Sumarmarkmið 2021

Listinn yfir sumarmarkmið ársins 2021 er sjöundi listinn yfir sumarmarkmið sem ég hef sett saman. Í grófum dráttum er fyrirkomulagið á þann veg að ég set saman lista yfir markmið sem ég vil stefna á að ljúka fyrir tiltekna dagsetningu. Dagsetningin í ár er 21. ágúst 2021 og vísað til hennar sem lokafrests. Til að veita sjálfum mér aðhald er fresturinn túlkaður afar strangt og verður ekki færður. Annar þáttur sem hvetur til aðhalds er að sett eru skilyrði og skilgreiningar við hvert markmið sem eiga að leysa úr helstu óvissuþáttum sem gætu valdið vandræðum og fækka matskenndum þáttum.

Ár hvert auglýsi ég eftir tillögum að markmiðum og gef tiltekinn frest til þess. Fyrst var auglýst eftir tillögum þann 26. apríl og var frestur veittur út 31. maí til að senda mér þær. Tillögufresturinn átti einnig við um mínar eigin tillögur. Haldið var áfram þeirri nýjung að vinna úr tillögum eftir sérstaklega skráðum viðmiðum og mat á samræmi hverrar þeirrar við langtímaáherslurnar.

Á listanum í ár eru 25 aðalmarkmið og 6 uppfyllingarmarkmið, er inniheldur aukinn fjölda aðalmarkmiða miðað við árið áður. Aðalmarkmiðin eru þau markmið sem áherslan er á og álitið raunhæft að ljúka þeim fyrir lokafrestinn með hliðsjón af öðrum aðalmarkmiðum, ef allt gengur vel. Uppfyllingarmarkmiðin lúta ekki þeim viðmiðum og er aðallega unnið í þeim þegar ekki er hægt að vinna í aðalmarkmiði þá stundina eða sérstaklega hliðhollar aðstæður séu til staðar.

Listinn er birtur til þess að veita möguleika á enn frekara aðhaldi gagnvart mér sjálfum og jafnframt gefa öðrum hugmyndir hvað þau geta gert í sumar (þar sem við á). Þegar nánari skilgreining og skilyrði hafa sett eru þau einnig tekin fram. Áætlað er að uppfæra listann yfir sumarið með stöðunni hverju sinni eða í seinasta lagi stuttu eftir að lokafresturinn er liðinn. Staðan sem gefin er upp er staða viðkomandi markmiðs seinast þegar stöðu þess var breytt.

Almennt um sumarmarkmið

Hlekkir sem eru á sumarmarkmiðalistanum sjálfum eru eingöngu til upplýsinga en eru ekki endilega hluti af skilgreiningu einstakra markmiða.

Aðalmarkmið

Hoppa á ærslabelg
Staða: Klárað
Skilgreiningar/skilyrði:
— Ærslabelgur er svæði af loftfylltum belgjum þar sem fólki má hoppa.
— Markmiðinu telst lokið þegar ég hef verið á ærslabelg í tvær mínútur samfleytt og að ég hafi hoppað á því svæði a.m.k. einu sinni á meðan þeim tíma stendur. Hoppið þarf að hafa byrjað á yfirborði ærslabelgs og jafnframt endað á slíku yfirborði.

Læra eitt tiltekið tungumál almennilega
Staða: Klárað
Skilgreiningar/skilyrði:
— Hinn mælanlegi þáttur markmiðsins skal fara fram með þátttöku minni á námskeiði á Duolingo.com í völdu tungumáli.
— Eingöngu ég sjálfur má leysa þau verkefni sem sett eru fram á námskeiðinu, og er hvorki heimilt að sækjast eftir né nýta svör frá öðrum.
— Markmiðið telst klárað þegar ég hef á framkvæmdartímabilinu unnið mér inn alls 2.500 XP á námskeiðinu eða lokið því, hvort sem á sér stað fyrr.

Læra skoska gelísku
Staða: Klárað
Skilgreiningar/skilyrði:
— Hinn mælanlegi þáttur markmiðsins skal fara fram með þátttöku minni á námskeiði á Duolingo.com í skoskri gelísku.
— Eingöngu ég sjálfur má leysa þau verkefni sem sett eru fram á námskeiðinu, og er hvorki heimilt að sækjast eftir né nýta svör frá öðrum.
— Markmiðið telst klárað þegar ég hef á framkvæmdartímabilinu unnið mér inn alls 1.500 XP á námskeiðinu eða lokið því, hvort sem á sér stað fyrr.

Fara í Bláa lónið
Staða: Klárað
Skilgreiningar/skilyrði:
— Ég þarf að hafa verið í sundlaugaraðstöðu Bláa lónsins, utan búningsklefa þess, í alls 60 mínútur og ásamt því að hafa farið á einhverjum tímapunkti alla leið ofan í lónið sjálf.
— Ég þarf að hafa á einhverjum tímapunkti haft í lóninu sjálfu andlitsmaska sem í boði er á svæðinu. Ekki eru gerðar sérstakar lágmarkskröfur um tímalengd umfram þetta né lágmarkssvæði sem maskinn þarf að hylja.

Róla
Staða: Klárað
Skilgreiningar/skilyrði:
— Róla í skilningi markmiðs þessa er leiktæki er samanstendur af sæti eða dekki sem hengur á a.m.k. einu reipi, snæri eða annars konar bandi, og er hægt að sveifla.
— Markmiðinu telst lokið þegar ég hef setið í rólunni án þess að fætur mínir snerti jörðina í tvær mínútur samfleytt og að sætið hreyfist í einhvern tíma á meðan þeim tíma stendur.

Púsla eitt ‚Wasgij?‘
Staða: Klárað
Skilgreiningar/skilyrði:
— Púslið þarf að hafa verið framleitt sem að minnsta kosti 500 hluta púsl.
— Í mesta lagi einn hlutur þess má vera týndur.

Fá samþykkta innsenda grein til birtingar í fjölmiðli
Staða: KláraðGreinin Aphantasía
Skilgreiningar/skilyrði:
— Markmiðið telst klárað ef/þegar fjölmiðill hefur tilkynnt mér að hann hafi samþykkt að birta innsenda grein er ég samdi sjálfur, eða þegar viðkomandi fjölmiðill hefur birt hana, hvort sem gerist á undan.
— Þó telst það ekki klárað ef hætt er við birtingu greinarinnar, innan framkvæmdartímabilsins, af minni beiðni. Þetta á þó ekki við ef fyrir liggur einhver innsend grein eftir mig sem uppfyllir fyrsta skilyrðið sem hefur verið birt innan framkvæmdartímabilsins eða er enn að bíða birtingar við lok þess.
— Fjölmiðill í skilningi markmiðsins telst vera hver sá lögaðili sem er skráningarskyldur skv. 14. gr. laga um fjölmiðla, nr. 38/2011, og er á opinberri skrá fjölmiðlanefndar yfir fjölmiðla þegar ég sendi greinina til viðkomandi fjölmiðils.

Fara og skoða gosið
Staða: Óklárað (Síðarnefnda skilyrðið klárað)
Skilgreiningar/skilyrði:
— Ég þarf að hafa séð með eigin augum eldgosið er hófst 19. mars 2021 rétt hjá Fagradalsfjalli á Reykjanesskaga.
— Ég þarf að vera á einhverjum tímapunkti innan tveggja kílómetra frá einhverri eldstöð þess goss eða hrauns sem runnið hefur þaðan.

Fá mér ís í Valdís
Staða: Klárað

Ljúka flokkun einkaskjala í íbúðinni
Staða: Klárað
Skilgreiningar/skilyrði:
— Pappírsgagn í samhengi þessa markmiðs er skjal eða skjöl úr pappír sem bersýnilega heyra saman.
— Markmið þetta telst klárað þegar viðeigandi flokkun hefur farið fram á öllum pappírsgögnum sem finna má í kössum, hillum, og skápum sem staðsett eru í íbúðinni á þeim tíma sem markmið þetta er sett.
— Flokkun pappírsgagns er aðallega flokkun þess í viðeigandi möppur merktar ártali pappírsgagnsins og, sé það mögulegt, nánari flokkun eftir mánuði viðkomandi árs. Val er um hvort flokkað sé eftir póststimplun eða annarri dagsetningu sem finnst á pappírsgagninu.
— Heimilt er að safna saman pappírsgögnum eftir tilteknu afmörkuðu efni þeirra og halda þeim aðskildum frá hinni almennu flokkun.
— Sé pappírsgagn með tímamerkingu sem vafi er um eða alls enga, skal gerð viðeigandi tilraun til þess að flokka það eftir bestu getu í samræmi við áðurgreint. Takist ekki að flokka það að neinu leyti þrátt fyrir þetta, telst það ekki gegn markmiðinu.
— Röng flokkun sökum mistaka telst ekki gegn markmiðinu.
— Eyðing og/eða tæting pappírsgagns telst sem flokkun þess í skilningi markmiðs þessa.

Labba afturábak í kringum fjölbýlishús
Staða: Klárað

Læra TikTok dans
Staða: Klárað
Skilgreiningar/skilyrði:
— Dansinn skal finnast á TikTok miðlinum, upptöku sem gefur til kynna að hann megi finna þar, eða umfjöllun þar sem staðhæft er að dansinn sé að finna þar.
— Ég skal hafa framkvæmt hreyfingar dansins villulaust í tíu skipti samfellt.
— Dansinn Floss skal ekki teljast með gagnvart markmiði þessu.

Æfa mig í núvitund
Staða: Klárað
Skilgreiningar/skilyrði:
— Markmiðið telst klárað fari ég á námskeið í núvitund eða taki heila æfingu í núvitund, sem í boði er til niðurhals eða spilunar á Internetinu, frá upphafi til enda.

Taka folfhring með annarri manneskju
Staða: Klárað
Skilgreiningar/skilyrði:
— Spila heilan hring af folf á einhverjum vallanna sem í boði eru.
— Ég þarf að hafa spilað þennan hring með a.m.k. einum spilafélaga frá upphafi til enda, óháð því hvort við séum að keppast um hvort okkar nær fleiri stigum en hitt eður ei.

Spila leikinn ‚verpa eggjum‘
Staða: Klárað
Skilgreiningar/skilyrði:
— Um er að ræða leikinn Verpa eggjum eins og honum er lýst á Íslensku Wikipediu.
— Ég skal hafa spilað leikinn í a.m.k. fimm mínútur alls eða þar til hver spilari hefur spilað fimm umferðir hver, hvort sem fyrr kemur.

Ganga stífluhringinn rangsælis og réttsælis og athuga hvor leiðin er fljótari
Staða: Klárað (réttsælis = 35:57 & rangsælis = 32:58)
Skilgreiningar/skilyrði:
— Með stífluhringnum er átt við gönguleið í kringum tiltekinn hluta Elliðaár í Reykjavík þar sem gengið er yfir stíflu rétt hjá götunni Höfðabakki og brú yfir Elliðaá rétt hjá götunni Klapparás og þaðan aftur í átt að stíflunni.
— Ég skal hafa gengið einn hring af téðri gönguleið réttsælis eða rangsælis með tímamældum hætti, án kröfu um að byrja á tilteknum stað hennar. Ferðin skal vera án hléa, nema mögulegt sé með áreiðanlegum hætti að draga hléin frá tímamælingu.
— Síðar, en ekki innan sama dags, skal ég hafa gengið hina áttina á sömu gönguleið en að öðru leyti miðað við sömu forsendur og í fyrri ferð.
— Mér er óheimilt að skipuleggja ferðirnar með þeim hætti að ég hafi göngufélaga.
— Sé brotið á einhverju skilyrðinu hér telst sú ferð ekki, en skal þá heimilt að hefja nýja mælingu á þeirri átt, innan sama dags.
— Niðurstöðu hinna endanlegu tímamælinga skal birta og telst markmiðið klárað við birtingu seinni tímamælingarinnar sem kveðið er á um hér.

Sjálfsmynd með frægum ketti
Staða: Klárað
Skilgreiningar/skilyrði:
— Með sjálfsmynd með kött er vísað til myndar sem ég sjálfur af mér og einhverjum kött í sama myndaramma.
— Téður köttur skal vera einhver einn af eftirtöldum köttum:
— — Rósalind, sem þekkt er fyrir að flakka um Háskóla Íslands og nágrenni.
— — Baktus, sem þekktur er fyrir að flakka um miðborg Reykjavíkur.
— — Díegó, sem er þekktur fyrir að flakka um Skeifuna í Reykjavík.

Baka pönnukökur
Staða: Klárað
Skilgreiningar/skilyrði:
— Markmiðið telst klárað þegar ég sjálfur hef bakað tíu pönnukökur samkvæmt einhverri uppskrift að pönnukökum.

Ljúka eftirvinnslu á tilteknum fjölda ljósmyndaalbúma
Staða: Klárað (30 lokið af 30)
Skilgreiningar/skilyrði:
— Ljósmyndaalbúm í samhengi þessa markmiðs er skilgreint sem albúm með ljósmyndum sem ég fékk frá foreldrum mínum og skannaði inn á stafrænt form. Þá telst það einnig ljósmyndaalbúm í sama samhengi ef ljósmyndum hafði verið safnað saman í einstaka umbúðir, t.a.m. framköllunarumslög.
— Eftirvinnsla í samhengi þessa markmiðs telst sú aðgerð að vinna með þær stafrænu útgáfur af skönnuðu myndunum.
— Eftirvinnslu einstakrar ljósmyndar telst lokið þegar vistuð hafa verið tvö önnur stafræn eintök byggt á upprunalega stafræna eintakinu þar sem eftirfarandi á við:
— — Þeir hlutar myndarinnar sem ekki eru hluti af ljósmyndinni hafa verið klipptir af eða gerðir gegnsæir, þó ekki sé búist við fullkominni klippingu. Í tilviki sjálfvirkra ferla dugar að þær aðgerðir dugi að svo miklu leiti sem sanngjarnt megi búast.
— — Annað eintakið skal vera á upprunalega skráarsniðinu í sömu upplausn. Hitt eintakið skal vera smækkað eintak sem hentar til dreifingar á samfélagsmiðlum, ef ákvörðun væri tekin um slíkt.
— Eftirvinnslu skal lokið á öllum innskönnuðum myndum 30 ljósmyndaalbúma til að markmiðið teljist klárað.

Hlaupa/skokka tvo kílómetra
Staða: Óklárað
Skilgreiningar/skilyrði:
— Vegalengdin þarf að hafa verið hlaupin/skokkuð í einni atrennu, þó þannig að leyfilegt sé að stoppa af eftirfarandi ástæðum:
— — Til að hlíta umferðarreglum.
— — Til að hlíta boðum líkamans um álagsminnkun.
— — Force majure aðstæður koma upp.

Sofna undir berum himni
Staða: Óklárað
Skilgreiningar/skilyrði:
— Með berum himni er átt við að ég sé utan bygginga eða annarra rýma sem hylja himinninn sem er beint fyrir ofan mig. Þetta á þó ekki við um tré eða aðrar lífverur sem fyrirfinnast.
— Svefn í skilningi markmiðs þessa er meðvitundarleysi mitt sem á rætur að rekja til innri ferils líkama míns sem orsakast eigi af höfuðhöggum, meiðslum, eða þvíumlíku.
— Eingöngu er gerð krafa um að áðurnefnt ástand sé við lýði þegar ég er að sofna.

Skrifa tiltekinn fjölda greina á Íslensku Wikipediu
Staða: Klárað (50 stofnaðar af 50)
Skilgreiningar/skilyrði:
— Fjöldi greina skal vera skilgreindur sem fimmtíu talsins.
— Til að grein teljist til markmiðsins skal hún hafa verið stofnuð og rituð af mér sjálfum á framkvæmdartíma sumarmarkmiðalistans.
— Greinin skal uppfylla viðmið Wikipediu um markvert efni og vera lengri en ein setning. Viðfangsefnið má ekki hafa þegar fengið umfjöllun í sérstakri grein á Íslensku Wikipediu fyrir stofnun minnar greinar né má grundvöllur greinarinnar byggjast að meginefninu til á afritun hluta af umfjöllun annarrar greinar á Íslensku Wikipediu sem fjallar meðal annars um viðfangsefnið.

Setja inn tiltekinn fjölda af hljóðupptökum á Wikimedia Commons
Staða: Óklárað
Skilgreiningar/skilyrði:
— Hljóðupptakan skal vera af mér að bera fram íslenskt sérheiti og/eða almennt mannanafn.
— Hljóðupptökur sem teknar voru upp fyrir setningu markmiðsins teljast ekki með.
— Hljóðupptaka telst gild fyrir markmiðið þegar hún hefur verið sett inn á Wikimedia Commons.
— Hljóðupptökurnar skulu vera fimm hundruð talsins.

Fara fimm sinnum upp á Úlfarsfell
Staða: Klárað (5 af 5 lokið)
Skilgreiningar/skilyrði:
— Ég skal hafa gengið til og frá efsta hluta Úlfarsfells, þ.e. innan fimm metra frá hnitinu N 64.1469800, W -21.7102300 í WGS84.
— Miðað skal við næstu staðsetningu við þau hnit sem bæði er mögulegt og löglegt fyrir mig er að ganga að á þeim tíma. Uppfylli engin staðsetning innan þeirra skekkjumarka skulu þau víkkuð um þrjá metra endurtekið þar til staðsetning er uppfyllir skilyrðin er í boði eða að hámarki fimmtíu metra, hvort sem fyrr verður.
— Ekki er gerð krafa um tiltekna upphafsstaðsetningu göngunnar en gangan til og frá áðurnefndum hnitum þarf að hafa verið að lágmarki þrír kílómetrar í heildina, án þess að nýtt séu rafknúin og/eða pedalaknúin farartæki í millitíðinni.
— Gangan sjálf þarf ekki að hafa verið samfelld né óslitin að öðru leyti.

Lesa eða hlusta á tiltekinn fjölda bóka sem ég hef ekki lesið eða hlustað á áður
Staða: Klárað (7 af 7 lokið)
Skilgreiningar/skilyrði:
— Bækurnar skulu vera a.m.k. sjö talsins og geta verið prentaðar og/eða í formi hljóðbóka.
— Hver bók skal vera a.m.k. 100 blaðsíður að lengd skv. blaðsíðutölu eða a.m.k. ein klukkustund í upplestri.
— Sé prentuð bók lesin skal það gert frá upphafi fyrstu blaðsíðu til loka seinustu blaðsíðu. Í tilviki hljóðbóka skal hlustað á upplesturinn í heild frá upphafi til enda.
— Lestur og/eða hlustun hverrar bókar þarf ekki að vera í einni lotu.
— Að minnsta kosti ein bókin þarf að vera um efni sem ég í góðri trú gagnvart sjálfum mér get verið viss um að ég hafi enga eða nær enga þekkingu á málefni því sem sú bók fjallar um.

Uppfyllingarmarkmið

Fara í öldulaugina í Álftaneslaug
Staða: Klárað
Skilgreiningar/skilyrði:
— Ég þarf að hafa verið í sundlaugaraðstöðu laugarinnar, utan búningsklefa hennar, í alls 30 mínútur og þar af í öldulauginni í a.m.k. fimm mínútur alls.

Prjóna/Hekla eitthvað
Staða: Klárað
Skilgreiningar/skilyrði:
— Ég skal sjálfur hafa heklað og/eða prjónað einn hlut samkvæmt uppskrift.
— Ekki skal gerð krafa um að farið sé villulaust eftir uppskriftinni.
— Útskiptingar á litum skulu leyfðar.

Fara upp í Hallgrímskirkjuturn og kalla „I’m the king og the world“ út um gluggann
Staða: Óklárað

Kaupa kort í líkamsræktarstöð og mæta 3x í einn mánuð
Staða: Óklárað
Skilgreiningar/skilyrði:
— Ég skal hafa notfært mér líkamsræktaraðstöðuna í þrjú skipti eftir að ég fæ mér kort hjá líkamsræktarstöðinni.

Mála mynd
Staða: Óklárað
Skilgreiningar/skilyrði:
— Ég skal hafa varið a.m.k. einni klukkustund í að mála myndina.
— Ekki er gerð krafa um að málun myndarinnar sé lokið.

Finna hvítar lúpínur í náttúrunni
Staða: Óklárað
Skilgreiningar/skilyrði:
— Lúpínan þarf að mestu leyti að vera með hvít blöð.
— Náttúran í samhengi þessa markmiðs er það svæði sem telst ekki vera til þéttbýlis.