Dagur einhverfra í dag

Í dag, 2. apríl, er dagur einhverfra og hefur Mamiko Dís gefið út lagið Skrýtin í tilefni dagsins.

Texti lagsins er nokkuð áhugaverður og snertir á mikilvægu atriði sem einstaklingar á einhverfurófinu þurfa að ganga í gegnum. Margir setja á sig andlega grímu sem gengur út á það að fela fyrir öðrum hvernig maður hagar sér náttúrulega. Tilgangurinn er einfaldur: að blekkja aðra til að halda að maður sé eins og allir aðrir.

Eitt af því sem fólk á einhverfurófinu er hrætt við er að vera álitið öðruvísi en annað fólk og fá mikla neikvæða athygli. Sumir á einhverfurófinu forðast af þeirri ástæðu að gera hluti sem gætu leitt til athygli því hún gæti orðið slæm, og stundum gengur það svo langt að viðkomandi reynir að einangra sig frá öllum samskiptum við aðra.

Hluti af boðskap lagsins er að kynna fyrir fólki að það er í lagi að vera skrítið. Væru allir eins myndi lífið vera nokkuð leiðinlegt. Ef eitthvað, þá þurfum við meira skrítið fólk og þótt því sé erfitt að trúa, þá eru margir sem laðast að því sem er öðruvísi. Alveg eins og fólk sækist í sjaldgæfa hluti, þá gildir það sama um persónueinkenni. Samkvæmt því græðir fólk félagslega á því að vera skrítið.

Eftir hverju ertu að bíða, vertu skrítin(n) frá og með núna!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.