Jónína Benediktsdóttir hefur verið í fréttum undanfarna daga vegna ásakana um að hún er að hvetja viðskiptavini sína til að hætta inntöku lífsbjargandi lyfja. Umræðan seinustu daga hefur einkennst af fram-og-til-baka ummælum Svans Sigurbjörnssonar og Jónínu Benediktsdóttur og greinargerð landlæknisembættisins um meðferð Jónínu.
Detox gengur út á, að nafninu til, að hreinsa líkamann af eiturefnum og er beitt nokkrum aðferðum. Aðferðin sem Jónína beitir er að lækka næringarinntöku niður í 500 hitaeiningar á dag, léttri hreyfingu og síðan hinni valkvæðu ristilskolun. Ádeilan snýst um það fyrst- og síðastnefnda auk þess að lofað er lækningu við hlutum sem hin venjulegu læknisvísindi hafa ekki læknað enn þann dag í dag. Í greinargerð landlæknis kemur fram að lofað sé að detoxið virki á þá sem þjást af krabbameini, þunglyndi, sykursýki II og MS-sjúkdóminum.
Er það ekki gott ef fólk læknast af þessu? Auðvitað er það gott en það er samt mikilvægt að hætta ekki inntöku einkennishamlandi lyfja án þess að sé fótur fyrir því. En þótt einkennin séu ekki sýnileg þarf það ekki að þýða að þau séu horfin með öllu. Tilgangur lyfja er að lækna sjúklinginn af því sem hrjáir hann eða, þegar það tekst ekki, að minnka áhrif einkennana. Þegar þessir sömu sjúklingar taka ekki lyfin er mikil hætta að einkennin komi aftur upp á yfirborðið og ef þau eru lífshættuleg eru talsverðar líkur á að viðkomandi láti lífið í kjölfarið. Að því leitinu til eru óstudd loforð um lækningu sjúkdóma mjög hættuleg.
Svanur vitnar til þess að hann hafi séð fólk á bráðadeild Landspítalans því það hafi hætt að taka inn verkjalyf í framhaldi þess að hafa farið í detox. Jónína segir í óbeinum orðum að það sé samsæri í gangi og að með umfjöllun sinni sé landlæknir þjónn lyfjageirans sem hefur engar trúverðugar rannsóknir sér að baki. Einnig sagði Jónína (á öðrum vettvangi) að engar vísindalegar rannsóknir hafi verið birtar því pólsku læknarnir sem hún ræddi við séu hræddar um að vera drepnir af lyfjafyrirtækjunum ef þær gera það. Hvorki Jónína eða Svanur hafa lagt inn frekari gögn til að styðja fyrrgreindar ásakanir.
Hins vegar beitir Svanur trúverðugari rökum en Jónína þar sem rökfærsla hans er ekki eins uppfull af rökvillum og málflutningur Jónínu einkennist af. Sem dæmi má nefna að Jónína sakar lækna um menntahroka vegna titils síns en segir síðan að hún sé íþróttafræðingur og ætti því að vita betur en þeir um orkuþörf líkamans. Vitnar hún síðan til þess að lækniseiðurinn sé kenndur við Hippókrates og telur þá komna út af sporinu því þeir viðurkenni ekki lengur kenningar hans þar sem hann sagði að innra með fólki sé kraftur sem geti læknað það. Hún gerir sér ekki grein fyrir því að læknisfræðin hefur þróast mikið í gegnum árin og er eiðurinn kenndur við Hippókrates því hann er faðir læknisfræðinnar frekar en að allt sem hélt fram hafi verið og sé enn þá rétt.
Í mörgum umsögnum um detox er minnst á að fólk tapi mörgum kílóum á að fara þangað. Það kemur auðvitað ekkert á óvart þegar fæðuinntakan er talsvert minni en lágmarkskröfur líkamans. Hann neyðist því til að taka af neyðarforðanum (fitunni) og/eða vöðvunum til að viðhalda sér. Fólk getur því léttilega orðið jafnþungt og það var áður eða jafnvel þyngra eftir meðferðina.
Líkaminn tekur of snöggum breytingum ekki vel og því er ekki ráðlagt að taka of snögga kúvendingu á lífsstílnum. Á vef detox eru jafnvel leiðbeiningar um hvernig eigi að undirbúa meðferðina. Á þeim lista eru mörg heilsuráð, sum góð og sum ekki, og tengja fæstir árangurinn við undirbúning sinn fyrir meðferðina. Fyrir þann sem hreyfir sig lítið mun létt hreyfing vera af hinu góða og fyrir þann sem reykir mun vera betra fyrir hann að hætta að reykja.
En af hverju að mæta á detox þegar hægt er að framkvæma þetta allt á eigin vegum? Ástæðan er aðallega skortur á sjálfsaga og síðan er það sjálfsblekking. Játum það bara, það er hellingur af lífsbætandi hlutum sem við getum gert en gerum ekki vegna þess að við nennum því ekki eða einhver önnur fölsk afsökun sem við höfum beitt til að letja okkur frá því að gera það. Hér er komin ágætis afsökun til að breyta um lífsstíl með ‚kerfi‘ sem jafnframt launar okkur fyrir erfiðið með ýmsum lúxus eins og samveru með öðru fólki sem er að ganga í gegnum það sama ásamt nuddi, gufubaði, heitum potti og annarri slökun.
Sjálfsblekkingin gengur út á það að vantreysta ekki meðferðinni því annars missir hún gildi sitt. Viðkomandi vill ekki efast um ágæti hennar því annars er hætta á að hún virki ekki og gæti endað í sama gamla farinu. Því er ríghaldið í þá trú að meðferðin virki og mætir jafnvel reglulega til að viðhalda þeirri trú og vegna áframhaldandi skorts á sjálfsaga. Góður hluti dagskrárliðanna hjá detox stöðinni er eitthvað sem fólk getur léttilega stundað á eigin vegum án þess að greiða háar fúlgur.
Hvað er þá hægt að gera til að bæta lífsskilyrðin? Byggja upp nægan sjálfsaga til að framkvæma þessar lífsstílsbreytingar án þess að treysta á pakka eins og þann sem detox stöðin býður upp á.