Um daginn fékk ég að vita að margir þeirra sem leitað var hjá í tengslum við BitTorrent mál þann 1. desember síðastliðinn voru kallaðir til skýrslutöku hjá lögreglunni og spurðu þeir mig ráða. Eitt aðalráðið sem ég gaf var að nýta réttinn til að þegja (svokallaður þagnarréttur) og það kom mér á óvart að þeir hafi ekki vitað af þeim rétt.
Í framhaldinu leit ég á lagaumhverfið í kringum þann rétt og verð að segja að það er ekki nógu gott. Hvergi er sagt beinum orðum að þagnarrétturinn sé eitthvað sem fólk hefur í skýrslutökum. Það er auðvitað viðurkennt að hann sé við lýði í dómsal en það efast ég ekki. 6. grein Mannréttindasáttmála Evrópu gefur þann rétt en hann er þó ekki nefndur berum orðum í greininni sjálfri heldur í gegnum túlkun Mannréttindadómstóls Evrópu sem hefur (því miður í þessu tilviki) ekki lagagildi hér á landi. Það næsta sem kemst þessum rétti í skýrslutökum er 64. mgr. laga um meðferð sakamála (lög nr. 88/2008). Það er samt ekki tilgangur greinarinnar að fara yfir það.
Því miður er það þannig að fólk hér á landi veit oftast ekki af þagnarréttinum eða öðrum réttindum eins og má sjá á nýlegri frétt á vefnum visir.is. Ekki nóg með að maðurinn hafi talað við lögregluna, heldur samþykkti hann húsleit þrátt fyrir að dómari hafi hafnað beiðni um húsleitarheimild. Hvað ef lögreglan hefði fundið eitthvað ólöglegt við leitina? Leitin hefði verið fullkomlega lögleg þar sem eigandinn leyfði þeim að leita!
Til hvers að hjálpa lögreglunni?
Sumir myndu spyrja á móti: „Ég hef ekkert að fela svo að hvers vegna ekki?“ og halda síðan að þeir hafi afgreitt málið. En málið er nær lengra en það. Gallinn er að fólk getur aldrei verið fullvisst um að ekkert ólöglegt sé á staðnum því það er aldrei að vita hvort annað fólk hafi skilið eitthvað ólöglegt eftir sem að lögreglan finnur. Reyndu síðan að segja lögreglunni að þú vissir ekki af hlutnum og athugaðu hvort hún trúi þér (spoiler: líklegast ekki).
Önnur rök sem ég hef heyrt með því að leyfa lögreglunni að leita sé til að tefja ekki lögregluna svo hún geti farið í önnur gagnlegri verk í staðinn fyrir að hanga í manni fyrir að neita að verða við beiðni lögreglunnar. Þau rök eru fáránleg þar sem leitin er miklu tímafrekari en tíminn sem það tekur að neita. Ef lögreglan myndi í alvörunni telja að það skipti svo miklu máli að leita í bílnum þínum eða húsinu, þá fengi hún leitarheimild. Síðan hey, hvernig væri að lögreglan myndi gera eitthvað gagnlegra en að biðja þig (sem ert væntanlega saklaus af því athæfi sem hún er að athuga með) um að leyfa sér að snúa öllu við í þínu lífi bara til að spara smá tíma. Sá tími sem það tæki að leita hjá þér gæti farið í að halda áfram leitinni annars staðar.
Af hverju að nýta þagnarréttinn?
Þagnarrétturinn er best þekktur í tengslum við 5. viðbót bandarísku stjórnarskrárinnar og aðallega í tengslum við hina frægu setningu „I plead the fifth“. Þagnarrétturinn er sá að allir eiga rétt á að sakfella ekki sjálfa sig. Það má því ekki neyða neinn til að játa glæp, hvort sem það er vitandi eða óafvitandi. Sá réttur er í gildi hér á Íslandi þó hann sé veikur.
Þá kemur aftur sú staðhæfing að maður hafi ekkert að fela og ætti því að vera óhætt að ræða við lögregluna. Þar er gallinn sá að það hafa allir eitthvað að fela. Sá sem segist hafa ekkert að fela er að ljúga. Við veljum öll hluti sem við segjum og hvað við ætlum ekki að segja. Með því að velja að segja ekki eitthvað er aðilinn að fela það. Næst þegar þú ræðir við einhvern ókunnugan, taktu eftir því hvort þú velur að halda aftur af staðreyndum um þig eða eitthvað annað. Þá ættirðu að komast að því að þú hefur víst eitthvað að fela.
Lög landsins og reglugerðir og allur sá pakki er flókinn og veit ég ekki um eina einustu persónu sem ég þekki ágætlega sem hefur aldrei brotið nein lög. Það er ómögulegt að fara í gegnum lífið án þess að brjóta nokkur lög í því ferli. Fólk ætti ekki að vera svo öruggt með sig að halda að það geti talað við rannsóknarlögreglumann í nokkrar klukkustundir án þess að hjálpa honum að sakfella sig. Það sem þú segir í skýrslutökum (sem er annað orð yfir yfirheyrslu) er eingöngu notað gegn þér í dómsmáli en ekki með þér. Jafnvel þó þú sért saklaus af hinu meinta broti er samt hægt að sakfella þig byggt á einhverri vanhugsaðri yfirlýsingu sem þú lést frá þér og virðist saklaus á þeim tíma sem þú gafst hana. Til hvers að hjálpa lögreglunni að sakfella þig? Sjáðu hvaða sönnunargögn lögreglan hefur gegn þér og svaraðu fyrir þig í fyrsta lagi þegar málið fer fyrir dómstólana, ef málið fer svo langt.
Einn af þeim sem ég ráðlagði fyrir skýrslutökuna lét mig vita eftir skýrslutökuna að lögreglan hafði ekkert á hann og það leit út fyrir að þeir vonuðu að hann myndi sakfella sjálfan sig í skýrslutökunni. Hann gaf þeim ekki það tækifæri þar sem hann nýtti sér þagnarréttinn. Það borgar sig að nýta hann!