Langtímaáherslurnar mínar

Langtímaáherslurnar hafa það hlutverk að endurspegla þá stefnu til lengri tíma sem ég sækist í hverju sinni og/eða gilda sem ég vil viðhalda. Þær eiga að vera vel ígrundaðar þannig að þær taki ekki sífelldum breytingum frá degi til dags. Eins og eðlilegt er tel ég nokkuð eðlilegt að þær þróist með tíð og tíma enda ekki heilbrigt að þær verði óbreyttar til æviloka.

Skilgreining langtímaáherslanna er viljandi með þeim hætti að þær bjóði ekki upp á mælanlegan endapunkt þar sem hægt sé að lýsa því yfir fyrirfram hvenær eða hvernig einhverri áherslunni sé „náð“. Tilgangurinn er að hægt sé að setja markmið byggt á þessum áherslum sem hafa sinn eiginn mælanlegan endapunkt, annaðhvort í þeim tilgangi að komast nær hinni matskenndri áherslu eða í hið minnsta gæta þess að ekki sé farið í andstæða átt.

Við gerð listans var litið til þarfapíramída Maslows og hann nýttur til að flokka langtímaáherslurnar. Ekki ætti að túlka sem svo að skortur á tilvísun í einstaka atriði þarfapíramídans sé merki um að viðkomandi atriði sé hunsað eða skipti litlu máli. Einnig var litið til lista Johns Finnis yfir grunngæðin sjö (e. The Seven Basic Goods) varðandi einhver efnistök. Fyrri drög að þessum langtímaáherslum var sendur ýmsum aðilum til umsagnar og spruttu upp margar áhugaverðar umræður og tillögur og fyrir það er ég þakklátur.

Athuga ætti að langtímaáherslurnar eru ekki markmið í sjálfu sér en ætlunin er að setja markmið út frá þeim sem kveða á um nánari aðgerðir. Sem dæmi er hægt að taka sumarmarkmiðið titlað „Fara yfir fataeign mína og endurnýja eftir þörfum“ á sumarmarkmiðalista ársins 2018, og sjá að slíkt markmið myndi vera til þess fallið að veita langtímaáherslunni um fataúrval framgöngu. Þessi nánari markmið þurfa ekki endilega að vera sumarmarkmið og þurfa heldur ekki að uppfylla eins ströng skilyrði. Ekki eru áform um að birta þessi nánari markmið á þessari stundu, nema þau sem enda sem sumarmarkmið.

Gæta skal þess að túlka áherslurnar ekki of bókstaflega né sem tæmandi útlistun. Ábendingar og önnur gagnrýni eru vel þegin, sérstaklega ef viðkomandi telur að eitthvað sé ábótavant hvað varðar listann sjálfan eða framkvæmd mína.

Grunnþarfir

Mataræði

Mataræði mitt skal vera fjölbreytt og heilbrigt.

Breytingar á mataræði mínu skulu vera vel ígrundaðar og framkvæmdar með heilbrigðum hætti.

Hreyfing

Hreyfing mín skal vera næg til að öðlast og viðhalda góðu þoli og eðlilegri þyngd.

Svefn og afslöppun

Svefntími minn skal vera stöðugur og nægur.

Gæta skal að afslöppunartími sé til staðar og nýttur eftir því sem tilefni er til.

Klæði

Fataúrval mitt skal að minnsta kosti vera nægt miðað við mínar eigin þarfir, sérstaklega með hliðsjón af þeim helstu tegundum atburða sem ég mun taka þátt í.

Heilsusamlegir lifnaðarhættir

Sé ástæða til þess að ætla að líkamleg heilsa mín sé í hættu, tímabundið eða ótímabundið, skal ég leita aðstoðar fagfólks og annarra, eftir því sem tilefni er til.

Árvekni skal viðhöfð um að ég búi í heilbrigðu umhverfi, hvort sem það er innan heimilis eða utan, með viðeigandi aðgerðum eftir getu og þörfum.

Öryggi

Tryggja skal stöðugleika í mínu lífi en þó gæta að eðlileg þróun eigi sér stað.

Taka ætti upplýstar ákvarðanir eftir bestu getu, sérstaklega hvað varðar mögulegar áhættur. Óþarfa áhættu ætti að forðast og/eða lágmarka eftir því sem efni standa til.

Andlegar þarfir

Ég skal vera vakandi fyrir þróun andlegrar heilsu minnar og grípa til viðeigandi aðgerða eftir því sem tilefni er til, þar með talið með því að leita aðstoðar fagfólks.

Félagsleg samskipti

Félagsfærni mína skal rækta og viðhalda.

Við myndun félagslegra tengsla og viðhald þeirra skal meiri áhersla lögð á gæði samskiptanna en magn þeirra.

Gæta skal að nægum og nægilega djúpum samskiptum við fjölskyldu og ættingja, að því marki sem talið er viðeigandi hverju sinni.

Ef tilefni er til í einstaka skipti, ætti ég að vera opinn fyrir því að ljúka félagslegum samskiptum við viðkomandi, enda hafi vægari aðgerðir ekki borið árangur eða yrðu bersýnilega tilhæfulausar.

Virðing gagnvart sjálfum mér og öðrum

Persónulegt sjálfstæði mitt skal verja, og sömuleiðis skal ég virða persónulegt sjálfstæði annarra eftir bestu getu.

Virðing skal borin fyrir margbreytileika mannkyns.

Ég skal vera vakandi fyrir blekkingum og annarri misnotkun gagnvart sjálfum mér og öðrum, og ekki styðja slíka háttsemi né veita henni framgöngu.

Umburðarlyndi skal viðhaft gagnvart skoðunum annarra, að því marki sem það er talið viðeigandi.

Beinar aðgerðir mínar og/eða aðgerðaleysi mega ekki (fyrirsjáanlega) verða til þess að líf eða lífsskilyrði annars aðila yrði stefnt í mikla hættu né þegar nægilega háar líkur séu til þess að svo yrði, ef hjá því er komist. Þetta skal eiga minna við þegar um er að ræða samþykkta áhættu viðkomandi aðila og/eða afleiðingar áhættunnar eru minniháttar miðað við þá hagsmuni sem eru í húfi hverju sinni.

Sjálfsuppfyllingarþarfir

Gagnrýnin hugsun

Sporna skal við sjálfsafneitun á eigin vandamálum sem og annarra.

Eigi óviðeigandi hegðun sér stað af minni hálfu skal ég vera reiðubúinn til þess að læra af henni og, eftir atvikum, bæta fyrir hana.

Hver gagnrýni á mína hegðun eða atferli skal meðhöndluð í samræmi við alvarleika hennar. Ekki skal „skjóta sendiboðann“ fyrir réttmæta gagnrýni.

Bæði styrkleikar og veikleikar mínar skulu viðurkenndir gagnvart sjálfum mér og, eftir því sem þörf er á og viðeigandi, einnig gagnvart öðrum.

Hegðun mín skal í hvívetna vera í samræmi við þá hegðun sem ég óska eftir af öðrum.

Lærdómur

Á hverri stundu skal ég ætíð stefna að því að temja mér einhverja nýja og gagnlega þekkingu.

Gæta ætti þess að ég tapi sem minnstri þekkingu.

Stefnt skal að aukningu á skilningi mínum á mannlegum samskiptum.

Læra skal af mínum eigin mistökum sem og annarra.

Þeirri þekkingu sem ég bý yfir skal, eftir því sem er talið viðeigandi, vera miðlað til annarra.

Skipulag

Að því marki sem eðlilegt er, skal stefnt að því að ná og viðhalda skipulagi yfir mínu eigin lífi. Þetta á bæði við um daglega skipulagningu og til lengri tíma.

Skipulagið skal vera slíkt að það ráði að einhverju leiti við hið óvænta.

Skyldur

Rækja skal skyldur, sem ég hef samþykkt af fúsum og frjálsum vilja að taka að mér, af heilindum.

Skyldum ætti ekki að taka við nema ætlunin sé að rækja þær til enda, eða að minnsta kosti í þann tíma sem eðlilega mætti búast, og að vitað sé hvert áætlað umfang þeirra myndi vera áður en við þeim er tekið.

Hafi ég tekið að mér skyldur sem ég get síðan ekki uppfyllt á ákveðnum tímapunkti skal ég vera reiðubúinn að óska aðstoðar við uppfyllingu þeirra, sé þess kostur og það sé viðeigandi. Séu aðstæður slíkar að ég geti ekki rækt þær nógu vel, skal ég vera tilbúinn til þess að viðurkenna það og láta þær af hendi eins fljótt og fýsilegt er.

Forgangsröðun

Veita ætti öllu og öllum viðeigandi forgangsröðun og framkvæma í samræmi við hana. Gæta skal jafnvægis við forgangsröðun verka í mína eigin þágu og þeirra sem eru í þágu annarra.

Að njóta lífsins

Ég ætti ekki að taka lífinu of alvarlega, og verja viðunandi hluta þess í leik, leiksins vegna.

Við og við ætti ég að gera eitthvað sem hefur ekki sérstakan tilgang umfram upplifunina sjálfa.