Sumarmarkmið 2019

Listinn yfir sumarmarkmið ársins 2019 er fimmti listinn yfir sumarmarkmið sem ég hef sett saman. Í grófum dráttum er fyrirkomulagið á þann veg að ég set saman lista yfir markmið sem ég vil stefna á að ljúka fyrir tiltekna dagsetningu. Dagsetningin í ár er 18. ágúst 2019 og vísað til hennar sem lokafrests. Til að veita sjálfum mér aðhald er fresturinn túlkaður afar strangt og verður ekki færður. Annar þáttur sem hvetur til aðhalds er að sett eru skilyrði og skilgreiningar við hvert markmið sem eiga að leysa úr helstu óvissuþáttum sem gætu valdið vandræðum og fækka matskenndum þáttum.

Ár hvert auglýsi ég eftir tillögum að markmiðum og gef tiltekinn frest til þess. Fyrst var auglýst eftir tillögum þann 16. mars og var frestur veittur út 11. maí til að senda mér þær. Tillögufresturinn átti einnig við um mínar eigin tillögur. Ólíkt fyrri skiptum var einvörðungu litið til tillagna sem höfðu þegar borist vegna fyrri sumarmarkmiðalista ef beðið var sérstaklega um það. Sú nýjung var innleidd þetta skiptið um að úrvinnsla tillagna fór fram eftir sérstaklega skráðum viðmiðum og metið var samræmi hverrar tillögu við langtímaáherslurnar.

Á listanum í ár eru 23 aðalmarkmið og 17 uppfyllingarmarkmið. Aðalmarkmiðin eru þau markmið sem áherslan er á og álitið raunhæft að ljúka þeim fyrir lokafrestinn með hliðsjón af öðrum aðalmarkmiðum, ef allt gengur vel. Uppfyllingarmarkmiðin lúta ekki þeim viðmiðum og er aðallega unnið í þeim þegar ekki er hægt að vinna í aðalmarkmiði þá stundina eða sérstaklega hliðhollar aðstæður séu til staðar.

Listinn er birtur til þess að veita möguleika á enn frekara aðhaldi gagnvart mér sjálfum og jafnframt gefa öðrum hugmyndir hvað þau geta gert í sumar (þar sem við á). Þegar nánari skilgreining og skilyrði hafa sett eru þau einnig tekin fram. Áætlað er að uppfæra listann yfir sumarið eða í seinasta lagi stuttu eftir að lokafresturinn er liðinn. Staðan sem gefin er upp er staða viðkomandi markmiðs seinast þegar stöðu þess var breytt.

Skýrsla um framkvæmd sumarmarkmiða árið 2019

Almennt um sumarmarkmið

Hlekkir sem eru á sumarmarkmiðalistanum sjálfum eru eingöngu til upplýsinga en eru ekki endilega hluti af skilgreiningu einstakra markmiða.

Aðalmarkmið

Rusltíningarferð
Staða: Klárað
Skilgreiningar/skilyrði:
– Um er að ræða göngutúr með ruslapoka með það markmiði að týna hvers kyns rusl sem á vegi mínum og/eða þeirra sem ég geng með.
– Lengd rusltíningarferðarinnar skal vera a.m.k. 30 mínútur.

Fara í fallturninn í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum
Staða: Klárað

Hlaupa/skokka fimm kílómetra
Staða: Óklárað
Skilgreiningar/skilyrði:
– Vegalengdin þarf að hafa verið hlaupin/skokkuð í einni atrennu, þó þannig að leyfilegt sé að stoppa af eftirfarandi ástæðum:
– – Til að hlíta umferðarreglum.
– – Til að hlíta boðum líkamans um álagsminnkun.
– – Force majure aðstæður koma upp.

Taka eina sjálfsmynd á dag
Staða: Klárað
Skilgreiningar/skilyrði:
– Með sjálfsmynd er átt við kyrrmynd sem ég tek af sjálfum mér.
– Dagur í þessu samhengi er almanaksdagur.
– Gleymist að taka sjálfsmynd tiltekinn dag verður það ekki til þess að markmiðið klárist ekki. Þetta á þó ekki við ef það gerist í þrjá daga í röð eða tíu sinnum eða oftar yfir tímabilið.
– Ekki telst það gegn markmiðinu ef ég nær ekki að taka mynd sökum force majure ástæðna, svo framarlega sem það gerist ekki fimm sinnum eða oftar yfir tímabilið.

Fara á leikrit sem Leikhópurinn Lotta flytur
Staða: Klárað
Skilgreiningar/skilyrði:
– Ég skal hafa séð a.m.k. eitt leikrit leikhópsins frá upphafi til enda.

Skrifa tiltekinn fjölda greina á Íslensku Wikipediu
Staða: Klárað
Skilgreiningar/skilyrði:
– Fjöldi greina skal vera skilgreindur sem fimmtíu talsins.
– Til að grein teljist til markmiðsins skal hún hafa verið stofnuð og rituð af mér sjálfum á framkvæmdatíma sumarmarkmiðalistans.
– Greinin skal uppfylla viðmið Wikipediu um markvert efni og vera lengri en ein setning. Viðfangsefnið má ekki hafa þegar fengið umfjöllun í sérstakri grein á Íslensku Wikipediu fyrir stofnun minnar greinar né má grundvöllur greinarinnar byggjast að meginefninu til á afritun hluta af umfjöllun annarrar greinar sem fjallar meðal annars um viðfangsefnið.

Gera mína eigin erfðaskrá
Staða: Óklárað
Skilgreiningar/skilyrði:
– Með minni eigin erfðaskrá er átt við erfðaskrá þar sem ég tilgreini ráðstöfun arfs við skipti á mínu eigin dánarbúi.
– Erfðaskráin skal gerð og vottuð í samræmi við erfðalög nr. 8/1962, með síðari breytingum, og/eða önnur íslensk landslög sem gilda á þeim tíma um þær.
– Markmiðið telst klárað við vottun hennar af hálfu lögbókanda eigi hún sér stað fyrir lokafrestinn. Hafi bókun tíma hjá lögbókanda átt sér stað fyrir 1. ágúst 2019, og án þess að í boði hafi verið tími hjá honum sem myndi eiga sér stað fyrir lokafrestinn, telst markmiðið samt sem áður klárað hafi tíminn ekki verið afpantaður af minni hálfu þegar lokafresturinn rennur upp.

Merkja inn tiltekinn fjölda gangbrauta inn á OpenStreetMap (OSM)
Staða: Klárað
Skilgreiningar/skilyrði:
– Gangbraut í samhengi þessa markmiðs skal vera skilgreind sem staðsetning á umferðargötu merkt með viðeigandi umferðarmerki, hvítmáluðum línum yfir götuna, eða með öðrum augljósum merkingum um að þar megi gangandi vegfarendur þvera umferðargötu.
– Gangbrautirnar sem ég skal setja inn á framkvæmdartímabilinu skulu vera a.m.k. hundrað talsins. Staðsetningar þeirra skulu byggjast á eigin vitnisburði eða gögnum, eða á nógu áreiðanlegum gögnum frá traustum aðila.
– Merking gangbrauta inn á OSM skal teljast viðbót highway=crossing samsetningar á nóðu (e. node) þar sem gangbraut er staðsett skv. vitnisburði og/eða gögnum, þar sem slíka viðbót var ekki þá þegar að finna. Nóðan þarf ekki að hafa verið til staðar þá þegar. Þessi nóða skal einnig vera tengd við viðeigandi gönguleiðir sitt hvoru megin við þá götu, séu slíkar gönguleiðir til staðar inn á OSM. Aðrar aðgerðir inn á OSM í tengslum við gangbrautirnar, eins og innsetning annarra upplýsinga, eru markmiðinu óviðkomandi.

Setja upp sniðgöngulista
Staða: Óklárað

Fara í tiltekið margar heimsóknir til annars fólks sem ég hef ekki heimsótt áður
Staða: Óklárað (2 af 5 lokið)
Skilgreiningar/skilyrði:
– Heimsóknirnar skulu vera fimm talsins.
– Hver heimsókn skal fara fram á heimili viðkomandi aðila og standa í a.m.k. þrjátíu mínútur.
– Heimsókn telst ekki gagnvart þessu markmiði hafi ég áður farið í heimsókn til viðkomandi.
– Deili tveir eða fleiri aðilar sama heimili telst heimsóknin einvörðungu einu sinni. Nóg er að ég hafi áður farið í heimsókn til eins af þeim aðilum svo hún teljist ekki gagnvart nokkrum þeirra.

Bjóða tiltekið mörgum aðilum í heimsókn sem hafa ekki heimsótt mig áður
Staða: Óklárað (0 af 5 lokið)
Skilgreiningar/skilyrði:
– Heimsóknirnar skulu vera fimm talsins.
– Heimsóknirnar skulu fara fram á mínu heimili og skal hver þeirra standa í a.m.k. þrjátíu mínútur.
– Heimsókn telst ekki gagnvart þessu markmiði hafi viðkomandi áður komið í heimsókn til mín á núverandi heimili mitt.
– Komi tveir eða fleiri aðilar í heimsókn til mín á sama tíma skal heimsóknin eingöngu telja einu sinni gagnvart þessu markmiði. Nóg er að heimsókn eins þessara aðila hafi staðið í a.m.k. 30 mínútur.
– Heimsókn sem uppfyllir áðurgreind atriði telst gagnvart þessu markmiði eigi fyrr en þegar henni er lokið.

Gera tiltekið margar armbeygjur
Staða: Óklárað (0 af 30 lokið)
Skilgreiningar/skilyrði:
– Armbeygjurnar skulu vera þrjátíu talsins og þurfa ekki að hafa verið framkvæmdar linnulaust. Þær skulu framkvæmdar á yfirborði sem er tiltölulega slétt þar sem líkami minn er.
– Styðjist einhver annar líkamshluti en hendur (úlnliður til og með fingrum), tær, táberg, kviður, og haus við yfirborðið á meðan armbeygju stendur telst sú armbeygju ekki.
– Armbeygja skal hefjast með því að handleggir séu í beinni stöðu, líkaminn síðan látinn síga niður þar til hluti andlits og/eða kviður snertir yfirborðið og líkaminn lyftur þannig að handleggir séu síðan aftur í beinni stöðu.
– Óheimilt er að nýta búnað eða aðstoð annarrar manneskju til að auðvelda armbeygjurnar líkamlega.

Fara einn hring í kringum landið
Staða: Klárað
Skilgreiningar/skilyrði:
– Ferðin skilgreinist sem ferð um þjóðveg nr. 1, sem almennt er vísað til sem hringvegarins.
– Ferðin skal vera á a.m.k. 90% af lengd hringvegarins, en til frádráttar af lengd hringvegarins kemur sá hluti sem ekki er farinn vegna force majure ástæðna. Sé ferðast um vegbút sem telst ekki til hringvegarins og endað annars staðar á hringveginum, skal telja þá vegalengd hringvegarins sem þar er á milli, sé hún styttri en þeir vegbútar sem voru farnir í hennar stað.
– Ferðin þarf ekki að vera samfelld.

Fara til Austurlands
Staða: Klárað
Skilgreiningar/skilyrði:
– Skal hafa sofið þar í a.m.k. eina nótt.
– Til Austurlands í þessu samhengi teljast þau landsvæði sem stjórnsýslulega heyra undir Borgarfjarðarhrepp, Djúpavogshrepp, Fjarðabyggð, Fljótsdalshérað, Fljótsdalshrepp, Seyðisfjarðarkaupstað og Vopnafjörð.

Fara til Vestfjarða
Staða: Klárað
Skilgreiningar/skilyrði:
– Skal hafa sofið þar í a.m.k. eina nótt.
– Til Vestfjarða teljast þau landsvæði sem stjórnsýslulega heyra undir Árneshrepp, Bolungarvíkurkaupstað, Ísafjarðarbæ, Kaldrananeshrepp, Reykhólahrepp, Strandabyggð, Súðavíkurhrepp, Tálknafjarðarhrepp og Vesturbyggð.

Ljúka yfirferð og endurnýjun á fataeign minni
Staða: Óklárað
Skilgreiningar/skilyrði:
– Fataþörfin skal vera álitin hin sama og sumarið 2018, en heimilt er þó að endurskoða hana sé talin þörf á því. Lækkun á fjölda hefur ekki áhrif gagnvart kröfum þessa markmiðs.
– Sé fjöldi fata sem ég á af tiltekinni tegund lægri en það lágmark skal bæta úr því á þann hátt að fataeign mín fyrir lokafrestinn verði á einhverjum tímapunkti á því lágmarki eða meiri.
– Markmiðið telst klárað ef fataþörfin er uppfyllt á einhverjum tímapunkti á framkvæmdartímabilinu. Þó skal telja fatnað sem pantaður hafði verið fyrir lokafrestinn þótt hann sé ókominn, sé pöntunin enn virk eða í sendingu þegar lokafresturinn rennur upp.

Taka a.m.k. 42 myndir af 42 sem ég hef ekki tekið áður
Staða: Klárað
Skilgreiningar/skilyrði:
– Myndir teknar af öðrum en mér teljast ekki með.
– Hver mynd þarf að vera af fyrirbærinu 42 hvort sem það er táknað með tölustöfum, bókstöfum, eða blöndu af hvorutveggja.
– Sé fyrirbærið 42 hluti af táknarunu telst það ekki við eftirfarandi aðstæður:
– – a) Tölustafur kemur strax á eftir 42
– – b) Annar tölustafur en 0 kemur á undan 42
– Til að mynd teljist þarf hún að vera tekin á tímabilinu frá því markmiðið var sett og fyrir lokafrestinn.
– Séu teknar margar myndir af sama eintakinu af 42 innan tímabilsins getur það ekki talist oftar en einu sinni fyrir þetta markmið.
– Hafi ég áður tekið mynd af sama eintakinu af 42 fyrir upphaf tímabilsins telst eintakið ekki með þrátt fyrir að ég taki nýja mynd af því innan tímabilsins.

Gróðursetja tré
Staða: Óklárað
Skilgreiningar/skilyrði:
– Ég þarf persónulega að hafa gróðursett tréð.
– Tréð má jafnframt enn þá vera fræ.

Prófa Segway
Staða: Óklárað
Skilgreiningar/skilyrði:
– Að klára heilan Segway túr sé leiga tækisins háð því.
– Sé leiga tækis ekki háð fyrir fram skilgreindum túr, að prófa það í a.m.k. þrjátíu mínútur eða klára heilan Segway túr sé hann valkvæður.

Kortleggja Fjölskyldu- og húsdýragarðinn fyrir OpenStreetMap
Staða: Óklárað
Skilgreiningar/skilyrði:
– Kortlagningin skal fela í sér að ég fari í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn og framkvæmi viðeigandi mælingar og skráningar á upplýsingum sem þar er að finna, og setja afurðina inn á OpenStreetMap.
– Markmiðið telst klárað þegar eftirfarandi mælingar og öflun upplýsinga í tengslum við Fjölskyldu- og húsdýragarðinn í Reykjavík er lokið og þær nýttar til að framkvæma viðeigandi aðlaganir inn á OpenStreetMap, að því marki og með þeim hætti sem OpenStreetMap styður og/eða viðurkennir að megi skrá:
– – Útlínur rýma utandyra sem dýrin hafa til umráða.
– – Merking svæði eftir aðgangsheimildum.
– – Skráning svæða þar sem starfsemi og önnur þjónusta fer fram.
– – Hvar megi búast við því að hver dýrategund haldi sig, innandyra sem og utandyra.
– – Staðsetning leiktækja, helst útlínur, og helstu upplýsingar um þau.
– Ekki skal krafist þess að mælingar eða öflun upplýsinga fari fram á svæðum sem almennir gestir garðsins hafa að jafnaði ekki aðgang að, nema fyrir liggi sérstakt leyfi eða heimild frá viðeigandi aðilum um slíkt.

Skrifa og keyra skröpunartól sem skrapar auglýsingar Stjórnartíðinda yfir á gagnagrunn
Staða: Klárað
Skilgreiningar/skilyrði:
Stjórnartíðindi í samhengi markmiðsins vísar til þeirrar útgáfu sem íslensk stjórnvöld gefa út á netinu samkvæmt lögum nr. 15/2005.
– Þeir hlutar Stjórnartíðinda sem skröpunin skal ná yfir eru:
– – A-deild
– – B-deild
– – C-deild
– Kóðinn fyrir skröpunartólið skal hafa verið skrifaður og viðeigandi kóði til staðar fyrir hvern einstaka hluta Stjórnartíðinda.
– Markmiðið telst klárað ef skröpunartólið er komið í gang og hefur náð að safna saman í lista yfir heilt almanaksár af auglýsingum í hverjum hluta Stjórnartíðinda sem skröpunin á að ná yfir.
– Markmiðið gæti einnig talist klárað ef skröpunartólið hefur verið sett upp til að ná í lista yfir nýjustu auglýsingarnar, t.a.m. með RSS-aðgangi, en nægilega tæmandi listi yfir eldri auglýsingar sé fenginn með öðrum hætti með eða án milligöngu skröpunartólsins og sá listi sé kominn inn á gagnagrunninn.
– Hver færsla um auglýsingu á listanum skal að lágmarki innihalda eftirfarandi upplýsingar:
– – Deild Stjórnartíðinda
– – Útgáfunúmer
– – Útgáfudag
– – Titilinn sem hún gengur undir
– – Einkvæmt auðkenni hennar á vef Stjórnartíðinda

Ljúka eftirvinnslu á öllum skönnuðu ljósmyndaalbúmunum
Staða: Óklárað (0 af <60)
Skilgreiningar/skilyrði:
– Ljósmyndaalbúm í samhengi þessa markmiðs er skilgreint sem albúm með ljósmyndum sem ég fékk frá foreldrum mínum og skannaði inn á stafrænt form. Þá telst það einnig ljósmyndaalbúm í sama samhengi ef ljósmyndum hafði verið safnað saman í einstaka umbúðir, t.a.m. framköllunarumslög.
– Eftirvinnsla í samhengi þessa markmiðs telst sú aðgerð að vinna með þær stafrænu útgáfur af skönnuðu myndunum. – Eftirvinnslu einstakrar ljósmyndar telst lokið þegar vistuð hafa verið tvö önnur stafræn eintök byggt á upprunalega stafræna eintakinu þar sem eftirfarandi á við:
– – Þeir hlutar myndarinnar sem ekki eru hluti af ljósmyndinni hafa verið klipptir af eða gerðir gegnsæir. Í tilviki sjálfvirkra ferla dugar að þær aðgerðir dugi að svo miklu leiti sem sanngjarnt megi búast.
– – Annað eintakið skal vera á upprunalega skráarsniðinu í sömu upplausn. Hitt eintakið skal vera smækkað eintak sem hentar til dreifingar á samfélagsmiðlum, ef ákvörðun væri tekin um slíkt.
– Eftirvinnslu skal lokið á öllum innskönnuðum myndum allra ljósmyndaalbúmanna til að markmiðið teljist klárað, eða 60 ljósmyndaalbúm, hvort sem uppfyllist áður.

Gera tiltekinn fjölda upptalinna atriða utan höfuðborgarsvæðisins
Staða: Klárað („Taka mynd af fimm fossum“, „Fara á Reynisfjöru“, „Fara til Mývatns og umhverfis“, og „Fara að skoða Hvítserk“ lokið)
Skilgreiningar/skilyrði:
– Upptöldu atriðin eru, ásamt nánari skilgreiningum þeirra:
– – Taka mynd af fimm fossum
– – – Myndir teknar af öðrum en mér teljast ekki með.
– – – Til að mynd teljist þarf hún að hafa verið tekin á tímabilinu frá því markmiðið var sett og fyrir lokafrestinn.
– – Stíga fæti á jökul
– – – Með jökli er átt við landfræðilega fyrirbærið.
– – – Að hafa stigið fæti á jökul þannig að allur líkaminn minn styðst við jökulinn.
– – Fara á Reynisfjöru
– – – Skal hafa verið á ströndinni í a.m.k. fimmtán mínútur samfleytt.
– – – Sé nægrar varúðar ekki gætt vegna mögulegs öldugangs á svæðinu telst þetta atriði markmiðsins vera ókláranlegt á framkvæmdartímabilinu.
– – Fara til Mývatns og umhverfis
– – – Til Mývatns og umhverfis telst stöðuvatnið Mývatn ásamt því svæði sem fellur innan friðlýsta svæðisins skv. lögum nr. 97/2004, að undanskildum þeim hluta sem er meðfram bökkum Laxár báðum megin frá og með þar sem Laxá og Helluvaðsá mætast.
– – – Þarf að hafa stoppað þar og litið um í a.m.k. 15 mínútur alls, utan ökutækis og utanhúss.
– – Fara að skoða Hvítserk
– – – Hvítserkur í samhengi þessa markmiðs er klettur í Húnafirði undir því nafni.
– – – Ég þarf að vera á svæðinu í sjónmáli við Hvítserk í fimmtán mínútur án þess að vera í ökutæki.
– – Fara upp á eitt fjall
– – – Ég þarf sjálfur að hafa farið upp á fjallið með því að ferðast meðfram hlið fjallsins og að efsta punkti þess, án aðstoðar vélknúinna tækja.
– – – Efsti punktur fjallsins þarf að vera a.m.k. tvö hundruð metrum hærri en sá punktur sem ég lagði af stað frá.
– Til að markmiðið teljist klárað skal ég hafa framkvæmt að minnsta kosti þrenn af þessum atriðum.

Uppfyllingarmarkmið

Vera vegan í þrjá daga samfleytt
Staða: Óklárað
Skilgreiningar/skilyrði:
– Með dögum í þessu samhengi er vísað til almanaksdaga.
– Vegan, í skilningi þessa markmiðs, skal vera túlkað vera eingöngu sá hluti þess lífsviðhorfs er snýr að mataræði.
– Innbyrði ég matvæli sem eru bersýnilega ekki vegan eða líklega ekki vegan, telst sá dagur ekki til markmiðsins. Matvæli teljast vegan ef enginn hluti þeirra sé gerður úr dýrum eða afurðum þeirra. Þetta á ekki við um umbúðir utan um matvælin nema þær séu einnig ætlaðar til manneldis.
– Mér er skylt að rannsaka innihald þeirra matvæla sem ég innbyrði í því ljósi að meta hvort einhver hluti innihalds þeirra sé andstæður téðu lífsviðhorfi vegan fólks. Sé að finna yfirlýsingu eða sambærilega merkingu á umboðum tiltekinna matvæla skal hún látin duga nema hún sé bersýnilega röng. Hið sama gildir um merkingar á matseðlum eða yfirlýsingar þeirra sem starfa hjá þeim stöðum þar sem ég kaupi þau.

Baða mig í fossi, eða á/læk
Staða: Óklárað
Skilgreiningar/skilyrði:
– Með fossi, á og læk er átt við landfræðilegu fyrirbærin.
– Böðunin telst sem slík í skilningi markmiðsins ef í tilviki foss að ég standi uppréttur þar sem hann fellur niður og láti vatnið lenda beint á höfuð mér. Í tilviki ár eða lækjar að allur líkaminn minn fyrir neðan háls hafi verið undir yfirborðinu á sama tíma.
– Ekki er gerð krafa um sérstakan klæðaburð eða skort á klæðum á meðan framkvæmd fer fram.
– Önnur landfræðileg fyrirbæri, sem virka með bersýnilega sambærilegum hætti og fossar, ár og/eða lækir, teljast einnig með ef helsti munurinn felst í vatnsmagninu sjálfu.

Anda inn helíum úr blöðru
Staða: Óklárað

Kasta smámynt í „brunn“
Staða: Óklárað
Skilgreiningar/skilyrði:
– Með smámynt er vísað til myntar úr málmi/málmum sem er löglega útgefinn gjaldmiðill af hálfu íslenskra stjórnvalda og/eða erlendra ríkja sem íslenska ríkið er í stjórnmálasambandi við.
– Með brunni í skilningi markmiðs þessa er vísað til vatnsbóls á almannafæri ekki ætluðu til að geyma drykkjarvatn.
– Markmiðið telst klárað þegar ég hef kastað smámynt, óháð fjölda eða upphæð, ofan í brunn, eða annars konar vatnsból, sem bersýnilega er þá þegar með myntum ofan í honum stundina.

Ekki greiða með skiptimynt í fimm daga samfleytt
Staða: Klárað
Skilgreiningar/skilyrði:
– Með skiptimynt í skilningi þessa markmiðs er vísað til gjaldmiðla gerðum úr málmi/málmum sem gefnir hafa verið út af hálfu íslenskra stjórnvalda og/eða erlendra ríkja sem íslenska ríkið er í stjórnmálasambandi við.
– Með dögum í skilningi þessa markmiðs er átt við almanaksdaga.
– Greiðsla fyrir vöru og/eða þjónustu með öðru formi endurgjalds en reiðufé ónýtir þann dag gagnvart markmiðinu. Þetta á þó ekki við netviðskipti mín við aðila staddan erlendis né þegar greiðsla reiðufjár í einstaka tilviki er ekki möguleg.
– Sé röng upphæð greidd til baka af hálfu hins aðilans telst afhending mín á mismun þeirrar upphæðar og hinnar réttu ekki gegn þessu markmiði, þótt það feli í sér afhendingu smámyntar.

Panta og fá herbergisþjónustu á hóteli
Staða: Óklárað
Skilgreiningar/skilyrði:
– Með hóteli er átt við lögaðila sem vísar til sín sem hótels og leigir einstök herbergi út til almennings gegn gjaldi til einnar nætur eða fleiri nótta í senn.
– Herbergisþjónustan skal pöntuð innan þess hótels sem ég leigi herbergið af, og skal móttekin innan herbergisins eða við dyr þess.

Prófa spilakassa
Staða: Klárað
Skilgreiningar/skilyrði:
– Ég skal hafa sett pening í spilakassann og spilað eina umferð.
– Hámarksheildarupphæðin skal vera fimm hundruð krónur. Setji ég hærri upphæð en það í þann spilakassa og/eða annan spilakassa í heildina einhvern tímann á framkvæmdartímabilinu telst markmiðið ókláranlegt.
– Mögulegir vinningar hafa engin áhrif á upphæðina.

Fara í þyrluferð
Staða: Óklárað
Skilgreiningar/skilyrði:
– Þyrlan þarf að hafa tekið á loft með mig inn í henni.

Fljóta á kajak
Staða: Óklárað
Skilgreiningar/skilyrði:
– Að hafa stigið upp í og ferðast á kajak í a.m.k. tíu mínútur.

Flúðasigling
Staða: Óklárað
Skilgreiningar/skilyrði:
– Með flúðasiglingu er átt við það sem á ensku kallast „river rafting“.
– Að hafa tekið þátt í flúðasiglingarferð frá upphafi til enda.

Hvalaskoðun
Staða: Óklárað
Skilgreiningar/skilyrði:
– Skal hafa farið í a.m.k. eina sjóferð sem skilgreind er sem hvalaskoðunarferð.
– Þarf ekki að hafa séð hval í þeirri ferð.

Borða fiskmáltíð hjá foreldrum mínum
Staða: Klárað

Búa til myndband og setja inn á YouTube
Staða: Klárað
Skilgreiningar/skilyrði:
– Myndbandið skal uppfylla kröfur YouTube til myndbanda.
– Höfundarréttur myndbandsins skal vera minn, en mér er þó heimilt að setja inn tónlist eða annað hljóðefni sem annar aðili hefur höfundarétt að.

Lesa bók um málefni sem ég veit lítið eða ekkert um
Staða: Óklárað
Skilgreiningar/skilyrði:
– Bókin má vera í formi hljóðbókar.
– Þarf að lesa bókina eða hlusta á hljóðbókina frá upphafi til enda.
– Þarf að vera í góðri trú gagnvart sjálfum mér um að ég hafi enga eða nær enga þekkingu á málefninu sem bókin fjallar um.

Snerta „bona fide“ vita
Staða: Klárað
Skilgreiningar/skilyrði:
– Viti í skilningi þessa markmiðs er sívalur turn sem hefur (næstum) þann eina tilgang að senda út ljósmerki í átt að sjó.
– Ekki er gerð krafa um að vitinn þurfi að vera í notkun þá stundina sem snerting fer fram né að hann sé enn í almennri notkun.
– Snertingin skal vara í a.m.k. fimm sekúndur samfleytt.

Fara á tvær mismunandi bæjarhátíðir
Staða: Óklárað (0 af 2 lokið)
Skilgreiningar/skilyrði:
– Með bæjarhátíð er átt við fjölbreyttan viðburð (meðal annars) höldum á sérstöku svæði eða svæðum sem eru almennt opin almenningi og er beint á vegum eða studdur af sveitarfélaginu þar sem hún er haldinn. Þá skal hann vera haldinn með slíkum hætti að búist er við því að fólk komi og fari af svæðinu eftir sinni hentisemi.
– Til að viðvera mín telst gagnvart markmiðinu þarf ég að hafa verið á því svæði sem hátíðarhöldin eru haldin á í að minnsta kosti þrjátíu mínútur samfleytt.

Lesa heila bók sem er á tungumáli sem ég skil ekki/varla
Staða: Óklárað
Skilgreiningar/skilyrði:
– Bókin má ekki vera á íslensku, ensku, dönsku, frönsku, eða þýsku.
– Bókin skal vera a.m.k. hundrað blaðsíður að lengd.
– Ég skal hafa lesið bókina frá upphafi til enda.