Breytingartillögur stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar vöktu bæði gleði og ollu líka vonbrigðum. Gleðin fólst í að upplýsingarétturinn var færður úr annari kynslóðinni í þá þriðju. Hin vonbrigðin fólust í algerri endurvakningu tjáningarfrelsisákvæðisins (14. gr.) í það ástand sem stjórnlagaráð sendi frá sér og hin varðandi framsaldsheimildir. Sé breytingartillagan samþykkt mun vera heimilt að skerða tjáningarfrelsið „til verndar börnum“. Þetta orðalag fær mig til að skjálfa enda er gríðarlega margt réttlætt með beitingu slíkra raka, hvað þá þegar það er leyft beint í stjórnarskránni. Ef því hefði verið breytt til baka og barnaundanþágan fjarlægð hefði ég verið ánægður.
Síðan er það eitt sem minnkar traust mitt á nefndum Alþingis en það virðist vera áhugaleysi þeirra á að lesa umsagnir almennings eða í það minnsta trega þeirra til að taka mark á þeim. Þrátt fyrir að hafa bent stjórnlagaráði á þetta tiltekna atriði ásamt því að hafa tekið það fram í umsögnum um frumvarp stjórnlagaráðs og nú seinast vegna frumvarps stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, þá virtist enginn hafa áhuga á að bæta úr þessum augljósa og hættulega galla.
Hver er téður galli? Núverandi stjórnarskrá, frumvarp stjórnlagaráðs og frumvarp stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar koma ekki í veg fyrir framsal íslenskra ríkisborgara til útlanda. Ég er ekki einn um að slíkt framsal sé mögulegt stjórnskipunarlega séð, enda nefndi Björg Thorarensen það fram í bók sinni um mannréttindakafla núverandi stjórnarskrár að stjórnarskráin kæmi ekki í veg fyrir slíkt. Hvorki stjórnlagaráð né nefndir Alþingis lögðu fram tillögur um að bæta úr þessu. Þó engin vernd sé í stjórnarskránni er slík vernd í almennum lögum en gildir þó ekki um framsal meðal nokkurra Norðurlanda. Í sömu lögum er valkvæmt hvort ráðherra heimili endurframsal eða ekki.
Í umsögn minni lagði ég fram þá tillögu að framsal ætti að vera algerlega bannað til ríkja sem viðhafa dauðarefsingu. Nú veit ég ekki hvort hugmyndin sé fengin úr minni umsögn eða einhvers annars en það er gott að hún er komin. En það er einn galli á gjöf Njarðar: ákvæðið gildir eingöngu um útlendinga. Í staðinn fyrir að tilgreina að slík framsöl séu algerlega bönnuð, fyrir alla, er ákvæðinu skellt í greinina um útlendinga og tiltekið sérstaklega að eingöngu sé átt við þá. Af hverju mega Íslendingar ekki njóta þessarar verndar líka?
Það væri afar fróðlegt annars að vita af hverju tillögur mínar um bann á framsali íslenskra ríkisborgara er hafnað. Aðallega hvort ástæðan sé sú að þau trúi mér ekki, umsagnir mínar hafi verið illa lesnar eða alls ekki lesnar. Ef svarið var á þá leið að fólkið í nefndinni var of upptekið, þá var greinilega ekki kominn tími á að afgreiða frumvarpið úr nefndinni. Ég meina, þetta var nokkuð skýrt tekið fram í umsögninni minni. Til hvers er maður að skrifa umsagnir ef þær eru svo hunsaðar?
„Í skýringum við tillögu stjómlagaráðs segir að þessi heimild „þyki stangast á við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að og heimila Íslendingum hindrunarlaust að eiga fasteignaréttindi og hluti í atvinnufyrirtækjum erlendis“.
Þessi tilvitnun er ekki í neinu samhengi við umræðuefnið í færslunni.