Í viðtali í Harmageddon nefndi Ögmundur innanríkisráðherra að tilgangurinn með klámfrumvarpinu væri að vernda börnin gegn því að sjá klám. Hugsið-um-börnin-afsökunin notuð að fullu enda eru ekki margir sem vilja taka þann slag. Einnig á það að sporna gegn eftirspurn eftir klámi þar sem mansali er beitt.
Hið fyrra er örugglega hægt að bregðast við með endurbættum barnaverndarlögum og það gengur ekki svo langt að hindra aðgengi sjálfráða einstaklinga að því sem kallað er klám. Í seinna tilvikinu, að í staðinn fyrir að mæla með smíði frumvarps þar sem efni framleitt með mansali er bannað, þá fer hann út í það sem hann skilgreinir sem klám og biður nefnd að breyta skilgreiningunni á klám og mæla með auknum heimildum lögreglu til að stöðva það.
Hvernig er annars hægt að dæma hvort klám sé unnið af einhverjum sem gerir það af nauðung eða ekki? Er ætlunin að nota hugtök klámiðnarins og ákveða að einhver sem gerir hitt eða þetta getur ekki verið að gera það með fúsum og frjálsum vilja? Eða er ætlunin að banna það sem telst mainstream klám eða eingöngu tilteknar tegundir myndbanda eins og þegar einhver er augljóslega í kynferðislegri stöðu sem hann vildi ekki vera í? Hvernig á að skilgreina hvað sé nauðung og hvað ekki? Þetta er því miður óljóst á þessari stundu.
Síðan ætti Ögmundur að gera sér grein fyrir því að fólk hefur mismunandi skilgreiningu á orðinu klám og hefur hann líklegast vitað það allan tímann. Í viðtalinu virtist hann fullviss hvað hann telji vera kynlíf og hvað teljist klám en þykist samt ætla að vera hlutlaus í því máli. Í núverandi lagaframkvæmd er rætt um erótík og klám þar sem hið fyrra er leyfilegt en hið síðarnefnda ekki. Mörkin hafa tekið breytingum seinustu áratugi eftir dómum Hæstaréttar hverju sinni. Ögmundur valdi að skilgreina mansalsvandamálið í þennan efnisflokk líklegast því klám er talið tabú og þannig byrja ritskoðunartillögur alltaf. Þegar öll ritskoðunartólin eru komin byrjar fólk venjulega að hugsa „af hverju ekki að hindra annað sem telst ólöglegt á þennan hátt?“.
Með baráttu gegn slíkum ritskoðunartilburðum er verið að koma í veg fyrir að þau tól séu til staðar. Einnig eru mýmörg dæmi um það að til dæmis netsíur sem eingöngu eiga að sía barnaklám, er einnig viljandi síað annað efni sem kemur barnaklámi ekkert við og líklegast ratað inn á ritskoðunarlistann af pólítískum ástæðum. Þá stendur eftirfarandi í grein DV þar sem vitnað er í minnisblað Ögmundar:
Hópnum er gert að taka til sérstakrar skoðunar möguleg úrræði sem heimila lögreglu að knýja eiganda, hýsingaraðila eða fjarskiptafyrirtæki til að loka á dreifingu efnis, þ.m.t. efnis sem hýst er erlendis og/eða hýsingaraðili er óþekktur.
Þegar þessum hugmyndum er mótmælt ásakar hann aðra um þöggun umræðunnar, sem er auðvitað alls ekki málið, heldur er eingöngu mótmælt ritskoðuninni sjálfri en ekki umræðunni. Ögmundur þvertekur fyrir það að fyrirhugað frumvarp sé ritskoðun og sakar þá sem mótmæla því að vera í hagsmunagæslu fyrir klámiðnaðinn. Svo virðist vera að hindrun á tjáningu sem Ögmundi líkar er ritskoðun en slíkt eigi ekki við um efnið sem hann er ósáttur með. Ritskoðun er ritskoðun, sama hver sé tilgangur hennar eða markmið. Sé ritskoðun með þessari aðferðafræði samþykkt er komið verkferli og sé ég alveg fyrir mér að innan nokkurra ára munu rétthafasamtökin heimta lokun á fleiri síðum og nefna að slíkt sé ekki erfitt þar sem tólin til þess séu til staðar.
Þetta lyktar meira að segja allt af pólítískum leik hans í von um meiri umfjöllun. Nú hefur hann fengið mikið af viðtalsbeiðnum og fréttir birtar þar sem hann er í forsvari fyrir eitthvað mál sem ákveðnir þjóðfélagshópar elska líklegast. Hann hefur örugglega haft nægan fjölda tækifæra á kjörtímabilinu til að koma verkefninu af stað og jafnvel fylgja því eftir á Alþingi, en einhverra hluta vegna er það eingöngu sett af stað núna rétt fyrir kosningar. Þá er auðvitað ágætt að íhuga að ráðstefnan sem hann hélt um klám var haldin 16. október 2012, fyrir 3 mánuðum síðan, en það er ekki fyrr en núna sem hann útdeilir verkefninu. Það er ekki svo mikið mál að deila út slíku verkefni sé málið eins mikilvægt og ráðherra telur það vera. Þetta er líklegast kosningaspil og ég er því miður hræddur um að hann muni fylgja þeim tillögum refsiréttarnefndar ef hann heldur áfram sem innanríkisráðherra eftir kosningar núna í ár, enda er pólítískt erfitt fyrir hann að hunsa tillögu nefndar sem hann skipaði sjálfur að eigin frumkvæði.
Vinsælar rökvillur hjá Ögmundi virðast vera persónuníð, strámaður og afvegaleiðing. Þið getið örugglega fundið fleiri ef þið leitið.