Einelti Regnbogabarna gagnvart systur minni

Systir mín gaf út í dag frásögn sína af vandræðum sínum gagnvart eineltissamtökunum Regnbogabörnum. Samtökin virðast hins vegar staðráðin í því að greiða henni ekki sanngjarnt verð fyrir upplagið sem hún þurfti að prenta út til að efna sinn hluta af samkomulaginu. Því þurfti hún að stefna samtökunum fyrir dómi í von um að fá eitthvað af því sem henni ber að fá. Hún gaf mér leyfi til að endurbirta frásögnina.

Árið 2003 gaf ég út bókina Má ég vera memm? í samráði við samtökin Regnbogabörn. Þessi samtök hafa síðan ekki staðið við sinn hlut. Ég kom með handritið ásamt blýants teikningum til Freyju Friðbjarnardóttur þáverandi stjórnarformanns Regnbogabarna og henni leist það vel á bókina að hún sagði að ég mætti láta prenta hana og hún yrði gefin öllum 6 ára börnum á landinu haustið 2004.Þetta var meira að segja auglýst í bæklingi sem samtökin gáfu út (innihaldi bókarinnar var lýst en nafnið kom þó ekki fram). Freyja sagði mér að athuga hve mörg börn hefðu fæðst þarna um árið og prenta samkvæmt því, ég athugaði það og það voru 4173 börn, ég lét því gera 5000 eintök og setti minn hlut í jólabókasöluna. Þegar bókin kom úr prentun september 2003 bað Freyja mig að geyma hana aðeins vegna plássleysis. Bókin var síðan afhent fyrstu helgina í apríl 2004, Þegar við vorum búnar að fara nokkrar bílferðir og bera bækur inn á skrifstofu Regnbogabarna þá bað Freyja um að pása yrði gerð enda frammorðið og sagði að við gætum komið með hitt seinna, ég fékk lítinn blaðsnepill uppá að samtökin hefðu tekið við 2780 stykkjum. Nokkrir dagar liðu þar til ég fékk bréf í hendurnar undirritað af Freyju um að til hafi staðið að gefa öllum börnum sem ættu að byrja í skóla haustið 2004 bókina að gjöf en að því miður væri það ekki hægt! Tekið var fram í bréfinu að þau buðust til að geyma fyrir mig lagerinn endurgjalds laust, ég verð að viðurkenna að þetta er móðgun, hún að svíkja loforð og ég að lenda í miklu fjárhagslegu tjóni og samtökin ætla að vera svo „góð“ að rukka mig ekki fyrir að geyma bækurnar „fyrir mig“ ! Til að fara hratt yfir söguna þá reyndi ég allt til að semja við Regnbogabörn, ég talaði marg oft við Freyju, ég talaði við Jónu Hrönn Bolladóttur, Ástu sem var næsti stjórnarformaður, Sigrúnu gjaldkera, Stefán Karl leikara, Jón Pál ráðgjafa og Valgeir Skagfjörð núverandi stjórnarformann. Eftir 8 ára baráttu og endalaus loforð er staðan orðin þannig að ég neyðist til að fara í mál við samtökin. Það er ekki auðvelt skref enda var ég mjög lengi að taka þessa ákvörðun. Ég er mjög ósátt og hef ákveðið að segja sögu mína.

Ég rakst síðan á Valgeir Skagfjörð núverandi stjórnarformann Regnbogabarna í Fjarðakaup föstudaginn 7. október fyrir algjöra tilviljun. Ég ákvað nú fyrst þetta væri í annað sinn á stuttum tíma sem ég rækist á hann að spyrja hvort hann þekkti mig ekki, þar sem ég man ekki eftir að hafa hitt hann áður heldur einungis talað við hann í síma. Hann kannaðist við mig en þóttist ekkert vita neitt almennilega um þetta mál nema að það hafi verið einhver lögfræðifundur í vikunni (4. október sl. vegna bókarinnar). Hvernig stjórnarformaður er sá sem mætir ekki á fund hjá lögfræðingi og lætur félagsmann (sem hann fullyrðir að sé ekki á launum) mæta fyrir sig, sjá um fjármál félagsins og spyr ekki einu sinni hvernig fundurinn fór? Hvernig stjórnarformaður er það sem veit af máli sem hefur verið óafgreitt árum saman og reynir ekki að leysa það? Allt málið lítur þannig út að ef hann vildi leysa það, þá væri hann búinn að því, hann væri að minnsta kosti búinn að afla sér almennilega allra upplýsinga um málið. Ef það er satt sem Valgeir segir að báðir fyrrum stjórnarformenn hafi verið reknir vegna fjárdrátts og að þær hafi verið algjörlega vanhæfar til að taka ákvarðanir, ætti ég ekki að fá að njóta vafans, í stað þess að hann gefi núna í skyn að ég sé að ljúga! Valgeir vildi meina það að það geti ekki verið að ég sé búin að reyna að semja við Regnbogabörn öll þessi ár og að enginn hafi haft samband, þetta sagði hann á þeim tíma sem hann tók við starfinu, en hefur samt sem áður aldrei haft samband sjálfur! Miðað við þær ákvarðanir sem Valgeir hefur tekið varðandi þetta mál, finnst mér ansi margt benda til að hann sé líka vanhæfur!

Ég gat ekki hugsað mér að mæta með lögfræðingi mínum á þennan fund núna í október vegna þess að ég er komin með nóg af því hvernig komið er fram við mig. Það er reynt að koma inn hjá mér samviskubiti ( að ég sé að fara illa með samtökin) og dónaskapurinn sem ég hef mætt er óheyrilegur. Mig grunaði líka að þessi fundur sem átti að vera svar við kröfubréfi lögfræðings míns yrði ekki samningsfundur við mig enda hafa Regnbogabörn engan áhuga á að greiða umsamið verð eða semja við mig um greiðslu. Mér hefur tvisvar verið boðnar 500.000kr og síðan er gefið í skyn að ég sú sem er ósamvinnufús að taka því ekki! Ég hef marg oft bent þeim á að prentun bókarinnar ein og sér kostaði 1.800.000 og ég þurfti að taka heimild fyrir henni sem ég var mjög lengi að borga niður, Valgeir sagði þá…. hver sagði þér að prenta svona mikið? „ég svaraði: Freyja sagði mér að gera það, ég hefði annars bara tekið 1.000 eintök og sett í jólabókasöluna.. Það var síðan rétt hjá mér, Regnbogabörn komu ekki með neitt tilboð eftir síðasta fund heldur sögðu mig ekki hafa nægileg rök fyrir því að fjöldi prentaðra eintaka hafi verið ákveðinn út frá samningi sem gerður var við Freyju. Eintakafjöldinn (öll 6 ára börn) er nú bæði tekinn fram í bæklingi útgefnum af þeim sjálfum og í bréfinu sem Freyja sendi mér eftir að hún tók við bókunum! Hvað annað þarf maðurinn að vita, samningur var gerður… sama hversu illa var staðið að honum. Ég viðurkenni að ég var svo vitlaus að trúa því að eineltissamtök stæðu við orð sín, ég hef samninginn ekki á pappírum en ég er með nægar sannanir samt sem áður um að þessi samningur var gerður og þökk sé internetinu, fann ég í síðustu viku akkurat það sem sannar það að samningurinn var gerður áður en ég prentaði bækurnar!

Ég sagði Valgeiri að ég gæti sannað að samningur hafi verið gerður meira en tveimur mánuðum áður en bókin fór í prentun og hann spurði ekki einu sinni hvernig ég gæti sannað það, honum gæti ekki verið meira sama! Ég spurði Valgeir veistu hvernig Sigrún (gjaldkerinn, ólaunaði félagsmaðurinn) talar við mig? Hann yppti öxlum og horfði útundan sér, þetta sýndi mér ennþá betur að honum er alveg sama enda var hann sjálfur nýbúinn að minna mig á að ég væri að fara í mál við góðgerðarsamtök sem væru að hjálpa mikið af fólki. Svona athugasemd er dæmigerð til að koma inn samviskubiti!  Ég sagði honum að fyrir einhverjum árum hefði ég minnst á það við Sigrúnu að ég þyrfti bara að fá lögfræðing í málið og hún hafi sagt að ef ég gerði það, þá væri það mér að kenna ef samtökin færu á hausinn. Valgeir yppti bara aftur öxlum og segist ekki hafa verið að vinna hjá þessum samtökum þegar þessi samningur var gerður, hvað á hann að gera? Er hann ekki með völd til þess að leysa þetta vandamál? Hann hefur greinilega engan áhuga á að leysa þetta mál og er búinn að ákveða að hann ætlar ekki að borga, hann er ekki einu sinni að sækjast eftir að fá þær sannanir sem ég hef!

Ég furða mig á því að hópur fullorðins fólks sem vinnur í eineltissamtökum geti hagað sér svona, geti staðið öll svona saman á móti einni manneskju! Þeim er sama svo lengi sem þau „sleppa“… Öðru eins einelti hef ég ekki kynnst, slæmt var það þegar ég var í skóla en þetta toppar það! Það verður þá bara að vera mér að kenna ef samtökin fara á hausinn.

Fyrir einhverjum árum þegar mér var boðinn þessi 500.000 þá spurði ég hvernig það yrði gefið upp, spurði hvort það væri hægt að gefa þetta upp á einhvern annan hátt, eins og sem styrk eða eitthvað í þá áttina en þó á löglegan hátt, enda ýmsar leiðir í boði sem eru með minni skattaprósentu án þess að ég viti nokkuð meira hvernig það virkar, kannski þyrfti maður samt að borga tekjuskatt, ég veit það ekki? Ég setti þetta fram sem spurningu, aðallega til að koma á framfæri hversu óréttlát þetta væri. Ég var nýbúin að fá samþykktar örorkubætur, viðurkenni alveg að ég var líka hrædd um að ef það sem ég fengi yrði gefið upp sem tekjuskattur, þetta árið að þá myndi ég missa bæturnar eða þyrfti að borga mjög mikið til baka árið eftir, fyrir upphæð sem átti að hafa verið greidd árið áður en ég fékk samþykkta örorkuna, svo ég væri heilt ár hálf launalaus. Fyrir það fyrsta þá var ég ekki að fara að taka þessum 500.000, ég spurði til að sýna henni Sigrúnu, hversu mikið þarf ég að borga fyrir að hafa gefið út þessa bók? Á ég að borga 1.500.000 með bókinni, borga vexti og dráttarvexti af heimildinni, borga um 40% skatt og missa launin mín að mestu í heilt ár á eftir? Í hvert skipti sem ég heyri í henni eða Valgeiri minnast þau á svokölluð „skattsvik“ mín, held ég í þeirri von um að hræða mig frá lögmáli og fjölmiðlum, hvers vegna ættu þau annars að vera að minnast á þetta?

Ég hringdi í Freyju þriðjudaginn 4. október síðastliðinn til að spyrja hana hvort hún gæti ekki staðið með mér og vottað það að þessi samningur hafi verið gerður eins og ég hef sagt öll þessi ár. Hún segir að Regnbogabörn hafi haft samband á undan og hún sé búin að senda þeim yfirlýsingu með tölvupósti. Mér fannst þetta hljóma nokkuð furðulega, fer það eftir því hver hefur samband á undan en ekki eftir því sem er satt og gerðist? Ég segi að allt bendi til að þetta fari fyrir dóm og ég voni að hún ætli að segja satt og rétt frá. Hún segir jú að hún muni gera það en segist ómögulega muna neitt frá þessum tíma…. Ég segi þú hlýtur að muna hvort ég hafi komið með bókina til þín á pappírsörkum eða tilbúna? Þá segir hún „já ég man þetta þannig að þú komst með hana tilbúna og varst í vandræðum með upplagið“. Ég ætlaði ekki að trúa þessu!!!!Og í þokkabót þá skellti hún á mig!…. Bíddu við, hún hefur engra hagsmuna að gæta við  Regnbogabörn, hvers vegna ekki að segja satt, afhverju gerir hún mér þetta?  (spurning hvort hún hafi ekki verið kærð fyrir umtöluð fjársvik) Ég bara skil engan veginn hvers vegna öllum er sama hvað verður um mig?

Ég sendi Stefán Karli póst á facebook sama kvöld og ég talaði við Freyju. Ég spyr hann, hvort sé inní málum Regnbogabarna í dag.  Ég vildi vita hvort hann vissi af umræddum fundi samtakanna og hvort hann hefði einhvern atkvæðisrétt? Hann hefur ekki ennþá svarað enda er hann hættur að svara póstum frá mér fyrir löngu löngu síðan, hann má þó eiga það að af öllum sem hafa unnið fyrir Regnbogabörn, þá reyndi hann þó mest á sínum tíma að fá stjórnina til að klára þetta mál en honum finnst greinilega orðið auðveldara að horfa bara í hina áttina… Hann stofnaði þessi samtök, hann er andlit samtakanna, gæti hann ekki verið búinn að leysa þetta mál? Sé raunin sú að hann hafi ekki geta gert neitt, þá er það samt lágmarks kurteisi að svara fyrirspurnum mínum.

Ekki til peningar….. það þarf ekki að leita mikið á netinu til að sjá að samtökin hafa fengið tugir milljóna í gegnum árin, ég var bara aldrei á listanum, mér var endalaust lofað að ég fengi greitt! Endalaus loforð sem fengu mig til að bíða og bíða!

Um síðustu helgi ákvað ég svo að hafa samband við Jón Pál, ég sendi honum póst í gegnum facebook. Ég tók fram að mig vantaði ekki sönnunargögn, heldur vildi ég vita hvort að  það væri einhver innan samtakanna sem stæði með mér og myndi tala mínu máli, segja hingað og ekki lengra, það hefur verið komið illa fram við hana og hún á það ekki skilið, nú bara göngum við í þetta mál og klárum þetta. Hann hefur ekki heldur svarað, það virðist vera einhver smitandi hálsrígur innan samtakanna, það horfa allir í hina áttina á meðan ein manneskja þjáist, mér dettur í hug ætli þau geri sér ekki grein fyrir að þetta mál er virkilega að fara með mig? Þar sem hann hunsaði póstinn frá mér ákvað ég að benda honum á að breyta hjá sér , þar sem hann skrifar á facebook að „trú hans“ Philosophy Religious Views væri „Á hið góða í manninum„, þá ætti hann kannski að fjarlægja það af facebookinu sínu og skrifa „survival of the fittest“! Það virðist vera mottóið… ef þú ert ekki sterkur þá máttu bara verða undir.

Ég ákvað að sleppa því að reyna að ná tali af Ástu, vil ekki valda sjálfri mér meiri vonbrigðum! Hún hefur þá bara samband við mig af fyrra bragði ef hún er með hjartað á réttum stað.

En ég er langt frá því að vera aumingi, ég var það kannski áður, en eftir að hafa verið misboðið árum saman þá hef ég aldrei verið sterkari! Ég ætla því að berjast af fullum krafti. Ég ætla ekki að leyfa þeim að komast upp með þetta, það sem þetta fólk er búið að leggja á mig og koma illa fram við mig, troða inn samviskubiti hjá mér, verið með dónaskap og sakað mig um lygar! Þetta er óafsakanleg hegðun, ég hef alltaf viljað forðast leiðindi, viljað reyna að leysa þetta á góðum nótum, reynt að vera kurteis. Ég hef ekki viljað setja samtökin í þessa stöðu sem þau eru komin í núna, ekki viljað skíta samtökin út því mér er annt um málefnið. En það er ekki hægt að láta vaða endalaust yfir sig, málið er komið á þetta stig vegna þess að þau komu sér í þetta sjálf, þau hafa haft 8 ár til að ganga frá þessu og ég er hætt að vorkenna þeim! Ég sagði Valgeiri að ég væri ákveðin að fara með þetta lengra jafnvel þó ég gæti tapað málinu. Auðvitað vona ég að ég vinni en þetta snýst orðið ekki lengur um að ganga bara frá þessum samningi, samtökin eru búin að komast upp með að leggja mig í einelti í 8 ár! og það hættir hér! Ég á rétt á að fá greitt og ég á inni afsökunarbeiðni!

Ég vil þakka þeim sem hafa sýnt mér stuðning, vil einnig þakka þeim sem gáfu sér tíma í að lesa þetta og gef góðfúslega þeim sem vilja leyfi til að dreifa umfjölluninni.

Kveðja Harpa Lúthersdóttir

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.