Helstu baráttumálin mín útskýrð nánar

Í framboðsyfirlýsingu minni tók ég fram helstu baráttumál mín á stjórnlagaþingi ef ég næði fram kjöri. Nú vil ég hins vegar skýra nánar þessi atriði svo þetta séu ekki eingöngu margræð stikkorð.

Fyrsta baráttumálið var betri skipting ríkisvalds en sú hugmynd var nánar útskýrð í samnefndri grein minni. Í stuttu máli felur hún í sér að aðskilja betur löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið þannig að um sé að ræða tvær mismunandi greinar ríkisvaldsins. Í greininni var þó lítið fjallað um dómsvaldið en í því tilfelli þarf aðeins sterkari tengingu á milli. Til að þrískipting valdsins gangi upp sbr. hugmyndafræðina þarf að vera jafnvægi milli allra greina valdsins en tengslin við dómsvaldið eru þannig að það hefur yfirhöndina. Hugmyndin er þó ekki að gefa hinum vald til að breyta dómum eða hafa óeðlileg áhrif á þá heldur gefa þeim aðhald svo þeir dæmi ekki út í bláinn eða eftir eigin geðþótta.

Við, ríkið
Í umræðum síðastliðin ár hefur bilið milli ríkisins og afgangnum af þjóðinni farið stækkandi. Kjósendur munu þá missa trúna á að ríkið sé að starfa fyrir þjóðina og óhlýðnast boðum þess (t.d. lögum). Háir skattar valda því að fólk er tregt til að tilkynna tekjur sínar til ríkisins og vinna svarta vinnu. Hið augljósa er að ríkið á að vinna fyrir okkur, ekki sjálft sig, og ákvarðanir þess eiga að vera teknar með almannahag í huga en ekki hag fárra útvaldra.

Ríkið á heldur ekki að vera sér fyrirbæri sem enginn nema innanbúðarfólk veit hvað er að gerast í. Sjálfgefna staðan á að vera sú að ríkið á að vera opið og gagnsætt. Upplýsingar eiga að vera aðgengilegar fyrir almenning nema augljósir (og sanngjarnir) hagsmunir séu gegn opinberun þeirra. Núna situr ríkið á heilu fjöllunum af upplýsingum sem eiga heima hjá almenningi og eru stundum seld afnot af þeim gegn gjaldi. Söfnun þeirra var greidd með almannafé en þær eru samt ekki aðgengilegar eða aðgengið sé bundið ósanngjörnum kvöðum.

Aðskilnaður ríkis og kirkju
Eitt skilyrði fyrir trúfrelsi er að öll trúfélög starfi á jafnræðisgrundvelli og engu trúfélagi sé úthýst eða sett á hærri stall en önnur. Þjóðkirkjan er einmitt trúfélag sem fær gríðarlega fjármuni og önnur fríðindi frá ríkinu umfram önnur trúfélög. Réttlátt væri ef meðlimir hvers trúfélags sæju sjálfir um að styrkja það í stað þess að það sé gert með framlögum af hálfu ríkisins. Trúarbrögð byggjast á meðlimum, ekki kirkjum. Ef meðlimirnir vilja kirkjur, þá geta þeir greitt fyrir þær úr eigin vasa.

Aukin mannréttindi hins almenna þegns í landinu
Sumir hafa tjáð þá skoðun að mannréttindakafli stjórnarskrárinnar sé nokkuð góður en ég tel að hann gangi ekki nógu langt. Við skoðun á honum koma í ljós afar margar undantekningar og stundum er jafnvel gefin heimild til að setja inn fleiri undantekningar í lögum. Jafnvel þótt það sé skýrt tekið fram að það verði að ríkja mikilvæg ástæða fyrir hverri undantekningu er ekki hægt að sjá að farið sé eftir því í lögum landsins. Sem dæmi má nefna að tjáningarfrelsið hefur 6 víðar undanþágur (3. mgr. 73. gr.). Í Mannréttindasáttmála Sameinuðu Þjóðanna eru engar undantekningar nefndar.

Fyrir utan að skerpa á núverandi réttindum vil ég leggja fram fleiri tillögur að réttindum. T.d. vil ég sjá ýmis réttindi tengd stafrænu öldinni, t.d. það sem kallast network neutrality. Einnig vil ég sjá ýmis réttindi gagnvart dómskerfinu. Sum þeirra eru skilgreind nú þegar í almennum hegningarlögum en ég vil sjá sum þeirra í stjórnarskránni. Stjórnarskrár annarra ríkja innihalda margar hugmyndir að sjálfsögðum réttindum.

Hlusta á hugmyndir annarra
Stjórnlagaþingið á ekki eingöngu að byggjast á því að koma með sínar hugmyndir og berjast fyrir því að þær komist í gegn. Það skiptir miklu máli að hlusta á rök og hugmyndir annarra á stjórnlagaþinginu. Síðan má ekki gleyma því að það var þjóðin sem kaus mann á þingið og því vil ég einnig hlusta á það sem almenningur hefur að segja. Jafnvel þeir sem komast ekki á þing gætu haft hugmyndir sem eru vel þess virði að íhuga. Þótt ég komist ekki á þingið mun ég samt sem áður reyna að miðla minni sýn til stjórnlagaþingmanna.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.