Veðmál Pascals

Veðmál Pascals er þriðja greinin sem ég hef fengið birta á vefriti Vantrúar. Hér er greinin endurbirt.

Margir trúaðir beita einhverri útgáfu af veðmáli Pascals í von um að sannfæra aðra um að það sé þess virði að trúa á æðri mátt. Ætlunin mín er að taka fyrir helstu rökin fyrir því að veðmálið standist enga skoðun í von um að fólk hætti að beita því sem rökum fyrir því að trúa á ákveðinn æðri mátt.

Stutta útgáfan af veðmálinu er þannig að fólk hefur óendanlega meiri ávinning af því að trúa frekar en að trúa ekki, óháð því hvort guð sé til eða ekki. Niðurstaðan er samkvæmt veðmálinu að maður hefur allt til að vinna og engu að tapa á því að trúa. Það eru fjórar mögulegar útkomur eftir að maður deyr:

1. Ef guð er til og þú trúir = Óendanleg hamingja í himnaríki.
2. Ef guð er til og þú trúir ekki = Ekkert gerist eða óendanlega slæmar afleiðingar. (fer eftir söfnuðnum)
3. Ef guð er ekki til og þú trúir = Ekkert.
4. Ef guð er ekki til og þú trúir ekki = Ekkert.

Sjónarhornsgalli

Þegar veðmálinu er beitt er einn galli sem trúaðir gera sér sjaldan grein fyrir: hinn trúlausi trúir ekki á eftirlíf. Það þýðir lítið að reyna að bera gull og græna skóga á hinn trúlausa þegar hann hefur engar forsendur til að trúa því að eftirlífið sé raunverulegt. Sama gildir um hótanir um slæmar afleiðingar ef hann óhlýðnast. Endilega hótið okkur vist á slæmum stað sem við trúum ekki á, það mun örugglega sannfæra okkur trúlausa um að trúa á ykkar eftirlíf.

Að sama skapi er erfitt að réttlæta það að hinn trúlausi ætti að verja lífi sínu á að trúa í þeirri von að hann komist til himnaríkis. Í augum þeirra eiga allir bara eitt líf og því ber að njóta. Af hverju ætti hann að tileinka það veru sem hann trúir ekki að sé til?

Segjum að hinn trúlausi kaupi rökin að hann ætti að tilbiðja æðri máttinn í þeirri von að ef hann er til, þá lendi hann í himnaríki. Væri slíkt ekki blekking sem æðri mátturinn myndi sjá í gegnum? Myndi trúaða manneskjan (sem væri að beita veðmálinu) ekki vilja að allir fylgjendur síns æðri máttar væru heiðarlegir hvað trúrækni þeirra varðar?

Fleiri en ein trúarbrögð

Segjum svo að búið sé að sannfæra trúleysingjann um að það sé eftirlíf. En hverjar eru kröfurnar (ef einhverjar) svo hægt sé að njóta þess? Nú vandast málin þar sem trúfélagsgreinarnar eru nokkuð margar. Svo dæmi sé tekið eru að minnsta kosti 33 stórar greinar út frá kaþólsku kirkjunni. Sumar greinar eru útilokandi frá öðrum svo það er ekki hægt að vera í náð beggja á sama tíma, jafnvel þótt um sé að ræða sama guðinn. Eitt besta dæmið um þetta er gyðingdómurinn og kristni þar sem ekki er hægt að afneita Jesú og upphefja hann sem son guðs á sama tíma. Hvað ef allir hafa rangt fyrir sér og ?hinn sanni? æðri máttur hefur ekki verið uppgötvaður? Hvað ef þetta líf hefur engin áhrif á stöðu manns í eftirlífinu?

Hvað ef við tökum veðmálinu?

Nú hefur fyrrverandi trúleysinginn tekið veðmálinu og byrjar að rækja ákveðna trú sem hann telur að sé líklegust til að koma á góðan stað í eftirlífinu – ef það er til. Líf hans mun nú snúast um það að lifa af, eins og áður, en núna þarf hann að finna tíma til að gera það sem trúin krefst af honum. Sum trúarbrögð krefjast þess að fólk verji aukatíma sínum í að breiða út boðskapinn til annarra eða í aðrar athafnir.

Ekki nóg með að þau krefjist þess að maður geri eitthvað, heldur fara þau líka út í það að banna manni að gera hluti. Ef þetta væru hlutir sem trúleysingjum langar að gera, þá þyrfti þeir ekkert að trúa til þess að gera þá. Trúin væri sem sagt byrjuð að stjórna lífi fyrrverandi trúleysingjans og eyða þeim dýrmæta tíma sem hann hefur í þessu lífi vegna fáránlegs veðmáls sem stenst enga skoðun.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.