Minnkað traust gagnvart Alþingi

Verð að segja að traust mitt á Alþingi minnkaði nokkuð mikið. Það var ekki vegna málþófsins sem er í fréttum heldur afgreiðslu allsherjar- og menntanefndar á lífsskoðunarfrumvarpinu. Þar átti meðal annars að breyta sjálfkrafa skráningu barna í trúfélög þannig að taka ætti tillit til skráningar beggja foreldra í stað móður. Hins vegar komu margar tillögur í umsögnum um að grípa tækifærið og einfaldlega afnema sjálfkrafa skráningar barna þar sem það bryti á réttindum barnanna til sjálfsákvörðunar.

Viðbrögð nefndarinnar? Í nefndarálitinu nefnir hún að hún sé fyllilega sammála þessu sjónarmiði og er fullur vilji til að breyta þessu. Niðurstaðan var samt sú að hún vill „að tiltöluleg sátt sé um þau viðkvæmu mál sem hér um ræðir og leggur því ekki til breytingar í þessa veru að svo stöddu“. Þá nefnir hún að það skipti máli að leiðréttingar séu framkvæmdar í smáum skrefum í svo viðkvæmum málum frekar en að kollvarpa núverandi kerfi.

Þetta er nokkuð skrítin aðstaða þar sem afnám þessarar sjálfkrafrar skráningar mun ekki hafa fjárhagsleg áhrif á ríkissjóð né þau félög sem lögin ná yfir á næstu 16 árum því þá loksins er úthlutað sóknargjöldum vegna skráningar í trúfélög. Nema væntanlega útprentanir á skráningarblöðum og vinnslu umsókna en hér er um lítilvægar fjárhæðir að ræða. Hér er eingöngu um sjálfkrafa skráningu að ræða en breytingarnar hefðu ekki hindrað foreldra í að skrá börnin sérstaklega, ef þeir hefðu talið mikilvægt að barnið sitt sé skráð í ákveðið trúfélag í skrám ríkisins. Ég held að 16 ár sé meira en nægur tími fyrir trú- og lífsskoðunarfélög til að aðlagast þessari breytingu.

Þegar tvær fylkingar (eða fleiri) etjast saman er afar erfitt að fá ‚tiltölulega sátt‘ um neitt mál, sérstaklega ef sjónarmiðin eru gjörólík. Þá vildi ég meta sérstaklega, vegna þessara orða meiri hluta nefndarinnar, hver afstaða umsagnaraðila var til þessa eina máls, hvort skrá ætti börn sjálfkrafa í félög:

Alda Björg Lárusdóttir – Engin afstaða.
Betelsöfnuðurinn, Snorri Óskarsson – Engin afstaða.
Dögg Harðardóttir – Engin afstaða.
Femínistafélag Íslands – Á móti sjálfkrafa skráningu.
Hvítasunnukirkjan á Íslandi – Trúfélagsskráning skal fara fram en engin afstaða um sjálfkrafa skráningu.
Íslenska kristskirkjan – Engin afstaða.
KFUM og KFUK – Með sjálfkrafa skráningu vegna hefðar. Ekki á móti afnámi sjálfkrafa skráningar ef foreldrar eru neyddir til að taka afstöðu.
Mannréttindaskrifstofa Íslands – Á móti sjálfkrafa skráningu.
Ólafur Jón Jónsson – Á móti sjálfkrafa skráningu.
Sálarrannsóknarfélag Íslands – Engin afstaða.
Siðfræðistofnun – Engin afstaða.
Siðmennt – Á móti sjálfkrafa skráningu.
Umboðsmaður barna – Engin afstaða.
Vantrú – Á móti sjálfkrafa skráningu.

Staðan er því sú að 8 af 14 umsagnaraðilum taka ekki afstöðu til þessa máls, 5 eru á móti sjálfkrafa skráningu og 1 aðili er fylgjandi. Á fundi fyrir nefndinni tjáði biskupsstofa að afstaða sín væri sú að þeir væru fylgjandi því að afnema sjálfkrafa skráningu. Er þetta ekki nóg til að það teljist vera tiltöluleg sátt í þessu máli af hálfu þeirra sem tóku afstöðu?

Eins og Matthías Ásgeirsson nefnir, hvað ef sama hugarfar hefði verið við lýði ef taka ætti ákvörðun um afnám þrælahalds? Það er ekki eins og þrælahaldararnir séu sammála afnámi þrælahalds og þá væri engin ‚tiltöluleg sátt í því viðkvæma máli‘. Ætti þá að halda áfram þrælahaldi en með smá breytingu til batnaðar þar til þrælahald  fjarar út smám saman?

Svo við komum með íslenskt dæmi, hvað ef sama hugarfar hefði verið við lýði þegar taka átti ákvörðun um að slíta konungssambandi við Dani í Seinni heimstyrjöldinni? Alþingi tók samt ákvörðun um að bíða í 3 ár til að sjá hvernig heimstyrjöldin myndi enda og þar að auki var Ísland hernumið á þeim tíma. Sú ákvörðun er svo sannarlega skiljanleg þar sem erfitt er að fá alþjóðlega viðurkenningu á sjálfstæði ef helstu herveldi þess tíma hafa hagsmuni af því að halda völdum. Hér er hins vegar ekki um svo stóra ákvörðun sem snertir sjálfstæði heillar þjóðar, heldur einfalt lagalegt mál sem mun ekki hafa teljandi áhrif næstu 16 árin nema þau að bæta sjálfsákvörðunarrétt barna til hins betra.

Hvað fór úrskeiðis?

Það er góð spurning en miðað við fyrirliggjandi gögn hafði nefndin enga rökræna ástæðu til þess að fá þessa niðurstöðu. Ef við hugsum málið er augljóst að þrýstingurinn barst ekki í gegnum umsagnir, enda er erfitt að sjá hvernig hægt sé að styðja slíka niðurstöðu á þeim einum. Fundir nefnda Alþingis eru almennt lokaðir og því höfum við engar forsendur til þess að meta hvaða rökfærslur leiða til þeirra niðurstaðna sem nefndir koma sér saman um. Þá vitum við ekki hvort niðurstaðan ræðst af pólítísku makki eða hvort niðurstaða er fengin með rökrænni umræðu þar sem hvert og eitt atriði er vegið og metið. Í þessu máli hallast ég að því fyrrnefnda.

Einhverjir koma líklega með þá staðhæfingu að málamiðlanir þurfa að eiga sér stað og fórna þurfi litlum málum fyrir þau stóru. En er þetta mál þannig úr garði gert að hótanir um málþóf ættu að bera árangur? Myndi einhver mæta á ræðustól og tala um þetta eina litla mál og tefja afgreiðslu þingfunda á því máli sem og öðrum? Er þetta mál það stórt að fjöldi einstaklinga væri tilbúinn til þess að hefja eða viðhalda málþófi vegna þess? Og af hverju að láta undan slíkum hótunum? Flokkur sem beitir málþófi vegna mála sem teljast lítilvæg fyrir heildarmyndina myndi líklegast fá færri atkvæði á næsta þingi og þá yrði enn auðveldara að ná árangri í þessu máli og öðrum. Ef stöðugt er látið undan slíkum hótunum fæst hvort sem er lítill árangur þar sem stöðugt þarf að gera málamiðlanir sem draga tennurnar úr hverju máli fyrir sig.

Segjum að nefndin leggi til breytingartillögu um að afnema sjálfkrafa skráningu barna í félög. Hún leggur fram breytingartillögu sem er samþykkt eða felld, sem er í samræmi við lýðræðisfyrirkomulagið. Ef meiri hluti þingmanna er á móti henni er breytingartillagan felld og niðurstaða Alþingis hvað þetta varðar er þá komin. Vandamál?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.