Þegar ég hef ákveðið formlega að setja saman sumarmarkmiðalista fyrirtiltekið ár auglýsi ég eftir tillögum annarra að sumarmarkmiðum. Þá set ég óbreytanlegan frest til að koma tillögunum til mín, kallaður tillögufrestur, og gildir hann jafnframt um mínar eigin tillögur. Árið 2018 var ákveðið að í stað þess að skilgreina tillögufrestinn áður en fyrst var auglýst eftir tillögum, þá yrði hann þess í stað tilkynntur síðar með nægum fyrirvara.
Tillögurnar þurfa ekki endilega að uppfylla sérstök ströng skilyrði til að teljast tækar þó sumarmarkmiðin þurfi að gera það. Þar sem ég er ekki bundinn við efni eða orðalag tillagnanna sem berast til mín þurfa þær ekki að vera fullunnar. Stefnan er að taka ekki afstöðu til tillagnanna fyrr en tillögufresturinn er liðinn, þannig að fólk fær venjulega ekki svör um það hvort hún lendi á sumarmarkmiðalistanum né hvort það sé líklegt. Tilgangurinn með þessari síðu er að koma á framfæri nokkrum atriðum sem gætu aukið líkurnar á því að tillögur séu samþykktar, breyttar eða óbreyttar, sem sumarmarkmið.
Athugið að hér eru eingöngu um að ræða aukningu á líkum, en hvorki gátlista af ófrávíkjanlegum skilyrðum né um uppfyllingu tiltekinna marga atriða. Tiltekin tillaga gætu alveg verði aðlögunarhæf þó framsetningin hér gefi til kynni að lágar líkur séu fyrir samþykkt, en einnig hið andstæða.
Eiginleikar sem auka líkur á samþykkt
- Ég get haft samband við viðkomandi, ef það vakna upp einhverjar spurningar um tillöguna.
- Tillagan er ótvíræð um það sem skiptir máli.
- Ég er viljugur, eða myndi vera viljugur, til þess að framkvæma hana.
- Undirbúningur fyrir framkvæmd tillögunnar tæki ekki of langan tíma, miðað við því sem hún á að skila.
- Framkvæmd tillögunnar er til þess sniðin að ég fari aðeins út fyrir þægindahringinn og/eða ögri mér að einhverju marki.
- Langt er síðan ég hef gert það sem lagt er til.
- Ég hef sjaldan eða alls ekki gert áður það sem lagt var til.
- Hún snýst um verk sem ég hef byrjað á en ekki lokið þrátt fyrir áhuga sem er enn til staðar.
- Boð tillöguflytjanda um aðstoð sem er til þess gerð að draga úr eða leysa úr óvissuþáttum, sé tillagan þess eðlis.
Eiginleikar sem auka líkur á höfnun
- Framkvæmd tillögunnar tæki of langan tíma eða krefðist of mikils undirbúnings, án þess að ég sé sannfærður um að það sé þess virði.
- Hún er háð of mikilli tilviljun eða óvissuþáttum.
- Forsendan fyrir því að tillagan er lögð fram virðist vera byggð á því að vera (ókeypis) vinnuafl tillöguflytjanda.
- Eðli tillögunnar er slíkt að ómögulegt sé að vita hvort sumarmarkmiðið teldist klárað eða ekki þegar lokafresturinn rynni upp.
- Forsendan fyrir því að klára slíkt sumarmarkmið yrði framkvæmd refsiverðrar háttsemi, hvort sem það væri af minni hálfu eða annarra.
- Grundvöllur tillögunnar byggist á því að framkvæma (ekki) eitthvað með reglubundnum hætti eða ákveðinn fjölda skipta á hverjum degi, viku, eða mánuði.
- Tillagan er ekki borin fram af alvöru.
- Framkvæmd tillögunnar fælist í háttsemi sem er of áhættusöm fyrir mína líkamlegu heilsu eða annarra.