Eftir að hafa lesið fréttir um dómsmál Datacell gegn Valitor rakst ég á sjónarhorn sem mér þykir að fjölmiðlar hafi ekki fjallað betur um.
Í tilkynningu til Alþingis segir Valitor eftirfarandi:
VALITOR vill koma á framfæri að á umræddum fundi Allherjarnefndar í morgun voru einnig fulltrúar Kortaþjónustunnar ásamt þremur fulltrúum Teller, en Kortaþjónustan er umboðsaðili Teller AS á Íslandi. Fram hefur komið að Teller AS/Kortaþjónustan sá um að móttaka greiðslur fyrir Wikileaks sem nú hefur verið lokað fyrir. Við viljum því ítreka að VALITOR er ekki aðili að þessu máli.
Árni Þór Sigurðsson kemur fram með eftirfarandi vitnisburð á Facebook síðu sinni:
En fyrirtækin vildu ekki kannast við það þegar þau mættu fyrir þingnefnd, að þau ættu aðild að málinu og væru einungis að fylgja fyrirskipunum að utan og ætluðu sér alls ekki að taka þátt í því að brjóta lög hérlendis
Hins vegar segir í dómi héraðsdóms um skýrslu Viðars Þorkelssonar í málinu:
Viðar Þorkelsson, forstjóri stefnda, gaf skýrslu fyrir dómi. Hann kvaðst ekki hafa komið að málum þegar gengið var frá samningi við stefnanda. Hann sagði að WikiLeaks hefði leitað eftir samningi á árinu 2010, en beiðni þeirra hefði verið hafnað. Hann sagði að umsókn væri metin eftir þeim upplýsingum sem þar kæmu fram. Hér hafi komið í ljós að stefnandi hafi veitt þjónustu við fjársöfnun fyrir þriðja aðila. Upplýsingar hafi því ekki verið réttar í umsókn. Þess vegna hafi samningnum verið sagt upp.
Viðar kvaðst hafa talað í síma við starfsmann Visa í Evrópu, sem hefði sagt honum frá þessum færslum á WikiLeaks og bent á að Teller hefði sagt upp viðskiptum við DataCell vegna þess að kortasamtökin töldu viðskiptin ekki í samræmi við starfsreglur þeirra. Hann hafi þó ekki gefið honum bein fyrirmæli.
Hér er bullandi ósamræmi í yfirlýsingum. Fyrir dómi sagði forstjóri stefnda, Valitors hf., að hér væri að ræða um aðgerð að frumkvæði Valitors en Alþingi fékk á sínum tíma þá sögu að Valitor hafi eingöngu verið að framfylgja fyrirskipunum frá erlendum aðilum.
Mér þykir líklegra að fyrri útgáfan sé sú sanna en síðan hafi sögunni verið breytt vegna atburða sem gerðust á milli. Forstjóri Valitor hafi túlkað símtalið sem fyrirmæli og framkvæmt þau en síðan hafi erlendu aðilarnir ekki viljað kannast við það og því hafi hann breytt frásögninni. Síðan er þessi málsvörn afar lík Nuremberg vörninni sem var kollvarpað á sínum tíma í samnefndu dómsmáli.
Spurningin ætti þá frekar að endurspegla alvarleika málsins og orðast svo:
Laug Valitor að dómstólum?