Ég vil banna bindi á Alþingi

Í gær bar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingkona í Sjálfstæðisflokknum, upp þá fyrirspurn hvort Ögmundi Jónassyni þætti rétt að banna búrkur. Þykir henni (og fleirum) rétt að banna þær vegna þess að þær séu tákn um kúgun í garð kvenmanna. Ögmundur tók að mínu mati rétta afstöðu í þessu máli og vildi ekki banna þær af þeirri einföldu ástæðu að slíkt bann leysir ekkert.

Ekki veit ég hversu margir á Íslandi klæðast búrkum en ég efast um að þeir séu nokkuð margir. Óháð því hversu margir þeir eru, þá myndi slíkt bann samt ganga á rétt þeirra sem vilja ganga í búrkum. Að sama skapi er það ekkert grín eða spurning með fjölda þegar einhver er neyddur til að ganga í ákveðnum fötum.

Það er nokkuð ‘fyndið’ að Þorgerður Katrín skuli minnast á að banna búrkur vegna kúgunar kvenna og að það sé gegn kvenfrelsi. Hvað um karlfrelsi í sal Alþingis? Alþingi sjálft var sjálft með skyldu til að klæðast ákveðnum fatnaði í þingsal. Nú er ekki lengur skylda að vera með bindi en þau eru tákn um kúgun gagnvart karlkyns þingmönnum og því myndi ég vilja banna þau. Væri slík beiðni ekki fáránleg? Það þætti mér. Ekki sé ég að Þorgerður Katrín hafi kvartað yfir þessari skyldu (opinberlega) síðan hún hóf þingmennsku árið 1999.

Hvers konar lausn væri bann á búrkum? Maður sem væri í raun og veru að neyða konu sína til að vera með búrku myndi í staðinn halda henni heima í stað þess að hleypa henni út án búrku. Segjum að ekkert svoleiðis eigi sér stað, þá er samt búið að lögleiða öðruvísi kúgun. Hún er þá farin úr „þú skalt vera í þessum og þessum klæðnaði‟ og í „þú mátt ekki vera í þessum og þessum klæðnaði‟. Rosalegt frelsi þar.

Ein pælingin sem Tinna Gígja hafði á sínum tíma var hver viðurlögin við slíku banni ættu að vera. Á að refsa konunni fyrir það að vera kúguð? Þær sem klæðast búrkunni af fúsum og frjálsum vilja er þá refsað fyrir fataval sitt. Að banna búrkur blákalt kemur niður á konunum sem eru með þær en ráðast ekki á rót vandans – kúguninni sjálfri. Betri aðferð til að leysa þetta væri sú að vinna í að gefa fólkinu val um það hvort það klæðist búrku eða ekki. Slíkt væri vænlegra til árangurs.

Stjórnarskrárlegur aðskilnaður ríkis og kirkju

Á þjóðfundinum var greinilega rætt um aðskilnað ríkis og kirkju ef marka má niðurstöður hans og virtist hann vera á þeirri skoðun að aðskilnaðurinn ætti að fara fram. Áður en ég hef umræðuna hér vil ég nefna að aðskilnaður ríkis og kirkju er eitt helsta baráttumálið mitt enda er um mannréttindamál að ræða.

Til undirbúnings fyrir stjórnlagaþing (og af einskærum áhuga) hef ég verið að mæta á ýmsa fundi og fyrirlestra tengdum stjórnarskrármálefnum og þá hafa pælingar um aðskilnað ríkis og kirkju komið fram. Einhver ruglingur hefur komið fram á þessum vettvangi um framkvæmdina og ákvæði stjórnarskrárinnar sem snerta á þessu málefni. Vil ég fara í gegnum ferlið í von um að útskýra þetta.

Segjum svo að við ætlum að framkvæma aðskilnaðinn og breyta sem fæstum greinum í leiðinni (ef þetta væri eina málefnið á dagskrá). Rétta leiðin í þessu væri að breyta 62. gr. stjórnarskrárinnar sem hljóðar svo:

  1. Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.
  2. Breyta má þessu með lögum.

Fyrri málsgreinin er sú sem við viljum í rauninni breyta með því að annaðhvort fjarlægja hana eða breyta henni til að innihalda eitthvað annað. Takið samt eftir 2. málsgreininni þar sem stendur að breyta megi 1. mgr. með lögum. Hvað þýðir það? Hér er einfaldlega um þá heimild að hægt sé að breyta þessu með því að setja einföld lög í stað hins venjulega ferlis til að breyta stjórnarskránni.

Ef við lítum á 79. gr. stjórnarskrárinnar eru tvær málsgreinar: Sú fyrri þar sem rætt er um almennar breytingar á stjórnarskránni og sú seinni er með sértilfelli með 62. gr. Þetta þýðir einfaldlega að aðskilnaður færi ekki í gegnum sama ferli og aðrar breytingar á stjórnarskrá. Venjulega (með fáum undantekningum) þegar breytingar á stjórnarskrá eru samþykktar þarf að rjúfa Alþingi, boða til nýrra kosninga og síðan samþykkja frumvarpið óbreytt í nýskipuðu Alþingi. Breytingar á 62. gr. stjórnarskrárinnar fara hins vegar ekki í gegnum það ferli, heldur fer breytingartillagan í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslu sem ákveður síðan örlög hennar.

Lausn?
Ein lausnin sem væri hægt að íhuga til að framkvæma aðskilnaðinn væri að halda atkvæðagreiðslu um stjórnarskrána í heild eftir að Alþingi hefur samþykkt hina nýju stjórnarskrá eftir þingrof. Með því að gera það væri hægt að uppfylla kröfur 2. mgr. 79. greinar stjórnarskrárinnar og þá eðlilegu kröfu að stjórnarskráin sé samþykkt af þjóðinni.

Einnig væri hægt að fara strax í þessar breytingar í stað þess að bíða eftir að Alþingi afgreiði afganginn af tillögunum sem stjórnlagaþingið setur fram (ef það mælir með aðskilnaði). Samþykki þjóðin aðskilnaðinn má spara talsvert hærri útgjöld en þessi sér atkvæðagreiðsla myndi kosta ríkissjóð.

Helstu baráttumálin mín útskýrð nánar

Í framboðsyfirlýsingu minni tók ég fram helstu baráttumál mín á stjórnlagaþingi ef ég næði fram kjöri. Nú vil ég hins vegar skýra nánar þessi atriði svo þetta séu ekki eingöngu margræð stikkorð.

Fyrsta baráttumálið var betri skipting ríkisvalds en sú hugmynd var nánar útskýrð í samnefndri grein minni. Í stuttu máli felur hún í sér að aðskilja betur löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið þannig að um sé að ræða tvær mismunandi greinar ríkisvaldsins. Í greininni var þó lítið fjallað um dómsvaldið en í því tilfelli þarf aðeins sterkari tengingu á milli. Til að þrískipting valdsins gangi upp sbr. hugmyndafræðina þarf að vera jafnvægi milli allra greina valdsins en tengslin við dómsvaldið eru þannig að það hefur yfirhöndina. Hugmyndin er þó ekki að gefa hinum vald til að breyta dómum eða hafa óeðlileg áhrif á þá heldur gefa þeim aðhald svo þeir dæmi ekki út í bláinn eða eftir eigin geðþótta.

Við, ríkið
Í umræðum síðastliðin ár hefur bilið milli ríkisins og afgangnum af þjóðinni farið stækkandi. Kjósendur munu þá missa trúna á að ríkið sé að starfa fyrir þjóðina og óhlýðnast boðum þess (t.d. lögum). Háir skattar valda því að fólk er tregt til að tilkynna tekjur sínar til ríkisins og vinna svarta vinnu. Hið augljósa er að ríkið á að vinna fyrir okkur, ekki sjálft sig, og ákvarðanir þess eiga að vera teknar með almannahag í huga en ekki hag fárra útvaldra.

Ríkið á heldur ekki að vera sér fyrirbæri sem enginn nema innanbúðarfólk veit hvað er að gerast í. Sjálfgefna staðan á að vera sú að ríkið á að vera opið og gagnsætt. Upplýsingar eiga að vera aðgengilegar fyrir almenning nema augljósir (og sanngjarnir) hagsmunir séu gegn opinberun þeirra. Núna situr ríkið á heilu fjöllunum af upplýsingum sem eiga heima hjá almenningi og eru stundum seld afnot af þeim gegn gjaldi. Söfnun þeirra var greidd með almannafé en þær eru samt ekki aðgengilegar eða aðgengið sé bundið ósanngjörnum kvöðum.

Aðskilnaður ríkis og kirkju
Eitt skilyrði fyrir trúfrelsi er að öll trúfélög starfi á jafnræðisgrundvelli og engu trúfélagi sé úthýst eða sett á hærri stall en önnur. Þjóðkirkjan er einmitt trúfélag sem fær gríðarlega fjármuni og önnur fríðindi frá ríkinu umfram önnur trúfélög. Réttlátt væri ef meðlimir hvers trúfélags sæju sjálfir um að styrkja það í stað þess að það sé gert með framlögum af hálfu ríkisins. Trúarbrögð byggjast á meðlimum, ekki kirkjum. Ef meðlimirnir vilja kirkjur, þá geta þeir greitt fyrir þær úr eigin vasa.

Aukin mannréttindi hins almenna þegns í landinu
Sumir hafa tjáð þá skoðun að mannréttindakafli stjórnarskrárinnar sé nokkuð góður en ég tel að hann gangi ekki nógu langt. Við skoðun á honum koma í ljós afar margar undantekningar og stundum er jafnvel gefin heimild til að setja inn fleiri undantekningar í lögum. Jafnvel þótt það sé skýrt tekið fram að það verði að ríkja mikilvæg ástæða fyrir hverri undantekningu er ekki hægt að sjá að farið sé eftir því í lögum landsins. Sem dæmi má nefna að tjáningarfrelsið hefur 6 víðar undanþágur (3. mgr. 73. gr.). Í Mannréttindasáttmála Sameinuðu Þjóðanna eru engar undantekningar nefndar.

Fyrir utan að skerpa á núverandi réttindum vil ég leggja fram fleiri tillögur að réttindum. T.d. vil ég sjá ýmis réttindi tengd stafrænu öldinni, t.d. það sem kallast network neutrality. Einnig vil ég sjá ýmis réttindi gagnvart dómskerfinu. Sum þeirra eru skilgreind nú þegar í almennum hegningarlögum en ég vil sjá sum þeirra í stjórnarskránni. Stjórnarskrár annarra ríkja innihalda margar hugmyndir að sjálfsögðum réttindum.

Hlusta á hugmyndir annarra
Stjórnlagaþingið á ekki eingöngu að byggjast á því að koma með sínar hugmyndir og berjast fyrir því að þær komist í gegn. Það skiptir miklu máli að hlusta á rök og hugmyndir annarra á stjórnlagaþinginu. Síðan má ekki gleyma því að það var þjóðin sem kaus mann á þingið og því vil ég einnig hlusta á það sem almenningur hefur að segja. Jafnvel þeir sem komast ekki á þing gætu haft hugmyndir sem eru vel þess virði að íhuga. Þótt ég komist ekki á þingið mun ég samt sem áður reyna að miðla minni sýn til stjórnlagaþingmanna.

Framboð til stjórnlagaþings

Ég vil hér með tilkynna ætlað framboð mitt til stjórnlagaþingsins 2011. Stjórnarskráin er grunnplagg allrar þjóðarinnar og því mikilvægt að hér sé vel að verki staðið og það sé gert án mikilla hagsmunaárekstra. Með framboði mínu á stjórnlagaþingið set ég markið á að framfylgja þeirri hugsjón.

Umræðan síðastliðnu ár hefur sýnt fram á að stjórnarskráin er langt frá því að vera gallalaus og þá má sérstaklega nefna samblöndun löggjafarvaldsins og framkvæmdavaldsins. Einnig þarf að tryggja að nýja stjórnarskráin sé tekin alvarlega og ekki ýtt til hliðar eftir hentisemi. Heiti ég því að reyna mitt besta til að gera góða stjórnarskrá.

Helstu baráttumál mín, nái ég kjöri á stjórnlagaþing:
* Betri skiptingu ríkisvalds.
* Ríkið á að vera ‚við‘ en ekki ‚þeir‘.
* Aðskilnað ríkis og kirkju.
* Aukin mannréttindi hins almenna þegns í landinu.
* Hlusta á hugmyndir annarra sem eru á þinginu og einnig á almenning.

Þessa stundina er ég að safna meðmælendum svo framboð mitt er ekki enn formlega skráð.

Leiðrétt trúfélagsleiðrétting

Þann 30. nóvember síðastliðinn ákvað ég, fyrst ég var rétt hjá, að skreppa í Þjóðskrá til að athuga trúfélagsskráninguna mína. Bjóst ég við því að þetta væri einföld athugun þar sem ég hafði fyrir fleiri árum síðan skráð mig utan trúflokka. Svo var ekki raunin og hafði ég skráð mig í „Fríkirkjuna Kefas“ þann 1. desember 2002 skv. starfsfólkinu.

Hvernig mátti það vera að ég var skráður í Kefas? Ég vildi komast að því af hverju á því stæði og lét því athuga það. Mig grunaði að þetta gætu hafa verið mistök eða einhver hafi falsað skráninguna. Þar sem manneskjan sem sér um skráningarnar var í mat þurfti ég því að bíða og síðan þurfti ég að bíða lengur eftir því að hún hafði upp á forminu sem ég fyllti út á sínum tíma. Á endanum þurfti ég að bíða í rétt yfir 30 mínútur þar til kallað var á mig.

Þegar ég kom að básnum sýndi manneskjan mér blaðið og stóð á forminu að ég hefði skráð mig utan trúflokka og spurði hún hvað væri að skráningunni minni. Ég benti á útprentað blað yfir trúfélagssögu mína þar sem ég var skráður í Kefas. Hún sá því strax mistökin og sagði að þetta yrði leiðrétt. Nefndi ég þá að ég vildi að þetta væri leiðrétt frá og með 1. desember 2002 en ekki 30. nóvember 2009 og var það sjálfsagt mál. Kvaddi ég því og lagði af stað heim. Á leiðinni heim tók ég á móti símtali þar sem leiðréttingin var staðfest.

Þá var ég forvitinn og vildi vita hvort það yrðu einhverjar frekari afleiðingar af þessum mistökum og hafði samband við Fjársýslu ríksins í tölvupósti þar sem ég spurðist fyrir um sóknargjöldin sem voru innheimt og úthlutuð sem afleiðing þessara mistaka. Málinu var vísað til Dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins og fékk ég það svar að mistökin voru leiðrétt alltof seint og því yrðu sóknargjöldin ekki bakfærð frá Kefas og Háskóli Íslands mun ekki sjá einn einasta eyri af þeim.

Þessi mistök (eða ásetningur) í innslætti orsakaði það að Háskóli Íslands varð af nokkrum tugum þúsunda á þeim 7 árum sem mistökin voru ekki leiðrétt. Það vekur auðvitað upp spurningar hvort fleiri mistök eru í kerfinu þar sem fólk eins og ég, sem treysti Þjóðskrá fyrir leiðréttingunni, er skráð í annað trúfélag en formið sem það skilaði inn. Traust mitt á stofnuninni var slíkt á sínum tíma að ég sá aldrei ástæðu fyrr en núna til þess að athuga hvort skráningin hefði skilað sér inn í tölvukerfið. Hversu margir eru núna að greiða sóknargjöld til annarra trúfélaga en það hafði í hyggju?

Forðast hefði mátt mistökin með einföldum aðgerðum. Ein af þeim er að gera ferlið rafrænt þar sem íslenskir ríkisborgarar geti leiðrétt skráninguna í gegnum netið. Sumar stofnanir hafa komið upp álíka ferli og má þá t.d. nefna Ríkisskattstjóra þar sem hægt er að skila inn skattskýrslum rafrænt og Neytendastofu. Þetta þýðir ekki að hver stofnun ætti að hafa sína eigin rafræna lausn, heldur mætti samræma ferlið og væri hægt að hafa allt á einu léni. Annar liðurinn væri að staðfesta skráninguna með því að senda tilkynningu til allra sem breyta trúfélagsskráningu sinni og þá nefnt að henni hefði verið breytt og jafnframt hver hún sé þá stundina.

Álit mitt á sóknargjöldum almennt þarf að bíða betri tíma.