugasemdir við “Niðurhalsskattur STEF”

  1. Góður pistill.

    En hvað með þessi STEF gjöld sem sett voru á alla harða diska, skrifanlega diska og önnur geymslupláss? Átti það ekki að dekka allt þetta ólöglega sýsl almennings? Hafa þeir gleymt því?

    En ef þetta verður að veruleika fer ég til þeirrar internetveitu sem myndi ganga gegn þessu og finnst mér líklegt að það yrði Hringiðan, þar sem þeir eru á móti öllu svona. Nefna má t.d. ritskoðun internetsins (DNS filterinn sem Síminn og Vodafone settu upp til að koma í veg fyrir aðgengi notenda að Ringulreið/Slembing og þessum síðum). Þeir tóku ekki þátt í þeirri vitleysu.

  2. @Sævar|Ég heyrði það frá syni manns sem rak tölvuverslun á Íslandi að hann hafi þurft að borga STEF þegar hann flutti inn harðadiska.

  3. Greitt er gjald af öllum stafrænum geymslumiðlum: Hörðum diskum, geisladiskum, tónhlöðum (ipod) etc. Gjaldið rennur til STEF.

    Vandamál samtaka rétthafa á öllu efni, er að í staðinn fyrir að vinna með tækni og nútíma, vilja þeir halda í gamlar, úreldar hefðir og fá að stjórna eins og þeir hafa gert frá örófi alda. STEF er eins og ríkisstjórnin, vill ekki breyta neinu.

    Það væri nær að fá „glæpamennina“ til samráðs við sig, um það hvernig hægt er að ná saman, í staðinn fyrir að gera alla að glæpamönnum.

    Ég, t.d. sótti íslenska tónlist á netið, mest megnis vegna þess að ég gat það, og ekki var önnur leið fyrir mig að nálgast hana stafrænt. Í tæp tvö ár hef ég verið áskrifandi af tonlist.is, og þó svo að ég hafi ýmislegt út á þann vef að setja, þá hef ég ekki DL einasta íslenska lagi. Ég borga 1500 krónur á mánuði og streymi allri þeirri tónlist sem mig langar. Og það er akkúrat sem ég vil gera. Borga sanngjarnt gjald til veitu, sem leyfir mér að streyma efnið.

    Hvað finnst ykkur?

  4. Kostar það bara 1500 á mánuði að geta spilað alla þá tónlist sem maður vill frá tónlist.is? Það er orðið verð sem ég tel sanngjarnt. En verst er að sá vefur er alveg biðvjóðslega ömurlegur í notkun. Það er eins og menn séu viljandi að gera notendum erfitt fyrir að finna og hlusta á tónlist.

  5. Mæli líka með gogoyoko.com 🙂 getur streymt fullt af tónlist frítt og svo keypt hana beint af listamönnunum ef þú downloada henni

  6. Þetta er eitt af því sem ég er að tala um: Fólk veit ekki hversu ódýrt það er að streyma tónlist til sín!

    Jebbs, það kostar bara 1500 kr að streyma allri íslenskri tónlist, og 2000 að mig minnir ef þú vilt fá erlendu tónlistina með.

    Það er ekki besta user interface á þessum vef, en þó er það ekki ómögulegt að streyma til sín tónlist, svo framarlega sem maður man eftir því að logga sig inn fyrst 🙂 Prófaðu bara, mæli með því frekar en að stela tónlist.

  7. Niðurhal er ekki þjófnaður.
    Ég stel ekki einu eða neinu.

    En ég bara neita að nota þennan ógeðslega vef. Hef reynt það nokkrum sinnum og ég fæ bara verk í punginn af því. Það er engin leið að finna tónlist eftir tegundum, öll síðan er gíruð beint inn á FM957 markhópinn, hún er lengi að vinna (slow í hleðslu), alltof fá hits á síðu sem þýðir að allar leitir eru hundrað síður… and it’s annoying!

    Ef það tæki sig einhver til og gerði svona vef sem væri miðaður við að vera NOTAÐUR, þá myndi ég glaður nota hann. Þangað til kaupi ég bara mína tónlist á netinu fyrir 0.2$ stykkið og downloada rest. 🙂

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.