Forsetinn sem ég vil

Nú þegar væntanlegir forsetaframbjóðendur eru að koma sér á framfæri ákvað ég, sem einstaklingur á kjörskrá, að nefna hvers konar forseta ég myndi vilja sjá á Íslandi. Ef einhver frambjóðandi kemur fram sem ber þau einkenni sem ég vil í forseta, þá fær hann líklegast mitt atkvæði, ellegar mun ég skila auðu.

Ég vil forseta…

…sem verndar almenning frá ágangi stjórnvalda. Ef Alþingi samþykkir lög sem ganga inn á frelsi almennings vil ég að forsetinn neiti að skrifa undir þau, sama hversu lítilvæg frelsisskerðingin er. Þetta er eitt mikilvægasta hlutverk forseta sem hefur því miður verið of lítið beitt frá lýðveldisstofnun. Alþingi er ekki fullkomið og það þarf aðhald. Það er ekki nóg að treysta á dómstóla til að veita aðhald gegn Alþingi því oftast er skaðinn skeður þegar þeir loksins sjá að sér. Hvað er annars að því að koma í veg fyrir að eitthvað slæmt gerist í upphafi í stað þess að treysta á dómstóla til þess að hreinsa upp eftir löggjafar- og framkvæmdavaldið?

…sem skrifar ekki undir neitt sem gengur gegn almennri skynsemi eða lýðræði. Með öðrum orðum vil ég forseta sem er trúr sjálfum sér og skrifar ekki undir hluti nema þeir séu örugglega í samræmi við stjórnarskrá og við almenna skynsemi.

…sem er gagnrýninn á núverandi ferli og hefðir. Ekki fer ég að kjósa forseta sem skrifar undir allt hugsanalaust og lætur óréttlæti viðgangast bara því „það hefur verið þannig“. T.d. er hefð fyrir því að ríkisstjórnin þurfi að fá samþykki forseta til þess að geta lagt fram stjórnarfrumvörp eða stjórnartillögur en ég myndi vilja að forseti neiti að samþykkja slíkt ef þau ganga of mikið inn á frelsi almennings. Ríkisstjórnin gæti þá auðvitað lagt fram frumvörpin í nafni þingmannanna sem að henni standa ef hún vill að þau nái framgöngu á Alþingi.

Sumir myndu segja að þessar kröfur myndu kalla á pólítískan forseta en svo þarf ekki að vera. Það er munur á forseta sem rækir hlutverk sitt sem verndari almennings og forseta sem gerir hluti því ákveðin stjórnmálastefna segir að þeir verði að gera eitthvað með einum hætti eða öðrum. Í stuttu máli vil ég gagnrýninn forseta sem þorir að framkvæma.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.