Make-overs

Sumir kannast eflaust við hugtakið make-over en það er oftast notað þegar breyta á einhverju gríðarlega, aðallega útliti fólks. Ég hef farið í gegnum slíkt ferli og dugði þetta make-over bara í nokkra daga. Mig grunar að fæst make-over dugi í mikið lengri tíma en það. Þá langar mig að fara yfir nokkra punkta til þess að auka líkurnar á að slík make-over takist.

* Tryggið að persónan hafi áhuga á make-over
Þetta er afar mikilvægt þar sem samvinna er lykillinn. Hversu skemmtilegt er að draga einhvern frá búð til annarrar búðar sem virðist svo ekki hafa mikinn áhuga á því sem er verið að gera og hlustar með hálfum hug á öll þau ráð sem koma fram? Ekkert svo skemmtilegt. Það er miklu líklegra að ég hlusti á ráðleggingar einhvers ef ég er móttækilegur fyrir þeim frá upphafi.

* Takið smá skref yfir lengri tíma.
Það virðist vera algengt að make-overið fari fram á einum degi eða á nokkrum dögum. En hversu oft verða þau til þess að þeir sem fara í gegnum make-over viðhaldi því? Líklegast í afar fáum tilfellum. Í mínu tilfelli voru það aðallega þrjár ástæður: Mér fannst ég ekki vera ég, nýja útlitið krafðist gríðarlegs viðhalds, og ég sá ekki mikinn tilgang í því.

Ef breytingarnar eru of snöggar fær maður það á tilfinninguna að maður sé að þykjast vera eitthvað sem maður er ekki. Á endanum fær maður nóg og hristir af sér breytingarnar og fer í eiginlega sama farið og áður. Því skiptir máli að breytingarnar fari fram á lengri tíma en nokkrum dögum, helst á mikið lengri tíma en það. Markmiðið á að vera að þróa útlitið en ekki skipta því út.

Viðhaldið getur líka reynst manni ofviða, sérstaklega ef það eykst mikið eftir á. Setja hitt og þetta krem á þennan stað á þessum tíma dags, vera í þessari samsetningu fata en ekki hinni. Upplýsingaflóðið er svo mikið á stuttum tíma að allt endar í hrærigraut. Þegar maður er óvanur að gera eitthvað tekur það langan tíma en minnkar síðan eftir því sem á tímann líður. Þetta gildir um nær allt sem maður tekur sér fyrir hendur. Að byrja á mörgu í einu lætur mann halda að viðhaldið verði svona mikið til frambúðar, sérstaklega ef make-over fólkið lætur mann ekki vita af því. Þá er freistingin að gefast upp nokkuð mikil, sérstaklega ef maður sér ekki tilgang með því sem maður er að gera. Árangurinn verður sjaldan sýnilegur næsta dag og þarf hver og einn að gera sér grein fyrir því að það gæti tekið nokkra daga, ef ekki vikur eða mánuði, áður en hann verður sýnilegur.

* Af hverju?
Við þurfum að gera okkur grein fyrir að make-over kostar peninga og vinnu. Eðlilega þarf mér að finnast að það sé tilgangur með þessu make-over, af hverju ætti ég annars að fara í gegnum það? Það er ekki nóg að segja að fólki muni líka við mann vegna breytinga á yfirborðinu, sérstaklega ef mér finnst ég ekki vera ég sjálfur. Líkar þeim þá við mig eða gervi-mig?

Þetta helst saman við ráðið um að taka þetta í smáskrefum. Er viðkomandi andfúll? Sannfærið hann um að (meiri) munnhirða er betri fyrir heilsuna. Er hann útsettur í bólum? Sannfærið hann um að hrein húð sé góð húð og heilsusamlegra. Ef þetta er gert í smáum og rólegum skrefum er miklu líklegra að árangurinn haldist. Þá skiptir máli að veita hrós þegar útlitið þróast til hins betra. Athugasemdir eins og „vá, þú ert myndarlegri núna en fyrir nokkrum vikum.“ geta skipt miklu máli upp á að hvetja einhvern til þess að halda áfram að bæta útlit sitt.

En einnig skiptir máli að sannfæra viðkomandi að breytingarnar séu persónulega góðar fyrir hann eða hana. Hann/hún á ekki að fara í alla þessa vinnu til þess eins að þóknast öðrum, heldur í þeim tilgangi að bæta sitt eigið líkams- og hugarástand. Margir segja að maður eigi að vera sátt(ur) við eigin líkama en það þýðir ekki að þróun til hins betra sé eitthvað slæm.

* Verið raunsæ
Ég er ekki að fara að breytast yfir í einhvern með fullkominn líkama á næstunni. Það myndi taka nokkuð langan tíma og mun mögulega aldrei gerast. Þegar fólk gerir sér grein fyrir því og er sátt við þann möguleika að það gerist líklega ekki, þá er ástandið orðið mun betra. Það er ekkert að því að vinna að því markmiði á meðan ekki er gengið of langt í framkvæmdinni. Setjið raunhæf markmið og vinnið að þeim og það er allt í lagi ef það mistekst á meðan þróunin er til hins betra. Haldið áfram og ekki gefast upp þrátt fyrir að hlutir fari ekki nákvæmlega eins og þið áætluðuð.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.