Er núverandi þjóðkirkjuskipulag ólöglegt skv. frumvarpi stjórnlagaráðs?

Í gær fór ég á fund Stjórnarskrárfélagsins um Þjóðkirkjuna og stjórnarskrána. Á þeim fundi bar ég upp þá spurningu hvort núverandi kirkjuskipan ríkisins stæðist stjórnarskrá ef frumvarp stjórnlagaráðs yrði samþykkt. Því miður voru svörin sem gefin voru upp byggð á misskilningi sem enginn af svarendunum vissi af eða vildi vita af.

Í 19. gr. frumvarps stjórnlagaráðs stendur að „[í] lögum má kveða á um kirkjuskipan ríkisins“. Hins vegar er ljóst að þessi kirkjuskipan ríkisins getur ekki verið hver sem er og hún mætti sérstaklega ekki brjóta gegn ákvæðum stjórnarskrár. Pælingin mín var hvort núverandi kirkjuskipan myndi standast jafnræðisreglu frumvarpsins. Sé svo að hún geri það ekki, þá geta dómstólar dæmt svo að kirkjuskipan með trúfélagi í forréttindastöðu standist ekki stjórnarskrána (sbr. 2. mgr. 100 gr. frumvarpsins) og þar af leiðandi dæmd gegn stjórnarskrá og því ógild.

Á téðum fundi vísuðu allir svarendur á það að spurningunni hafi verið svarað 2007 og þá væntanlega að vísa í dóm Hæstaréttar í máli Ásatrúarfélagsins. Svarið stenst ekki rök þar sem dómurinn byggði á að staða þjóðkirkjunnar væri réttlæt með vísan í auknar skyldur hennar miðað við önnur trúfélög. Þær skyldur eru hins vegar með stoð í núgildandi stjórnarskrá um að Þjóðkirkjan sé þjóðkirkja á Íslandi og að ríkið skuli með tilliti til þess vernda hana og styðja. Sé frumvarp stjórnlagaráðs samþykkt óbreytt hefur Þjóðkirkjan engan beinan stjórnarskrárlegan stuðning né hefur ríkið engar skyldur til þess að vernda eða styðja slíka kirkju.

Slík setning skylda á hendur eins trúfélags stæðist alls ekki jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og geta dómstólar dæmt hana ólögmæta. Einhverjir gætu sagt að það sé í lagi þar sem um er að ræða ríkjandi ástand sem var leyft í fyrri stjórnarskrá. Slíka túlkun yrði þá einnig að beita á önnur landslög sem eru í gildi með öllu því óréttlæti sem þeim fylgja, en slíkt stæðist ekki skoðun og myndi alls ekki hvetja til breytinga eða afnámi ósanngjarnra laga.

Við skoðun á því hvort kirkjuskipan ríkisins stæðist stjórnarskrá, yrði að skoða hvernig aðstæðurnar væru ef þágildandi kirkjuskipan væri lögð fram sem ný kirkjuskipan. Með það að leiðarljósi gæti það varla staðist jafnræðisreglu stjórnarskrár ef Alþingi setti lög um að eitt ákveðið trúfélag, eða ákveðinn hópur trúfélaga, hefðu slíka forréttindastöðu.

Þessa grein má endurbirta að vild án endurgjalds með því skilyrði að hún sé birt í heild og ég sé látinn vita af birtingunni.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.