Er ekki lengur flokksbundinn Auða flokknum

Nú hef ég greitt atkvæði í öllum sveitarstjórnarkosningum og alþingiskosningum síðan ég fékk kosningarétt og í öll skipti nema eitt hef ég skilað auðu. Merkingin á bakvið auða atkvæðið er sú að einstaklingurinn sýni að hann hafi fullan áhuga á að kjósa en enginn þeirra sem eru í boði eiga, að mati kjósandans, það skilið að hljóta atkvæði hans.

En núna er loksins kominn stjórnmálaflokkur sem ég mun styðja með atkvæði mínu: Píratar.

Í fleiri ár vissi ég af erlendum samtökum pírata erlendis og óskaði eftir að álíka flokkur myndi bjóða sig fram hér. Því varð ég nokkuð ánægður þegar ég heyrði frásagnir um að stofna ætti slíkan flokk hér á landi. Ekki nóg með það, ég reyndi að aðstoða eftir því sem minn einhverfi líkami leyfði mér og varð stofnmeðlimur. Síðan þá hef ég mætt á marga fundi og kynnst ágætum fjölda af vel þenkjandi fólki. Það kom mér annars ekkert á óvart að sjá marga sem ég hafði kynnst áður á lífsleiðinni.

Rætur pírata eru þær að verið er að mótmæla ígripum „hagsmunaaðila“ sem hafa hingað til fengið sitt í gegn með óheiðarlegum hætti og réttur hins almenna borgara laut almennt lægra haldi. Píratar um allan heim eru að reyna að sporna við þeirri óhappaþróun síðastliðnu áratugi með því að veita borgurum eitt besta vopn sem hægt er að beita: réttinn til að fá upplýsingar og miðla þeim áfram. Með þeim getur almenningur fengið tækifæri til að taka upplýstari ákvarðanir en áður og haft meiri að segja um ákvarðanir sem varða hann sjálfan.

Ætlun mín var þó eingöngu að hjálpa til í stöðu sem nyti ekki mikillar athygli og hafði ekki áhuga á framboði. Einn daginn tók ég á móti tímamótandi símtali þar sem ég var hvattur til að setja nafn mitt í kosningu fyrir framboðslista, sem ég gerði. Og núna er ég í 6. sæti í Suðvesturkjördæmi fyrir Pírata. Þróunin getur verið nokkuð hröð. Fyrir nokkrum mánuðum hafði ég engan áhuga á neinum einstökum stjórnmálaflokki og núna er ég í framboði fyrir einn þeirra.

Ein athugasemd við “Er ekki lengur flokksbundinn Auða flokknum”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.