Hópkvörtun vegna athæfis Hópkaupa

Þann 19. desember fékk ég tölvupóst frá aðila sem var að kynna þjónustu sem kallast Netkrónur og um að ég hafi fengið „[i]nnborgun upp á 1000,00 Netkrónur“ á kennitöluna mína. Umsjón netkrónanna fer fram í gegnum vef Hópkaupar en rekstur fyrirbærisins fer fram hjá öðru fyrirtæki. Því var augljóst að Hópkaup hefur miðlað persónuupplýsingum til þriðja aðila.

Nú hef ég oft kvartað yfir ruslpóstsendingum en þetta atvik er samt frábrugðið af þeirri einföldu ástæðu að Hópkaup hafði áður verið úrskurðað í órétti fyrir samskonar athæfi áður. Það var enginn annar aðili en Persónuvernd sem úrskurðaði í því máli og Hópkaup hefði átt að gera sér grein fyrir því að sömu bannforsendur og í fyrri úrskurði ættu enn við. Augljóslega hefur Hópkaup ekki tekið úrskurð Persónuverndar alvarlega.

Skilmálum Hópkaupa var breytt lítillega í kjölfar úrskurðarins en ást Hópkaupa á að fá samþykki (í skilningi persónuverndarlaga) var ekki mikil þar sem Hópkaup vildi greinilega ekki að viðskiptavinir sínir fengju veður af afþökkunarvalmöguleikanum utan almennra skilmála sinna. Þótt fólk lesi skilmálana fær það að vita að ef athugasemdir eru gerðar um meðferð persónuupplýsinga verður aðgangi viðkomandi eytt.

Hinn einfaldi möguleiki á vef Hópkaupa til þess að samþykkja og/eða afþakka markaðssetningu eða miðlun netfangs viðkomandi er heldur ekki að finna. Hafi slík úrræði verið raunverulega fyrir hendi að merkja við slíkar undanþágur hefði netfanginu mínu ekki verið miðlað enda hefðu forsvarsmenn Hópkaupa beitt slíkri merkingu á meðan fyrri kvörtun mín var til afgreiðslu hjá stjórnvöldum. Eins og það er orðað í kvörtuninni sem nú hefur verið lögð fram voru slík úrræði eingöngu fræðileg en ekki í eiginlegri framkvæmd.

Í þetta sinn vildi ég sýna Hópkaupum að ég er ekki sá eini sem lætur mér svona hluti varða og að þetta sé ekki bara einn leiðindarpúki sem hægt er að losna við með einu skítamixi. Þegar ég lét vita af óánægju minni minntist ég á í athugasemd við stöðuuppfærsluna að ég óskaði eftir meðkvartendum. Nokkrir buðu sig fram og fengu afrit af texta kvörtunarinnar til samþykktar. Var kvörtunin svo lögð fram á borð Persónuverndar í gær og er hægt að nálgast hana hér að neðan.

 

Kvörtunin: Persónuvernd – Ólögmæt miðlun Hópkaupa á netföngum og ólögmæt vinnsla DCG – staðfesting á móttöku

Nokkurra orða breyting varð að stórum mistökum

Þessi grein eftir mig, titluð „Nokkurra orða breyting varð að stórum mistökum“, var birt í Fréttablaðinu og á visir.is í dag:

Þann 10. apríl síðastliðinn tóku upplýsingalög aftur gildi hér á landi þegar rannsóknarnefnd um fall sparisjóðanna lauk störfum. Næst þegar Alþingi gefur út þingsályktun um að setja á fót rannsóknarnefnd munu þau aftur detta út. Hvernig má það vera? Í lögum um rannsóknarnefndir má finna eftirfarandi ákvæði (1.-2. málsliður 14. gr.):

„Ákvæði upplýsingalaga og ákvæði 18.–21. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, gilda ekki á meðan rannsóknarnefnd er að störfum. Sama gildir um ákvæði stjórnsýslulaga, nema sérstaklega sé til þeirra vísað í þessum lögum.“

Með þessu ákvæði eru upplýsingalög, greinar 18-21 í persónuverndarlögum og langflestar greinar stjórnsýslulaga ógildar á meðan rannsóknarnefndir eru að störfum. Þetta þýðir að með þingsályktun getur Alþingi tekið úr sambandi afar mikilvæg réttindi sem gerir borgurum og fjölmiðlum kleift að stunda aðhald gagnvart hinu opinbera og sækja rétt sinn.

Góðu og slæmu fréttirnar eru þær að hér var ekki um viljaverk að ræða. Góði hluti þeirra að allir héldu áfram að veita upplýsingar í samræmi við anda upplýsingalaga og persónuverndarlaga og stjórnsýslan hélt áfram eins og ekkert hefði úr skorist. Réttarkerfið er sett upp þannig að í stað þess að allir séu réttlausir er horfið til svokallaðra óskráðra meginregla en það vekur samt upp lagalega óvissu. Slæmi hluti fréttanna er sá að mistökin komust í gegnum Alþingi og svo virðist vera að enginn hafi minnst á þau opinberlega áður en þau urðu að lögum.

Sagan byrjaði þegar forsætisnefnd Alþingis setti fram frumvarp um rannsóknarnefndir desember 2010 og þar hljóðaði þetta svo (þingskjal 426 á 139. löggjafarþingi):
„Ákvæði upplýsingalaga og ákvæði 18.–21. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, gilda ekki um störf rannsóknarnefndar. Sama gildir um ákvæði stjórnsýslulaga og laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nema sérstaklega sé til þeirra vísað í þessum lögum.“ (Parturinn með lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins var fjarlægður síðar í ferlinu.)

Þar var hugmyndin sú að afgreiðsla beiðna um upplýsingar frá rannsóknarnefndum gætu tafið rannsóknir og jafnvel skaðað rannsóknarhagsmuni. Í febrúarmánuði 2011 kemur allsherjarnefnd Alþingis fram með sitt álit ásamt breytingartillögum. Í umfjöllun um frumvarpið vill nefndin að aðilar mála sem rannsóknarnefndir hafa til skoðunar hafi rétt samkvæmt lögum að biðja um upplýsingarnar eftir að þær hafi lokið störfum.

Hins vegar leggur nefndin til eftirfarandi breytingartillögu (þingskjal 895 á 139. löggjafarþingi):
„Í stað orðanna ,,um störf rannsóknarnefndar“ í 1. málsl. 1. mgr. komi: á meðan rannsóknarnefnd er að störfum.“

Raunáhrif tillögunnar voru að í stað þess að takmarka rétt þeirra sem voru undir rannsókn eingöngu, var því breytt þannig að enginn hér á landi hefði þann rétt, og ekki eingöngu gagnvart rannsóknarnefndum. Ekki bætir úr skák að hið breytta frumvarp fór aftur til nefndarinnar og lagði hún til frekari breytingar á þessum sama hluta frumvarpsins án þess að hún hafi uppgötvað mistökin.

Í lagatúlkun er almenna reglan sú að lagatextinn er það sem gildir. Greinargerðir frumvarpa og nefndarálit eru eingöngu til skýringar sem þýðir að jafnvel þótt ætlan allsherjarnefndar hafi verið önnur, þá er raunin sú að um tíma voru engin upplýsingalög í gildi, heldur ekki nokkur ákvæði persónuverndarlaga og þar að auki voru langflestar greinar stjórnsýslulaga ógildar.

Stundum þarf bara ein mistök í einni línu til þess að skaða rétt okkar með afdrifaríkum hætti.

Samningur mennta- og menningarmálaráðuneytisins við KFUM og KFUK

Þann 1. apríl síðastliðinn fékk ég svar við beiðni minni þar sem ég bað um eintak af samningi mennta- og menningarmálaráðuneytisins við KFUM og KFUK. Þessi samningur var í sjálfu sér óþarfur þar sem upphæðin var þegar útbýtt á grundvelli fjárlaga 2014. Tilgangurinn er líklegast sá að undirbúa þann farveg að hafa árlega samninga. Það leysir samt ekki úr því að ríkið er hér að styrkja samtök sem hafa trúboð til barna sem meginstefnu starfs síns.

Samningur mennta- og menningarmálaráðuneytisins við KFUM og KFUK

Upplýsingabeiðni um kirkjueignir – innanríkisráðuneytið

Þann 25. febrúar 2013 sendi ég upplýsingabeiðni til innanríkisráðuneytisins þar sem ég óskaði eftir gögnum um kirkjujarðasamninginn 1997, útfærsluna 1998 og þar að auki eintak af „öllum samningum og samkomulögum sem eru í gildi milli ráðuneytisins og Þjóðkirkjunnar, ásamt undirstofnunum hennar“.

Beiðnin:

„Í krafti upplýsingalaga og annara viðeigandi laga óska ég eftir því að fá eintak af lista yfir þær jarðir og kirkjueignir sem íslenska ríkið fékk við samning sinn við embætti biskups Íslands (Þjóðkirkjuna) sem undirritaður var 10. janúar 1997. Þá óska ég sérstaklega eftir þeim skjölum sem tengjast mati ríkisins á verðmæti fyrrgreindra jarða og kirkjueigna sem framkvæmt var skv. 15. gr. laga 94/1976.

Einnig óska ég eftir öllum skjölum sem liggja fyrir á ráðuneytinu varðandi fyrrnefndan samning ríkisins frá 10. janúar 1997 og sömuleiðis samning milli sömu aðila undirritaðan 4. september 1998. Þá eru meðtalin þau skjöl sem notuð voru við samningaumræðurnar, eins og dagbókarfærslur, vinnugögn, fundargerðir, minnisblöð og önnur samskipti milli málsaðila. Þá tekur beiðnin einnig til skjala sem gagnaðili hefur lagt fram. Sérstaklega er beðið um skjal sem Þorvaldur Karl Helgason segir að samninganefnd Þjóðkirkjunnar hafi lagt fram sem á að innihalda „ítarlega úttekt á þessum eignum, sem ekki var mótmælt af hálfu ríkisins“.

Jafnframt óska ég eftir eintaki af öllum samningnum og samkomulögum sem eru í gildi milli ráðuneytisins og Þjóðkirkjunnar, ásamt undirstofnunum hennar.

Sé beiðni minni að skjölum synjað í heild eða að hluta til óska ég eftir rökstuðningi fyrir synjuninni með vísan í viðkomandi lagaheimildir. Af gefinni reynslu í samskiptum mínum við ráðuneytið vil ég minna á ákvæði upplýsingalaga um málshraða.

Til að minnka pappírsnotkun kýs ég að fá skjölin á stafrænu formi sé það möguleiki.“

Að fá upplýsingarnar var alls ekki auðvelt þar sem ráðuneytið þrjóskaðist nokkuð við. Til að tryggja að málið yrði örugglega skráð, hringdi ég á eftir beiðninni og bað skjalavörð um að láta mig fá málsnúmerið um leið og málið væri skráð inn, sem var gjört. Samkvæmt upplýsingalögum fær ráðuneytið sjö daga til þess að taka afstöðu til beiðnarinnar og er lagalega skylt að svara henni á þeim tíma, annað hvort með afhendingu gagnanna eða synjun. Því leit ég svo á að mánuður var meira en sanngjarn tími til þess að bíða þar til ég myndi ítreka beiðnina. Þegar sá tími var liðinn hringdi ég reglulega í ráðuneytið þar sem ég spurði um stöðu málsins og kvartaði einnig reglulega vegna tafa á afgreiðslu beiðnarinnar.

Það var ekki fyrr en í júní, næstum 4 mánuðum síðan ráðuneytið fékk beiðnina, sem ég skilaði inn kæru til úrskurðarnefndar upplýsingamála. Í júlímánuði fæ ég síðan A4 umslag með bréfi þar sem beðist er velvirðingar á töfinni ásamt skjölum sem falla undir beiðnina. Af hverju ráðuneytið gat ekki svarað beiðninni fyrr, þarf hver og einn að svara. Það var samt ekki fyrr en núna nýlega að ég fékk mér prentara og gat skannað þau inn.

Svarið við upplýsingabeiðninni ásamt skjölunum, skannað inn:
Upplýsingabeiðni – innanríkisráðuneytið – svarað 10. júlí 2013

Skjölin sem fengust vegna þessarar beiðni voru ekki eins ríkuleg og ég bjóst við. Eins og beiðnin var orðuð bjóst ég við að fá aðgang að meiri flóru gagna eða fleiri blaðsíðum en 75. Séu skjölin skoðuð er nokkuð stór hluti þeirra ýmis drög að samningi um prestssetursjarðir sem undirritaður var árið 2006. Hlutfall skjala sem snúa að jarðasamningunum 1997 og 1998 er nokkuð lítið, þrátt fyrir að um sé að ræða samning sem hefur kostað íslenska ríkið fleiri tugi milljarða frá árinu 1997.

Í bréfinu til mín er vísað til tilvist skjala í skjalasafni ráðuneytisins en þess ber að geta að í lögum er gert ráð fyrir að ráðuneyti haldi skjölum í skjalasafni sínum í 30 ár og skili þeim síðan til Þjóðskjalasafns Íslands. Af þeirri ástæðu geri ég ráð fyrir að ráðuneytið eigi að hafa skjöl um málið sem ná að minnsta kosti til ársins 1983. Þá er einnig getið þess að ráðuneytið þurfi að gæta að því að skjölin verði ekki fyrir óleyfilegri grisjun eða eyðileggingu. Ef við gerum ráð fyrir að ráðuneytið hafi reynt að rækja þá skyldu er fátækleiki skjalanna skýrður aðallega sem annaðhvort það að ráðuneytið hafi ekki látið mig fá öll skjölin sem ég bað um eða það hefur ekki talið sig þurfa að skrá mikið niður. Hið síðarnefnda myndi benda til málamyndagjörnings og/eða afar lélegrar skjalfestingar.

Svarið inniheldur þá staðhæfingu að ráðuneytið var ekki með lista yfir jarðirnar sem samningarnir 1997 og 1998 náðu yfir og hafði einnig enga lista yfir verðmæti þeirra. Svar fjármálaráðuneytisins við annarri upplýsingabeiðni minni, dagsett 10. janúar 2013, innihélt einnig sambærilega staðhæfingu. Hvorugt ráðuneytið segist því hafa haft undir höndum lista yfir það um hvaða jarðir var að ræða og þar að auki engar tölur um verðmæti.

Nethleranir og lögin

Eftir að Edward Snowden, sú mæta hetja, hóf að ljóstra upp um njósnir NSA á jarðarbúum, fór ég að vera meira var um friðhelgi einkalífs míns á netinu. Þó var ég var um það áður, eins og með því að hefja notkun á OpenPGP.

Það góða við þessar uppljóstranir, fyrir utan að staðfesta það sem hefur þegar verið gert, er að fólk er núna meira vart um að netnotkun þeirra gæti verið hleruð. Áður fyrr heyrði maður varla píp í almenningi um að einhver gæti hlerað netnotkun þeirra, enda ættu lögin að verja okkur gegn slíku. En þar voru meginmistök fólks fólgin, að treysta um of á lögin. Það túlkar lögin eins og aðrir myndu framkvæma þau með sömu hugmyndafræði og það sjálft. Lagagreinar á að túlka eftir því hvernig aðrir myndi framkvæma og jafnvel fólk sem maður heldur að muni snúa út úr merkingu þeirra eftir bestu getu.

Í lögum vantar oft til dæmis viðurlög hvað gerist ef einhver brýtur gegn lögunum, sé skyldan á ríkinu að framkvæma eitthvað. Þó hættan sé alltaf að einhver fari í mál við ríkið vegna vanrækslu á lagalegri skyldu eru mögulegar bætur það lágar að ríkið vill frekar taka áhættuna. Einnig eru til aðrar óskrifaðar réttarreglur sem ríkið myndi án efa vísa til ef til þess kæmi að einhver biður um að eitthvað sé framkvæmt sem ríkið vill ekki gera. Hér þarf því að samþætta eftirlit með framkvæmd ríkisins með lögum og sjá til þess að ríkið hafi hagsmuni af því að framkvæma þau á réttan hátt.

Önnur hlerun kom í ljós þegar gögn fengin með innbroti í gagnagrunn Vodafones fóru út á netið. Þá gerði fólk sér (vonandi) grein fyrir að fjarskiptalög voru þverbrotin enda geymdi Vodafone miklu meira af gögnum en það hafði lagalega heimild fyrir. Fólk var sannfært að fyrirtæki færu eftir lögunum þegar kom að friðhelgi einkalífsins en komst svo að því, á sérlega slæman máta, að svo var ekki. Umræðan á þeim tíma var ruglandi og var fólk jafnvel á öðru máli þegar túlka átti lagagreinina sem fjallaði um heimild Vodafone á að geyma þau SMS-skeyti sem fóru í dreifingu. Sumir voru á því að geyma mætti innihald SMS-skeytanna í 6 mánuði en aðrir að það mætti ekki geyma þau eftir að þau væru komin til viðtakanda. Þessi mismunandi sjónarhorn sýna það að hugmyndir fólks um heimildir laga eru ekki þau sömu og afar frábrugðin.

Almenningur þarf hins vegar að taka meiri þátt í að verja friðhelgi síns eigin einkalífs. Svo ég nefni dæmi eru flest pósthólf ódulkóðuð og liggja tölvupóstar þar næstum á glámbekk. Ef einhver kemst inn á tölvuna sem hýsir hann mun sá aðili líklegast hafa frjálsar hendur við að afrita hann. Tugir þúsunda SMS-skeyta er ekkert miðað við ef þessi óprúttni aðili hefði komist í pósthólf viðskiptavina Vodafone og dreift tölvupóstunum sem voru þar, eða jafnvel sýnishorn af þeim. Er það, að gefnu óbreyttu öryggisástandi, bara tímaspursmál hvenær það gerist. Það er ein ástæðan fyrir því að ég reyni að hvetja fólk til þess að nota OpenPGP dulkóðunaraðferðina. Sú aðferð tryggir, eftir bestu getu, að milliliðirnir á milli sendanda og viðtakanda geta ekki lesið innihald tölvupósta sem fara þeirra á milli. Ef einhver brytist inn á pósthólfið þitt og sæi eingöngu dulkóðaðan tölvupóst, gæti hann lítið gert við þær upplýsingar.

Hér á landi, og í ýmsum öðrum ríkjum, eru til staðar flokkar sem vinna samkvæmt píratahugsjóninni og munu þeir án efa fá meira vægi núna í umræðunni um friðhelgi einkalífsins. Þá verður vonandi meiri áhersla á að hlusta á fólk sem hefur tillögur að breyttu orðalagi í lagasetningarferlinu, jafnvel þótt merkingin virðist við fyrstu sýn ekki breytast mikið. Njósnastofnanir eins og NSA nýttu sér svona orðalagsgalla og almennt orðaðar heimildir til þess að gera það sem þær voru staðnar að. Við skulum ekki endurtaka þessi sömu mistök í lagasetningu og fylgjast betur með því sem er að gerast á Alþingi.

Bingójátning 2013

Þann 15. mars síðastliðinn skilaði ég inn játningu til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem ég játaði að hafa tekið þátt í framkvæmd ólögmæts bingóhalds. Fyrir tveim dögum, þann 9. júlí 2013, barst mér bréf með afstöðu ríkissaksóknara til þessa máls.

Það er afstaða ríkissaksóknara að „umrædd háttsemi kæranda, og eftir atvikum annarra sem stóðu að páskabingóinu, verði fyrst og fremst virt sem liður [í] stjórnarskrárvörðum rétti manna til tjáningar- og fundafrelsis, sbr. 73. gr. og 74. gr. stjórnarskrárinnar“.

Áður en ég lagði fram játninguna hugsaði ég út í mögulegar afleiðingar þess ef málið hefði lent fyrir dómstólum með ákæru. Líkurnar voru nokkuð lágar en áhætta sem ég var reiðubúinn til þess að horfast í augu við og reka málið áfram til enda, jafnvel með málarekstri fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sem hefði líklegast dæmt mér í vil.

Þrátt fyrir að málið hafði ekki verið lokið á þann hátt er ég ánægður með útkomuna, enda er það núna yfirlýst mat bæði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og ríkissaksóknara að stjórnarskrárvarinn réttur fólks til tjáningar- og fundafrelsis vegur þyngra en rétturinn til að banna bingóhald á grundvelli helgidagafriðs. Vegna jafnræðisreglunnar á þetta mat einnig við um aðrar tegundir af skemmtanahaldi en bingó óháð því hvort peningar séu í spilinu eða ekki. Augljóslega á þetta mat eingöngu við um atburði sem annars hefðu verið leyfðir á þessum tilteknum helgidögum.

Vil samt setja fyrirvara um að það er samt ekki algerlega afgreitt þegar um er að ræða staði sem reiða sig á starfsleyfi eða önnur opinber leyfi. Þó ég telji að það sama gildir í slíkum tilvikum er samt sem áður gríðarlega mikil hætta á að fyrsti aðilinn sem heldur slíka skemmtun gæti lent í leyfissviptingu ef lögreglan telur þessa afstöðu ríkissaksóknara ekki eiga við um leyfisskylda starfsemi.

Hér eru helstu skjöl málsins svo almenningur hafi tækifæri til að meta niðurstöðuna á eigin forsendum:

Bingójátningarmálið 2013

Kæra vegna framkvæmd alþingiskosninganna 2013

Þrír umboðsmenn Pírata, þar á meðal ég, komum saman í gær og ræddum um okkar reynslu á talningarstað þann 27. apríl síðastliðinn. Við ræddum um framkvæmdina á talningarstaðnum og athuguðum hvort hún stæðist lög. Við vissum af ýmsum atriðum áður en töldum þau vera lítilvæg þar til við bárum saman bækur okkar. Þar komum við auga á grafalvarleg atriði er varða framkvæmdirnar og sáum ekki annan siðferðislegan kost en að leggja fram kæru, hvort sem það væri í okkar eigin nafni eða Pírata.

Helstu atriðin voru þau að verklagið var mismunandi á milli kjördæma og í mörgum tilfellum jafnvel gegn lögum. Í Suðurkjördæmi voru dyrnar jafnvel opnaðar nokkrum sinnum, í hvert skipt í að minnsta kosti stundarfjórðung, þrátt fyrir ákvæði laga um kosningar til Alþingis um að meðhöndlum atkvæða fyrir lok kjörstaða skuli vera fyrir luktum dyrum. Í sama kjördæmi voru atkvæði jafnvel talin fyrir lok kjörstaða þrátt fyrir ákvörðun Hæstaréttar Íslands um að það væri stranglega bannað. Þá voru lyklar jafnvel festir við kjörkassana í flutningi þeirra á talningarstað, sem er skýrt brot á kosningalögum.

Þá var vikið að ófullnægjandi innsiglum en í besta falli eru þau alger brandara þar sem þau eru nokkuð einföld í framleiðslu. Auk þess er nokkuð auðvelt að fjarlægja þau án þess að þau skilji eftir sjáanleg ummerki. Í nokkuð mörgum tilvikum í Suðurkjördæmi var alls ekkert innsigli yfir raufinni á kassanum, sem enn og aftur er skýrt brot á kosningalögum.

Í Reykjavíkurkjördæmunum voru atkvæðaseðlarnir ekki taldir úr kjörkössunum áður en þeim er blandað saman eins og tilgreint er í 99. gr. kosningalaga. Það var hins vegar gert í Suðurkjördæmi. Þetta uppgjör var framkvæmt í Reykjavíkurkjördæmi Norður en ekki fyrr en yfirkjörstjórnin taldi að talningu væri lokið. Þar kom í ljós að það vantaði yfir 300 atkvæði og þá var komist að því að það gleymdist að hella úr einum kjörkassanum og við tók flokkun og talning á innihaldi hans. Flokkunarfólkið var farið heim og þurftu því aðrir starfsmenn ásamt yfirkjörstjórn að sjá um flokkunina. Slíkt hefði ekki gerst ef uppgjörið hefði farið fram jafnóðum eins og kosningalög gera ráð fyrir. Rökfræðilega er ekki hægt að framkvæma slíka könnun á áreiðanlegan hátt nema með talningu úr kjörkössum. Það er auðvitað fræðilega hægt að framkvæma grófa könnun eftir á en samanburður við kjörbækur undirkjörstjórna yrði ekki eins áreiðanlegur og lögin kveða á um. Ef atkvæðaseðlar týnast er engin leið að vita frá hvaða kjörstað vantaði atkvæði, sérstaklega fjöldi þeirra er mikill, ef eina uppgjörið fer fram eftir að talningu er lokið.

Það var því niðurstaða hópsins að það sé betra upp á kosningaframkvæmdina í framtíðinni að verklagið sé í samræmi við lög í öllum kjördæmum og að það séu til betri varnir gegn kosningasvindli og kosningamistökum. Enn fremur þarf að bæta lögin sjálf og framkvæma í samræmi við þær breytingar.

Tvö réttindamál komin í ferli

Ræsti tvö réttindamál í dag.

Fyrra málið er ræst með óvenjulegu móti. Þar sendi ég játningu til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um að ég hafi tekið þátt í bingóstarfsemi föstudaginn langa, en slík starfsemi er ólögleg á þeim degi. Framfylgni laganna af hálfu lögreglu er nokkuð mismunandi eftir landshlutum og eftir því hver kvartar. Með játningunni neyðist lögreglan til að rannsaka málið af alvöru og taka ákvörðun hvort hægt sé að sækja mig til saka eða ekki fyrir það sem ég gerði. Óháð úrslitum málsins er komin betri sýn á hvað getur kallað á aðgerðir lögreglu og hvað ekki.

Hitt málið snýr að því að ég vil gera tilraun til þess að fella út ‚Lúthersson‘ úr nafninu mínu þannig að það verði eingöngu Svavar Kjarrval. Í því máli notfæri ég mér svokallaðan Blævar-dóm en það var niðurstaðan sú að nafngjafir falla undir stjórnarskrárákvæðið um friðhelgi einkalífs og því ekki hægt að takmarka þær nema undir þröngum skilyrðum sem ég tel að eigi ekki við í þessu máli.

 

Vantrúarbingó - játning til lögreglu

 

Nafnbreyting (fella út kenninafn)

 

Þar sem Þjóðskrá Íslands hefur ekkert eyðublað fyrir það sem ég vildi gera ákvað ég að rita yfirlýsingu með upplýsingunum sem stofnunin myndi biðja um ef þetta væri eðlileg beiðni.

Er ekki lengur flokksbundinn Auða flokknum

Nú hef ég greitt atkvæði í öllum sveitarstjórnarkosningum og alþingiskosningum síðan ég fékk kosningarétt og í öll skipti nema eitt hef ég skilað auðu. Merkingin á bakvið auða atkvæðið er sú að einstaklingurinn sýni að hann hafi fullan áhuga á að kjósa en enginn þeirra sem eru í boði eiga, að mati kjósandans, það skilið að hljóta atkvæði hans.

En núna er loksins kominn stjórnmálaflokkur sem ég mun styðja með atkvæði mínu: Píratar.

Í fleiri ár vissi ég af erlendum samtökum pírata erlendis og óskaði eftir að álíka flokkur myndi bjóða sig fram hér. Því varð ég nokkuð ánægður þegar ég heyrði frásagnir um að stofna ætti slíkan flokk hér á landi. Ekki nóg með það, ég reyndi að aðstoða eftir því sem minn einhverfi líkami leyfði mér og varð stofnmeðlimur. Síðan þá hef ég mætt á marga fundi og kynnst ágætum fjölda af vel þenkjandi fólki. Það kom mér annars ekkert á óvart að sjá marga sem ég hafði kynnst áður á lífsleiðinni.

Rætur pírata eru þær að verið er að mótmæla ígripum „hagsmunaaðila“ sem hafa hingað til fengið sitt í gegn með óheiðarlegum hætti og réttur hins almenna borgara laut almennt lægra haldi. Píratar um allan heim eru að reyna að sporna við þeirri óhappaþróun síðastliðnu áratugi með því að veita borgurum eitt besta vopn sem hægt er að beita: réttinn til að fá upplýsingar og miðla þeim áfram. Með þeim getur almenningur fengið tækifæri til að taka upplýstari ákvarðanir en áður og haft meiri að segja um ákvarðanir sem varða hann sjálfan.

Ætlun mín var þó eingöngu að hjálpa til í stöðu sem nyti ekki mikillar athygli og hafði ekki áhuga á framboði. Einn daginn tók ég á móti tímamótandi símtali þar sem ég var hvattur til að setja nafn mitt í kosningu fyrir framboðslista, sem ég gerði. Og núna er ég í 6. sæti í Suðvesturkjördæmi fyrir Pírata. Þróunin getur verið nokkuð hröð. Fyrir nokkrum mánuðum hafði ég engan áhuga á neinum einstökum stjórnmálaflokki og núna er ég í framboði fyrir einn þeirra.

Dagur einhverfra í dag

Í dag, 2. apríl, er dagur einhverfra og hefur Mamiko Dís gefið út lagið Skrýtin í tilefni dagsins.

Texti lagsins er nokkuð áhugaverður og snertir á mikilvægu atriði sem einstaklingar á einhverfurófinu þurfa að ganga í gegnum. Margir setja á sig andlega grímu sem gengur út á það að fela fyrir öðrum hvernig maður hagar sér náttúrulega. Tilgangurinn er einfaldur: að blekkja aðra til að halda að maður sé eins og allir aðrir.

Eitt af því sem fólk á einhverfurófinu er hrætt við er að vera álitið öðruvísi en annað fólk og fá mikla neikvæða athygli. Sumir á einhverfurófinu forðast af þeirri ástæðu að gera hluti sem gætu leitt til athygli því hún gæti orðið slæm, og stundum gengur það svo langt að viðkomandi reynir að einangra sig frá öllum samskiptum við aðra.

Hluti af boðskap lagsins er að kynna fyrir fólki að það er í lagi að vera skrítið. Væru allir eins myndi lífið vera nokkuð leiðinlegt. Ef eitthvað, þá þurfum við meira skrítið fólk og þótt því sé erfitt að trúa, þá eru margir sem laðast að því sem er öðruvísi. Alveg eins og fólk sækist í sjaldgæfa hluti, þá gildir það sama um persónueinkenni. Samkvæmt því græðir fólk félagslega á því að vera skrítið.

Eftir hverju ertu að bíða, vertu skrítin(n) frá og með núna!