Auði flokkurinn og stefnuskrár stjórnmálaflokkanna

Nú fer að líða að sveitarstjórnarkosningum og fjölmargir flokkar bjóða sig fram í flestöllum byggðum. Allir sem bjóða sig fram eru með sín eigin stefnumál en í flokksbundnum kosningum er í boði svokölluð stefnuskrá sem á að vera sameiginlegur grundvöllur allra frambjóðenda sem vilja vera undir formerkjum listans. Þó er í því engin trygging að frambjóðandi sem er kjörinn með þeirri forsendu að fara eftir stefnuskránni fari eftir henni og gæti hann jafnvel tekið upp á því að skreppa yfir til annarra flokks sem er með allt aðra stefnuskrá en kom honum inn.

Seinast þegar ég kaus flokk í kosningum í sveitarstjórn fór mitt atkvæði til Samfylkingarinnar. Af hverju? Þegar ég lít til baka get ég með sanni sagt að ég man það ekki. Var það bara því ég sá mig knúinn til að velja eitthvað af því sem var í boði eða var eitthvað sem gerði Samfylkinguna að betri kost en alla hina flokkana? Þetta er ekki einu sinni illskásti flokkurinn að mínu mati í dag. Hvað var ég að hugsa?

Áður en lengra er haldið vil ég nefna að ég hata ekkert flokkinn algerlega og einstaka frambjóðendur eru fínir og jafnvel sumt sem flokkurinn hefur framkvæmt er ekki illt. Málið er bara það að stefnuskráin þarf mikla vinnu áður en ég væri tilbúinn til að gefa flokknum atkvæðið mitt.

Þegar fólk mætir á kjörstað og er að horfa á seðilinn blasa við nokkrir stjórnmálaflokkar sem það getur valið um. Hins vegar er einn flokkur í viðbót sem það getur kosið um en er ekki listaður á kjörseðlinum: Auði flokkurinn. Þetta er nafnið á því þegar fólk skilar auðum seðli. Í talningum á atkvæðum vantar hins vegar samanburð atkvæða þessa stjórnmálaafls við önnur. Það sem mig langar að vita er að ef Auði flokkurinn væri raunverulegur stjórnmálaflokkur, hvað hefði hann fengið?

Sumir kunna að spyrja sig: Af hverju skiptir þetta máli? Svarið við því er að leita uppi ástæðuna fyrir því af hverju fólk skilar auðum seðli. Fyrir mitt leiti er ástæðan einföld en hún er sú að ég vil ekki styðja flokkanna sem í boði er með mínu atkvæði. En af hverju sit ég þá ekki heima? Þótt að ég búi yfir fyrrnefndri skoðun tel ég mikilvægt að koma þessari skoðun á framfæri með kjöri mínu á Auða flokknum. Ef ég geri það ekki mun vera gert ráð fyrir því að mér sé sama um hver kemst til valda. Með kjöri Auða flokksins er verið að gefa til kynna að enginn flokkur sé í boði sem fengi atkvæði þessa fólks og gæti jafnvel verið merki um að þörf sé á öðrum stjórnmálaflokki.

Stefnuskrár stjórnmálaflokkanna
Hver flokkur er með sína stefnuskrá og með sínar áherslur. Hins vegar er hinum venjulega kjósanda sama um stefnuskrár flokksins sem hann kýs heldur vill fá grófa hugmynd um hvað gerist ef flokkurinn kemst til valda. Bæklingur Samfylkingarinnar er t.d. upp á 32 blaðsíður (með for- og baksíðu) og munu líklegast fæstir nenna að lesa hvert einasta atriði sem kemur fram. Þetta er dæmi um bækling sem fer aðeins of nákvæmt í það sem á að gera.

En hvernig eiga stefnuskrár að vera? Hér eru nokkrir punktar:

  • Þær eiga að vera stuttorðar, þ.e. án málalenginga.
  • Taka á því sem skiptir máli fyrir sem flesta kjósendur.
  • Ekki festa flokkinn við ákveðna hugmynd eða útfærslu.

Einn gallinn við stefnuskrár nú til dags er að þær geta aldrei verið tæmandi og því veit ég ekki hvað flokkurinn gerir í þeim málaflokkum sem hann nefnir ekki. Ef flokkurinn óskar eftir að ræsa einhver stór mál, þá eiga þau heima á stefnuskrá. Stefnumál eins og „Vel ígrundaðar ákvarðanir“ og „Hafnarfjörður fyrir alla“ gefa kjósandanum mikilvægar vísbendingar um hvernig stjórn bæjarins verður hagað. Öll smærri mál eiga heima á öðrum vettvangi eins og í ræðum frambjóðenda eða jafnvel sýna orð í verki.

Ein athugasemd við “Auði flokkurinn og stefnuskrár stjórnmálaflokkanna”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.