Sumarmarkmið

Sumarmarkmiðalistar
Árið 2021 – Lokið – Lokafrestur rann út 21. ágúst 2021.
Árið 2020 – Lokið – Lokafrestur rann út 22. ágúst 2020. – Skýrsla
Árið 2019 – Lokið – Lokafrestur rann út 18. ágúst 2019. – Skýrsla
Árið 2018 – Lokið – Lokafrestur rann út 18. ágúst 2018. – Skýrsla
Árið 2017 – Lokið – Lokafrestur rann út 1. september 2017. – Skýrsla
Árið 2016
 – Lokið – Lokafrestur rann út 1. september 2016.
Árið 2015 – Lokið – Lokafrestur rann út 1. september 2015.

Forsaga sumarmarkmiða í örstuttu máli
Á fyrri hluta ársins 2015 var ég hjá sálfræðingnum mínum og við vorum að ræða um nokkur verkefni sem ég var að vinna í og/eða ætlaði að vinna í. Hann kom með þá uppástungu að ég ætti að skrifa þau niður, ásamt öðrum persónulegum árangri sem ég myndi vilja ná, og setja mér síðan tiltekinn frest til þess að ljúka þeim. Út frá þessari umræðu byrjaði ég að skilgreina ferlið nánar og ritaði niður mínar eigin tillögur. Hins vegar taldi ég mikilvægt að fá sjónarmið annarra þannig að ég bað einnig annað fólk um þeirra tillögur að markmiðum. Úr varð listinn yfir sumarmarkmið ársins 2015.

Skilgreining á frestum (tillögufrestur og lokafrestur)
Tillögufresturinn er sá tími sem tillögurnar þurfa að vera komnar til þess að vera íhugaðar fyrir viðkomandi markmiðalista, og gildir það bæði fyrir tillögur annarra sem og mínar eigin.
Lokafresturinn er sá frestur sem ég hef til að ljúka markmiðunum. Öll vinna í markmiði sem fer fram eftir að lokafresturinn rennur upp telst ekki fyrir þann lista. Þó ég ljúki markmiði síðar er staðan á markmiðalistanum ekki uppfærð.
Þessir frestir eru túlkaðir strangt, verða ekki færðir til síðar í ferlinu, og ekki háðir undantekningum.

Hvers konar markmið eru sett?
Ein áherslan sem ég hef sett mér er að ég persónulega telji markmiðin áhugaverð og/eða mikilvæg. Sum þeirra eru sett í þeim tilgangi að ég fari aðeins út fyrir þægindahringinn og/eða ögri mér að einhverju marki. Síðan eru markmið sett til þess að ég geri eitthvað aftur sem ég hef ekki gert í langan tíma eða tímabært að ég geri (aftur), þó uppfylling þeirra sé ekki áskorun sem slík. Einnig eru sett markmið til þess að ýta mér í að gera eitthvað sem ég hef lengi ætlað mér að gera en hef ekki farið út í með svo skipulögðum hætti vegna frestunaráráttu eða annarra ástæðna. Þá geta einnig verið verkefni sem ég er kominn eitthvað á veg með en ekki lokið af ýmsum ástæðum. Ástæðurnar geta verið margvíslegar.

Meginviðmiðin sem markmið þurfa að uppfylla eru að þau séu mælanleg, augljóst hvenær þeim telst lokið og að það sé raunhæft að ljúka þeim innan tilsetts tíma með hliðsjón af öðrum markmiðum á listanum og nægum afslöppunartíma. Tvö fyrstnefndu viðmiðin snúa að því að fækka matskenndum tilvikum þegar kemur að því að meta hvenær markmiði telst lokið. Með þeim er ég að reyna að forðast tilvik þar sem ég geti farið að koma með eftir-á-túlkanir í þeim tilgangi að veita afslætti af markmiðum með orðaleikjum og einnig til að forðast réttmætan vafa síðar meir hvort markmiði hafi í raun verið lokið eða ekki. Síðastnefnda viðmiðið er til að gæta þess að það sé fræðilega hægt að ljúka þeim fyrir lokafrestinn með hliðsjón af því að ég muni vinna í öðrum markmiðum sem og veita mér tíma til þess að gera eitthvað annað en að vinna í markmiðunum.

Sé litið yfir markmiðalistana er hægt að sjá tvenna flokka markmiða: aðalmarkmið og uppfyllingarmarkmið. Aðalmarkmiðin eru þau markmið sem ég legg sérstaka áherslu á að ljúka eftir bestu getu fyrir lokafrestinn, en uppfyllingarmarkmið eru ekki háð svo strangri áherslu á að ljúka þeim. Eins og nafnið ber til kynna eru þau sett í þeim tilgangi að fylla upp í þann tíma sem ég get ekki unnið í aðalmarkmiði eða sérstaklega hliðhollar aðstæður skapast sem réttlæta slík afbrigði. Meginástæður þess að markmið er sett sem uppfyllingarmarkmið en ekki sem aðalmarkmið er þegar ég tel óvíst hvort ég hafi nægilegan tíma til þess að ljúka því eða árangur þess stjórnast aðallega af geðþóttaákvörðunum annarra og/eða tilviljanakenndum þáttum.

Hvað ætti að forðast við setningu markmiða?
Sum markmið falla tæknilega séð innan meginviðmiðinna um mælanlegan, fyrirsjáanlegan, og raunhæfan enda en eru afar áhættusöm. Eitt af því sem ætti að forðast eru markmið sem kveða á um að eitthvað skuli ætíð gerast með ákveðnu millibili eða ætíð innan ákveðins millibils, eins og vikulega eða í hverri viku. Ef það á að gera eitthvað vikulega og eitthvað verður til þess að það gerist ekki, verða skilyrði markmiðsins þegar til þess að það sé ekki hægt að ljúka því. Hvatningin til þess að halda áfram er því horfin, jafnvel snemma á tímabilinu. Ein möguleið leið er að umbreyta tillögunni þannig að hún kveði í staðinn um tiltekinn fjölda skipta yfir allt tímabilið. Þó slíkt sé fræðilega mögulegt er betra að sýna hógværð í heildarfjölda slíkra markmiða. Þegar fjöldi skipta er það mikill að það þurfi að vinna í einu tilteknu markmiði að lágmarki tvisvar í viku að meðaltali allt tímabilið til þess að ljúka því er betra að halda því utan markmiðalistans, annars fer markmiðalistinn í heild að tapa ljóma sínum.

Forðast skal of stór markmið. Ef tillagan virðist vera það umfangsmikil að það myndi krefjast að lágmarki um einn dag á viku allt tímabilið til þess að ljúka slíku markmiði, þá er líklega komið tilefni til þess að minnka kröfurnar. Einnig er mögulegt að hafa aðalmarkmið með hóflegri kröfum um árangur og síðan uppfyllingarmarkmið þar sem gerð væri krafa um að ljúka því alveg.

Markmið ættu ekki vera of nákvæmlega skilgreind. Þau þurfa að veita sanngjarnt svigrúm svo skipulagningin á framkvæmd þeirra verði ekki of íþyngjandi eða verði til þess að þau verði óframkvæmanleg. Sama gildir um að leggja fram margra atriða lista, óháð því hvort hvert einstakt atriði virðist einfalt í framkvæmd. Þá skal forðast að skilgreina of nákvæmlega atriði sem tengjast ekki meginástæðu þess að markmiðið var sett. Dæmi um slíkt lærdómstilvik var eitt sumarmarkmiðanna 2016 um að fara til Akranesar með strætó og skoða söfnin þar. Vegna orðalagsins þurfti ég að afþakka bílfar til Akranesar svo safnaskoðunin gæti talist með.

Hvað eykur líkurnar á að tillaga verði samþykkt?
Tillaga er talin samþykkt þegar hún er notuð sem efniviður í sett/samþykkt markmið það tímabil. Ekki er skýlaus krafa að tillaga þurfi að vera fullunnin og passa þá þegar inn í forsendurnar sem markmið þurfa að uppfylla, en hins vegar verður að vera hægt, án of mikillar fyrirhafnar, að aðlaga þær. Jafnvel þær tillögur sem ég legg sjálfur fram þurfa langoftast á einhverri aðlögun að halda.

Tillöguferlið
Ferlið í kringum markmiðalista hvers árs hefst á því að taka ákvörðun hvort ég ætli yfir höfuð að fara í sumarmarkmiðalista á því ári. Ef svarið er ‚nei‘ (sem hefur ekki gerst síðan ég byrjaði á þessu) stoppar ferlið að svo stöddu. Sé svarið hins vegar ‚já‘ ákveð ég hver tillögufresturinn og lokafresturinn ætti að vera. Síðan rita ég og breiði út stöðufærslu þar sem ég óska eftir tillögum að sumarmarkmiðum ásamt lýsingu á þeim forsendum sem þær þurfa að uppfylla til þess að teljast gildar. Ekki eru sett nein skilyrði um sérstök (eða nokkur önnur) persónuleg tengsl við mig til þess að leggja fram tillögu. Þá eru einnig engin loforð gefin um að ég sé bundinn að þeim tillögum né af því hvernig þær eru lagðar fram.

Úrvinnsla tillagna
Þegar tillögufresturinn er liðinn byrja ég að vinna úr þeim tillögum sem liggja fyrir, bæði mínar sem og annarra.

Tillögur sem lágu fyrir í fyrri sumarmarkmiðalistum eru einnig ígrundaðar en þær hljóta ekki sömu meðferð. Eitt fyrsta verkið er að skoða tillögur sem bárust vegna fyrri lista og velja síðan þær sem ég vil alvarlega íhuga vegna listans sem ég er að vinna í. Athuga þarf þó að tillögur sem eru ekki fluttar yfir hafa ekki verið útilokaðar, heldur er tilgangurinn sá að minnka umfang vinnunar við síðari vinnslu listans. Ef tillaga sem hafði verið grisjuð áður verður álitlegri á síðari stigum úrvinnslu, eins og ef hún hentar rosalega vel með tillögu sem ég samþykki síðar, þá er vel mögulegt að hún hljóti nánari skoðun í kjölfarið. (Staðhæfingunum sem lýst er í útstrikaða textanum áttu ekki við frá og með lista ársins 2019. Þ.e. að sérstök beiðni þarf að hafa borist fyrir tillögufrestinn um að skoða þær, ella verða þær útilokaðar vegna lista þess árs.)

Þá tekur við nánari grisjun listans. Í því felst gróf yfirferð á tillögunum til að sjá hverjar þeirra (ef einhverjar) eigi bersýnilega ekki heima á markmiðalista miðað við uppgefnar forsendur markmiðalistans og eru augljóslega ekki aðlögunarhæfar.

Eftir það hefst næsta yfirferð á tillögunum þar sem farið er í hverja tillögu fyrir sig og reynt að aðlaga þær að þeim viðmiðum sem markmið þurfa að uppfylla, annað hvort með því að koma með nánari skilgreiningar og/eða skilyrði sem verður að uppfylla svo markmiðinu í heild, eða einstökum hlutum þess, telst lokið. Aðlögunin felst ekki eingöngu í að setja strangari kröfur miðað við það sem titill markmiðsins ber með sér, enda getur hún jafnframt gegnt því hlutverki að leysa úr fyrirsjáanlega mögulegum álitamálum sem gætu valdið því að ég verði of strangur við sjálfan mig. Dæmi um slíkt er eitt sumarmarkmiða ársins 2016 sem fólst í því að „[t]aka strætó upp á Akranes og skoða söfnin þar“. Þar gerði ég mér meðal annars grein fyrir því að mögulega gætu komið upp aðstæður þar sem ég gæti ekki heimsótt hvert einasta safn í sömu ferð sökum opnunartíma þeirra og þar af leiðandi væri það óþarflega íþyngjandi að neyða mig til þess að gera mér aðra ferð þangað fyrir mögulega eingöngu eitt safn. Í einhverjum tilfellum hef ég gripið til þess að hafa samband við viðkomandi til þess að fá nánari upplýsingar og/eða skýringar á tillögu, ef ég hef talið þörf á.

Þegar viðeigandi aðlögun hefur átt sér stað á þeim tillögum sem eftir eru tekur við ákvörðun hvort ég samþykki tillögu eða synja. Þar sem umfang markmiðs með hliðsjón af öðrum þegar settum markmiðum skiptir verulegu máli er forgangsröðin þannig að ég afgreiði fyrst þær tillögur sem eru bersýnilega umfangsmiklar. Hver tillaga á þessu stigi gæti verið samþykkt sem aðalmarkmið eða uppfyllingarmarkmið eftir því sem við á. Þegar lengra líður á afgreiðsluna og ég treysti mér ekki til þess að setja mér fleiri aðalmarkmið, þá verða allar samþykktar tillögur að uppfyllingarmarkmiðum.

Þá er gerð listans lokið og ég tel mig bundinn af honum. Við það verður honum ekki breytt nema að því leiti að leiðrétta stafsetningar- eða málfræðivillur sem gætu hafa slæðst inn, og uppfæra stöðuna hverju sinni. Hann er síðan birtur opinberlega.

Viðhorf til markmiðalistans
Mikilvægt er að móta viðhorfið til markmiðalistans á þann hátt að það sé í lagi að ljúka ekki öllum markmiðunum. Sömuleiðis þarf ekki að ljúka næstum öllum. Það sem skiptir meginmáli er að maður geti horft til baka yfir tímabilið og sagt að þetta hafi verið viðunandi árangur miðað við þáríkjandi aðstæður. Hafi maður komið meiru í verk heldur en ef enginn markmiðalisti hefði legið fyrir, þá ætti maður að vera sáttur. Framkvæmdin er aldrei fullkomin þannig að einnig ætti að athuga hvort í framkvæmdinni felist einhverjar lexíur sem hægt væri að gera ráð fyrir í næsta skipti. Eftir atvikum er hægt að halda áfram með markmiðið þó staðan á markmiðalistanum yrði ekki uppfærð.

Túlkun á orðalagi markmiða á listanum ætti að vera ströng og ekkert hálfkák í þeim efnum. Hafi verið gerð mistök við setningu markmiðanna ætti maður sjálfur að bera hallann af þeim, þrátt fyrir að það gæti leitt til þess að ekki sé hægt að ljúka markmiðinu yfirhöfuð eða yrði erfiðara en séð var fyrir. Slík meðhöndlun eykur líkurnar á að maður læri af þeirri lexíu fyrir næsta skipti.

Það gæti virst grimmt að vinna í markmiðunum eftir lokafrestinn teljist ekki með, þrátt fyrir að hún verði til þess að markmiðinu ljúki daginn eftir eða jafnvel nokkrum mínútum síðar, jafnvel þó um sé að ræða mikilfenglegt markmið. Hættan er sú að þegar afslættir eru gefnir á slíkum tímamörkum fari virðing fyrir þeim minnkandi. Hugarfarið og áætlanir fari að gera ráð fyrir því að hægt sé að ljúka þeim síðar ef einhver réttlæting er veitt, mögulega niður á það stig að lokafresturinn fari að hafa (nær) enga þýðingu. Hvatningin til að vinna í markmiðinum yfirhöfuð er einmitt sú að ljúka þeim fyrir lokafrestinn. Sé ákveðið frá upphafi að fresturinn sé svo strangur er talsvert minni hætta á óþarfa undandráttum á framkvæmdinni.

Skipulagning, skipulagning, skipulagning
Í kjölfar þess að ég klára að gera listann ákveð ég strax hvenær það væri hentugast að hefja verk. Í fyrsta skiptið (árið 2015) leið meira en mánuður áður en ég byrjaði að vinna í markmiðunum sem orsakaði mikið álag í síðari hluta sumars. Til að forðast endurtekningu á þeim aðstæðum setti ég mér þá meginreglu að byrja sem fyrst. Hins vegar er nauðsynlegt að taka frá tíma til að gera gróft skipulag á framkvæmdinni í heild ásamt nákvæmara skipulagi fyrir fyrstu dagana. Að lágmarki ætti að gera ráð fyrir nokkrum dögum í það verk.

Prenta út dagatal
Við framkvæmdina skiptir skipulagning gríðarlega miklu máli. Eitt fyrsta verk mitt eftir gerð listans er að prenta út dagatal fyrir allt tímabilið, hver mánuður á einu A4 blaði. Ég byrja á því að fara yfir dagskrá mína yfir tímabilið og merki inn fundi og aðra atburði á tímabilinu sem ég veit af þá þegar inn á dagatalið, ásamt lögbundnum frídögum, og uppfæri þær upplýsingar á dagatalinu áfram út tímabilið.

Opnunartímar
Einhver hætta er á því að ég nái ekki að vinna í sumum markmiðum yfir tiltekin tímabil, eins og vegna lokunar fyrirtækja/stofnana yfir ákveðið tímabil eða rosalega takmarkaðs opnunartíma. Í þeim tilfellum reyni ég að leggja áherslu á að ljúka þeim snemma upp á að veita mér meira svigrúm síðar. Hið sama gildir um annað sem gæti tekið langan tíma að eðlisfari eða með óþekkta tímalengd. Því er mikilvægt að skrá niður almennan opnunartíma þeirra aðila og einnig athuga hvers kyns frávik sem vitað er um yfir tímabilið, eins og hvort opið verður eða lokað á tilteknum frídögum. Það minnkar hættuna á fýluferðum eða riðlar skipulaginu með kveðjuverkun.

Passa fjölbreytnina
Mikilvægt er að brenna ekki út eða festa sig í framkvæmd eins markmiðs eða fárra á kostnað allra hinna. Ein meginreglan í skipulagningunni ætti því að vera að vinna ekki að sama markmiðinu í tvo daga samfellt, nema eðli markmiðsins sjálfs eða sérstakar aðstæður réttlæti annað. Sé markmiðið til að mynda ferðalag er nokkuð eðlilegt að áætla einhvern fjölda samfelldra daga í það. Þá gætu komið upp ófyrirséðar aðstæður sem myndu gera manni ókleift eða illkleift að ljúka því síðar innan tímabilsins, þó auðvitað sé mögulegt að ákveða að ljúka því ekki (innan tímabilsins) með tilvísan í þær aðstæður.

Engin ofkeyrsla
Gæta þarf þess að vinnan við markmiðin sé ekki eina virkni manns yfir tímabilið. Í mínu tilfelli reyni ég að forðast eftir fremsta megni að vinna í markmiðunum sjálfum á laugardögum og sunnudögum. Sömuleiðis forðast ég að úthluta slíkri vinnu á tíma eftir kvöldmat. Á því eru einstaka undantekningar og er þá áherslan sú að um sé að ræða afslappandi markmið. Þá set ég áherslu á að vinna í markmiðum mæti (að jafnaði) afgangi þegar kemur að öðrum þáttum lífsins. Stundum er hægt að sameina þetta tvennt, eins og ef vinir og kunningjar manns hefðu áhuga á vinna að tilteknu markmiði í sameiningu.

Innimarkmið og útimarkmið
Þegar ég skipulegg hvern einstakan dag hef ég tvær mismunandi tegundir markmiða: innimarkmið og útimarkmið. Eitt einkenni sumra á Íslandi er að langtíma veðurspár eru ótraustar. Hvern dag set ég því (að jafnaði) bæði innimarkmið eða útimarkmið, sem leiðir til þess að ég þurfi ekki að taka áætlað veðurfar með í reikninginn í skipulagningunni. Sé veðrið hentugt fyrir útimarkmiðið framkvæmi ég það, en annars hef ég innimarkmiðið til vara. Eingöngu er um að ræða annað hvort en ekki bæði, en þó með þeim fyrirvara að stundum hef ég unnið við innimarkmiðið þegar ég kem heim frá vinnu við útimarkmiðið, að því gefnu að það hafi tekið nokkuð stuttan tíma þann dag.

Lifandi skipulag
Þar sem aðstæður geta verið nokkuð ófyrirséðar gæti ég þess að skipuleggja ekki of langt fram í tímann. Þó markmið sé sett á dagskrá tiltekinn dag þarf það ekki að þýða að ég geti unnið í því, og heldur ekki að ég nái að ljúka því þótt ég vinni í því, ef ég gerði mér slíkar væntingar. Einnig gæti ég lokið markmiði talsvert fyrr en ég hafði áætlað og myndi því áætla of mikinn tíma í það. Ef skipulagið væri svo sveigjanlegt að ég væri að ákveða næsta dag kvöldið áður væri ferlið í kringum skipulagninguna óþarflega íþyngjandi og yfirsýnin of takmörkuð.

Hingað til hefur skipulagsferlið verið með þeim hætti að ég skipulegg tvær vikur fyrir í tímann. Á hverjum laugardegi (helst að morgni) fer ég yfir árangur vikunnar og skipulegg næstkomandi tvær vikur. Að jafnaði breyti ég ekki skipulagi komandi viku nema ég hafi þegar lokið markmiði sem ég hafði áætlað að vinna í þá vikuna (og set þá annað markmið í staðinn) eða sérstakar aðstæður réttlæti breytingu af öðrum ástæðum. Síðan fylli ég inn í skipulag vikunnar þar á eftir. Ég gæti þess að setja ekki inn sama markmið tvo daga í röð ef ég get forðast það. Ef ég tel tímann til að vinna í markmiði sem ég áætla vikuna eftir nægja til þess að ljúka því, þá set ég það almennt ekki á áætlun vikunnar þar á eftir.

Oftast er hver dagur ákveðinn þannig að eingöngu er eitt innimarkmið og eitt útimarkmið sett á skipulag þess dags. Undantekningin frá þeirri reglu á sér stað þegar framkvæmd tveggja eða fleiri markmiða þann daginn er samhangandi eða samsetningin sé sérstaklega hentug. Skipulagið er ekki svo heilagt að vinna í markmiðum teljist eingöngu á þeim dögum sem þau eru á skipulaginu. Hins vegar er meginreglan sú að vinna ekki í markmiðum á meðan þau eru ekki á skipulagi þess dags.

Þegar tímabilinu fer að ljúka væri skipulagning tvær vikur fram í tímann skemmandi fyrir árangurinn. Af þeim ástæðum þarf að slaka á henni í lok tímabilsins, eins og með því að fylla inn styttra tímabil í einu og jafnvel sleppa því í tiltekið marga daga fyrir lokafrestinn. Í mínu tilfelli, þegar lokafresturinn er fyrir 1. september, þá hætti ég að skipuleggja tvær vikur fram í tímann þegar ég hef skipulagt fyrstu tvær heilu vikurnar í ágústmánuði, þriðju heilu vikuna ákveð ég helgina áður, og afganginn af ágústmánuði er það hver dagur fyrir sig. Með þessu slaknar jafnframt á þeirri reglu að miða að því að vinna eingöngu að einu markmiði á dag. Hins vegar slaknar ekki eins mikið á þeim viðmiðum að forðast að vinna í markmiðum á kvöldin og um helgar.

Forgangsröðun í skipulaginu
Þó unnið sé að öllum markmiðunum almennt séð er óraunhæft að vera virkur í þeim allt tímabilið. Því er forgangsröðun óhjákvæmileg. Almenna viðmiðið ætti að vera það að forðast of mikið álag með því að vinna í markmiðunum jafnt og þétt yfir tímabilið. Aðstæðurnar ættu ekki að verða þannig að seinustu dagar tímabilsins fari í að drífa sig í að ljúka sem flestum af auðveldari markmiðunum til þess að hafa áhrif á lokatölurnar.

Fyrir utan almenn persónuleg sjónarmið um mikilvægi tiltekinna markmiða ætti áherslan að vera þau markmið sem eingöngu er hægt að ljúka á tilteknum árstíma eða hafa innbyggðan biðtíma eða töf sem þú stjórnar ekki. Nánar er fjallað um það í liðnum um opnunartíma. Í þeim forgangsflokki eru einnig verk sem gætu mistekist í fyrstu tilraun, eins og ef markmiðið er sett á tiltekinn dag í skipulaginu en síðan eru hlutir eins og veðurfar sem verða til þess að það þurfi að fresta framkvæmd. Ýmsar aðstæður utanaðkomandi aðila gætu orðið til þess að gera þurfi tilraun síðar. Því er betra að ljúka þeim verkum sem fyrst, í stað þess að hreinlega vonast til þess að ekkert klúðrist við seinasta mögulega skiptið.

Annað mikilvægt atriði er að ætla sér ekki um of við að ljúka auðveldustu markmiðunum sem fyrst, heldur dreifa þeim yfir tímabilið. Ef maður einbeitir sér (nær) eingöngu að ljúka auðveldu markmiðunum í upphafi fer maður að tapa taktinum þegar lengri tími líður milli lokinna markmiða.

Sum stærri markmið eru þess eðlis að maður þarf að gera eitthvað í það mörg skipti að það jafnast á við að gera eitthvað á viku fresti eða tveggja vikna fresti. Í slíkum tilvikum þarf einnig að huga að því að dreifa þeim skiptum eitthvað yfir tímabilið, en samt skipuleggja þau þannig að seinustu skiptin séu ekki á seinustu stundu. Vonbrigðin gætu orðið of mikil ef maður nær ekki að ljúka markmiðinu þar sem ekki náði að ljúka seinasta skiptinu á seinustu dögunum. Því er betra að miða tíðnina á framkvæmd þess með þeim hætti að ljúka markmiðinu á fyrri helming tímabilsins eða áður en um tvær vikur eru eftir af því.

Síðustu vikur tímabilsins þarf að fara að huga að annarri forgangsröðun. Þá kemur upp sú staða að það þarf líklega að íhuga hvort það þurfi hreinlega að sleppa að vinna alveg í tilteknu markmiði og leggja í staðinn meiri áherslu á þau markmið sem eftir eru. Eingöngu er um framkvæmdaratriði að ræða og mun það ekki verða til þess að markmið hverfi af listanum eða verði sett í sérstakan flokk. Slík ákvörðun verður til þess að minnka álagið með því að losa úr skipulaginu markmið sem maður telur sig ekki geta lokið fyrir lokafrestinn.

Vinna að markmiði með öðrum
Á meðan það er gott upp á félagsleg samskipti að vinna sameiginlega með öðrum að tilteknu markmiði á listanum, er mikilvægt að hafa tiltekin atriði að leiðarljósi. Almennt er betra að takmarka fjölda markmiða sem skilyrða slíkt samstarf, og í staðinn setja þau upp með þeim hætti að slíkt sé möguleg en ekki skilyrt. Síðan þarf að ákveða með nægum fyrirvara hvenær skuli stefna að því að vinna í markmiðinu, annars skapar það óvissu í skipulaginu og einnig hættu á óþarfa frestunum sem gætu leitt til þess að það sé framkvæmt á seinustu stundu eða ljúki alls ekki. Þá ætti að liggja fyrir af allra hálfu sá skilningur að ef einhver kemst ekki á skipulagða tímanum sé í lagi fyrir hin sem geta að vinna í því samt sem áður að ósekju.