Neytendamál í Bandaríkjunum

Í ferð minni til Bandaríkjanna í febrúar lærði ég ýmislegt um viðskiptahættina þar og sá að sumir þeirra mættu alveg taka fótfestu á Íslandi. Síðan neita ég því ekki að ég stalst til þess að panta nokkrar pítsur og því er aðaláherslan á þær. Hér eru nokkur þeirra atriða sem ég tók eftir:

Pizza Hut er venjulegur pítsastaður
Á Íslandi er ímynd Pizza Hut sú að þetta sé háklassaveitingastaður þar sem borðað er í fínum sal og verðið samkvæmt þeirri ímynd. Stór margaríta er á 3.141 krónur (ódýrasta í þeirri stærð) á meðan á öðrum pítsastöðum er hún á rétt yfir þúsund krónum. Á meðan Pizza Hut í Bandaríkjunum eru með heimsendingu er það alls ekki í boði á Íslandi. Eigendur Pizza Hut á Íslandi vilja greinilega halda í þessa ýktu ímynd til þess að halda verðinu svo háu og það kostaði þá það að þeir urðu að loka tveim af veitingastöðunum sínum um árið.

Heimsendingin er ekki innifalin
Og það er gott. Þetta gefur fólki raunverulegt tækifæri til að bera saman verð. Venjan hér er að gefið er upp ákveðið verð og síðan fær fólk „afslátt“ ef það sækir. Þessi afsláttur er auðvitað heimsendingarkostnaðurinn eða ætti að vera það undir venjulegum kringumstæðum.

Sumum finnst það eðlilegt þar sem það er ódýrara fyrir pítsastaðinn að þurfa ekki að standa í heimsendingu. En ef við íhugum þetta nánar og hugsum upp aðstæður þar sem fólk pantar 2 eða fleiri pítsur í einu. Af hverju margfaldast heimsendingarkostnaðurinn í nákvæmu samræmi við fjölda pítsa sem skutlað er heim? Það er ekki eins og bensínkostnaðurinn sé það mikið hærri við að hafa einu boxi meira.

Væri ekki í staðinn eðlilegt að hafa eitt verð og síðan tiltaka sérstakan heimsendingarkostnað ef fólk vill nýta heimsendingarþjónustu fyrirtækisins? Ástæðan fyrir þessu fyrirkomulagi er auðvitað til þess að blekkja viðskiptavininn með loforði um afslátt og við vitum hversu vitlausir Íslendingar eru í afslætti.

Þjórfé er sjálfsagður hlutur
Eftir að ég lærði um þjórfé átti ég í stökustu vandræðum við að reikna út hversu mikið var viðeigandi í hvert skipti. Í stuttu máli er tilgangur þjórfés sá að vera aðhald fyrir þjónustufólkið svo það veiti góða þjónustu og síðan líka svo eigendur staðanna geti komist upp með að greiða því lægra kaup. Sem betur fer er það ekki hluti af menningunni hér.

Skammtarnir eru stærri
Þegar ég var að panta gerði ég alltaf ráð fyrir því að ef ég pantaði hluti eins og kartöflustöppu að þar kæmi smá skammtur til að borða með matnum en ó hvað ég hafði rangt fyrir mér. Ekki aðeins fékk ég þann skammt sem ég bjóst við, heldur margfalt það. Fyrir um 10 bandaríkjadollara gat ég fengið fullan disk af gómsætum mat en ef ég væri á Íslandi fengi ég bara…næstum ekkert. Það má auðvitað spá í það hvort þetta sé ein ástæðan fyrir því að íbúar Bandaríkjanna séu meðal þeirra feitustu en hins vegar fá þau það sem þau borga fyrir.

Læt þetta nægja í bili.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.