Skattar eru oft til umræðu þessa dagana, aðallega vegna skattahækkana sem munu eiga sér stað ef Steingrímur J. Sigfússon fær einhverju ráðið. Ætla ég því að grípa tækifærið og ræða aðeins um eðli skatta.
Tilgangur skatta, að mínu mati, er eftirfarandi:
1. Fjármagna viðhald á kerfi sem sér um að staðla samskipti samfélagsþegna þess til að einfalda þau og svo þau fari sanngjarnlega fram.
2. Svo hið opinbera hafi fé til þess að veita almenningi nauðsynlega grunnþjónustu. Hún takmarkast við þá þjónustu sem hver og einn þegn landsins þarf á að halda en væri alltof dýr ef hver og einn útvegar hana sjálfstætt.
3. Leysa úr deilimálum sem aðilar samfélagsins eiga við hvern annan.
Þessir liðir eiga að falla undir þá grunnhugmynd að hér sé um að ræða útgjöld fyrir vörur og þjónustu sem samfélagið í heild sinni þarf á að halda. Hver og einn liður gæti auðvitað verið nánar skilgreindur en ég ákvað að binda ekki hendur mínar við of nákvæmar skilgreiningar. Þeir sem eru vel að sér í stjórnsýslunni sjá að liðirnir eru að vísa í löggjafarvaldið, framkvæmdavaldið og dómsvaldið.
Hvert og eitt vald á samt eingöngu að ganga eins langt og er hagkvæmt fyrir samfélagið þegar lengra er litið. Löggjafarvaldið á t.d. ekki að semja lög um allt sem gæti farið fram á milli þegnanna eða stjórna öllu sem gerist í lífi þeirra. Sömuleiðis á enginn armur ríkisins að koma fram við alla á jafnræðisgrundvelli.
Til hvers er ég að nefna þetta?
Svarið er nokkuð einfalt: Skattfé er of oft notað í hluti sem hið opinbera ætti ekki að skipta sér að. Dæmi eru um að skattfé sé notað til þess að flytja fé frá einstaklingi A til félags/fyrirtækis B, hvort sem A, eða þjóðin í heild, hefur hag af því eða ekki. Sömuleiðis er skatturinn notaður til þess að stýra neyslu einstaklinga á ákveðnum vöruflokkum, oftast í þeim tilgangi að letja fólk frá því að kaupa vörur í ákveðnum vöruflokkum.
Um leið og skattur er settur á er mjög erfitt fyrir hið opinbera að afnema hann. Tel ég að ástæðan sé sú að um leið og einn skattur er afnuminn mun fólk byrja að efast um tilgang og æskileika annarra skatta. Um leið og málstaður hefur runnið sitt gildi vill alltaf svo til að einhver kemur upp á ræðupúlt og mælir með því að féð sé notað í annað en það málefni sem skatturinn var settur á fyrir og er hann þá endurskýrður. Síðan er fólk að kvarta yfir því að hópur einstaklinga mótmælir „smá aukaskatti“ og það kæmi varla á óvart ef kvartararnir sé sama fólkið og hefur hag af honum.
Sumum er alveg sama um álagningu skatts ef skatturinn lendir ekki á því sjálfu. Það virðist því miður vera ástæða þess að fólk er ekki gjarnt á að mótmæla þeim. Ef lagður yrði 1% auka tekjuskattur á þá sem hétu Jónharður væru mjög fáir sem myndu mótmæla honum. Um leið og skatturinn yrði víkkaður svo hann yrði settur á alla sem hétu Jón eða hefðu nöfn sem byrjuðu á Jón myndi ástandið vera allt annað. Afgangurinn af liðinu sem hefðu nöfn sem byrja á Jón myndu flykkjast inn og byrja að mótmæla. Almennt séð er fólki sama þar til óréttlætið lendir á því sjálfu. Óréttlæti er óréttlæti, sama á hverjum það lendir.
Áhrif skatta
Allir skattar koma öllum við þar sem hann gildir. Hver einasti skattur hefur áhrif á samfélagið í heild, hvort sem það er tilvist hans eða innheimta. Hátekjuskattur hefur t.d. áhrif á þá sem eru undir tekjumörkunum með því að letja fólk frá því að afla nóg til þess að fara yfir þau. Því er t.d. verið að refsa fólki fyrir að taka að sér meiri vinnu til þess að greiða niður skuldir. Einnig er verið að letja fólk frá því að afla meiri tekna af öðrum ástæðum, t.d. til þess að fjárfesta sem myndi annars halda efnahagnum gangandi. Sömuleiðis er algengara að fólk vinni svart svo það haldi meira af tekjum sínum vegna þess að því finnst það hafa greitt nógu mikið í skatta þá þegar.
Alþingisheimur virðist vera á öndverðri skoðun þegar kemur að fjárlögum eftir því í hvaða tilgangi skatturinn er settur. Tilgátan hjá þeim er greinilega sú að neysluskattar hafi þau áhrif að minnka neyslu vörunnar á meðan aðrir skattar hafi engin áhrif. Það virðist vera ríkjandi skoðun á Alþingi að allir skattar utan neysluskatts hafi engin áhrif á hegðun fólks. Þegar ræða á hækkun eða lækkun tekjuskatts er gert ráð fyrir því hver breytingin sé miðuð við þá upphæð sem tekjuskatturinn skilaði árið áður. Þeim virðist bara ekki detta það í hug að lækkun tekjuskatts gæti aukið þá upphæð sem skilast inn vegna hans.
Lærðu stjórnvöld af fyrri kreppu?
Þær skattahækkanir sem Steingrímur er að mæla með munu líklega auka á vandann, ef eitthvað. Efnahagurinn byggir á því að fólk treysti því að hann sé stöðugur og í gangi. Þegar kreppan skall á hér á landi, og annars staðar, á 20. öldinni var gripið til þess ráðs að ráða fólk í ýmis verk á vegum hins opinbera sem jók ráðstöfunarfé heimilanna. Fyrir þetta fé keypti fólk vörur og þjónustu sem þýddi að tekjur fyrirtækjanna jukust og í framhaldinu réðu þau fólk til starfa. Á endanum lagaðist efnahagurinn.
Í dag er staðan þannig að núna er verið að skera niður hjá hinu opinbera sem þýðir að stofnanir forðast það að ráða fólk í vinnu auk þess sem skattahækkanir eiga sér stað. Þau ættu að hafa lært af fyrri aðgerðum og aukið við sig í stað þess að draga saman. Önnur leið sem hægt væri að fara er að lækka skatta til að auka ráðstöfunarfé, aðallega tekjuskatt og fjármagnstekjuskatt, og þá um meira en 5%. Fólk gæti notað féð sem það fær aukalega til þess að greiða niður skuldir eða nota sem auka neyslufé. Í báðum tilvikum flyst fé á milli handa sem eykur væntanlega flæði fés almennt. Verðtryggingin er ekki efni þessarar greinar en mig grunar að úr henni þurfi að bæta samhliða skattalækkuninni.
Aukaskattar
Aukaskattar eru einnig slæmir af annarri ástæðu, flókin skil á sköttum. Hver einasti sérskattur mun auka flækjustig skattakerfisins til muna og því ómögulegt fyrir hinn venjulega einstakling að gera sér grein fyrir honum. Í sumum tilfellum þarf fólk að ráða aðra í vinnu til þess að telja fram skattana fyrir það og sum fyrirtæki eru með heilan her af bókurum í þeim tilgangi að standa rétt í skilum á sköttum.
Í einhverjum tilvikum eru til heilu bækurnar um það hvernig eigi að standa í skilum á einum flokki skatta og nefni ég þá sérstaklega virðisaukaskattinn. Það kemur varla á óvart því það eru ótal undantekningar á því hvort eitthvað teljist til virðisaukaskattar eða ekki. Ef eitthvað telst til virðisaukaskatts eykst flækjustigið enn þá meira þar sem þá þarf að ákvarða í hvaða virðisaukaskattsþrep viðskiptin falla undir.
Einfaldara skattkerfi
Eftir að hafa heyrt allt þetta, hvernig er hægt að einfalda skattkerfið? Svarið er eins einfalt og lausnin: Einfaldari skattar. Hugmyndin er sú að bara fáeinir skattar væru í gildi og hver þeirra væri upp á flata prósentu. Ef undantekningar eru nauðsynlegar eða eðlilegar, hafa þær fáar og einfaldar. Hvernig myndi þér lítast á það að greiða x% í tekjuskatt og ekkert meira. Það tæki væntanlega bara nokkrar mínútur á ári að klára skattframtalið. Skattkerfið yrði það einfalt að hægt yrði að spara stórar fjárhæðir á ári sem færi annars í að halda utan um það flókna kerfi sem er við lýði.