Makaleitin mikla

Nú er ég 28 ára og hef ekki enn verið í sambandi og þá fer fólk að gruna að ég setji of strangar kröfur þegar kemur að eiginleikum þeim sem sambandsefnið á að vera gætt. Einnig gruna sumir að ég sé samkynhneigður en ég veit ekki til þess að svo sé. Hins vegar tel ég raunina vera aðra, nánar sagt vegna einangrunar minnar þegar ég var yngri, sem olli því að félagsleg samskipti eru ekki auðveld fyrir mig. Þeir fáu aðilar sem ég ræddi við með reglulegu millibili (og eru ekki ættingjar mínir) hafa aðallega verið af karlkyninu sem leiðir til þess að ég er alls ekki vanur að ræða við kvenfólk. Þótt ég sjái kvenmann sem mér líst vel á er ekki sjálfsagt að ég hafi þor eða getu til þess að „næla mér í hana“. Ekki hjálpar það til að stundum á ég erfitt með að meta hvar fólk er statt á vinapýramídanum.

Mamma er jafnvel að reyna að „plögga mig“ í samband með því að minnast reglulega á að ég sé á lausu, þó ekki svo oft að það sé yfirgengilega pirrandi. Einnig hafa systkini mín reynt að koma mér í kynni við kvenfólk en án árangurs. Aðalástæðan fyrir því að hlutir hafa ekki gengið upp þegar fólk hefur farið í sambandsráðgjafahlutverkið er að það veit ekki hvað ég er að leitast eftir. Til að gefa því fólki betri hugmynd yfir það sem ég sækist eftir ákvað ég að setja saman smá lista yfir þá eiginleika sem ég sækist eftir í tilvonandi mökum (ekki raðað eftir mikilvægi).

Útlit:
Líta út eins og kvenmaður.
Lítur ekki út eins og skrímsli.
Helst á sama aldursbili og ég eða yngri. Þó opinn fyrir eldra kvenfólki.
Stundar reglulega líkamlega umhirðu (þrífur sig reglulega, o.s.frv.).
Fín og mjúk húð.
Ekkert rosalega langt frá kjörþyngd. Má alveg muna 10-15 kg.
Myndi ekki saka ef hún væri með einhver brjóst. Þó ekki krafa.

Persónuleiki / hegðun:
Gáfuð (allavega ekki heimsk).
Rökvís.
Ágætlega svartur húmor. Fá eða engin umræðuefni svo heilög að það megi ekki grínast með þau.
Helst laus við kreddur.
Ekki fordómafull.
Skilningsrík / Ekki of fljót að dæma.
Lífsglöð. Sem sagt, ekki vélmenni.
Ekki snobbhænsni.
Ákveðin.
Áreiðanleg.
Opin. Getur rætt um hluti sem varðar hana, t.d. um tilfinningar.
Hugsar ekki eingöngu um sjálfa sig.
Hefur kynhvatir.
Kann að taka gagnrýni.
Gott sjálfstraust. Örugg með sjálfa sig og verður ekki afbrýðssöm út af engu.
Sterk réttlætiskennd. Leitast eftir því að vera heiðarleg í því sem hún gerir.
Þorir að segja sína skoðun á málum.
Ekki frekja.
Ekki clingy.
Ekki undirgefin. Þ.e.a.s. sjálfstæð í hugsun og gerðum.
Ekki ofsalega meðvirk.

Og auðvitað er ég tilbúinn til þess að slá af einhverju af þessum eiginleikum ef hún er í heildina góð. Að sama skapi er allt gott í hófi því, sem dæmi, er ekki gott að vera með „cleaning freak“ eða „Ms. Everything-is-positive“.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.