Kirkjujarðapælingar

Nokkrar fréttir hafa verið birtar í kjölfar færslu minnar sem innihélt svar við upplýsingabeiðni minni varðandi kirkjujarðirnar sem samið var um 1997. Mér þykir nokkuð gott að Morgunblaðið, mbl.is og Smugan hafi sýnt áhuga á málinu. Umfjöllun miðlanna, séu þær réttar, koma bæði á óvart og ekki á óvart. Til dæmis hafa tölur um 29 milljarða greiðslur (að núvirði) ekki verið teknar saman áður og setur upphæðirnar í samhengi.

Og þá eru hin svokölluðu félagsgjöld (sóknargjöld) ekki tekin inn en þær greiðslur (þær eru skilgreindar í útfærslu annars samnings frá 1998 sem á að vera nánari útfærsla samningsins 1997). Samtals hafa sóknargjöld í fjárlögum 1998 til 2013 verið um 27 milljarðar (ekki núvirt) en þá eru tekin inn sóknargjöld til allra trúfélaga. Það er augljóst að sóknargjöld til annarra trúfélaga voru til málamynda enda gat ríkið ekki réttlætt greiðslu þeirra til Þjóðkirkjunnar eingöngu og því eru sóknargjöld til annarra afleiðing þess. Eitt besta dæmið um það er að á hverju ári sem bráðabirgðaákvæði er sett til að lækka greiðsluna er eingöngu samið við Þjóðkirkjuna en ekki hin trúfélögin. Annað dæmi um að þetta séu ekki félagsgjöld er að fólk skráð utan trúfélaga þarf samt sem áður að greiða jafnmikið í ríkissjóð og einhver sem greiðir sóknargjöld og hefur nákvæmlega sömu tekjur. Séu þau í alvöru félagsgjöld ætti fólk utan trúfélaga að fá endurgreiðslu sem þeim nemur eða sóknargjöld skilgreind sem nefskattur sem eingöngu fólk skráð í slík félög ætti að greiða. Því er augljóst að sóknargjöld eru ríkisstyrkir en ekki félagsgjöld nema ríkið vilji játa brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Það hefur lengi verið augljóst að jarðasamningurinn var nokkuð óhagstæður fyrir ríkið, það hefði fólk átt að sjá áður en hann var samþykktur á Alþingi á sínum tíma. Enginn þingmannanna sem greiddu atkvæði kusu að hafna honum þrátt fyrir að sumir hafi talað fyrir því að hann væri afar óhagstæður fyrir ríkið. Einhverjir sem töluðu sérstaklega á móti honum enduðu á því að samþykkja hann, sem hljómar rosalega mótsagnakennt, og meðal þeirra var núverandi forsætisráðherra. Af hverju atkvæðin fóru samt á þann veg yrði bara ágiskun af minni hálfu.

Eftir því sem málið er rannsakað meir og meir koma upp fleiri og fleiri spurningar, sem ég ætla að reyna að bera hér fram í pælingarformi:

  1. Samkvæmt fjármálaráðuneytinu hefði þurft að rannsaka eignarhald og sögu þeirra jarða sem samkomulagið náði yfir. Af hverju var það ekki gert? Er ekki eðlilegt að ríkið, áður en það kaupir jörð, viti örugglega hver á jörðina með réttu? Með allan þennan fjölda jarða, sem ekki er vitað nákvæmlega hverjar voru, hverjar voru líkurnar á að ríkið var að kaupa jörð sem það átti þá þegar? Hvað um einfaldlega að staðfesta að kirkjan ætti löglega það sem hún var að selja? Engin afsöl fylgdu gildistöku samningsins sem þýðir að eignarhaldið er enn óljóst.
  2. Samkvæmt þágildandi lögum um fasteignamat (lög nr. 94/1976) átti slíkt mat að fylgja öllum jörðum (með nokkrum undantekningum). Af hverju var ekki leitað í þá skrá og í það minnsta fengið út virði jarðanna sem höfðu slíkt mat? Í það minnsta hefði slík uppfletting verið góð byrjun á slíku mati, enda voru slík fasteignamöt lögbundin á sínum tíma.
    Í sömu lögum er sú skylda á hinu opinbera að nota skrána (í 15. gr.) í öllum verðmætaviðskiptum þegar slíkt á við. Jafnvel þótt það lægi ekki fyrir vegna einstakra jarða bar ríkinu skylda að sjá til þess að eitthvað verðmætamat yrði framkvæmt, í það minnsta af siðferðislegum ástæðum. Slíkt er sérstaklega mikilvægt þegar um er að ræða svo háar skuldbindingar.
  3. Af hverju fór ríkið ekki þá leið að semja um fasta upphæð sem yrði greidd öll í einu eða í áföngum? Óháð upphæðinni sem um ræðir í samningnum, þá er rökrétt að ætla að á endanum greiðir ríkið kirkjunni miklu meira en virði jarðanna. Hvort það sé búið að gera það nú þegar eða ekki er óvíst, enda fylgja engar upplýsingar um hvaða tekjur ríkið hafði af samningnum, ef einhverjar.
  4. Pæling 3 leiðir af sér spurninguna: Hvaða hag hafði ríkið af þessum samningi?
    Ekkert sem lagt var fram við meðferð samningsins á Alþingi benti til þess að ríkissjóður myndi bera fjárhagslegan hag af þessum samningi. Það vekur auðvitað upp spurningar af hverju fjármálaráðuneytið gagnrýndi ekki samninginn á þeim forsendum og á forsendum upplýsingaskorts. Það er rétt að ráðuneytið nefndi að ekki lægju öll gögn fyrir en hér er um að ræða svo stórar breytur að þær ættu skilið sérstaka gagnrýni. Af hverju samþykkti Alþingi samninginn á sínum tíma þegar það var augljóst að það hallaði á hag ríkisins í honum?
    Samkvæmt útreikningum Jóhönnu Sigurðardóttur sem hún gerði varðandi samninginn, og nefndi í ræðu sinni um samninginn nefndi hún að 20 jarðir hafi selst á árunum 1984-1996 og fengist 71 milljón króna fyrir þær. Samt sem áður voru árlegar greiðslur áætlaðar miklu hærri sem þýðir að það er öruggt að hagnaðurinn sé langt frá því talinn vera í jarðasölu eingöngu. Auk þess er rökrétt að ætla að takmarkaður fjöldi jarða gæti ekki staðið einar og sér undir greiðslunum, nema virðið væri það hátt að ríkið gæti selt þær á nógu háu verði að það geti lagt söluverðið í sjóð og greitt úr honum og þar að auki fengið hagnað sjálft þegar rekstrarkostnaður væri tekinn með.
    En hvað um leigutekjur eða jafnvel aðrar tekjulindir? Ekkert er minnst á slíkt í greinargerð frumvarpsins eða í umsögn fjárlagastofu. Þær komu heldur ekki fram í þeim skjölum sem fjárlagastofa hafði undir höndum, sbr. þau skjöl sem ég fékk vegna téðrar upplýsingabeiðni.
  5. Segjum að virðið sé það mikið að tekjurnar dekki greiðslur vegna samningsins nokkuð auðveldlega. Af hverju gerði kirkjan þá þennan samning? Þá hefði verið augljóst að hún hefði frekar átt að sleppa ríkinu og einfaldlega afla teknanna sjálf af jörðunum, t.d. með sölu þeirra, leigu eða nýtingu. Hún sagðist enn eiga jarðirnar sem þá voru „í umsjá ríkisins“ síðan 1907 og hefði hún getað höfðað dómsmál til að fá þær aftur formlega.
    Slíkt tekjufyrirkomulag var reynt árið 1907 með prestlaunasjóði þar sem selja átti jarðir kirkjunnar, laun prestanna greidd af vöxtum sjóðsins og landsjóður greiddi það sem vantaði upp í þau. Allir sjóðir tengdir því fyrirkomulagi fóru endanlega á hausinn árið 1919. Árið 1997 var greinilega ákveðið að gera aðra tilraun en í það skipti var ákveðið að sleppa formlegheitunum að hafa sérstakan sjóð um launagreiðslurnar og nota í stað ríkissjóð, enda er það augljóst að jafnvel jarðasala seinustu 12 áranna á undan hefði aldrei staðið undir launagreiðslum nema fyrir nokkra mánuði, hvað þá undir fyrirkomulagi að standa undir launagreiðslunum á vöxtunum einum.
    Þetta bendir til þess að málin voru ekki augljós á þeim tíma, hvort sem það varðaði eignarhald eða möguleika jarðanna til að standa undir slíku fyrirkomulagi. Jarðirnar virðast hafa verið aukaafurð í samkomulaginu og að um væri að ræða málamyndarsamkomulag árið 1997 til að tryggja stöðu og völd Þjóðkirkjunnar sem ríkiskirkju.
  6. Nú höfum við þann kost að geta metið stöðuna aftur í tímann. Nú er komið á 15. ár frá því að samningurinn var samþykktur og tími til að endurskoða hann skv. samningsákvæðum þaraðlútandi. Ríkið hlýtur að hafa framkvæmt, eða er að framkvæma, mat á því hvort það hafi hagnast af þessum samningi eða tapað og um hversu stórar fjárhæðir er að ræða. Það væri afar áhugavert að sjá þær tölur. Hins vegar hef ég mínar efasemdir þar sem jarðalistinn er ekki einu sinni á borði fjármálaráðuneytisins og ríkið hefur enn ekki hugmynd hvert virði þeirra er eða jafnvel nákvæmlega um hvaða jarðir er að ræða, þrátt fyrir að hafa átt þær með formlegum hætti í næstum 15 ár.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.