Istorrent-málinu vísað frá dómi

Þann 27. mars sl. var Istorrent-málinu vísað frá dómi. Átti ég ekki von á slíkum dómi þar sem fyrri frávísunarkröfunni var hafnað. Frávísunin virðist byggja á því að dómendur hafi ekki þótt umfjöllun aðila málsins um túlkun laga 30/2002 (lög um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu) vera nógu fullnægjandi. Samkvæmt úrskurðinum þóttu dómendur túlkun laganna hafa afgerandi áhrif á úrslit málsins og væri því til staðar sterk ástæða fyrir því að vísa málinu frá af fyrrgreindum ástæðum. Nú þarf bara að bíða eftir því hvernig stefnendur munu orða þessa áfrýjun sem þeir sögðust ætla að setja fram. Síðan er að bíða eftir því hvað Hæstarétti finnst um ástæðu þessarar frávísunar.

Þessi úrskurður og málið í heild sinni vakti upp áhuga minn og var ég að spá hvort ég ætti að skella mér í lögfræði. Áhuginn hefur verið til staðar í fjölda ára og síðan er líklegt að í framtíðinni munu koma upp einhver mál hjá öðrum aðilum sem krefjast tækniþekkingar og það væri flott ef það væru til staðar fleiri aðilar á landinu sem byggju bæði yfir lögfræði- og tækniþekkingu. Þetta er samt eitthvað sem ég ætti að ákveða þessa helgina því að ég þarf að velja áfangana sem ég fer í næsta vetur fyrir 1. apríl næstkomandi.

Istorrent málið

Margir þekkja mig sem Kjarrval – rekstraraðila Istorrents. Eins og margir vita var sett lögbann á starfrækslu vefsins torrent.is, sem Istorrent ehf. rekur, þann 19. nóvember síðastliðinn. Vefurinn gerir notendum kleift að deila skrám sín á milli en hins vegar hafa ákveðin samtök ákveðið að kæra mig ásamt Istorrent fyrir að eiga hlutdeild í höfundarréttarbrotum en ákváðu að hefja málið með lögbanni á aðalstarfsemi fyrirtækisins. Persónulega tel ég þetta vera tilraun til þess að koma í veg fyrir að fyrirtækið fái inn tekjur til að verjast ásökunum fyrir rétti. Sumir hafa líklegast forvitnast af hverju ég hef þagað allan tímann hér á blogginu en það hefur ekki verið viljandi. Til að rjúfa þögnina, þá hef ég sett upp blogg á www.istorrent.is sem fjallar um málið þar til því er lokið. Einnig mun ég fjalla smá um það hér en allt sem kemur fram hér er mitt persónulega álit og þarf ekki endilega að vera álit annarra sem tengjast málinu.

Hverjir standa fyrir lögbanninu?
Lögbannið var sett á að beiðni SMÁÍS, Framleiðendafélaginu SÍK, STEF og Félags hljómplötuframleiðenda. Hins vegar eru Samtök myndrétthafa á Íslandi (SMÁÍS) ekki kæruaðili í staðfestingarmálinu en þá eru þeir eingöngu fyrir hönd 365 miðla ehf. Þetta er ein ástæða fyrir því að málinu verður líklegast vísað frá. Samkvæmt því munstri sem ég hef upplifað, þá standa SMÁÍS fyrir því að farið var út í lögbann en hin samtökin eru þarna eingöngu að nafninu til.

Hvað mun gerast þegar rétthafasamtökin tapa málinu?
Þessi spurning hefur verið ofarlega í huga mér þar sem ég hugsa oft til framtíðar. Það er auðvitað ætlunin að halda áfram rekstri torrent.is um leið og lögbanninu hefur verið aflétt. Að auki tel ég að tapið verði mikill skellur fyrir öll rétthafasamtökin sem standa fyrir lögbanninu, bæði hvað varðar almenningsálitið og fjárhagslega séð. Ástæða þess að það muni gerast er að síðar í ferlinu mun það vera opinbert að málið hefur verið sérstaklega illa unnið af hálfu kærenda og að þeir hafi ekki átt neina von á að vinna málið frá upphafi. Stóra spurningin er auðvitað hvort að hinir stóru fjölmiðlar muni greina frá því eða ekki þegar vísbendingarnar fara að hrannast upp.

Hvaða heimild hafa samtökin til þess að krefjast lögbanns?
Samtökin hafa ekki heimild til þess skv. lögum til að krefjast lögbanns. Skv. 3. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála (91/1991) geta félagasamtök rekið einkamál til viðurkenningar á tilteknum réttindum félagsmanna eða lausnar undan tilteknum skyldum þeirra, enda samrýmist það tilgangi félagsins eða samtakanna að gæta hagsmuna sem dómkrafan tekur til. Augljóst er að hvorki sé um að ræða viðurkenningu á réttindum né lausn undan skyldu í þessu máli. Þann 13. nóvember sl. féll dómur í Hæstarétti (Hrd. 575/2007) þar sem SMÁÍS var hafnað kröfu um lögbann af þeim ástæðum og staðfestir það heimildarleysi þeirra til að fá í gegn lögbann. Hins vegar var gerð einkar léleg tilraun til þess að fara í kringum dóminn með því að afhenda svokölluð málsóknarumboð en þau hafa litla sem enga þýðingu í málinu. Þá er komin önnur ástæða fyrir afnámi lögbannsins.

Það er ekki ætlun mín að rekja í gegnum allar ástæður þess að málið mun vera Istorrent í hag á þessari stundu. Það verður líklegast gert þegar líður á málið. Greinilegt er að málið mun samt sem áður taka einhvern tíma þar sem flutningur þess verður tímafrekur. Þess ber að geta að málið mun reyna sérstaklega á sjóði fyrirtækisins og mína eigin og hvet ég því alla til þess að styrkja málstaðinn á þessum þarfatíma. Til að leggja beint inn á fyrirtækið, þá er það bankareikningur 0135-26-072153 kt. 670807-2150 en einnig er hægt að leggja inn á bankareikning 0327-13-003120 kt. 071183-2119. Margt smátt gerir eitt stórt.