Kirkjan uppfyllir félagslega þörf

Þegar ég hugsaði málin um samband ríkis og kirkju datt ég inn á þá línu að meta hvað kirkjan hefur en samfélög trúlausra hafa ekki. Orðið kirkja veitir auðvitað vísbendingu en það er samnefnari yfir tegund bygginga. Og hvað fer fram í þessum byggingum? Fólk hittist.

Einmitt, fólk hittist. Ein tökin sem kirkjan hefur á fólki er að hún er tengd við félagsstarfsemi. Þótt trúin sé ekki endilega drifkrafturinn á bakvið sumt af félagsstarfinu, sér fólk auðvitað að tilvera kirkjunnar tengist möguleika þeirra til þess að iðka félagsstarfið. Það er hins vegar ekki sá hluti sem færslan á að snúast um heldur félagslíf trúlausra.

Trúlausir hafa eitthvað félagslíf. Það er ekki eins og allir með tölu sitji heima og sötri kaffi hvert kvöld á meðan þeir horfa á trúleysismyndbönd á YouTube og setji linka á þau inn á Facebook. Þeir haga sér að miklu leiti eins og aðrir, nema að þeir eru trúlausir. En það vantar samt eitthvað upp á samstöðuna. Félög sem halda upp á trúleysi hafa hittinga og það er samstaða innan þeirra en það er gallinn. Samstaðan er að mestu leyti innan þeirra.

Einhver lausn þarf að vera á þessu en sú sem ég aðhyllist mest er að koma upp samstöðu óháð félögum, eða allavega í upphafi. Hins vegar væri ekki svo slæmt ef að félögin myndu opna arma sína og skipuleggja félagslega atburði sem almenningur hefur áhuga á. Þá á ég ekki við um fyrirlestra eða umræðufundi, heldur atburði þar sem umræðurnar væru aukaatriði og skemmtunin aðalatriðið. Dæmi um slíkt væri að fara í keilu, göngutúra, bíó og svo framvegis.

Þá er líka hægt að stofna óformlega eða formlega hópa trúleysingja sem hjálpa öðrum án þess að blanda trú í hjálpina. Hópar gætu stundað hjálparstarf innanlands eins og að hjálpa til við matarúthlutun á skipulögðum tíma, gengið um bjóðandi upp á faðmlög eða hvaðeina sem gæti hjálpað fólki líkamlega og/eða andlega. Kosturinn við það er að fólk hjálpar til og um leið er verið að sanna að trúað fólk er ekki eina fólkið sem getur það.

Félög sem viðhalda trúleysi eru að gera góða hluti þessa stundina en auðvitað mætti víkka starfsemina aðeins án þess að það kosti meira en smá fyrirhöfn. Þau mættu t.d. halda opna hittinga þar sem fólk í félaginu og trúlausir utan þeirra eru velkomnir. Siðmennt hefur gert það í einhvern tíma en hefur ekki verið nógu duglegt að láta vita af því. Það stendur samt til innan Siðmenntar að bæta úr því í vetur.

En auðvitað má alltaf gera betur en til þess þarf fleiri meðlimi í trúleysisfélög en með því er hægt að hafa fleiri hugmyndir á lofti. Þá þarf alltaf fleiri meðlimi með framkvæmdaþörf svo öll vinnan lendi ekki á litlum kjarna félagsmanna. Þeir sem eru trúlausir, prófið að taka að minnsta kosti einn hálftíma í hverri viku, eða jafnvel mánuði, sem þið tileinkið framför málstaðar trúleysingja á Íslandi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.