Afmælisveislu minni árið 2021 er aflýst

Nú þegar sóttvarnayfirvöld eru að herða sóttvarnaaðgerðir sökum enn-yfirstandandi COVID-19 farsóttar þarf ég því miður að aflýsa afmælisveislu minni þetta árið. Því miður hlaut afmælisveisla ársins 2020 sömu örlög. Ef sambærilegt ástand á sér stað árið 2022 stefni ég að því að leita að vægari lausn, eins og að halda hana í fjarfundi eða eitthvað slíkt.

Skýrsla um framkvæmd sumarmarkmiðalista ársins 2020

Komin er út skýrsla um framkvæmd sumarmarkmiða ársins 2020 þar sem farið er út í árangur þess sumars hvað sumarmarkmiðin mín varðar. Árið var nokkuð óvenjulegt sökum COVID-19 og er vonast til þess að áhrif farsóttarinnar verði í lágmarki næsta sumar.

Tilgangurinn með skýrsluskrifunum er „að fá mig til þess að meta heildstætt hvernig mér gekk að framkvæma sumarmarkmið ársins“ eins og kemur fram í skýrslunni. Hún er birt til að veita sjálfum mér frekara aðhald og svo annað fólk geti mögulega lært af ferlinu.

Afmælisveislu minni árið 2020 er aflýst

Í ljósi komandi herðingar á sóttvarnaaðgerðunum til að bregðast við COVID-19 farsóttinni og farsóttarástandsins sjálfs tel ég rétt að aflýsa afmælisveislu minni þetta árið. Ef aðstæður leyfa mun afmælisveisla ársins 2021 fara fram með sama hætti og venjulega.

Frá því ég varð 30 ára árið 2013 hef ég haldið afmælisveislu á hádegi afmælisdags míns hvert ár með því að mæta á hádegishlaðborðið hjá Pizza Hut í Smáralindinni. Til að sporna vegna brostnum væntingum, m.a. sökum afboðana, er ég sá eini sem fær formlegt boð í veisluna. Öðru fólki er velkomið að mæta og snæða með mér ef það hefur áhuga (hver greiðir fyrir sig).

Engin krafa er að fólk láti mig vita hvort það mætir eða ekki, og í raun væri ákjósanlegast að fólk geri það ekki nema það sé rétt fyrir veisluna í þeim tilgangi að staðfesta að ég muni örugglega mæta eða upp á nánari tímasetningar. Þá eru heldur ekki væntingar gerðar um að fólk komi með gjafir eða þvíumlíkt. Ég hef viljandi stundað það að auglýsa ekki afmælisveisluna stuttu áður, og í besta falli læt ég vita stuttu eftir að henni er lokið það árið. Þau sem muna svo eftir fyrirkomulaginu (eða skrá áminningu hjá sér) vita þá hvenær hún verður næst.

Einhver álitaefni hafa komið mér til hugar síðastliðin ár um aðstæður sem gætu skapað vafamál um hvort, hvar og hvenær hún verður. Vil ég því grípa þetta tækifæri til að ávarpa nokkur þeirra:

  • Ég stefni að því að mæta eða vera mættur á staðinn kl. 12:00 og vera á staðnum í einhvern tíma, oftast fram yfir kl. 13:00. Mögulega lengur ef fleiri mæta.
  • Að jafnaði tilkynni ég ekki sérstaklega ef aðstæður leiða til þess að ég kemst alls ekki, en þá er fólki velkomið að njóta veitinganna í minni fjarveru ef það mætir. Líkt og kom fram áður er fólki frjálst að hafa beint samband við mig til að athuga hvort og hvenær ég muni mæta.
  • Þótt Pizza Hut í Smáralindinni hafi ekki hlaðborð að hádegi afmælisdagsins, þá mæti ég samt sem áður í hádeginu á þann stað, sé hann opinn á þeim tíma.
  • Ef staðurinn er lokaður á hádegi afmælisdagsins, þá reyni ég að finna annan hentugan stað eins nálægt og kostur er, og þau sem hafa áhuga geta svo spurt mig hvar veislan verður haldin það skiptið. Sé lokunin varanleg mun ég tilkynna opinberlega eins fljótt og unnt er hver hinn nýi staður muni verða þaðan af.

Skýrsla um framkvæmd sumarmarkmiðalista ársins 2019 & Auglýsing eftir tillögum vegna markmiðalista ársins 2020

Komin er út skýrsla um framkvæmd sumarmarkmiða ársins 2019 þar sem farið er út í árangur þess sumars. Því miður tókst ekki að ljúka henni fyrr en í dag og er vonað að það hafi ekki komið að mikilli sök. Tilgangurinn með skýrsluskrifunum er „að fá mig til þess að meta heildstætt hvernig mér gekk að framkvæma sumarmarkmið ársins“ eins og kemur fram í skýrslunni. Hún er birt til að veita sjálfum mér frekara aðhald og svo annað fólk geti mögulega lært af ferlinu.

Samhliða útgáfunni er auglýst eftir tillögum vegna sumarmarkmiðalista ársins 2020. Eingöngu er unnið upp úr tillögum sem mér eru sendar fyrir kl. 00:00:00 þann 1. júní 2020. Frestur minn til að vinna í sumarmarkmiðalistanum hefur verið ákveðinn vera fram til (en ekki með) kl. 00:00:00 þann 22. ágúst 2020. Í ljósi farsóttarinnar er orsakar COVID-19 sjúkdóminn er vakin athygli á því að við úrvinnslu tillagna verður reynt að virða eftir bestu getu lögmæt fyrirmæli og ráðleggingar stjórnvalda sem eru til þess fallin að sporna við dreifingu farsóttarinnar. Fólki er þó frjálst og hvatt til þess að senda inn tillögur að útimarkmiðum, hafi það slíkar, og ég mun meta hvort og þá hvaða aðlaganir komi til greina í ljósi þessa ástands.

Langtímaáherslurnar mínar & sumarmarkmiðalisti ársins 2019

Síðastliðinn janúar hóf ég undirbúning að sumarmarkmiðalista ársins 2019, sem verður fimmti listinn af því tagi sem ég geri, og fór ég þá yfir skýrslu sem ég gerði í kjölfar framkvæmdar lista ársins 2018. Eitt atriðið sem mér hnaut á um var ójafnvægi við úrvinnslu tillagna þar sem aðrir aðilar en ég væru ólíklegri til þess að vita hvers kyns tillögur væri verið að leitast eftir.

Sú hugdetta kom upp að ég ætti að bjóða upp á lista yfir langtímamarkmið og fólk gæti nýtt sér hann til þess að gera tillögu að markmiðum sem ætti að framkvæma á styttri tíma. Á móti kom að þá yrði of mikil hætta á að fólk færi að festast í þeim efnistökum sem langtímamarkmiðin næðu yfir, sem myndi fækka of mikið óvenjulegri tillögum sem gætu ögrað mér. Slík útlistun myndi einnig bjóða þeirri hættu á að fólk myndi velja eitthvað langtímamarkmiðið og leggja til að ég myndi „einfaldlega“ einbeita mér að því að klára það yfir sumarið.

Þróunin varð því sú að eingöngu væri um langtímaáherslur að ræða sem einar og sér myndu ekki gagnast sem sjálfstæð markmið. Hins vegar væri hægt að setja markmið út frá þeim og sjá hversu vel þau falla að langtímaáherslunum í heild, og þar af leiðandi hjálpa aðeins til við forgangsröðun þeirra.

Nú er opið fyrir tillögur að markmiðum fyrir sumarmarkmiðalista ársins 2019, fimmta sumarmarkmiðalistans sem ég set saman. Listinn yfir langtímaáherslurnar mun væntanlega gagnast sem uppspretta hugmynda að slíkum tillögum ásamt því að aðstoða mig við að vinna úr þeim tillögum sem berast.

Þó listinn sem slíkur leysi ekki fullkomlega úr því ójafnvægi sem varð uppspretta gerðar hans, þá tel ég hann vera til þess fallinn að bæta jafnvægið að einhverju leiti. Þar að auki takmarkast gagn hans ekki eingöngu við gerð og framkvæmd sumarmarkmiðalista, heldur hefur hann einnig almennt gildi fyrir mig.

Skýrsla um framkvæmd sumarmarkmiðalista ársins 2018

Nú hefur verið gefin út skýrsla um framkvæmd sumarmarkmiða ársins 2018 og í henni geri ég upp árangurinn í sumar. Þrátt fyrir að tímabilið nú í ár var eitthvað styttra en árin áður tel ég mig hafa náð fínum árangri. Tilgangurinn með skýrsluskrifunum er „að fá mig til þess að meta heildstætt hvernig mér gekk að framkvæma sumarmarkmið ársins“ eins og kemur fram í skýrslunni. Hún er birt til að veita sjálfum mér frekara aðhald og svo annað fólk geti mögulega lært af ferlinu.

Stóra skönnunarverkefnið

Eftir talsverða vinnu er nú loks búið að ljúka skönnun á bindunum með hæstaréttardómum sem ég hef hér heima. Um er að ræða alls 134 dómabindi á tímabilinu 1920 til 1995 (bæði árin meðtalin).

Upphafið

Verkefnið hófst í kjölfar Facebook færslu Bókasafns Hafnarfjarðar frá 7. ágúst 2014 þar sem þau buðu upp á safn af dómabindum með hæstaréttardómum til sölu á 100 krónur stykkið, og fékk ég þá hugmynd að kaupa þau til síðari skönnunar. Þegar starfsfólk bókasafnsins heyrði um verkefnið ákváðu þau að láta bindin frá sér endurgjaldslaust. Aflaði ég mér þá liðsinnis Óla Gneista til að geyma bindin þar til ég myndi finna betri geymslustað. Vonin var þá að taka einn og einn kassa af bindum eftir því sem verkinu miðaði, en aðstæður leyfðu það ekki. Að endingu voru öll bindin í minni geymslu.

Framkvæmdin í grófum dráttum

Talið var að óraunhæft væri að skanna blaðsíðurnar með því að taka mynd af hverri blaðsíðu og vinna með þær myndir, sérstaklega þegar búið var að reikna út að blaðsíðurnar væru meira en áttatíu þúsund talsins. Ákveðið var því að skera dómabindin og nýta arkamatara sem finna má á venjulegum heimilisskönnum, og forðast þar að auki að nota flatskanna. Þessi aðferð myndi að endingu leiða til færri handtaka og einnig til tímasparnaðar.

Helstu erfiðleikar í skönnun

Ekki gekk allt snurðulaust fyrir sig þar sem ýmis vandkvæði voru í framkvæmd. Árið 2015 setti ég sumarmarkmið sem kvað á um að verkinu skyldi lokið það sumarið. Þá lenti ég í þeim mistökum að stórlega vanmeta þann tíma sem verkið myndi taka, og náði það ekki langt það sumarið. Taldi ég þá að betra væri að láta fagfólk sjá um að skera bindin og leitaði tilboða. Sanngjarnt tilboð barst og nýtti ég mér það. Nú voru öll bindin skorin og fór ég þá í að skanna.

Verkefnið var sett á sumarmarkmiðalista ársins 2016 en þrátt fyrir að ég hefði verið búinn að láta skera bækurnar ákvað ég að gera ekki þau mistök að gera mér þá hugarlund að ég myndi klára verkefnið það sumarið, og miðaði þá við tuttugu árganga enda gekk þá ágætlega hratt að skanna allt inn. Þegar sextán árgöngum var lokið bilaði skanninn og náði ég því miður ekki því setta markmiði. Verkefnið fór síðan aftur á sumarmarkmiðalista ársins 2017 en þá miðað við tíu árganga, og síðan uppfyllingarmarkmið sem kvað á um restina. Það sumarið náði ég að ljúka skönnun á nítján árgöngum.

Einn helsti tafvaldur þessa verkefnis hefur verið sá að skannarnir höfðu ekki verið sérstaklega langlífir. Annar mesti tafvaldurinn hefur verið sá að sumir af þessum skönnum hafa eingöngu getað skannað eina hlið í einu, er leiddi til þess að hvert dómabindi fór þá tvisvar í gegnum skannann í staðinn fyrir einu sinni. Sem betur fer voru tveir skannanna, þar á meðal sá er lauk verkefninu, gæddir þeim kosti að geta skannað báðar hliðar blaðsíðnanna í einni umferð.

Lokametrarnir

Í janúar 2018 keypti ég mér nýtt fjölnotatæki er hafði skanna með arkamatara sem gat skannað báðar hliðar í einni umferð. Til öryggis ákvað ég að passa sérstaklega upp á að ofreyna ekki skannann með því að vera stöðugt að skanna þegar ég væri heima. Ákvað ég því að setja á mig kvóta á þá leið að skanna að hámarki eitt dómabindi á dag, og myndi ég taka helming að morgni og annan helming að síðdegi. Þar sem ég hafði farið í gegnum nokkra skanna ákvað ég samt sem áður að gera ekki ráð fyrir að skanninn myndi endast.

Þegar ég taldi að þrjátíu bindi væru eftir ákvað ég að hefja niðurtalningu á Facebook án þess að láta fólk vita í hverju hún fólst. Hins vegar gerði ég frá upphafi þá undantekningu að ég myndi svara þeim forvitnu ef þau myndu spyrja mig auglitis til auglitis og jafnframt var í gildi undantekning frá þessari kröfu sökum landfræðilegrar fjarlægðar. Þar sem ég taldi niður einu sinni á hverjum degi hélt fólk að ég væri að telja niður daga, en ég ákvað að leiðrétta það svo fólk myndi ekki taka því sem sjálfsögðu og fara að kvarta ef ég skyldi ekki ná að klára bindi á tilteknum degi. Því miður þurfti ég að leiðrétta talninguna þar sem ég hafði gert þau mistök í birgðastöðunni að gera ráð fyrir bindi sem ég hafði ekki. Þegar ég taldi niður frá þrjátíu voru í raun tuttugu og níu bindi eftir. Með birtingu þessarar færslu fær fólkið loksins svarið við tilgangi þessarar niðurtalningar.

En hvað svo?

Eins og verkefnið er skilgreint setti ég forganginn í að koma bindunum á stafrænt form og er eftirvinnslan ekki hluti af þessu verkefni, heldur aðgreint verkefni. Óli Gneisti hefur unnið að eftirvinnslu fyrir sitt leiti, og má sjá árangurinn hingað til á dómasíðu Rafbókavefsins. Frekari eftirvinnsla er væntanleg og mun líklega ekki taka eins langan tíma og skönnunin sjálf. Búist er við að nánari yfirferð á skönnuðu eintökunum gæti leitt til þess að skanna þurfi sumar síðurnar inn aftur.

Dómabindin sem á vantar

Athugult fólk hefur væntanlega tekið eftir því að dómabindin fyrir þetta tímabil eru fleiri en 134, ásamt því að Hæstiréttur hefur gefið út dómabindi fyrir síðari ár en 1995, og er það rétt. Einstaka göt eru óhjákvæmilega á þessu safni og tel ég óþarft að fresta lokum verkefnisins af þeim sökum. Ef ég rekst á dómabindi sem á vantar geri ég ráð fyrir að skanna þau jafnóðum og þau komast í mínar hendur, og afgreiði ég þau sem aðgreind skönnunarverkefni.

Fyrir þau sem vilja vita hvaða dómabindi eru eftir, fylgir hér listinn eins og hann stendur þegar þessi færsla var birt:
1964 – öll bindin
1965 – 1. bindið
1985 – öll bindin
1996 og síðar – öll bindin

Skýrsla um framkvæmd sumarmarkmiðalista ársins 2017

Nú hefur verið gefin út skýrsla um framkvæmd sumarmarkmiða ársins 2017 og í henni geri ég upp árangurinn í sumar. Tilgangurinn með skýrsluskrifunum er „að fá mig til þess að meta heildstætt hvernig mér gekk að framkvæma sumarmarkmið ársins“ eins og kemur fram í skýrslunni. Hún er birt til að veita sjálfum mér frekara aðhald og svo aðrir geti mögulega lært af ferlinu.

Erindi mitt á málþingi Einhverfusamtakanna 2. apríl 2016

Erindi mitt á málþingi Einhverfusamtakanna 2. apríl 2016 um skólamál:

Hæ.

Í dag er alþjóðlegur vitundardagur um einhverfu, sem Sameinuðu þjóðirnar tilgreindu árið 2007 að yrði 2. apríl ár hvert. Þema dagsins árið 2016 er einmitt aðild án aðgreiningar (e. inclusion) og taugakerfafjölbreytni (e. neurodiversity). Tók ég mér það bessaleyfi að endurþýða hið síðarnefnda hugtak. Í samhengi við Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og efni þessa málþings, er verið að minna okkur á mikilvægi þess að skólarnir stundi ekki aðgreiningu milli einhverfra nemenda, og þeirra sem eru það ekki.

Að losna við aðgreininguna er mikilvægt skref í réttindabaráttunni. Þegar aðgreining fer fram, er óbeint verið að gefa til kynna, að sá hópur sem tekinn er úr almennri kennslu eigi ekki heima með „þeim venjulegu“, heldur tilheyri öðrum flokki manneskja. Með því að auka fjölbreytileika nemenda í skólabekkjum eykst vitund fólks á því, hversu mismunandi manneskjur eru. Undanfarin ár hefur mikill árangur náðst er varðar vitund, þar sem fólk opinberar frekar persónuleg tengsl sín við einhverfa einstaklinga, en alltaf má gera betur.

Vitundin ein og sér er ekki nóg, heldur þarf einnig að vinna að virðingu og samþykki. Gæta þarf þess að allir nemendur finnist þeir vera metnir að verðleikum, bæði þeir sem þurfa ekki á aðstoðinni að halda, sem og þeirra sem þurfa hana. Þó aðgreiningin milli bekkja sé lögð niður þarf einnig að gæta þess að vandamálið yfirfærist ekki með þeim hætti, að aðgreiningin eigi sér stað innan bekkjarins í staðinn.

Ég er einn af þeim sem fór í gegnum greiningarferli hjá Greiningarstöð ríkisins þegar ég var yngri. Sum einkenna einhverfu voru staðfest en þó uppfyllti ég ekki greiningarviðmiðin til að teljast einhverfur. Þrátt fyrir að ég hafi ekki öðlast greiningu var ég settur í þjálfun á vegum greiningarstöðvarinnar. Eftir þjálfunina lauk íhlutun stofnunarinnar svo best ég veit.

Hvað skólann varðar var ætlunin að ég myndi stunda nám í almennum bekk en fá aðstoðarmanneskju. Einhverra hluta vegna þurftu beiðnir um aðstoðarmanneskju að hafa borist árið áður og því var ákveðið að fresta upphafi skólagöngu minnar.

Bekkjarsystkini mín voru ekki lengi að fatta, að ég væri fæddur á öðru ári en þau, og spurðu mig reglulega um ástæðuna. Ég gaf það aldrei upp enda vissi ég ekki hver hún var. Þrátt fyrir reglulegar heimsóknir til greiningarstöðvarinnar og ýmsa aðra staði vegna einhverfunnar tengdi ég töfina ekki við það. Tel ég líklegt að ég hafi annaðhvort ekki hugsað út í einhverfuna sem áhrifavald eða enginn hafi sagt mér það sökum skorts á fullnaðargreiningu.

Skólinn hafði ákveðið að aðstoðarmanneskjan myndi aðstoða þrjá nemendur að mér meðtöldum. Þar sem einn annar nemandinn þurfti sérstaklega mikla hjálp urðu aðstæður þannig að aðstoðarmanneskjan var allan tímann hjá þeim nemanda. Við hin sem áttum að fá aðstoð, fengum því enga. Ekki var fengin önnur aðstoðarmanneskja síðar til þess að bæta upp fyrir það, hvorki síðar þann veturinn, né þann næsta. Mögulega af þeim ástæðum að mér og hinum nemandanum hafi gengið nógu vel í náminu.

Út grunnskólanámið lenti ég reglulega í stríðni af hálfu samnemenda minna byggt á því að ég væri eldri en þau, og þar sem hegðun mín var frábrugðin þeirra. Sú stríðni var ekki einvörðungu af þeirra hálfu, heldur kom hún einnig frá öðrum nemendum í skólanum. Heimska mín á félagslegum aðstæðum varð oft til þess að baka mér vandræði.

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir að innan skólans eru einnig einstaklingar sem vilja manni vel og gera góða hluti. Í gegnum tíðina fann ég ýmsa bandamenn og hef myndað með þeim vina- og kunningjasambönd, þó árangurinn hefur verið misjafn þegar hefur komið að viðhalda þeim gegnum tíðina. Skólinn hjálpaði að einhverju leiti með því að leyfa starfsemi hópa með sértæk áhugamál, eins og frímerkjasöfnun, sem er eitt af því sem ég er mjög ánægður með.

Þegar allt kemur til alls er erfitt að segja hvað hefði gerst ef eitthvað eitt atriði hefði verið öðruvísi, eða jafnvel nokkur. Þrátt fyrir að ég geti ekki breytt minni fortíð upp úr þessu er ætíð tækifæri til að bæta möguleika þeirra sem eru og eiga eftir að fara í gegnum menntakerfið. Því vil ég koma á framfæri nokkrum ábendingum sem svo sannarlega áttu við um menntakerfið þegar ég stundaði nám. Von mín er hins vegar sú að sem flestar þeirra séu úreltar þar sem þær hafi þegar verið uppfylltar.


1. Skólinn snýst ekki eingöngu um að ná álögðum prófum.
Þegar meta á þörf á aðstoð ætti að prófa fleiri þætti en námsárangur. Nemandinn gæti náð níum eða tíum en samt orðið eftir á félagslega. Aðstoðin sem skólinn veitir ætti að einhverju leiti að hjálpa nemandanum að ná félagslegum þroska, hvort sem um sé að ræða kennslustofuna eða utan hennar.

2. Einhverfa er ekki hið sama og einhverfa.
Nemendur er hljóta greiningar eru mismunandi og því er engin ein lausn sem hentar öllum. Þá er ekki nóg að horfa til meginflokka einhverfunnar í staðinn þar sem einstaklingarnir eru einnig öðruvísi innan þeirra. Aðstoðin þarf að vera sniðin að þörfum hvers nemanda fyrir sig.

Nú veit ég ekki nákvæmlega hvað fylgir þeim greiningarskýrslum sem skólarnir fá í dag en í þeim þarf að fylgja nákvæm útlistun á þeim einkennum sem greiningin er byggð á. Annars er hætta á að skólayfirvöld hafi ófullnægjandi upplýsingar til þess að geta gert ráð fyrir þörfum nemandans áður en hann hefur nám sitt.

Enn betra væri ef skýrslunni fylgdi útlistun á mögulegum lausnum, séu þær þekktar, eða tilvísanir hvar þær megi finna. Með því má minnka rannsóknarvinnu sem hver skóli þyrfti að setja af stað ef hann hefur ekki fengið nemanda með tilteknar þarfir áður. Þá gæti slík útlistun á lausnum gagnast til þess að uppfræða skólana hverjar séu nýjustu lausnirnar hverju sinni.

3. Vera samtaka í aðgerðum gegn einelti.
Margir skólar eru nú þegar að feta sig áfram í slíkum aðgerðum en hver skóli virðist vera að vinna hver í sínu horni. Hvort og þá hvað sé verið að gera virðist háð geðþóttaákvörðunum.

Í því samhengi þarf að greina hver rót vandans er.

  • Eru allir skólarnir með sömu eða álíka skilgreiningu í hverju einelti felst?
  • Hvaða aðgerðir eru í gangi til að sporna við einelti?
  • Hvað er gert þegar einhver er staðinn að einelti eða er grunaður um það?
  • Hvað er gert í tilfelli þess aðila sem beitir eða er beitt einelti?

Án efa eru margar aðrar spurningar sem hægt er að spyrja en grundvöllurinn ætti að vera sá að skólarnir ættu að leggja meiri áherslu á samræmingu á aðgerðum sínum gegn einelti, með sem fæstum geðþóttaákvörðunum.

4. Ekki gleyma hinum nemendunum.
Tryggja þarf að þeir skilji að aðstoðin sé veitt til að jafna tækifæri nemenda í skólanum og það sé ekki vegna annarlegra hvata. Þeir læra þá betur að fólk þarf stundum aðstoð til að ná árangri og það sé í fínu lagi.

Þar að auki má ekki gleyma að nemendur án greininga hafa einnig þarfir. Einhverfurófið er í eðlu sínu samansafn einkenna og nemandi sem hefur jafnvel eitt þeirra gæti þurft á einhverri aðstoð að halda, þó hann tæknilega séð myndi ekki uppfylla greiningarviðmiðin. Starfsmenn skólans ættu því að vera vakandi fyrir mögulegum einkennum hjá öllum, óháð formlegri greiningu. Aðgerðir á þeim grundvelli ættu ekki að þurfa að krefjast formlegra greininga eða bíða þar til skólinn fær sérstaka ávísun með nafni nemandans.

Hér er ekki um tæmandi ábendingar að ræða en ég vona að þær muni gagnast í baráttunni um að bæta velferð þeirra sem fara í gegnum menntakerfið og eru í sambærilegri stöðu og ég var í, á sínum tíma. Nýjungar gagnast ekki eingöngu einhverfum, heldur gagnast jafnframt öðrum. Einhverfir eru nefnilega ekki þeir einu sem lenda í einelti eða eiga erfitt með nám.

Í baráttu okkur fyrir réttarbótum í menntakerfinu þurfum við að flytja þau skilaboð að bætt velferð einhverfra er jafnframt, bætt velferð annarra.

Þakka ykkur fyrir.