Í dag skilaði ég til Alþingis umsögn minni um frumvarp til nýrrar stjórnarskrár. Í þetta sinn ákvað ég að skoða frumvarpið sjálfstætt frá fyrri útgáfum og sleppa því að nefna suma vankanta hversu freistandi sem það var. Sumir sem ég hef rætt við hafa látið í ljós þá skoðun að allar efnislegar breytingar á frumvarpi stjórnlagaráðs séu af hinu illa, óháð því hversu bætandi þær eru fyrir mannréttindi. Augljóslega er ég ekki sömu skoðunar enda legg ég til margar efnislegar breytingar á frumvarpi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Nefndin hefur lagt til breytingar á frumvarpi stjórnlagaráðs nú þegar svo ég efast ekki um að hún sé opin fyrir efnislegum breytingum, svo framarlega sem þær uppfylli þau skilyrði sem nefndin setti fyrir sérfræðihópinn.
Aðferð mín við samningu umsagnarinnar var nokkuð einföld. Nýmæli eru tekin fyrir fyrst og síðan samkvæmt greinaröð frumvarpsins sjálfs. Auk þess kláraði ég að skrifa umsögnina efnislega í seinustu viku og lét hana liggja þar til í dag þar sem ég las hana yfir upphátt og gerði smávægilegar breytingar.
Í henni geri ég tillögu að eftirfarandi nýmælum:
- Stýringu og skráningu á beitingu stjórnskipulegs neyðarréttar.
- Viðurlög vegna brota á stjórnarskránni skulu skilgreind í almennum lögum.
- Framsal á íslenskum ríkisborgunum skal vera óheimilt.
- Óleyfilegt sé að framselja fólki til ríkja þar sem dauðarefsing er í gildi.
- Þagnarrétturinn sé tryggður í stjórnarskrá. Útfærsla hans í almennum lögum þessa stundina er nokkuð veik.
- Tryggja að allir hafi rétt til lögmanns í sakamálum og að sakborningur geti gagnspurt vitni og kveðið til vitna.
- Meðalhófsregla refsinga og frelsistrygginga sé í viðurlögum. Aðallega byggt á 8. viðbót stjórnarskrár Bandaríkjanna.
- Nefndarfundir ættu einnig að vera opnir en ekki bara þingfundir.
- Ef forseti Íslands synjar samþykkt laga ættu þau ekki að hljóta gildi fyrr en í fyrsta lagi að þjóðin samþykkir þau. Sé ósátt við neyðarlög er hvort sem er hægt að tefja framgang frumvarpsins með því að skjóta frumvarpinu til Lögréttu skv. 62. gr.
- Koma aftur inn ákvæði stjórnlagaráðs um að dómstólar geti dæmt að lög samrýmist ekki stjórnarskrá. Þá legg ég til tilkynningarskyldu af hálfu dómstóla séu slíkir dómar kveðnir upp þar sem engin skylda er í frumvarpinu að dómar skuli vera birtir.
Þá geri ég athugasemdir við eftirfarandi í frumvarpinu:
- Fara skuli sérstaklega yfir almenna skerðingarheimild réttinda í 9. gr. frumvarpsins.
- Tryggja að ekki skuli heimilt að dæma fólk vegna ummæla sem eru sönn.
- Ákvæðið um kirkjuskipan eigi ekki að vera óbreytt frá núverandi stjórnarskrá. Staða ríkiskirkjunnar gæti verið táknræn.
- Viðbót sérfræðihópsins í 24. gr. um menntun barna í samræmi við trúar- og lífsskoðanir gæti leitt til vandræða, t.d. ef börn eiga foreldra sem eru sköpunarsinnar og þeir vilja ekki að það læri um þróunarkenninguna. Samkvæmt orðalagi eru það eingöngu foreldrar sem ákveða slíkt en börnin sjálf hafi enga heimild til þess. Áhersla á kristna trú sé gegn jafnræðisreglunni.
- Tryggja að við rannsókn sakamála sé einnig gætt þess að málsmeðferð sé réttlát, úrlausn fáist innan hæfilegs tíma og að rannsókn sé óhlutdræg. Þá skuli önnur meðferð ríkis á málum, eins og stjórnsýslumálum, lúta sama lögmáli.
- Vísað er til meginreglna umhverfisréttar í 35. gr. og gæti slík tilvísun valdið stöðnun í þróun umhverfisréttar.
- Miða ætti við fyrsta samkomutíma Alþingis eftir kosningar við birtingu niðurstaðna í stað kjördags þar sem úrslit geta tafist vegna málaferla eða ófyrirséðra atburða.
- Þingsályktunartillögur ættu ekki að falla sjálfkrafa niður við lok löggjafarþings, heldur við lok kjörtímabils. Sama ætti að gilda um þær og meðferð lagafrumvarpa.
- Þjóðin ætti að fá að leggja fram frumvarp og krefjast atkvæðagreiðslu um þau án íþyngjandi takmarkana sem stjórnlagaráð setti fram. Þjóðaratkvæðagreiðslurnar væru án takmarkana en framlögn frumvarpa takmörkuð við að þau standist stjórnarskrá og mögulega mannréttinda- og umhverfissáttmála.
- Legg til að nefndin íhugi hvort önnur manneskja en forseti Alþingis yrði fyrsti staðgengill forseta. Ástæðan er sú að embætti forseti Íslands tilheyrir framkvæmdavaldi og forseti Alþingis starfar á sviði löggjafarvalds. Þá væri betra ef fyrsti staðgengill tilheyri framkvæmdavaldi en síðan gæti forseti Alþingis verið annar staðgengillinn í röðinni.
- Allar náðanir og sakaruppgjafir ættu að vera opinberar og rökstuddar til að sporna gegn misnotkun á ákvæðinu.
- Að ráðherra fenginn úr röðum þingmanna sé látinn rita undir eiðstaf er tvíverknaður þar sem hann hefur áður gert það sem þingmaður.
- Í bráðabirgðaákvæði er getið þess að tímasetningar á takmörkun á setutíma ráðherra og forseta Íslands skuli hefjast frá setningu stjórnarskrárinnar. Mældi með því að frekar ætti að heimila núverandi ráðherrum og forseta Íslands að klára kjörtímabil sín í þeim embættum. Þá er minnst á að núverandi dómarar njóti ákveðinna réttinda sem eldri stjórnarskrá gaf en slíkt myndi skapa ójafnræði meðal þeirra dómara sem skipaðir eru fyrir og eftir gildistöku nýrrar stjórnarskrár. Séu réttindin svo mikilvæg ætti frekar að íhuga að færa réttindin í bráðabirgðaákvæðinu yfir í varanlega hluta stjórnarskrárinnar.