Opinber umfjöllun um Asperger

Fjölmiðlar hafa byrjað að ræða um einhverfurófið, og finnst mér mikil þörf á að taka upp þá umræðu opinberlega. Fyrst var rætt við Mamiko Dís Ragnarsdóttur, sem rekur bloggið sjalfhverfa.wordpress.com, í fréttatíma Stöðvar 2. Síðan ræddi mbl.is sjónvarp við mig. Í gær fjallaði Stöð 2 aftur um málið en í þetta sinn var rætt við Laufeyju Gunnarsdóttur.

Orsök Aperger heilkennisins eru ekki fullkomlega ljós en einkenni þess er að heilinn þróast öðruvísi en hjá öðrum, sem áfram leiðir til einkenna sem fólk upplifir í gegnum ævina. Rannsóknir benda þó til þess að Asperger heilkennið erfist þó ekki sé vitað um hvaða gen sé að ræða. Einu greiningartólin sem eru í boði þessa stundina byggjast á því að greina atferli og hegðun viðkomandi. Í fyrstu umfjölluninni var nefnt að um 1% fólks sé á einhverfurófi en í Bretlandi er hlutfallið 63 á hver 10 þúsund, sem sagt 0,63%. Séu bresku tölurnar færðar yfir á mannfjöldann á Íslandi er hægt að áætla að um 2 þúsund manns séu á einhverfurófi hér á landi (m.v. mannfjöldatölu Hagstofu fyrir 1. janúar 2011).

Greining á Asperger þarf ekki að þýða endalok lífs manneskju, heldur veitir hún upplýsingar sem manneskjan vissi væntanlega ekki áður. Það er ekki eins og líkaminn breytist um leið og greiningin staðfestir heilkennið. Greiningin er tækifæri til þess að skoða líf manns og skilja betur af hverju það leiddi til manneskjunnar sem maður er núna. Hvað maður gerir í framhaldinu er undir manni sjálfum komið. Hvers vegna ekki að reyna að njóta þess sem eftir er lífsins?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.