Í gær bar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingkona í Sjálfstæðisflokknum, upp þá fyrirspurn hvort Ögmundi Jónassyni þætti rétt að banna búrkur. Þykir henni (og fleirum) rétt að banna þær vegna þess að þær séu tákn um kúgun í garð kvenmanna. Ögmundur tók að mínu mati rétta afstöðu í þessu máli og vildi ekki banna þær af þeirri einföldu ástæðu að slíkt bann leysir ekkert.
Ekki veit ég hversu margir á Íslandi klæðast búrkum en ég efast um að þeir séu nokkuð margir. Óháð því hversu margir þeir eru, þá myndi slíkt bann samt ganga á rétt þeirra sem vilja ganga í búrkum. Að sama skapi er það ekkert grín eða spurning með fjölda þegar einhver er neyddur til að ganga í ákveðnum fötum.
Það er nokkuð ‘fyndið’ að Þorgerður Katrín skuli minnast á að banna búrkur vegna kúgunar kvenna og að það sé gegn kvenfrelsi. Hvað um karlfrelsi í sal Alþingis? Alþingi sjálft var sjálft með skyldu til að klæðast ákveðnum fatnaði í þingsal. Nú er ekki lengur skylda að vera með bindi en þau eru tákn um kúgun gagnvart karlkyns þingmönnum og því myndi ég vilja banna þau. Væri slík beiðni ekki fáránleg? Það þætti mér. Ekki sé ég að Þorgerður Katrín hafi kvartað yfir þessari skyldu (opinberlega) síðan hún hóf þingmennsku árið 1999.
Hvers konar lausn væri bann á búrkum? Maður sem væri í raun og veru að neyða konu sína til að vera með búrku myndi í staðinn halda henni heima í stað þess að hleypa henni út án búrku. Segjum að ekkert svoleiðis eigi sér stað, þá er samt búið að lögleiða öðruvísi kúgun. Hún er þá farin úr „þú skalt vera í þessum og þessum klæðnaði‟ og í „þú mátt ekki vera í þessum og þessum klæðnaði‟. Rosalegt frelsi þar.
Ein pælingin sem Tinna Gígja hafði á sínum tíma var hver viðurlögin við slíku banni ættu að vera. Á að refsa konunni fyrir það að vera kúguð? Þær sem klæðast búrkunni af fúsum og frjálsum vilja er þá refsað fyrir fataval sitt. Að banna búrkur blákalt kemur niður á konunum sem eru með þær en ráðast ekki á rót vandans – kúguninni sjálfri. Betri aðferð til að leysa þetta væri sú að vinna í að gefa fólkinu val um það hvort það klæðist búrku eða ekki. Slíkt væri vænlegra til árangurs.