Upplýsingabeiðni um kirkjueignir

Þann 10. janúar 2013 sendi ég upplýsingabeiðni til fjármálaráðuneytisins og bað um ýmis gögn í krafti nýrra upplýsingalaga, aðallega um það sem gerðist 1907 og 1997 á milli ríkiskirkjunnar og ríkisins. Í dag fékk ég svar við henni og birti það hér. Beiðnin var í 4 liðum og svarað í jafnmörgum.

Beiðni #1:

Í krafti upplýsingalaga og annarra viðeigandi laga óska ég eftir því að fá eintak af lista yfir þær jarðir og kirkjueignir sem íslenska ríkið fékk við samning sinn við Þjóðkirkjuna sem undirritaður var 10. janúar 1997 og vísað er til í 63. gr. laga um stöðu þjóðkirkjunnar nr. 78/1997. Þá óska ég eftir verðmati jarðanna sem um ræðir, liggi það fyrir, eða öðrum áætlunum um verðmæti þeirra sem ríkið hefur gert á þeim.

Svar ráðuneytisins:

Benda má á samkomulag milli Íslenska ríkisins og Þjóðkirkjunnar um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar ásamt skýringum nefndarmanna. Samkomulagið var ritað 10. janúar 1997. Það er m.a. að finna í greinargerð laganna er urðu síðar að lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997 (frekar aftarlega, auðkennt fylgiskjal I). Sjá: http://www.althingi.is/altext/121/s/0557.html
Kirkjujarðir og aðrar kirkjueignir sem þeim fylgja, að frátöldum prestssetrum og því sem þeim fylgir, urðu eign íslenska ríkisins, samkvæmt samningum um kirkjueignir milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar. Andvirði seldra jarða rennur í ríkissjóð.
Við leit í skjalasafni ráðuneytisins fannst ekki yfirlit frá þessum tíma yfir þessar kirkjujarðir sem urðu eftir hjá ríkinu.
Enginn listi fannst í málaskrá yfir þær jarðir og kirkjueignir sem íslenska ríkið fékk við samning sinn við Þjóðkirkjuna sem undirritaður var 10. janúar 1997. Ekki er því hægt að skoða tilteknar eignir eða jarðir, hvorki verðmæti þeirra né hvort útbúið hafi verið sérstakt afsal frá Þjóðkirkjunni til Ríkissjóðs Íslands.
Næsta áratug á eftir, til október 2006, var síðan unnið áfram með þennan fjárhagslega aðskilnað Þjóðkirkjunnar og Ríkissjóðs Íslands. Þ.m.t. ákvörðun um afhendingu tiltekinna fasteigna og jarða til Þjóðkirkjunnar, sem höfðu verið skráðar á ríkissjóð.

Af svarinu að dæma vissi ríkið ekki hvaða jarðir það var að kaupa né hversu mikils virði þær voru. Fjármálaráðuneytið hafði það hlutverk að meta fjárhagsleg áhrif frumvarpa og veita umsögn um þær. Slíkt mat á verðmæti jarða hefði talist eðlilegt, enda var um að ræða nokkuð stóran samning.

Beiðni #2:

Einnig óska ég eftir þeim skjölum, eða lista yfir þau skjöl, sem fjárlagastofa hafði undir höndum við vinnslu umsagnar sinnar við frumvarp er varð að lögum 78/1997, s.s. 301. mál á 121. löggjafarþingi.

Svar ráðuneytisins:

Fyrst og fremst er hér bent á frumvarp til laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar (lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996-97). Sjá:
http://www.althingi.is/altext/121/s/0557.html
Í svari fjármálaráðherra á þinginu 1998-1999 við fyrirspurn Ólafs Hannibalssonar er farið yfir samkomulag þjóðkirkju og kirkjumálaráðherra. Sjá:
http://www.althingi.is/altext/123/s/0432.html
Í svarinu var sérstaklega bent á neðangreind fylgiskjöl og fylgdu þau með svarinu. (Hér er hægt að sækja þau skjöl sem notuð voru á tölvutæku formi á Alþingi.is).
Fylgiskjal I. Íslenska ríkið og þjóðkirkjan gera með sér eftirfarandi samning um rekstrarkostnað vegna prestsembætta og prófasta, rekstrarkostnað biskupsstofu, framlag til kristnisjóðs og sérframlög til þjóðkirkjunnar. Dags. 4. september 1998.
Ásamt ítarlegum skýringum við einstakar greinar samningsins.
Fylgiskjal II. Kostnaðaryfirlit yfir kostnaðarliði.
Fylgiskjal III. Frásögn af fundi nefnda ríkis og kirkju um kirkjujarðir í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu 10. janúar 1997. En á fundinum var gert samkomulag íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar.
Öll gögn, þ.m.t. vinnugögn málsins er stofnað var í kringum kostnaðarumsögnina í janúar 1997 voru ljósrituð og send á lögheimilið þitt [tekið út – heimilisfang]. Um er að ræða myndarlegan blaðabunka. 

Eðlilega er pósturinn ekki kominn svo ég get ekki komið með athugasemdir um skjölin sjálf. En af ofangreindum lista að dæma virðist vera að einu gögnin sem lágu fyrir hafi verið téðir samningar og frumvarp sem samningurinn kveður á um að eigi að leggja fram.

Beiðni #3:

Þá óska ég eftir skjölum, samningum eða samkomulögum sem varða þær breytingar sem urðu á sambandi ríkisvaldsins og þjóðkirkju árið 1907 sem urðu til þess að lög nr. 46/1907 og lög nr. 50/1907 voru sett.

Svar ráðuneytisins:

Þessi gögn frá 1907 eru geymd hjá Þjóðskjalasafninu. Almenningur hefur aðgang að þeim gögnum sem sett hafa verið í geymslu hjá þeim. Þessi gögn eru ekki lengur í ráðuneytinu.

Nokkuð eðlilegt svar, enda gögnin gömul. Það sakaði þó ekki að spyrja.

Beiðni #4:

Í svari fjármálaráðherra á þskj. 432 á 123. löggjafarþingi er getið þess að mögulega verði gerð sérstök afsöl fyrir eignarhaldi og/eða ráðstöfunarrétti ríkisins á umræddum jörðum. Hafi verið gerð slík afsöl óska ég eftir afriti af þeim.

Svar ráðuneytisins:

Í svari fjármálaráðherra á þinginu 1998-1999 við fyrirspurn Ólafs Hannibalssonar er farið yfir samkomulag þjóðkirkju og kirkjumálaráðherra. Sjá:
http://www.althingi.is/altext/123/s/0432.html
Kirkjujarðir og aðrar kirkjueignir sem þeim fylgja, að frátöldum prestssetrum og því sem þeim fylgir, urðu eign íslenska ríkisins, samkvæmt samningum um kirkjueignir milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar. Andvirði seldra jarða rennur í ríkissjóð.
Við leit í skjalasafni ráðuneytisins fannst ekki yfirlit frá þessum tíma yfir þessar kirkjujarðir sem urðu eftir hjá ríkinu.
Enginn listi fannst í málaskrá fjármála- og efnahagsráðuneytisins yfir þær jarðir og kirkjueignir sem íslenska ríkið fékk við samning sinn við Þjóðkirkjuna sem undirritaður var 10. janúar 1997. Ekki er því hægt að skoða tilteknar eignir eða jarðir, hvorki verðmæti þeirra né hvort útbúið hafi verið sérstakt afsal frá Þjóðkirkjunni til Ríkissjóðs Íslands.

Þetta má líklegast túlka þannig að ekkert sérstakt afsal hafi verið gert, enda lá ekki fyrir hvaða jarðir voru keyptar og líklegast engar deilur sem kröfðust þess að gert yrði sérstakt afsal.

Make-overs

Sumir kannast eflaust við hugtakið make-over en það er oftast notað þegar breyta á einhverju gríðarlega, aðallega útliti fólks. Ég hef farið í gegnum slíkt ferli og dugði þetta make-over bara í nokkra daga. Mig grunar að fæst make-over dugi í mikið lengri tíma en það. Þá langar mig að fara yfir nokkra punkta til þess að auka líkurnar á að slík make-over takist.

* Tryggið að persónan hafi áhuga á make-over
Þetta er afar mikilvægt þar sem samvinna er lykillinn. Hversu skemmtilegt er að draga einhvern frá búð til annarrar búðar sem virðist svo ekki hafa mikinn áhuga á því sem er verið að gera og hlustar með hálfum hug á öll þau ráð sem koma fram? Ekkert svo skemmtilegt. Það er miklu líklegra að ég hlusti á ráðleggingar einhvers ef ég er móttækilegur fyrir þeim frá upphafi.

* Takið smá skref yfir lengri tíma.
Það virðist vera algengt að make-overið fari fram á einum degi eða á nokkrum dögum. En hversu oft verða þau til þess að þeir sem fara í gegnum make-over viðhaldi því? Líklegast í afar fáum tilfellum. Í mínu tilfelli voru það aðallega þrjár ástæður: Mér fannst ég ekki vera ég, nýja útlitið krafðist gríðarlegs viðhalds, og ég sá ekki mikinn tilgang í því.

Ef breytingarnar eru of snöggar fær maður það á tilfinninguna að maður sé að þykjast vera eitthvað sem maður er ekki. Á endanum fær maður nóg og hristir af sér breytingarnar og fer í eiginlega sama farið og áður. Því skiptir máli að breytingarnar fari fram á lengri tíma en nokkrum dögum, helst á mikið lengri tíma en það. Markmiðið á að vera að þróa útlitið en ekki skipta því út.

Viðhaldið getur líka reynst manni ofviða, sérstaklega ef það eykst mikið eftir á. Setja hitt og þetta krem á þennan stað á þessum tíma dags, vera í þessari samsetningu fata en ekki hinni. Upplýsingaflóðið er svo mikið á stuttum tíma að allt endar í hrærigraut. Þegar maður er óvanur að gera eitthvað tekur það langan tíma en minnkar síðan eftir því sem á tímann líður. Þetta gildir um nær allt sem maður tekur sér fyrir hendur. Að byrja á mörgu í einu lætur mann halda að viðhaldið verði svona mikið til frambúðar, sérstaklega ef make-over fólkið lætur mann ekki vita af því. Þá er freistingin að gefast upp nokkuð mikil, sérstaklega ef maður sér ekki tilgang með því sem maður er að gera. Árangurinn verður sjaldan sýnilegur næsta dag og þarf hver og einn að gera sér grein fyrir því að það gæti tekið nokkra daga, ef ekki vikur eða mánuði, áður en hann verður sýnilegur.

* Af hverju?
Við þurfum að gera okkur grein fyrir að make-over kostar peninga og vinnu. Eðlilega þarf mér að finnast að það sé tilgangur með þessu make-over, af hverju ætti ég annars að fara í gegnum það? Það er ekki nóg að segja að fólki muni líka við mann vegna breytinga á yfirborðinu, sérstaklega ef mér finnst ég ekki vera ég sjálfur. Líkar þeim þá við mig eða gervi-mig?

Þetta helst saman við ráðið um að taka þetta í smáskrefum. Er viðkomandi andfúll? Sannfærið hann um að (meiri) munnhirða er betri fyrir heilsuna. Er hann útsettur í bólum? Sannfærið hann um að hrein húð sé góð húð og heilsusamlegra. Ef þetta er gert í smáum og rólegum skrefum er miklu líklegra að árangurinn haldist. Þá skiptir máli að veita hrós þegar útlitið þróast til hins betra. Athugasemdir eins og „vá, þú ert myndarlegri núna en fyrir nokkrum vikum.“ geta skipt miklu máli upp á að hvetja einhvern til þess að halda áfram að bæta útlit sitt.

En einnig skiptir máli að sannfæra viðkomandi að breytingarnar séu persónulega góðar fyrir hann eða hana. Hann/hún á ekki að fara í alla þessa vinnu til þess eins að þóknast öðrum, heldur í þeim tilgangi að bæta sitt eigið líkams- og hugarástand. Margir segja að maður eigi að vera sátt(ur) við eigin líkama en það þýðir ekki að þróun til hins betra sé eitthvað slæm.

* Verið raunsæ
Ég er ekki að fara að breytast yfir í einhvern með fullkominn líkama á næstunni. Það myndi taka nokkuð langan tíma og mun mögulega aldrei gerast. Þegar fólk gerir sér grein fyrir því og er sátt við þann möguleika að það gerist líklega ekki, þá er ástandið orðið mun betra. Það er ekkert að því að vinna að því markmiði á meðan ekki er gengið of langt í framkvæmdinni. Setjið raunhæf markmið og vinnið að þeim og það er allt í lagi ef það mistekst á meðan þróunin er til hins betra. Haldið áfram og ekki gefast upp þrátt fyrir að hlutir fari ekki nákvæmlega eins og þið áætluðuð.

Afgreiðsla skriflegra fyrirspurna á Alþingi

Eftir að hafa athugað stöðuna á stjórnsýslufyrirspurn sem ég var með hjá ráðuneyti einu og það hafði ekki tilkynnt mér um tafir á afgreiðslu þess datt mér í hug að kíkja á fyrirspurnir þingmanna á Alþingi og hversu dugleg ráðuneytin eru að svara þeim. Við það nýtti ég mér þau gögn sem ég hafði áður fengið aðgang að hjá Alþingi.

Svarfrestir fyrirspurna almennt
Samkvæmt lögum um þingsköp (nr. 55/1991) í 6. mgr. 57. gr. stendur:

Ef óskað er skriflegs svars sendir ráðherra forseta það að jafnaði eigi síðar en 15 virkum dögum eftir að fyrirspurn var leyfð. Forseti sendir fyrirspyrjanda svarið og skal það prentað og útbýtt meðal þingmanna á fundi. Takist ráðherra ekki að svara fyrirspurninni innan þess frests sem ákveðinn er í þessari grein skal hann gera forseta Alþingis skriflega grein fyrir því, svo og hver ástæðan er og hvenær vænta megi svars til Alþingis.

Þetta þýðir að ráðherra hefur 15 virka daga til að svara fyrirspurnum, sem við skulum þýða yfir í 3 vikur (21 dag), til einföldunar. Það ætti ekki að koma að sök vegna takmarkaðs fjölda frídaga. Seinasta málsliðnum um að tilgreina skuli um ástæðu tafa og hvenær svars skuli vænta var bætt við í lok löggjafarþingsins árið 2011. Einnig var á sama tíma svarfrestinum breytt úr 10 virkum dögum í 15.

Framkvæmd
Hvernig er annars farið eftir þessu ákvæði á þessu löggjafarþingi (sem hófst núna í haust)? Samkvæmt gögnum Alþingis hafa á þessari stundu verið lagðar fram 145 skriflegar fyrirspurnir og af þeim hefur 97 verið svarað en 48 er ósvarað.

Af þeim fyrirspurnum til skriflegs svars sem hefur verið svarað (97 talsins) var 26 af þeim svarað innan lögmæltra tímamarka. Þetta þýðir að 71 fyrirspurn (um 73%) til skriflegs svars var útbýtt eftir að frestinum lauk. Þessi 15 virkra daga frestur er því frekar undantekning heldur en reglan. Eingöngu bárust tilkynningar um tafir vegna 9 þessara fyrirspurna sem er nokkuð lítið.

Bið eftir skriflegum fyrirspurnum sem hefur verið svarað:

 • Dagar = Fjöldi
 • 0-6 = 2
 • 7-13 = 6
 • 14-20 = 17
 • 21-27 = 25
 • 28-34 = 22
 • 35-41 = 7
 • 42-48 = 10
 • 49-55 = 6
 • 56-62 = 1
 • 63-69 = 0
 • 70-76 = 0
 • 77-83  = 1

Bið eftir skriflegum fyrirspurnum sem ekki hefur verið svarað:

 • Dagar = Fjöldi
 • 0-6 = 4
 • 7-13 = 2
 • 14-20 = 5
 • 21-27 = 16
 • 28-34 = 5
 • 35-41 = 1
 • 42-48 = 3
 • 49-55 = 2
 • 56-62 = 2
 • 63-69 = 1
 • 70-76 = 0
 • 77-83  = 3
 • 84-90 = 1
 • 91-97 = 2

Eins og kemur fram hér að ofan eru 14 fyrirspurnir sem hafa ekki hefur verið svarað skriflega þrátt fyrir að það séu liðnar 6 vikur eða lengur frá framlagningu þeirra. Af þeim fyrirspurnum hafa 4 tilkynningar borist um tafir. Það hlutfall er nokkuð lítið en eðlilega hefði átt að berast tilkynning um tafir vegna þeirra allra.

Hvað tefur?
Ástæður tafanna geta verið margvíslegar og getur það hæglega farið eftir efni fyrirspurnanna. Síðan er sá möguleiki að skráning Alþingis á þeim hafi misfarist, ráðherra hunsi fyrirspurnina viljandi, þingmaður dragi fyrirspurnina til baka eða jafnvel að þingmaðurinn fái óformlegt svar. Í þingsköpum er einnig getið þess að sé skipt um ráðherra í embætti falla allar fyrirspurnir til embættisins sjálfkrafa niður. Orsakir svaraleysisins geta verið margar og þarf hver og einn að túlka þær.

Samkvæmt tölfræðiupplýsingum sem ég setti upp eru margar skriflegar fyrirspurnir lagðar fram á hverju löggjafarþingi sem er ekki svarað. Það virðist því vera fastur liður á hverju löggjafarþingi að slíkt gerist. Vinnubrögðin eru því ekki einni ákveðinni ríkisstjórn að kenna en samt eitthvað sem má stórbæta. Til dæmis með betri skráningu á fyrirspurnum og betra aðhaldi með vinnslu þeirra.

Umsögn um frumvarp til nýrrar stjórnarskrár

Í dag skilaði ég til Alþingis umsögn minni um frumvarp til nýrrar stjórnarskrár. Í þetta sinn ákvað ég að skoða frumvarpið sjálfstætt frá fyrri útgáfum og sleppa því að nefna suma vankanta hversu freistandi sem það var. Sumir sem ég hef rætt við hafa látið í ljós þá skoðun að allar efnislegar breytingar á frumvarpi stjórnlagaráðs séu af hinu illa, óháð því hversu bætandi þær eru fyrir mannréttindi. Augljóslega er ég ekki sömu skoðunar enda legg ég til margar efnislegar breytingar á frumvarpi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Nefndin hefur lagt til breytingar á frumvarpi stjórnlagaráðs nú þegar svo ég efast ekki um að hún sé opin fyrir efnislegum breytingum, svo framarlega sem þær uppfylli þau skilyrði sem nefndin setti fyrir sérfræðihópinn.

Aðferð mín við samningu umsagnarinnar var nokkuð einföld. Nýmæli eru tekin fyrir fyrst og síðan samkvæmt greinaröð frumvarpsins sjálfs. Auk þess kláraði ég að skrifa umsögnina efnislega í seinustu viku og lét hana liggja þar til í dag þar sem ég las hana yfir upphátt og gerði smávægilegar breytingar.

Í henni geri ég tillögu að eftirfarandi nýmælum:

 • Stýringu og skráningu á beitingu stjórnskipulegs neyðarréttar.
 • Viðurlög vegna brota á stjórnarskránni skulu skilgreind í almennum lögum.
 • Framsal á íslenskum ríkisborgunum skal vera óheimilt.
 • Óleyfilegt sé að framselja fólki til ríkja þar sem dauðarefsing er í gildi.
 • Þagnarrétturinn sé tryggður í stjórnarskrá. Útfærsla hans í almennum lögum þessa stundina er nokkuð veik.
 • Tryggja að allir hafi rétt til lögmanns í sakamálum og að sakborningur geti gagnspurt vitni og kveðið til vitna.
 • Meðalhófsregla refsinga og frelsistrygginga sé í viðurlögum. Aðallega byggt á 8. viðbót stjórnarskrár Bandaríkjanna.
 • Nefndarfundir ættu einnig að vera opnir en ekki bara þingfundir.
 • Ef forseti Íslands synjar samþykkt laga ættu þau ekki að hljóta gildi fyrr en í fyrsta lagi að þjóðin samþykkir þau. Sé ósátt við neyðarlög er hvort sem er hægt að tefja framgang frumvarpsins með því að skjóta frumvarpinu til Lögréttu skv. 62. gr.
 • Koma aftur inn ákvæði stjórnlagaráðs um að dómstólar geti dæmt að lög samrýmist ekki stjórnarskrá. Þá legg ég til tilkynningarskyldu af hálfu dómstóla séu slíkir dómar kveðnir upp þar sem engin skylda er í frumvarpinu að dómar skuli vera birtir.

Þá geri ég athugasemdir við eftirfarandi í frumvarpinu:

 • Fara skuli sérstaklega yfir almenna skerðingarheimild réttinda í 9. gr. frumvarpsins.
 • Tryggja að ekki skuli heimilt að dæma fólk vegna ummæla sem eru sönn.
 • Ákvæðið um kirkjuskipan eigi ekki að vera óbreytt frá núverandi stjórnarskrá. Staða ríkiskirkjunnar gæti verið táknræn.
 • Viðbót sérfræðihópsins í 24. gr. um menntun barna í samræmi við trúar- og lífsskoðanir gæti leitt til vandræða, t.d. ef börn eiga foreldra sem eru sköpunarsinnar og þeir vilja ekki að það læri um þróunarkenninguna. Samkvæmt orðalagi eru það eingöngu foreldrar sem ákveða slíkt en börnin sjálf hafi enga heimild til þess. Áhersla á kristna trú sé gegn jafnræðisreglunni.
 • Tryggja að við rannsókn sakamála sé einnig gætt þess að málsmeðferð sé réttlát, úrlausn fáist innan hæfilegs tíma og að rannsókn sé óhlutdræg. Þá skuli önnur meðferð ríkis á málum, eins og stjórnsýslumálum, lúta sama lögmáli.
 • Vísað er til meginreglna umhverfisréttar í 35. gr. og gæti slík tilvísun valdið stöðnun í þróun umhverfisréttar.
 • Miða ætti við fyrsta samkomutíma Alþingis eftir kosningar við birtingu niðurstaðna í stað kjördags þar sem úrslit geta tafist vegna málaferla eða ófyrirséðra atburða.
 • Þingsályktunartillögur ættu ekki að falla sjálfkrafa niður við lok löggjafarþings, heldur við lok kjörtímabils. Sama ætti að gilda um þær og meðferð lagafrumvarpa.
 • Þjóðin ætti að fá að leggja fram frumvarp og krefjast atkvæðagreiðslu um þau án íþyngjandi takmarkana sem stjórnlagaráð setti fram. Þjóðaratkvæðagreiðslurnar væru án takmarkana en framlögn frumvarpa takmörkuð við að þau standist stjórnarskrá og mögulega mannréttinda- og umhverfissáttmála.
 • Legg til að nefndin íhugi hvort önnur manneskja en forseti Alþingis yrði fyrsti staðgengill forseta. Ástæðan er sú að embætti forseti Íslands tilheyrir framkvæmdavaldi og forseti Alþingis starfar á sviði löggjafarvalds. Þá væri betra ef fyrsti staðgengill tilheyri framkvæmdavaldi en síðan gæti forseti Alþingis verið annar staðgengillinn í röðinni.
 • Allar náðanir og sakaruppgjafir ættu að vera opinberar og rökstuddar til að sporna gegn misnotkun á ákvæðinu.
 • Að ráðherra fenginn úr röðum þingmanna sé látinn rita undir eiðstaf er tvíverknaður þar sem hann hefur áður gert það sem þingmaður.
 • Í bráðabirgðaákvæði er getið þess að tímasetningar á takmörkun á setutíma ráðherra og forseta Íslands skuli hefjast frá setningu stjórnarskrárinnar. Mældi með því að frekar ætti að heimila núverandi ráðherrum og forseta Íslands að klára kjörtímabil sín í þeim embættum. Þá er minnst á að núverandi dómarar njóti ákveðinna réttinda sem eldri stjórnarskrá gaf en slíkt myndi skapa ójafnræði meðal þeirra dómara sem skipaðir eru fyrir og eftir gildistöku nýrrar stjórnarskrár. Séu réttindin svo mikilvæg ætti frekar að íhuga að færa réttindin í bráðabirgðaákvæðinu yfir í varanlega hluta stjórnarskrárinnar.

Umsögnin sjálf

Minnkað traust gagnvart Alþingi

Verð að segja að traust mitt á Alþingi minnkaði nokkuð mikið. Það var ekki vegna málþófsins sem er í fréttum heldur afgreiðslu allsherjar- og menntanefndar á lífsskoðunarfrumvarpinu. Þar átti meðal annars að breyta sjálfkrafa skráningu barna í trúfélög þannig að taka ætti tillit til skráningar beggja foreldra í stað móður. Hins vegar komu margar tillögur í umsögnum um að grípa tækifærið og einfaldlega afnema sjálfkrafa skráningar barna þar sem það bryti á réttindum barnanna til sjálfsákvörðunar.

Viðbrögð nefndarinnar? Í nefndarálitinu nefnir hún að hún sé fyllilega sammála þessu sjónarmiði og er fullur vilji til að breyta þessu. Niðurstaðan var samt sú að hún vill „að tiltöluleg sátt sé um þau viðkvæmu mál sem hér um ræðir og leggur því ekki til breytingar í þessa veru að svo stöddu“. Þá nefnir hún að það skipti máli að leiðréttingar séu framkvæmdar í smáum skrefum í svo viðkvæmum málum frekar en að kollvarpa núverandi kerfi.

Þetta er nokkuð skrítin aðstaða þar sem afnám þessarar sjálfkrafrar skráningar mun ekki hafa fjárhagsleg áhrif á ríkissjóð né þau félög sem lögin ná yfir á næstu 16 árum því þá loksins er úthlutað sóknargjöldum vegna skráningar í trúfélög. Nema væntanlega útprentanir á skráningarblöðum og vinnslu umsókna en hér er um lítilvægar fjárhæðir að ræða. Hér er eingöngu um sjálfkrafa skráningu að ræða en breytingarnar hefðu ekki hindrað foreldra í að skrá börnin sérstaklega, ef þeir hefðu talið mikilvægt að barnið sitt sé skráð í ákveðið trúfélag í skrám ríkisins. Ég held að 16 ár sé meira en nægur tími fyrir trú- og lífsskoðunarfélög til að aðlagast þessari breytingu.

Þegar tvær fylkingar (eða fleiri) etjast saman er afar erfitt að fá ‚tiltölulega sátt‘ um neitt mál, sérstaklega ef sjónarmiðin eru gjörólík. Þá vildi ég meta sérstaklega, vegna þessara orða meiri hluta nefndarinnar, hver afstaða umsagnaraðila var til þessa eina máls, hvort skrá ætti börn sjálfkrafa í félög:

Alda Björg Lárusdóttir – Engin afstaða.
Betelsöfnuðurinn, Snorri Óskarsson – Engin afstaða.
Dögg Harðardóttir – Engin afstaða.
Femínistafélag Íslands – Á móti sjálfkrafa skráningu.
Hvítasunnukirkjan á Íslandi – Trúfélagsskráning skal fara fram en engin afstaða um sjálfkrafa skráningu.
Íslenska kristskirkjan – Engin afstaða.
KFUM og KFUK – Með sjálfkrafa skráningu vegna hefðar. Ekki á móti afnámi sjálfkrafa skráningar ef foreldrar eru neyddir til að taka afstöðu.
Mannréttindaskrifstofa Íslands – Á móti sjálfkrafa skráningu.
Ólafur Jón Jónsson – Á móti sjálfkrafa skráningu.
Sálarrannsóknarfélag Íslands – Engin afstaða.
Siðfræðistofnun – Engin afstaða.
Siðmennt – Á móti sjálfkrafa skráningu.
Umboðsmaður barna – Engin afstaða.
Vantrú – Á móti sjálfkrafa skráningu.

Staðan er því sú að 8 af 14 umsagnaraðilum taka ekki afstöðu til þessa máls, 5 eru á móti sjálfkrafa skráningu og 1 aðili er fylgjandi. Á fundi fyrir nefndinni tjáði biskupsstofa að afstaða sín væri sú að þeir væru fylgjandi því að afnema sjálfkrafa skráningu. Er þetta ekki nóg til að það teljist vera tiltöluleg sátt í þessu máli af hálfu þeirra sem tóku afstöðu?

Eins og Matthías Ásgeirsson nefnir, hvað ef sama hugarfar hefði verið við lýði ef taka ætti ákvörðun um afnám þrælahalds? Það er ekki eins og þrælahaldararnir séu sammála afnámi þrælahalds og þá væri engin ‚tiltöluleg sátt í því viðkvæma máli‘. Ætti þá að halda áfram þrælahaldi en með smá breytingu til batnaðar þar til þrælahald  fjarar út smám saman?

Svo við komum með íslenskt dæmi, hvað ef sama hugarfar hefði verið við lýði þegar taka átti ákvörðun um að slíta konungssambandi við Dani í Seinni heimstyrjöldinni? Alþingi tók samt ákvörðun um að bíða í 3 ár til að sjá hvernig heimstyrjöldin myndi enda og þar að auki var Ísland hernumið á þeim tíma. Sú ákvörðun er svo sannarlega skiljanleg þar sem erfitt er að fá alþjóðlega viðurkenningu á sjálfstæði ef helstu herveldi þess tíma hafa hagsmuni af því að halda völdum. Hér er hins vegar ekki um svo stóra ákvörðun sem snertir sjálfstæði heillar þjóðar, heldur einfalt lagalegt mál sem mun ekki hafa teljandi áhrif næstu 16 árin nema þau að bæta sjálfsákvörðunarrétt barna til hins betra.

Hvað fór úrskeiðis?

Það er góð spurning en miðað við fyrirliggjandi gögn hafði nefndin enga rökræna ástæðu til þess að fá þessa niðurstöðu. Ef við hugsum málið er augljóst að þrýstingurinn barst ekki í gegnum umsagnir, enda er erfitt að sjá hvernig hægt sé að styðja slíka niðurstöðu á þeim einum. Fundir nefnda Alþingis eru almennt lokaðir og því höfum við engar forsendur til þess að meta hvaða rökfærslur leiða til þeirra niðurstaðna sem nefndir koma sér saman um. Þá vitum við ekki hvort niðurstaðan ræðst af pólítísku makki eða hvort niðurstaða er fengin með rökrænni umræðu þar sem hvert og eitt atriði er vegið og metið. Í þessu máli hallast ég að því fyrrnefnda.

Einhverjir koma líklega með þá staðhæfingu að málamiðlanir þurfa að eiga sér stað og fórna þurfi litlum málum fyrir þau stóru. En er þetta mál þannig úr garði gert að hótanir um málþóf ættu að bera árangur? Myndi einhver mæta á ræðustól og tala um þetta eina litla mál og tefja afgreiðslu þingfunda á því máli sem og öðrum? Er þetta mál það stórt að fjöldi einstaklinga væri tilbúinn til þess að hefja eða viðhalda málþófi vegna þess? Og af hverju að láta undan slíkum hótunum? Flokkur sem beitir málþófi vegna mála sem teljast lítilvæg fyrir heildarmyndina myndi líklegast fá færri atkvæði á næsta þingi og þá yrði enn auðveldara að ná árangri í þessu máli og öðrum. Ef stöðugt er látið undan slíkum hótunum fæst hvort sem er lítill árangur þar sem stöðugt þarf að gera málamiðlanir sem draga tennurnar úr hverju máli fyrir sig.

Segjum að nefndin leggi til breytingartillögu um að afnema sjálfkrafa skráningu barna í félög. Hún leggur fram breytingartillögu sem er samþykkt eða felld, sem er í samræmi við lýðræðisfyrirkomulagið. Ef meiri hluti þingmanna er á móti henni er breytingartillagan felld og niðurstaða Alþingis hvað þetta varðar er þá komin. Vandamál?

Kirkjan uppfyllir félagslega þörf

Þegar ég hugsaði málin um samband ríkis og kirkju datt ég inn á þá línu að meta hvað kirkjan hefur en samfélög trúlausra hafa ekki. Orðið kirkja veitir auðvitað vísbendingu en það er samnefnari yfir tegund bygginga. Og hvað fer fram í þessum byggingum? Fólk hittist.

Einmitt, fólk hittist. Ein tökin sem kirkjan hefur á fólki er að hún er tengd við félagsstarfsemi. Þótt trúin sé ekki endilega drifkrafturinn á bakvið sumt af félagsstarfinu, sér fólk auðvitað að tilvera kirkjunnar tengist möguleika þeirra til þess að iðka félagsstarfið. Það er hins vegar ekki sá hluti sem færslan á að snúast um heldur félagslíf trúlausra.

Trúlausir hafa eitthvað félagslíf. Það er ekki eins og allir með tölu sitji heima og sötri kaffi hvert kvöld á meðan þeir horfa á trúleysismyndbönd á YouTube og setji linka á þau inn á Facebook. Þeir haga sér að miklu leiti eins og aðrir, nema að þeir eru trúlausir. En það vantar samt eitthvað upp á samstöðuna. Félög sem halda upp á trúleysi hafa hittinga og það er samstaða innan þeirra en það er gallinn. Samstaðan er að mestu leyti innan þeirra.

Einhver lausn þarf að vera á þessu en sú sem ég aðhyllist mest er að koma upp samstöðu óháð félögum, eða allavega í upphafi. Hins vegar væri ekki svo slæmt ef að félögin myndu opna arma sína og skipuleggja félagslega atburði sem almenningur hefur áhuga á. Þá á ég ekki við um fyrirlestra eða umræðufundi, heldur atburði þar sem umræðurnar væru aukaatriði og skemmtunin aðalatriðið. Dæmi um slíkt væri að fara í keilu, göngutúra, bíó og svo framvegis.

Þá er líka hægt að stofna óformlega eða formlega hópa trúleysingja sem hjálpa öðrum án þess að blanda trú í hjálpina. Hópar gætu stundað hjálparstarf innanlands eins og að hjálpa til við matarúthlutun á skipulögðum tíma, gengið um bjóðandi upp á faðmlög eða hvaðeina sem gæti hjálpað fólki líkamlega og/eða andlega. Kosturinn við það er að fólk hjálpar til og um leið er verið að sanna að trúað fólk er ekki eina fólkið sem getur það.

Félög sem viðhalda trúleysi eru að gera góða hluti þessa stundina en auðvitað mætti víkka starfsemina aðeins án þess að það kosti meira en smá fyrirhöfn. Þau mættu t.d. halda opna hittinga þar sem fólk í félaginu og trúlausir utan þeirra eru velkomnir. Siðmennt hefur gert það í einhvern tíma en hefur ekki verið nógu duglegt að láta vita af því. Það stendur samt til innan Siðmenntar að bæta úr því í vetur.

En auðvitað má alltaf gera betur en til þess þarf fleiri meðlimi í trúleysisfélög en með því er hægt að hafa fleiri hugmyndir á lofti. Þá þarf alltaf fleiri meðlimi með framkvæmdaþörf svo öll vinnan lendi ekki á litlum kjarna félagsmanna. Þeir sem eru trúlausir, prófið að taka að minnsta kosti einn hálftíma í hverri viku, eða jafnvel mánuði, sem þið tileinkið framför málstaðar trúleysingja á Íslandi.

Kærði þjóðaratkvæðagreiðsluna 20. október 2012 til landskjörstjórnar

Rétt í þessu var ég að kæra framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar þann 20. október 2012 til landskjörstjórnar.

Kæra til landskjörstjórnar vegna framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu 20. okt. 2012

Hins vegar er ég ekki að krefjast ógildingar kosninganna sbr. orð mín í kærunni. Þar að auki vildi ég kæra núna þann 18. október til að fólki væri ljóst að forsendur kærunnar hafi ekkert með úrslit atkvæðagreiðslunnar að gera, enda er það ómögulegt fyrir mig að vita úrslit þjóðaratkvæðagreiðslu sem fer ekki fram fyrr en eftir 2 daga.

Er núverandi þjóðkirkjuskipulag ólöglegt skv. frumvarpi stjórnlagaráðs?

Í gær fór ég á fund Stjórnarskrárfélagsins um Þjóðkirkjuna og stjórnarskrána. Á þeim fundi bar ég upp þá spurningu hvort núverandi kirkjuskipan ríkisins stæðist stjórnarskrá ef frumvarp stjórnlagaráðs yrði samþykkt. Því miður voru svörin sem gefin voru upp byggð á misskilningi sem enginn af svarendunum vissi af eða vildi vita af.

Í 19. gr. frumvarps stjórnlagaráðs stendur að „[í] lögum má kveða á um kirkjuskipan ríkisins“. Hins vegar er ljóst að þessi kirkjuskipan ríkisins getur ekki verið hver sem er og hún mætti sérstaklega ekki brjóta gegn ákvæðum stjórnarskrár. Pælingin mín var hvort núverandi kirkjuskipan myndi standast jafnræðisreglu frumvarpsins. Sé svo að hún geri það ekki, þá geta dómstólar dæmt svo að kirkjuskipan með trúfélagi í forréttindastöðu standist ekki stjórnarskrána (sbr. 2. mgr. 100 gr. frumvarpsins) og þar af leiðandi dæmd gegn stjórnarskrá og því ógild.

Á téðum fundi vísuðu allir svarendur á það að spurningunni hafi verið svarað 2007 og þá væntanlega að vísa í dóm Hæstaréttar í máli Ásatrúarfélagsins. Svarið stenst ekki rök þar sem dómurinn byggði á að staða þjóðkirkjunnar væri réttlæt með vísan í auknar skyldur hennar miðað við önnur trúfélög. Þær skyldur eru hins vegar með stoð í núgildandi stjórnarskrá um að Þjóðkirkjan sé þjóðkirkja á Íslandi og að ríkið skuli með tilliti til þess vernda hana og styðja. Sé frumvarp stjórnlagaráðs samþykkt óbreytt hefur Þjóðkirkjan engan beinan stjórnarskrárlegan stuðning né hefur ríkið engar skyldur til þess að vernda eða styðja slíka kirkju.

Slík setning skylda á hendur eins trúfélags stæðist alls ekki jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og geta dómstólar dæmt hana ólögmæta. Einhverjir gætu sagt að það sé í lagi þar sem um er að ræða ríkjandi ástand sem var leyft í fyrri stjórnarskrá. Slíka túlkun yrði þá einnig að beita á önnur landslög sem eru í gildi með öllu því óréttlæti sem þeim fylgja, en slíkt stæðist ekki skoðun og myndi alls ekki hvetja til breytinga eða afnámi ósanngjarnra laga.

Við skoðun á því hvort kirkjuskipan ríkisins stæðist stjórnarskrá, yrði að skoða hvernig aðstæðurnar væru ef þágildandi kirkjuskipan væri lögð fram sem ný kirkjuskipan. Með það að leiðarljósi gæti það varla staðist jafnræðisreglu stjórnarskrár ef Alþingi setti lög um að eitt ákveðið trúfélag, eða ákveðinn hópur trúfélaga, hefðu slíka forréttindastöðu.

Þessa grein má endurbirta að vild án endurgjalds með því skilyrði að hún sé birt í heild og ég sé látinn vita af birtingunni.

Laug Valitor að dómstólum?

Eftir að hafa lesið fréttir um dómsmál Datacell gegn Valitor rakst ég á sjónarhorn sem mér þykir að fjölmiðlar hafi ekki fjallað betur um.

Í tilkynningu til Alþingis segir Valitor eftirfarandi:

VALITOR vill koma á framfæri að á umræddum fundi Allherjarnefndar í morgun voru einnig fulltrúar Kortaþjónustunnar ásamt þremur fulltrúum Teller, en Kortaþjónustan er umboðsaðili Teller AS á Íslandi. Fram hefur komið að Teller AS/Kortaþjónustan sá um að móttaka greiðslur fyrir Wikileaks sem nú hefur verið lokað fyrir. Við viljum því ítreka að VALITOR er ekki aðili að þessu máli.

Árni Þór Sigurðsson kemur fram með eftirfarandi vitnisburð á Facebook síðu sinni:

En fyrirtækin vildu ekki kannast við það þegar þau mættu fyrir þingnefnd, að þau ættu aðild að málinu og væru einungis að fylgja fyrirskipunum að utan og ætluðu sér alls ekki að taka þátt í því að brjóta lög hérlendis

Hins vegar segir í dómi héraðsdóms um skýrslu Viðars Þorkelssonar í málinu:

Viðar Þorkelsson, forstjóri stefnda, gaf skýrslu fyrir dómi.  Hann kvaðst ekki hafa komið að málum þegar gengið var frá samningi við stefnanda.  Hann sagði að WikiLeaks hefði leitað eftir samningi á árinu 2010, en beiðni þeirra hefði verið hafnað.  Hann sagði að umsókn væri metin eftir þeim upplýsingum sem þar kæmu fram.  Hér hafi komið í ljós að stefnandi hafi veitt þjónustu við fjársöfnun fyrir þriðja aðila.  Upplýsingar hafi því ekki verið réttar í umsókn.  Þess vegna hafi samningnum verið sagt upp.

Viðar kvaðst hafa talað í síma við starfsmann Visa í Evrópu, sem hefði sagt honum frá þessum færslum á WikiLeaks og bent á að Teller hefði sagt upp viðskiptum við DataCell vegna þess að kortasamtökin töldu viðskiptin ekki í samræmi við starfs­reglur þeirra.  Hann hafi þó ekki gefið honum bein fyrirmæli.

Hér er bullandi ósamræmi í yfirlýsingum. Fyrir dómi sagði forstjóri stefnda, Valitors hf., að hér væri að ræða um aðgerð að frumkvæði Valitors en Alþingi fékk á sínum tíma þá sögu að Valitor hafi eingöngu verið að framfylgja fyrirskipunum frá erlendum aðilum.

Mér þykir líklegra að fyrri útgáfan sé sú sanna en síðan hafi sögunni verið breytt vegna atburða sem gerðust á milli. Forstjóri Valitor hafi túlkað símtalið sem fyrirmæli og framkvæmt þau en síðan hafi erlendu aðilarnir ekki viljað kannast við það og því hafi hann breytt frásögninni. Síðan er þessi málsvörn afar lík Nuremberg vörninni sem var kollvarpað á sínum tíma í samnefndu dómsmáli.

Spurningin ætti þá frekar að endurspegla alvarleika málsins og orðast svo:
Laug Valitor að dómstólum?