Nokkur ráð vegna samskipta við yfirvöld

Því miður er eitthvað um að fólk klúðri samskiptum við hið opinbera með því að nefna eitthvað sem hefði ekki átt að vera nefnt eða gert eitthvað sem hefði betur verið látið ógert. Í mörgum tilvikum valda þessi mistök miklum skaða. Í tilefni af þessu tók ég saman nokkrar ráð sem gætu gagnast fólki. Sum þeirra eru fengin frá erlendum samtökum en ættu að duga ágætlega hér á landi.

1. Haltu ró þinni og vertu kurteis.
Miklu máli skiptir að æsingur hafi ekki áhrif á samskipti þín við yfirvöld. Skiptir það sérstaklega máli þegar þau fara fram í eigin persónu eins og t.d. við lögregluna. Ef þú ert sýnilega æstur munu yfirvöld líta á þig sem andstæðing og líklegra að málið fari lengra.

Bréf og skjöl ættirðu ekki að skrifa á meðan adrenalínið flæðir um líkamann. Oftast nær færðu upp í 2 vikur til að svara og það er ágætt að nota nokkra daga til að slaka á áður en þú semur svarbréfið. Ef þú ert hræddur um að gleyma einhverju máttu auðvitað taka punkta. Mundu samt að fara yfir þá svo bréfið sýnist ekki of tilfinningaþrungið.

2. Þú hefur réttinn til að þegja.
Þetta er auðvitað íslensk þýðing á enska frasanum „You have the right to remain silent“. Gildir þetta ekki bara um samskipti við lögregluna, heldur líka við önnur yfirvöld. Þótt þú sért beðinn um eitthvað þarf ekki alltaf að þýða að þú verðir að verða við því.

Hins vegar eru aðstæður þar sem er betra að verða við slíkum beiðnum eins og t.d. ef lögreglan biður þig um ökuskírteinið þitt á meðan þú ert að keyra. Lögreglan hefur hvort sem er aðgang að upplýsingunum á því (það eru jú yfirvöld sem gefa þau út) og ættir þú ekki að hafa neinu að tapa með því að sýna það. Ef þú ert farþegi ertu ekki skyldugur til að hafa ökuskírteini.

3. Gættu þín hvað þú segir.
Ef þú hefur horft mikið á CSI þáttaraðirnar ættirðu að hafa tekið eftir því að fólk segir eitthvað óvart sem kastar grun á það. Það lendir síðan undir rannsókn sem gæti eyðilagt æru þess varanlega og síðan kemur í ljós í þættinum að einhver annar framdi glæpinn. Þumalputtareglan er að hugsa út í afleiðingar þess sem maður er að fara að segja og hvernig það gæti verið túlkað. Þú hefur alltaf réttinn á að fá þér lögmann en ekki slaka á vörninni á meðan þú býður eftir komu hans.

Sumir halda að með því að kalla hluti eitthvað annað séu þeir saklausir af því að brjóta lögin. Eins og t.d. þegar einhverjir bjóða vörur eða fríðindi í skiptum fyrir lágmarksframlag. Í augum laganna er hér verið að ræða um viðskipti og er yfirvöldum nákvæmlega sama hvað aðrir kalla það. Það er undarlega algengt að einhverjir grípi til slíkra réttlætinga í samskiptum við hið opinbera í von um að bjarga sér í þeirri von að komast sem fyrst úr þessum aðstæðum.

4. Ekki samþykkja leitir.
Í samskiptum við lögregluna skiptir miklu máli að þú samþykkir ekki hvað sem er. Þá á ég sérstaklega við ef þú ert spurður hvort lögreglan megi leita í bílnum þínum. Sem betur fer er þetta ekki algengt á Íslandi en þetta er við lýði í Bandaríkjunum. Þumalputtareglan er að ef lögreglan þarf að spyrja þig um eitthvað hefurðu engu á að tapa með því að neita beiðninni. Þú þarft ekki að útskýra af hverju. Í Bandaríkjunum er fólk stundum gabbað til að verða við slíkum beiðnum með loforðum um að sleppa við sektir.

Jafnvel þótt þú hafir ekkert að fela ættirðu samt að neita slíkri beiðni. Þú hefur litla sem enga hugmynd um hvað fólk hefur skilið eftir í bílnum eða húsinu án þinnar vitneskju. Þér mun vera kennt um allt ólöglegt sem finnst við leitina. Þeir bera síðan enga ábyrgð á því að taka til eftir að þeir hafa lokið leitinni.

Ef einhver bankar hjá þér og segist hafa leitarheimild, biddu strax um lögmann til að gæta réttar þíns á meðan leitinni stendur. Farðu yfir leitarheimildina til að passa að allar upplýsingar séu réttar. T.d. hvort um sé að ræða rétt hús og/eða íbúð.

5. Má ég fara?
Ef samskipti við lögregluna á götunni eru að dragast á langinn, ekki vera hræddur um að spyrja hvort þú megir fara. Þú gætir notað „ertu að halda mér hér eða er ég frjáls ferða minna“. Ef þú ert frjáls ferða þinna, kveddu lögregluþjóninn og farðu burt. Ef svarið er á annan veg, spurðu hver sé ástæðan fyrir því.

Ef þér er haldið gegn vilja þínum, biddu strax um lögmann.

6. Ekki vera of öruggur með sjálfan þig.
Það er fátt sem öskrar sekur meira en „sannaðu það!“ því það er lítið annað en endurorðun á „ég er sekur en þú hefur ekki sannanir undir höndunum“. Þótt það sé ekki hrein játning munu yfirvöld reyna enn frekar að reyna að sanna sekt þína, sérstaklega ef þetta er sagt á hrokafullan þátt. Þess vegna borgar sig að hemja skap sitt og hugsa áður en maður tjáir sig.

Lögreglan er líklegri til að stoppa þig ef bíllinn ber merki um að þú sért vandræðagemlingur. T.d. eru stuðaramerki sem tjá stuðning þinn á einhverju vafasömu eða ólöglegu hvatning fyrir lögguna til að stoppa þig. Ef þú vilt forðast slíkt er betra að losna við allt sem sýnist grunsamlegt, hversu saklaust sem það er í raun.

7. Ekki veita nýjar upplýsingar.
Með öðrum orðum: yfirvöldum kemur ekki allt við. Haltu upplýsingagjöf í lágmarki ef þú þarft að svara yfirvöldum. Forðastu að veita nýjar upplýsingar án þess að ígrunda hvort hægt sé að nota þær gegn þér eða ekki. Það er samt þitt að meta hvort sé betra að veita þær eða ekki.

Ráðin eru meðal annars frá myndböndunum 10 Rules for Dealing with Police og BUSTED: The Citizen’s Guide to Surviving Police Encounters.

Fyrirvari: Ég er ekki lögfræðingur og tek enga ábyrgð á framkvæmd þessara ráða.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.