Undanfarið hef ég verið að heyra frá kvenfólki um að ég sé ekki þeirra týpa og þá fór ég að hugsa: hvaða týpa er ég? Í tilraun til að glíma við þessa spurningu koma upp fleiri spurningar. Ein þeirra er „hvaða spurningar þarf að spyrja og hvers konar svör myndu svara þeirri spurningu?“ Í stuttu máli er óhætt að segja að þetta eru rosalega margar spurningar og ég get svo sannarlega ekki svarað þessum pælingum með einni grein.
Aðalvandamálið er að ég get ekki svarað þessari spurningu þegar um er að ræða mig sjálfan. Ástæðan er sú að ég er of hlutdrægur og myndi líklegast einbeita mér of mikið á annaðhvort jákvæðu hliðarnar eða þær neikvæðu eftir því í hvernig skapi ég er í. Svörin yrðu alls ekki fullnægjandi því þau færu einnig eftir skapinu og þeirri sjálfsmynd sem ég hef. Síðan sér fólk mann í mismunandi ljósi og ekki er maður sama týpan á öllum stundum; Vinnufélagar gætu séð mann t.d. í allt öðru ljósi en vinir manns.
Fyrst það er mat mitt að sitt sýnist hverjum hvað týpur varðar, af hverju er ég að spá hvaða týpur aðrir haldi að ég sé? Það er vegna þess sem ég kalla „innri týpa“ og „ytri týpa“. Innri týpan er sú týpa sem maður er í raun og veru en sú ytri það sem aðrir upplifa á hverjum tíma. Stundum endurspeglar ytri týpan þá innri en vandamálið felst í þeim tilvikum þegar svo er ekki. Álit annarra á týpu manns er mikilvægt til að vita hvort innri týpan nái að skila sér út til annarra. Sumir gætu haldið að maður sé oftast haldinn eiginleika X þegar innri týpan gefur til kynna Y. Með því að vita að fólk heldur að ég sé Y þá er gott að fá að vita af því svo hægt sé að leita að rót þess misskilnings.
Síðan er önnur ástæða fyrir því að ég vil vita það er sú að ég er að reyna að finna út hver ég er og þá meðal annars styrkleika og veikleika. Venjulega fer fólk þá leið að lágmarka veikleikana með því að einbeita sér að styrkleikum sínum eða lágmarka skaðann sem veikleikarnir geta valdið. Til þess að vita það þarf ég að vita hverjir styrk- og veikleikarnir eru en það fer venjulega saman við týpu manns.
Þrátt fyrir allar þessar pælingar er ég samt ekki nær því að svara spurningunni: „Hvaða týpa er ég?“
You’re my type! 🙂