Umfjöllun Pressunar um mál Hildar Líf veitti athygli minni að dómi héraðsdóms í máli hennar en þar er vísað til 102. gr. umferðarlaga. Í greininni var sagt að fjarvera hennar var ígildi játningar og vildi ég athuga hvort tilvísuð lög nefndu þetta beint eða hvort þetta væri svokallaður útivistardómur (dæmt þrátt fyrir fjarveru þess sem er borinn sökum). Því miður hef ég ekki texta dómsins sjálfs nema það sem kemur fram á Pressunni en ég rakst samt á áhugaverð ákvæði í 102. gr. umferðarlaga:
1. mgr. Nú hefur stjórnandi vélknúins ökutækis brotið gegn ákvæðum 1. mgr. 45. gr. eða 45. gr. a eða neitað að veita atbeina sinn við rannsókn máls skv. 3. mgr. 47. gr. og skal hann þá sviptur ökurétti. Ef sérstakar málsbætur eru og ökumaður hefur ekki áður gerst sekur um sams konar brot eða annað verulegt brot gegn skyldum sínum sem ökumaður má sleppa sviptingu ökuréttar vegna brota á ákvæðum 1. mgr. 45. gr., sbr. 2. mgr. þeirrar greinar, eða 45. gr. a.
2. mgr. Neiti stjórnandi vélknúins ökutækis að veita atbeina sinn við rannsókn máls skv. 3. mgr. 47. gr. skal svipting ökuréttar eigi vara skemur en eitt ár.
Skoðum nú hver þessi 3. mgr. 47. gr. er:
Lögregla annast töku öndunar-, svita- og munnvatnssýnis. Læknir, hjúkrunarfræðingur eða lífeindafræðingur annast töku blóðsýnis og eftir atvikum munnvatns-, svita- og þvagsýnis. Ökumanni er skylt að hlíta þeirri meðferð sem talin er nauðsynleg við rannsókn skv. 2. mgr.
Í framhaldi af þessu þurfum við að rekja leið okkar í 2. mgr:
Lögreglan getur fært ökumann til rannsóknar á öndunar-, svita- og munnvatnssýni eða til blóð- og þvagrannsóknar ef ástæða er til að ætla að hann hafi brotið gegn ákvæðum 2. eða 4. mgr. 44. gr., 45. gr. eða 45. gr. a eða hann neitar lögreglunni um að gangast undir öndunarpróf eða láta í té svita- eða munnvatnssýni eða er ófær um það. Liggi fyrir grunur um önnur brot en akstur undir áhrifum áfengis getur lögreglan auk þess fært ökumann til læknisskoðunar. Sama á við þegar grunur er um akstur undir áhrifum áfengis og sérstakar ástæður mæla með því.
Skv. 1. mgr. (tölulið d) sömu greinar getur lögreglan stöðvað mig vegna umferðareftirlits og krafist þess að ég gangist undir öndundarpróf og láta í té svita- og munnvatnssýni. En ef ég neita þeirri beiðni (segjum að ég sé alveg edrú) get ég verið sviptur ökurétti í heilt ár og verið ákærður fyrir að vera ósamvinnuþýður.
Hins vegar eru önnur lög sem mæla gegn þessari meðferð en það er Mannréttindasáttmáli Evrópu (MSE). En eins og margir vita fer íslenska ríkið bara eftir alþjóðlegum mannréttindasáttmálum eftir hentisemi. Lagasetning hér á landi er sérlega óvönduð og þó handbók stjórnarráðsins um samningu frumvarpa geti t.d. á um athugun á samræmi þeirra við stjórnarskrá er það bara tikkbox sem alltaf er hakað í.
En þvi miður vandast málin þar sem MSE nefnir svokallaðan þagnarrétt (e. „right to silence“) ekki beinum orðum, heldur er hann afleiðing dóms Mannréttindadómstóls Evrópu þar sem hann túlkar 6. grein sáttmálans. Mat hans á því er:
„…the right to remain silent under police questioning and the privilege against self-incrimination are generally recognised international standards which lie at the heart of the notion of a fair procedure under Article 6.“
Þetta voru dómsorð hans í málinu Murray v. UK frá 1996. En nú er líklegt að einhver segi „en lögin voru sett 1987 og dómurinn var kveðinn eftir það“. Það er skiljanleg pæling en þá myndi ég spyrja spurningarinnar „af hverju er þetta enn þá í lögunum?“. Fyrir utan það var þessu bætt við umferðarlögin árið 2006, um 10 árum eftir dóm mannréttindadómstólsins.
En í hverju felst þessi þagnarréttur? Hann felst bæði í því að vera ekki neyddur til að bera vitni gegn sjálfum sér ásamt því að vera ekki neyddur til að útvega sönnunargögn gegn sjálfum sér. Því á lögreglan ekki að geta neytt fólk til að gangast undir slíka sýnatöku nema nægar grunsemdir séu sem réttlæti sýnatökuna. Séu engin merki um að viðkomandi sé brotlegur um lög á lögreglan ekki að hafa rétt á að beita íþyngjandi aðgerðum gegn þeim einstaklingi.
Það kæmi mér ekki á óvart ef það væru margir staðir í íslenskum lögum þar sem mannréttindasáttmálar eru brotnir eftir hentugleika.