Eyðsla skattfés og Feministafélag Íslands

Enn og aftur er Feministafélag Íslands (FÍ) og undirlægjur þeirra að stuðla að eyðslu skattfés í eitthvað sem skilar litlu. Að auki er um óþarfa tímaeyðslu að ræða þar sem átakið mun án efa tefja frekari vinnslu á rannsóknarskýrslunni.

Fyrir nokkrum dögum var Katrín Anna Guðmundsdóttir, fyrrverandi formaður (hah!) félagsins ráðin til fjármálaráðuneytisins til að sjá um kynjaða fjárlagagerð. Hún var ráðin án auglýsingar og sætir það furðu að hún hafi ekki krafist þess að starfið yrði auglýst svo að aðrir gætu sótt um. Það lítur út fyrir að besti einstaklingurinn hafi fengið starfið að hennar mati. Kveikjan að þessari pælingu var frétt um að það ætti að „kynjagreina“ rannsóknarskýrsluna, án efa framkvæmt af fjármálaráðuneytinu og þar af leiðandi af Katrínu.

Í fréttinni er vísað í Ólaf Arason, ráðskonu vefhóps FÍ, sem auðvitað fagnar þessu átaki. Ég man fyrir nokkrum árum að hið sama félag gagnrýndi notkun orðsins ráðherra fyrir bæði kynin og lagði jafnvel fram tillögu til stjórnarskrárnefndar, ásamt öðrum félögum, á sínum tíma til að því yrði breytt við næstu yfirferð. Ég veit ekki af hverju félagið ákvað að hafa þennan titil en ég hefði haldið að það gæti sýnt gott fordæmi og sett kynlausari titil en ráðskona á þá einstaklinga sem eru í forsvari fyrir hópana fyrst það telur sig á annað borð hafa rétt á að gagnrýna þennan meinta karllæga titil.

Annar vinkill sem ég vil minnast á er hið undarlega val á manneskju sem á að vera í forsvari þessa fögnuðar félagsins. Eðlilegra hefði verið að talskona félagsins myndi sjá um samskipti þess utan við. Það er ekkert í fréttinni sem gefur til kynna af hverju hann henti betur fyrir utan að hann er karlmaður. Nú veit ég ekki hvort blaðamaður eða einhver innan FÍ sá um að velja hann sem talsmann félagsins í þessu tilviki en það vekur upp grunsemdir þegar einstaklingur í forsvari fyrir vefhópinn sé valinn til að gegna hlutverki talsmanns þegar það er talskona í boði.

Almennt um Feministafélag Íslands
Feministafélag Íslands virðist vera félag þar sem tilgangurinn helgar meðalið. Því virðist vera sama um hvers kyns óréttlæti sem það veldur á meðan félagar þess halda að með því náist kynjajafnrétti á endanum. Af hverju ætti ég að treysta félagi sem hefur m.a. þetta á stefnuskrá sinni?:

  • Að bæta stöðu kvenna á vinnumarkaði, útrýma kynbundnum launamun og auka hlut kvenna í stjórnun auðlinda og fjármagns.
  • Að styrkja þátttöku kvenna í opinberu lífi, fjölmiðlum og stjórnmálum.

Þetta eru atriði sem eru listuð undir helstu markmið félagsins. Engin atriði í þessum helstu markmiðum snúast sérstaklega um að bæta og styrkja hlut karla sem gefur til kynna að stefnuskráin hallast meira í átt að kvenrétti en jafnrétti. Hér eru jafnvel tillögur að endurorðun sem félagið getur notað og þar breyti ég einvörðungu því feitletraða hér að ofan. FÍ er velkomið að nota þessar tillögur.

  • Að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði, útrýma kynbundnum launamun og jafna hlutfall kynja í stjórnun auðlinda og fjármagns.
  • Að koma á jafnvægi kynja í opinberu lífi, fjölmiðlum og stjórnmálum.

Nú er loksins komið eitthvað sem er talsvert nær jafnrétti en áður þótt ég myndi ekki skrifa undir án þessa að endurorða meira. Þó ég telji mig ekki vera sammála útværum skoðunum FÍ er ég samt sem áður ekki karlremba. Það eru félög eins og FÍ sem valda því að ég vil ekki kalla mig feminista og því gríp ég stundum til hugtaksins jafnréttissinni. Það hugtak getur náð yfir meira en jafnrétti kynja heldur einnig yfir baráttu margra annarra hópa sem vilja njóta sama réttar og aðrir en sem dæmi má nefna jafnrétti vegna þjóðernis, búsetu og lífsskoðana.

Miðað við það sem ég hef séð af starfsemi félagsins virðist eini tilgangur félagsins vera að stunda forsjárhyggju, eitthvað sem Vinstri Grænir eru duglegir við að gera. Einnig styrkir félagið framapot stjórnenda þess til að koma að fáránlegum málum eins og að endurnefna götur í miðbæ Reykjavíkur, ýtt áfram af fyrrverandi formanni FÍ, í stað þess að reyna að redda fjármálum borgarinnar. Einhverra hluta vegna virðist forgangsröðun sumra meðlima FÍ ekki vera á réttu róli.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.