Sigur í mannanafnamáli

Í dag tók ég á móti bréfi frá mannanafnanefnd um endurupptöku máls sem var í vinnslu hjá þeim sem varðaði upptöku millinafnsins Kjarrval. Í bréfinu var eftirfarandi úrskurður:

„Beiðni um nafnið Kjarrval sem almennt millinafn er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá. Úrskurðir mannanafnanefndar nr. 49/2006 og nr. 51/2007 eru felldir úr gildi.“

Samkvæmt honum fæ ég loksins að taka upp millinafnið Kjarrval og tók það nefndina bara nokkur ár að komast að þessari endanlegri niðurstöðu og gat það ekki tekist án einhverrar báráttu. Þótt ég hafi vonast eftir að taka það upp sem sérstakt millinafn er ég samt sem áður þakklátur fyrir þennan sigur.

Nú þarf ég bara að skunda á Þjóðskrá og breyta nafninu formlega. Býst við því að gera það á morgun. Þarf að spá í það hvort og hvenær ég bið um nýtt ökuskírteini…

Úrskurðinn má finna á vef hins opinbera.

Frí faðmlög

Í dag fór ég á Laugaveginn ásamt fríðu föruneyti (tveim dúllum) og buðum við vegfarendum upp á frí faðmlög. Alþjóðlega átakið ber nafnið „Free hugs“ og hófst það árið 2004 í Ástralíu en hefur það breiðst út til annarra landa. Það er regla að það má ekki stunda markaðsetningu samhliða átakinu þar sem faðmlögin eiga að vera merki um góðmennsku í þeim tilgangi að láta öðrum líða betur.

Við lögðum af stað frá Lækjartorgi rétt fyrir klukkan tvö í dag og fórum upp Laugaveginn og buðum fólki upp á faðmlög. Á leiðinni fórum við í litla jólaþorpið þar sem tekið var vel á móti okkur. Þaðan var ferðinni haldið áfram um Laugaveginn þar til við nálguðumst Hlemm en þá var klukkan að nálgast þrjú. Fórum við þá að leggja af stað tilbaka og byrjuðum þá að fara inn í búðir. Almennt tóku viðskiptavinir þeirra og starfsfólkið vel á móti okkur. Klukkan var síðan um hálf sex þegar við vorum komin aftur á Lækjartorgið. Átakið mun halda áfram að ári liðnu – eða jafnvel fyrr.

Þetta var nokkuð ánægjuleg reynsla og var skemmtilegt að sjá viðbrögð fólks þegar því var boðið upp á frí faðmlög. Sumir brostu út að eyrum og föðmuðu okkur og einhverjir föðmuðu okkur oftar en einu sinni á ferðalagi okkar. Yfirgnæfandi meirihluti vegfarenda tók boði okkar um faðmlög en sumir tóku ekki við því. Þeir vita ekki hverju þeir eru að missa af. 😀

Faðmlög eru dýrmæt, jafnvel þótt þau séu ókeypis.

Leiðrétt trúfélagsleiðrétting

Þann 30. nóvember síðastliðinn ákvað ég, fyrst ég var rétt hjá, að skreppa í Þjóðskrá til að athuga trúfélagsskráninguna mína. Bjóst ég við því að þetta væri einföld athugun þar sem ég hafði fyrir fleiri árum síðan skráð mig utan trúflokka. Svo var ekki raunin og hafði ég skráð mig í „Fríkirkjuna Kefas“ þann 1. desember 2002 skv. starfsfólkinu.

Hvernig mátti það vera að ég var skráður í Kefas? Ég vildi komast að því af hverju á því stæði og lét því athuga það. Mig grunaði að þetta gætu hafa verið mistök eða einhver hafi falsað skráninguna. Þar sem manneskjan sem sér um skráningarnar var í mat þurfti ég því að bíða og síðan þurfti ég að bíða lengur eftir því að hún hafði upp á forminu sem ég fyllti út á sínum tíma. Á endanum þurfti ég að bíða í rétt yfir 30 mínútur þar til kallað var á mig.

Þegar ég kom að básnum sýndi manneskjan mér blaðið og stóð á forminu að ég hefði skráð mig utan trúflokka og spurði hún hvað væri að skráningunni minni. Ég benti á útprentað blað yfir trúfélagssögu mína þar sem ég var skráður í Kefas. Hún sá því strax mistökin og sagði að þetta yrði leiðrétt. Nefndi ég þá að ég vildi að þetta væri leiðrétt frá og með 1. desember 2002 en ekki 30. nóvember 2009 og var það sjálfsagt mál. Kvaddi ég því og lagði af stað heim. Á leiðinni heim tók ég á móti símtali þar sem leiðréttingin var staðfest.

Þá var ég forvitinn og vildi vita hvort það yrðu einhverjar frekari afleiðingar af þessum mistökum og hafði samband við Fjársýslu ríksins í tölvupósti þar sem ég spurðist fyrir um sóknargjöldin sem voru innheimt og úthlutuð sem afleiðing þessara mistaka. Málinu var vísað til Dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins og fékk ég það svar að mistökin voru leiðrétt alltof seint og því yrðu sóknargjöldin ekki bakfærð frá Kefas og Háskóli Íslands mun ekki sjá einn einasta eyri af þeim.

Þessi mistök (eða ásetningur) í innslætti orsakaði það að Háskóli Íslands varð af nokkrum tugum þúsunda á þeim 7 árum sem mistökin voru ekki leiðrétt. Það vekur auðvitað upp spurningar hvort fleiri mistök eru í kerfinu þar sem fólk eins og ég, sem treysti Þjóðskrá fyrir leiðréttingunni, er skráð í annað trúfélag en formið sem það skilaði inn. Traust mitt á stofnuninni var slíkt á sínum tíma að ég sá aldrei ástæðu fyrr en núna til þess að athuga hvort skráningin hefði skilað sér inn í tölvukerfið. Hversu margir eru núna að greiða sóknargjöld til annarra trúfélaga en það hafði í hyggju?

Forðast hefði mátt mistökin með einföldum aðgerðum. Ein af þeim er að gera ferlið rafrænt þar sem íslenskir ríkisborgarar geti leiðrétt skráninguna í gegnum netið. Sumar stofnanir hafa komið upp álíka ferli og má þá t.d. nefna Ríkisskattstjóra þar sem hægt er að skila inn skattskýrslum rafrænt og Neytendastofu. Þetta þýðir ekki að hver stofnun ætti að hafa sína eigin rafræna lausn, heldur mætti samræma ferlið og væri hægt að hafa allt á einu léni. Annar liðurinn væri að staðfesta skráninguna með því að senda tilkynningu til allra sem breyta trúfélagsskráningu sinni og þá nefnt að henni hefði verið breytt og jafnframt hver hún sé þá stundina.

Álit mitt á sóknargjöldum almennt þarf að bíða betri tíma.

Skattar

Skattar eru oft til umræðu þessa dagana, aðallega vegna skattahækkana sem munu eiga sér stað ef Steingrímur J. Sigfússon fær einhverju ráðið. Ætla ég því að grípa tækifærið og ræða aðeins um eðli skatta.

Tilgangur skatta, að mínu mati, er eftirfarandi:
1. Fjármagna viðhald á kerfi sem sér um að staðla samskipti samfélagsþegna þess til að einfalda þau og svo þau fari sanngjarnlega fram.
2. Svo hið opinbera hafi fé til þess að veita almenningi nauðsynlega grunnþjónustu. Hún takmarkast við þá þjónustu sem hver og einn þegn landsins þarf á að halda en væri alltof dýr ef hver og einn útvegar hana sjálfstætt.
3. Leysa úr deilimálum sem aðilar samfélagsins eiga við hvern annan.

Þessir liðir eiga að falla undir þá grunnhugmynd að hér sé um að ræða útgjöld fyrir vörur og þjónustu sem samfélagið í heild sinni þarf á að halda. Hver og einn liður gæti auðvitað verið nánar skilgreindur en ég ákvað að binda ekki hendur mínar við of nákvæmar skilgreiningar. Þeir sem eru vel að sér í stjórnsýslunni sjá að liðirnir eru að vísa í löggjafarvaldið, framkvæmdavaldið og dómsvaldið.

Hvert og eitt vald á samt eingöngu að ganga eins langt og er hagkvæmt fyrir samfélagið þegar lengra er litið. Löggjafarvaldið á t.d. ekki að semja lög um allt sem gæti farið fram á milli þegnanna eða stjórna öllu sem gerist í lífi þeirra. Sömuleiðis á enginn armur ríkisins að koma fram við alla á jafnræðisgrundvelli.

Til hvers er ég að nefna þetta?
Svarið er nokkuð einfalt: Skattfé er of oft notað í hluti sem hið opinbera ætti ekki að skipta sér að. Dæmi eru um að skattfé sé notað til þess að flytja fé frá einstaklingi A til félags/fyrirtækis B, hvort sem A, eða þjóðin í heild, hefur hag af því eða ekki. Sömuleiðis er skatturinn notaður til þess að stýra neyslu einstaklinga á ákveðnum vöruflokkum, oftast í þeim tilgangi að letja fólk frá því að kaupa vörur í ákveðnum vöruflokkum.

Um leið og skattur er settur á er mjög erfitt fyrir hið opinbera að afnema hann. Tel ég að ástæðan sé sú að um leið og einn skattur er afnuminn mun fólk byrja að efast um tilgang og æskileika annarra skatta. Um leið og málstaður hefur runnið sitt gildi vill alltaf svo til að einhver kemur upp á ræðupúlt og mælir með því að féð sé notað í annað en það málefni sem skatturinn var settur á fyrir og er hann þá endurskýrður. Síðan er fólk að kvarta yfir því að hópur einstaklinga mótmælir „smá aukaskatti“ og það kæmi varla á óvart ef kvartararnir sé sama fólkið og hefur hag af honum.

Sumum er alveg sama um álagningu skatts ef skatturinn lendir ekki á því sjálfu. Það virðist því miður vera ástæða þess að fólk er ekki gjarnt á að mótmæla þeim. Ef lagður yrði 1% auka tekjuskattur á þá sem hétu Jónharður væru mjög fáir sem myndu mótmæla honum. Um leið og skatturinn yrði víkkaður svo hann yrði settur á alla sem hétu Jón eða hefðu nöfn sem byrjuðu á Jón myndi ástandið vera allt annað. Afgangurinn af liðinu sem hefðu nöfn sem byrja á Jón myndu flykkjast inn og byrja að mótmæla. Almennt séð er fólki sama þar til óréttlætið lendir á því sjálfu. Óréttlæti er óréttlæti, sama á hverjum það lendir.

Áhrif skatta
Allir skattar koma öllum við þar sem hann gildir. Hver einasti skattur hefur áhrif á samfélagið í heild, hvort sem það er tilvist hans eða innheimta. Hátekjuskattur hefur t.d. áhrif á þá sem eru undir tekjumörkunum með því að letja fólk frá því að afla nóg til þess að fara yfir þau. Því er t.d. verið að refsa fólki fyrir að taka að sér meiri vinnu til þess að greiða niður skuldir. Einnig er verið að letja fólk frá því að afla meiri tekna af öðrum ástæðum, t.d. til þess að fjárfesta sem myndi annars halda efnahagnum gangandi. Sömuleiðis er algengara að fólk vinni svart svo það haldi meira af tekjum sínum vegna þess að því finnst það hafa greitt nógu mikið í skatta þá þegar.

Alþingisheimur virðist vera á öndverðri skoðun þegar kemur að fjárlögum eftir því í hvaða tilgangi skatturinn er settur. Tilgátan hjá þeim er greinilega sú að neysluskattar hafi þau áhrif að minnka neyslu vörunnar á meðan aðrir skattar hafi engin áhrif. Það virðist vera ríkjandi skoðun á Alþingi að allir skattar utan neysluskatts hafi engin áhrif á hegðun fólks. Þegar ræða á hækkun eða lækkun tekjuskatts er gert ráð fyrir því hver breytingin sé miðuð við þá upphæð sem tekjuskatturinn skilaði árið áður. Þeim virðist bara ekki detta það í hug að lækkun tekjuskatts gæti aukið þá upphæð sem skilast inn vegna hans.

Lærðu stjórnvöld af fyrri kreppu?
Þær skattahækkanir sem Steingrímur er að mæla með munu líklega auka á vandann, ef eitthvað. Efnahagurinn byggir á því að fólk treysti því að hann sé stöðugur og í gangi. Þegar kreppan skall á hér á landi, og annars staðar, á 20. öldinni var gripið til þess ráðs að ráða fólk í ýmis verk á vegum hins opinbera sem jók ráðstöfunarfé heimilanna. Fyrir þetta fé keypti fólk vörur og þjónustu sem þýddi að tekjur fyrirtækjanna jukust og í framhaldinu réðu þau fólk til starfa. Á endanum lagaðist efnahagurinn.

Í dag er staðan þannig að núna er verið að skera niður hjá hinu opinbera sem þýðir að stofnanir forðast það að ráða fólk í vinnu auk þess sem skattahækkanir eiga sér stað. Þau ættu að hafa lært af fyrri aðgerðum og aukið við sig í stað þess að draga saman. Önnur leið sem hægt væri að fara er að lækka skatta til að auka ráðstöfunarfé, aðallega tekjuskatt og fjármagnstekjuskatt, og þá um meira en 5%. Fólk gæti notað féð sem það fær aukalega til þess að greiða niður skuldir eða nota sem auka neyslufé. Í báðum tilvikum flyst fé á milli handa sem eykur væntanlega flæði fés almennt. Verðtryggingin er ekki efni þessarar greinar en mig grunar að úr henni þurfi að bæta samhliða skattalækkuninni.

Aukaskattar
Aukaskattar eru einnig slæmir af annarri ástæðu, flókin skil á sköttum. Hver einasti sérskattur mun auka flækjustig skattakerfisins til muna og því ómögulegt fyrir hinn venjulega einstakling að gera sér grein fyrir honum. Í sumum tilfellum þarf fólk að ráða aðra í vinnu til þess að telja fram skattana fyrir það og sum fyrirtæki eru með heilan her af bókurum í þeim tilgangi að standa rétt í skilum á sköttum.

Í einhverjum tilvikum eru til heilu bækurnar um það hvernig eigi að standa í skilum á einum flokki skatta og nefni ég þá sérstaklega virðisaukaskattinn. Það kemur varla á óvart því það eru ótal undantekningar á því hvort eitthvað teljist til virðisaukaskattar eða ekki. Ef eitthvað telst til virðisaukaskatts eykst flækjustigið enn þá meira þar sem þá þarf að ákvarða í hvaða virðisaukaskattsþrep viðskiptin falla undir.

Einfaldara skattkerfi
Eftir að hafa heyrt allt þetta, hvernig er hægt að einfalda skattkerfið? Svarið er eins einfalt og lausnin: Einfaldari skattar. Hugmyndin er sú að bara fáeinir skattar væru í gildi og hver þeirra væri upp á flata prósentu. Ef undantekningar eru nauðsynlegar eða eðlilegar, hafa þær fáar og einfaldar. Hvernig myndi þér lítast á það að greiða x% í tekjuskatt og ekkert meira. Það tæki væntanlega bara nokkrar mínútur á ári að klára skattframtalið. Skattkerfið yrði það einfalt að hægt yrði að spara stórar fjárhæðir á ári sem færi annars í að halda utan um það flókna kerfi sem er við lýði.

Kjánalegar málvillur

Eitt af því sem maður rekst undarlega oft á eru málvillur að ýmsu tagi en sér í lagi kjánaleg röðun setninga innan málsgreinar. Fólk skilur oftast nær hvað sé átt við en þegar hugsað er út í þær frá setningarfræðilegu sjónarmiði eru þær nokkuð rangar. Þær röðunarvillur sem ég hef rekist á snúast oft um að tengdar setningar eru ekki hafðar við hlið þeirrar setningar sem þær eiga við. Mun ég styrkja mál mitt með dæmum.

Áður en ég fer lengra vil ég nefna að það sem margir þekkja sem setningar kallast í raun málsgreinar og er hver málsgrein samansett af mörgum setningum og endar hún (oftast) á punkti. Það sem er skáletrað hér fyrir framan er ein málsgrein. Einnig vil ég taka fram að ég hef aldrei ýjað að því að hafa fullkomna stafsetningu og málfar; Ég er einnig stundum sekur um mistök að því leiti við og við.

Morgunblaðið er oft að koma með klaufalega setningaröðun í fréttum varðandi dóma;
Frétt um dómsúrskurð í Hæstarétti þar sem Hæstiréttur stytti fangelsisdóm:
„Maðurinn var dæmdur í 12 mánaða fangelsi í héraðsdómi en Hæstiréttur sýknaði hann af tveimur ákæruatriðum.“
– 12 mánaða fangelsi í héraðsdómi? Ekki margir sem myndu vilja húka þar svo lengi.
Frétt um mann sem dæmdur var fyrir vörslu barnakláms:
„Karlmaður um fertugt hefur verið dæmdur í 12 mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir vörslu barnakláms í Héraðsdómi Reykjavíkur.“
– Héraðsdómur Reykjavíkur er greinilega syndabæli.

Aðrir íslenskir fréttamiðlar eru einnig sekir um svona villur;
Frétt Stöðvar 2 um hækkun grunnlauna grunnskólakennara:
„Þar af hækka grunnlaun kennara um 25 þúsund krónur á mánuði frá og með 1. júní næstkomandi.“
– 25 þúsund króna hækkun grunnlauna á mánuði er rosalega góð. Ég hefði verið mjög ánægður með slík kjör. Að sjálfsögðu hefði verið hægt að fjarlægja „á mánuði“ en það hefði mátt setja það annars staðar í málsgreinina. Þessi villa á rót að rekja til yfirlýsinga fólks um að „hafa X krónur á mánuði“ en er fyrir mistök notuð um hækkun launa.

Þessi texti er dómkrafa SMÁÍS, STEF, FHF og Framleiðendafélagsins – SÍK:
„Að viðurkennt verði með dómi að stefndu sé óheimilt að starfrækja vefsíðuna www.torrent.is eða aðra sambærilega vefsíðu sem gerir notendum hennar kleift að fá þar aðgang að og deila innbyrðis hljóð- og myndefni sem umbjóðendur stefnenda eiga höfundarrétt að án samþykkis rétthafa.“
– Er eingöngu verið að meina efnið sem umbjóðendur stefnenda eiga höfundarréttinn að efninu án samþykkis rétthafa? Það hefði verið skemmtilegt að sjá þá sanna það.

Svona villur eru einum of algengar og er líklegast hægt að rekja þær til fljótfærnis textahöfundar eða hann sjái ekkert að textanum eftir að hafa komið textanum fyrir á föstu formi. Þessar villur finnast víða og stundum þarf að lesa textann yfir nokkuð nákvæmlega til að koma auga á þessar villur. Svo sýnist vera að þesar villur séu algengari eftir því sem upplýsingum er þjappað meira saman. Þótt hægt sé að færa rök fyrir því að meiningin sé augljós í hverju tilviki er þetta samt sem áður leiðinlegt að sjá þær.

Ofmat greindarvísitölu

Þessi hálfkláraða grein um greindarvísitölur (IQs) er búin að hanga í kerfinu síðan 2008 og ákvað ég að birta hana hér nær óbreytta. Þetta er gert í tilefni af grein á Slashdot.org: „Why a High IQ Doesn’t Make You’re Smart“ sem birt var um daginn.

Tilgangur greindarvísitölu er að mæla greind einstaklinga miðað við þá sem eru á sama aldri. Niðurstaða hvers prófs á því að vera nákvæmari eftir því sem að fleiri einstaklingar á sama aldri hafa tekið það. Síðan þarf að taka til greina hversu nákvæmar upplýsingar liggja fyrir um fyrri þátttöku og hvernig þær eru notaðar til að reikna út greindarvísitölu núverandi þátttakanda. Eitt af því sem einkennir þessi próf er að oftast fylgir ekki sú aðferð sem höfundar prófanna nota til að meta hvert svar og ákvarða hvernig það hefur áhrif á niðurstöðuna. Það veldur því að mistök í útreikningi eða aðferðafræði gætu valdið niðurstöðum sem ættu sér ekki samsvörum við það sem viðkomandi svaraði.

Áhrif Internetsins
Með útbreiðslu Internetsins er fólk vanara að sjá þrautir og ýmsa orðaleiki. Því má finna í ýmsum prófum spurningar sem ættu frekar heima á slíkum vefjum og líkast því að vera orð fyrir orð. Hvort að slíkt megi rekja til greindar viðkomandi þátttakanda eða ekki er tvírætt.

Fyrst þyrfti að meta hversu líklegt það væri að viðkomandi gæti rekist á not fyrir þá greind í lífi sínu. Eins og fyrsta spurningin í ‘Mensa Workout’ er „Sally likes 225 but not 224; she likes 900 but not 800; she likes 144 but not 145. Which does she like?“ og síðan eru gefin svörin ‘1600’ og ‘1700’. Þetta er frekar einföld spurning fyrir einhvern sem hefur farið í stærðfræðinám en aðeins erfiðari fyrir einhvern sem hefur ekki haft þann kost. Til að svara spurningunni þarf þátttakandinn að fatta tengslin á milli talnanna 225, 900 og 144 og þau tengsl mega ekki eiga við tölurnar 224, 800 og 145.

Burtséð frá því, þá eru nokkrir gallar sem varpa rýrð á niðurstöðuna. Sá alvarlegasti er að þátttakandinn getur giskað á rétta svarið og eru þá helmingslíkur á réttu svari en við þær aðstæður veldur rétt ágiskun hærri niðurstöðu en viðkomandi ‘á skilið’. Þegar fleiri og fleiri greindarvísitölupróf innihalda sömu spurningarnar er líklegra að svarið sé vegna minni þátttakandans frekar en greind. Þegar þessi spurning var sett orðrétt í Google mátti finna um það bil 128 þúsund niðurstöður þó ekki allar sem innihalda próf.

Hugur höfunda prófanna
Spurningarnar og svörin við þeim eru samin á mismunandi hátt eftir prófum en það mætti segja að í spurningin endurspeglar greind þess sem semur þær. Nokkuð margar spurningar byggjast á því að finna munstur og sumar af þeim byggjast á því að fatta hvaða tákn kemur í miðjuna eða á eftir því seinasta. Sama gildir um hina svokölluðu orðalista þar sem á að finna hvað passar ekki við hitt.

En hvað ef þátttakandinn tekur eftir munstri sem að höfundur spurningarinnar sá ekki fyrir? Það gæti jafnvel verið að sama munstrið megi finna sem svarmöguleika án þess að höfundurinn hafi fattað það. Slíkar spurningar eru þar af leiðandi langt frá því að geta sýnt fram á raunverulega greind. Það eru ekki allir sammála um allt og jafnvel gætt misskilnings svo að svarmöguleikarnir gætu hafa verið gallaðir.

Mjög greindur einstaklingur á ákveðnu sviði þarf ekki að vita eða muna allt þegar kemur að því að prófa greindarvísitöluna hans. Líffræðingur gæti jafnvel ‘klúðrað’ spurningu sem byggir á líffræði vegna þess að hann veit betur en höfundurinn eða jafnvel vegna annars munsturs sem hann getur fundið vegna yfirburðarþekkingar sinnar. Ef ein spurning á ákveðnu sviði gæti verið mælikvarði allrar þekkingar sem viðkomandi hefur á sviðinu, þá væri hvert próf í skóla einungis ein spurning að lengd.

Útvistun (outsourcing)

Þetta er nokkuð vinsælt í viðskiptaheiminum núna og hef ég tekið eftir kostum þess undanfarið. Útvistun snýst fyrst og fremst um að láta aðra sjá um eitthvað fyrir mann svo maður þurfi ekki að gera það sjálfur. Helsta ástæðan fyrir því að þetta er valið er til þess að minnka sitt eigið álag. Fræðilega séð er hægt að flokka þetta á ýmsa vegu en þar sem ég er ekki sérfræðingur í þessu mun ég ekki fara að gefa upp tæmandi lista.

Nokkrar tegundir útvistunar
Fyrsti flokkurinn sem ég hugsaði um var fyrirtækjaleg útvistun, þ.e. að fyrirtækið ræður önnur fyrirtæki eða verktaka til að sjá um hlutinn fyrir sig. Ábyrgðin er s.s. komin út fyrir fyrirtækið. Í raun og veru er erfitt að komast hjá því þar sem útvistun þarf ekki endilega að byggjast á því að fyrirtækið hafi frumkvæðið að því. Bara með því að kaupa venjulega hluti eins og skriffæri er fyrirtækið nú þegar búið að nýta sér útvistun þar sem annar aðili sér um að hanna og framleiða hlutina.

Annar flokkurinn er útvistun innan fyrirtækis, þ.e. fyrirtækið dreifir verkum yfir á marga hluta þess. Í stað þess að allar deildir sjái um starfsmannahald er einni þeirra falið að sjá um það hlutverk. Allar deildir sjá síðan um ákveðið hlutverk sem síðan skapar eina heild – fyrirtækið.

Þriðji flokkurinn er persónuleg útvistun. Í því tilviki er það persóna sem sér um að útvista. Einfalt dæmi um útvistun er að geyma peninga okkar í banka, kaupa í matinn eða kjósa. Í báðum tilvikum erum við að úthluta verkum til annarra sem sjá um allt umstangið í kringum það að framkvæma verkið.

Ástæður útvistunar
Útvistun er eitthvað sem er ekki hægt að komast hjá þar sem allt er hægt að flokka sem útvistun sem við gerum ekki sjálf. Við sem manneskjur getum einfaldlega ekki séð um öll málefni okkar persónulega vegna þekkingarskorts. Tíminn gæti verið til staðar en stundum getur þekkingarskorturinn valdið því að við einfaldlega verðum að útvista verkum.

Ein ástæðan er tímaskortur en þekkingin er til staðar. Stundum þarf að framkvæma margt á sama tíma sem er of erfitt eða ómögulegt fyrir einn aðila. Jafnvel þótt þekkingin sé til staðar er einfaldlega enginn tími til þess. Þetta á sérstaklega við þegar framkvæma þarf sama verkið á mörgum stöðum.

Önnur ástæðan til þess að útvista verki er bæði þekkingar- og tímaskortur. Sum málefni eru þannig að við getum einfaldlega ekki gert þau á mannsæmandi hátt og þar að auki gæti það tekið of langan tíma að sanka að sér nægilegri þekkingu til að gera hlutina á eigin vegum. Fínt dæmi um þetta er að setja tæki í viðgerð vegna þess að manneskjan kann ekki að gera við það. Hver og einn þarf að vega og meta hvort það sé fyrirhafnarinnar virði að sanka að þér nægri þekkingu til að gera það persónulega.

Þriðja ástæðan er sú að bæði þekkingin og tíminn gæti verið til staðar en það sé önnur ástæða fyrir því að við útvistum verkum. Ástæðurnar fyrir því gætu verið af persónulegum eða ópersónulegum toga. Sá sem þarf að gera verkið framkvæmir ekki verkið sjálfur af sálrænum ástæðum, t.d. þegar losna þarf við köngullær og viðkomandi er haldinn óstjórnlegri hræðslu við þær. Einnig geta ástæðurnar verið af lagalegum toga og má sem nefna dæmi einhver sem missir fjárræði og þarf að láta annan aðila sjá um þau fyrir sig.

Persónulegt dæmi
Fyrir nokkrum árum var ég með vefhýsingarþjónustu þar sem ég sá um að hýsa vefi fyrir annað fólk og sá um mestallt sjálfur. Því miður tók ég eftir því að ábyrgðartilfinningin mín var það sterk að ég hafði sífelldar áhyggjur af því hvort allt virkaði allt rétt og vel þótt þjónustan væri nokkuð stöðug. Þetta hélt áfram jafnvel eftir að ég hætti í þeim bransa en þó ekki í eins miklum mæli þar sem ég var einungis að hýsa fyrir sjálfan mig og vel valda aðila.

Sumarið 2008 tók ég afdrífaríka ákvörðun um að byrja að útvista hýsingunni. Tölvupóstinn flutti ég yfir á Google Apps og gat því loksins hætt að hafa áhyggjur af því hvort póstþjónninn væri uppi á öllum tímum. Fyrir vefhýsingar varð fyrirtækið 1984 ehf. fyrir valinu þar sem ég leigi sýndarvél hjá þeim. Þeir sjá síðan um að sýndarvélin sé í gangi og tengd við Internetið. Þótt ég beri ábyrgð á því að allt sé uppi innan sýndarvélarinnar er þó þungu fargi létt af mér. Fyrirtækið Pingdom sendir mér tilkynningar í tölvupósti ef vefirnir eru niðri hjá mér og treysti ég því að þjónustan þeirra tilkynni mér um niðritíma um leið og um hans er vart.

Í mínu dæmi er þekkingin og tíminn til staðar en ég myndi frekar vilja gera eitthvað annað við tímann en að hafa áhyggjur af uppitíma þessara þjónusta. Á sama tíma gæti ég sagt að tímaskortur ráði því að ég geti ekki gert það samtímis öðru því sem mig langar að gera. Satt að segja er bæði rétt og þar að auki eru þessar ástæður jafngildar.

Hvers vegna að útvista?
Ein helsta ástæðan er, að mínu mati, til þess að minnka áhyggjur og eigin ábyrgð. Sá sem tekur að sér verkið ber ábyrgð gagnvart þér að verkið sé framkvæmt á þann hátt sem þú getur undir eðlilegum kringumstæðum búist við. Þegar við kaupum vörur eða þjónustu erum við um leið að útvista öllu framleiðsluferlinu og flutningi hennar til seljanda hennar. Fyrirtækin keppast síðan um að auglýsa að það sem þeir selja uppfylli kröfur okkar sem við gerum til þeirra. Um leið eru þau að reyna að byggja upp traust svo við fáum þá tilfinningi að þau ábyrgist gæði þess sem þau eru að selja.

Mannfólkið getur bara lifað í takmarkaðan tíma og því er það nauðsynlegt að útvista stórum hluta lífs okkar til annarra svo við getum reynt að reynt að njóta þess tíma sem við höfum.

Niðurhalsstefna Símans og Vodafone

Eftir að ég rakst á ásakanir um að stefna Símans um erlent niðurhal væri fáránleg, þá gat ég ekki staðist það að skrifa um það. Að mínu mati er stefna Símans miklu betri en sú sem Vodafone er með.

1. Síminn núllstillir ekki niðurhalið um hver mánaðarmót
Vodafone er með þá stefnu að tölur um erlent niðurhal núllstillist um hver mánaðarmót en á móti er Síminn með þá stefnu að miða alltaf við seinustu 30 daga. Munurinn sem um ræðir felst í viðurlögunum ef viðskiptavinurinn fer yfir það takmark. Skýri það í öðrum lið.

2. Viðurlög ef farið er yfir takmörk í erlendu niðurhali
Hér er stór sanngirnismunur þar sem Síminn fær stóran plús fram yfir Vodafone. Hjá Símanum er hraði viðskiptavinar frá útlöndum lækkaður þar til niðurhalsmagn seinustu 30 daga er neðar en 40 GB. Aðra sögu er að segja um Vodafone. Þar er allt erlent niðurhal skorið niður. Viðskiptavinurinn fær ekkert aðgengi út fyrir landið þar til mánuðurinn er liðinn. Ímyndaðu þér ef þú ferð yfir takmarkið, jafnvel örlítið yfir það, þegar það eru margir dagar eftir af mánuðnum. Það er svo lítið af innlendu afþreyingarefni að það er alveg eins hægt að sleppa því að nota Internetið.

3. Af hverju stefna Símans er betri varðandi hraða til og frá útlöndum
Það sem Vodafone er að gera er að hver sem ætlar að nýta þessi inniföldu 40 GB (áður 80 GB) mun auðvitað niðurhala þeim á seinustu dögum mánaðarins. Þetta veldur því, séu nógu margir sem hugsa þannig, að erlend umferð verður miklu verri fyrir vikið þá dagana. Stefna Símans er að því leiti miklu betri þar sem hún hvetur viðskiptavinina til þess að viðhalda ákveðnu meðaltali á umferð þ.e. að umferð seinustu 30 daga fari ekki yfir 40 GB. Jafnvel þótt farið sé yfir 40 gígabætin mun umferð elsta dagsins í viðmiðinu hverfa og sé hún þá fyrir neðan takmarkið mun fullur hraði vera mögulegur þar til farið er yfir takmarkið aftur.

4. Stefna Símans er ekki fullkomin
Auðvitað er hún ekki gallalaus. Ef viðskiptavinurinn ákveður að niðurhala rosalega miklu frá útlöndum á einum degi mun kerfið ekki fyrirgefa það fyrr en sá dagur er farinn úr viðmiðinu. En samt er stefna Símans betri en hjá Vodafone að þessu leyti. Síminn klippir ekki algerlega á erlenda umferð eins og Vodafone gerir svo að það er vel hægt að niðurhala frá útlöndum á þessu tímabili. Ef viðskiptavinurinn nær í 40 gígabæti á fyrsta degi mánaðarins, hjá hvorum aðilanum væri betra að vera? Svarið er augljóslega „hjá Símanum“.

Þessi rantur nær ekki yfir aðra netþjónustuaðila en Símann og Vodafone. Það getur vel verið að einhverjir aðrir bjóði upp á betri kjör en rétt skal vera rétt.

Annáll 2008

Ýmislegt og ekkert hefur gerst fyrir mig á árinu 2008. Það versta er að maður er ekkert að skrifa niður árið jafnóðum sem orsakar að sumir hlutir eru ekki nefndir en eiga það svo sannarlega skilið. Einnig vil ég minnist á hluti sem eru svo sannarlega þess virði að rifja upp.

Istorrent málið
Ekki er hægt að komast hjá því að minnast á hið margumtalaða Istorrent mál sem ég er einna þekktastur fyrir. Málið hefur verið í gangi alveg frá því í nóvember 2007 og er því ekki enn lokið. Fyrsta umferð þess var í gangi þegar árið hófst og voru það rétthafasamtökin SMÁÍS, STEF, Framleiðendafélagið SÍK og Félag Hljómplötuframleiðenda (FHF) sem stefndu mér og fyrirtækinu sem ég stofnaði í kringum reksturinn.

Fyrsta krafa okkar var að vísa ætti málinu frá en kröfu okkar var hafnað í febrúarmánuði og hélt þá málið áfram. 11. mars var nokkuð viðburðarríkur dagur þar sem munnlegur málflutningur fór fram fyrir Héraðsdómi Reykjaness og stóð hann frá kl. 9 og til um 16:30. Þann 27. sama mánaðar átti að lesa upp úrskurð í málinu. Þetta var stóri dagurinn og bjóst ég við því að þarna væri ákveðið hvernig málið færi en í stað þess var ákveðið að vísa málinu frá. Það kom nokkuð á óvart en mér var létt. Ég vissi það frá upphafi að málið myndi enda hjá Hæstarétti svo ég vissi sömuleiðis að þessi úrskurður væri ekki lokaorðið.

Innan við viku síðar var úrskurðurinn kærður til Hæstaréttar þar sem niðurstöðunni var auðvitað mótmælt. Við studdum auðvitað niðurstöðuna í megindráttum og sendum auðvitað okkar eigin greinargerð. Síðan gerðist það 8. maí að Hæstiréttur ákvað að vísa málinu frá hvað varðar SMÁÍS, Framleiðendafélagið SÍK og FHF en kröfum STEF yrði hafnað. Þetta var stór sigur fyrir Istorrent og var ákveðið að opna skráardeilingahluta vefsins aðfaranótt 16. maí ef ekkert stæði því fyrir vegi. Snæbjörn Steingrímsson gaf út þá tilkynningu að rétthafarnir myndu þá sjálfir krefjast lögbanns í eigin nafni en ekkert varð úr því.

Hins vegar vissi ég frá upphafi að þeir gætu gefið út nýja stefnu í þessu tilviki og vildi því ekki vera að byggja upp miklar vonir innra með mér – allavega ekki fyrr en fresturinn væri örugglega liðinn. Undirbúningur fyrir opnun fór samt fram ef það myndi gerast að þeir myndu ekki gera neitt. Ætlunin var að framkvæma ýmsar breytingar sem myndi krefjast þess að vefurinn myndi verða niðri en það gekk ekki svo vel. Það var því bæði fagnaðarefni og vonbrigði þegar stefna kom frá STEF.

Tafir urðu á flutningi málsins vegna sumarfría en á þeim tíma árs er réttarkerfið rosalega hægvirkt. Við kröfðust aftur frávísunar á málinu og fór málflutningurinn fram 3. september. Peter Sunde hafði samband við mig og minntist á að hann yrði á landinu og það vildi svo til að hann hafði lausan tíma til að fylgjast með málflutningnum. Hann var einn af þeim fáu sem mættu en það gerði lítið til þar sem hópurinn fór síðan á Dominos og ræddi um ýmsa hluti yfir flatböku.

Þann 26. september náðist einhver árangur hvað Héraðsdóm Reykjaness varðaði. Málinu var vísað frá að hluta til en hún fólst í 4 orðum í einni kröfunni og síðan kröfunni um staðfestingu lögbannsins. Ákveðið var að kæra þá hluta úrskurðsins sem var ekki vísað frá en við vildum ekki gera það nema STEF kærði þann hluta sem vísað var frá. Til að gera langa sögu styttri vísaði Hæstiréttur kærunni okkar frá en dæmdi í kæru STEF. Hann vísaði þó „sambærilega vefsíðu“-kröfunni frá en krafan um staðfestingu lögbannsins ætti að vera tekin fyrir hjá héraðsdómi. Í fyrirtöku í nóvember var ákveðið að munnlegur málflutningur í málinu færi fram 7. janúar 2009.

Bónusvídeó
Þeir ákváðu að nýta sér það að ég væri þekktur og létu útvarpa auglýsingu í júní þar sem nafn mitt var notað. Það var gert án samráðs við mig en sumir héldu að ég hefði samþykkt notkun þeirra á nafninu mínu. Þótt auglýsingin fór fögrum orðum um mig innihélt hún samt lygi og vildi ég að þeir tækju hana úr umferð. Eigandi Bónusvídeó bauðst til að láta mig hafa tvær fríar spólur en ég afþakkaði. Auglýsingin var síðan tekin úr umferð skömmu síðar. Frétt um atburðinn var síðan birt í Fréttablaðinu.

Síðar um árið lét Bónusvídeó gera aðra auglýsingu með nafni mínu en hún var heldur ekki gerð í samráði við mig eins og hin auglýsingin. Þar sem auglýsingin innihélt ekki lygi ákvað ég að gera ekkert í því. Auk þess grunaði mig að hún myndi njóta meiri athygli ef ég gerði það (og niðurstaðan væri álík Streisand Effect).

Dauðsföll
Stuttu eftir að auglýsingin frá Bónusvídeó var tekin úr loftinu gerðist sá sorglegi atburður að amma mín í föðurætt dó eftir langvær veikindi. Verð að játa það að jarðarförin var mjög sorgleg en ég var samt ánægður með það að þjáningum hennar væri lokið.

Skólaganga
Ég fór aftur í skólann í ágúst eftir að hafa tekið mér frí á vorönninni. Það mætti segja að sú önn hafi valdið því að ég hafi orðið að vera mikið meira upp í skóla en undanfarnar annir. Orsökin var sú að sumir kennararnir höguðu náminu þannig að það væri umfangsmeira en námsskipulagið gerði ráð fyrir. Þá voru margir nemendur í vandræðum með að anna álaginu og í framhaldi kvartana ákváðu kennararnir að minnka umfangið verulega. Það var þó ekki beint frí þar sem hinir kennararnir settu skiladaga á stórum verkefnum með stuttu millibili. Prófatímabilið hafi því verið frí í samanburði við það sem undan var. Niðurstaða hennar var sú að ég náði öllum áföngunum. Þá er að sjá hvað mun gerast á næstu önn.

Tanntakan
Einn sársaukafyllsti atburður lífs mín (til þessa) gerðist þann 26. ágúst en þá var vinstri endajaxlinn minn á neðri góm tekinn. Þar sem hluti af tönninni var undir þeirri næstu tók aðgerðin lengri tíma en áætlað var Þessar 50 mínútur sem aðgerðin tók voru mjög sársaukafullar og nefndi tannlæknirinn jafnval það að þetta væri ein erfiðasta tönn sem hann hefði þurft að taka út. Það kom mér á óvart að hann skuli hafa skrifað á mig pensillín en engin verkjalyf. Sem betur fer fékk ég verkjalyf heima sem höfðu samt því miður takmarkað gagn. Næstu daga hafði ég mjög litla lyst á mat en ef ég borðaði eitthvað, þá varð það að vera mjög mjúkt.

Kreppan
Fáir Íslendingar hafa ekki heyrt um slæma efnahagsástandið sem hafa dunið yfir í þjóðfélaginu. Sem betur fer var ég ekki með nein bankalán en féð hjá mér var samt sem áður af skornum skammti. Því ákvað ég í nóvember að taka á í fjármálunum og setja mér stefnu. Stefnan byggðist á því að skera á allt sem ég taldi óþarfa og stofna ekki til nýrra útgjalda ef ég gæti forðast þau.

Stjórnsýslukæra
Eftir að hafa sent inn beiðni um endurtöku í janúar og beðið án þess að fá svar, ákvað ég að senda inn stjórnsýslukæru. Hún var samin yfir margra mánaða tímabil þar sem ég lét ekki verða af því að senda hana inn. Í desember ákvað ég þó að láta til skarar skríða og gerði eitthvað í því. Fékk ég síðar bréf um að ráðuneytið teldi sig ekki hafa heimild til að skipa nefndinni fyrir en sendi samt áminningu til hennar. Ég á enn eftir að taka ákvörðun hvort ég eigi að ýta á eftir málinu á þessu stigi.

Önnur dauðsföll
Á árinu dóu því miður einstaklingar sem voru merkilegir í mínum augum. Læt ég mér nægja að tengja inn á Wikipedia síður um þá ásamt því að nefna í stuttu máli hvað þeir gerðu.
Gary Gygax – dó 4. mars – Þekktastur fyrir sinn þátt í hönnun Dungeons & Dragons spilanna. Mörg spil eiga uppruna að rekja til „D&D“.
George Carlin – dó 22. júní – Uppistandari sem var óhræddur við að nota þau orð sem hann lysti.
Horst Tappert – dó 13. desember – Horfði mikið á sjónvarpsþættina Derrick áður fyrr en hann lék samnefndan rannsóknarlögreglumann.
Robert James Fischer – dó 17. janúar – Fyrrverandi heimsmeistari í skák.

Áríð í heild
Hægt er að líkja bróðurhluta ársins 2008 við berfættan dans á þyrnirósum. Slæm reynsla getur samt einnig verið góð reynsla vegna lærdómsins sem við fáum út úr henni. Get þó ekki neitað því að það hafa ánægjulegir hlutir gerst yfir árið og er ég þakklátur fyrir það. Einhver þróun hefur átt sér stað í mínu lífi og er ég ánægður með að þær breytingar hafi átt sér stað. Skrefið er ekki fullstigið en ég vonast til þess að ganga lengra í þeim breytingum á nýju ári.

Næsta árið
Þetta er varla hluti af annálnum en það væri hægt að líta til baka og bera saman spá mína við raunverulega atburði ársins. Ég sé fyrir mér að úrskurður í Istorrent málinu muni líta dagsins ljós um mánaðarmótin janúar/febrúar (vika til eða frá) sem mun síðan vera kærður til Hæstaréttar (hver sem niðurstaðan verður). Ætli það taki ekki Hæstarétt 1-2 mánuði að komast að niðurstöðu svo hún ætti að vera birt í mars eða byrjun apríl. Ætla ekki að spá um niðurstöðuna á þessu stigi en ég vonast eftir sigri. Hef ekki ákveðið mig hvort ég opni Istorrent aftur ef sigur næst en það fer fyrst og fremst eftir niðurstöðu málsins og tíðarandanum.

Það er grafið djúpt í stein að ég mun taka vorönnina á tölvunarfræðibraut í Háskólanum í Reykjavík. Sumarið mun fara í að vinna en ekki liggur fyrir hvar eða við hvað ég mun vinna. Í ágúst mun ég hefja þriðja og síðasta árið mitt á tölvunarfræðibraut. Þegar líður á sumarið og út árið mun ég líklegast vinna í gæluverkefnum eftir því sem tími gefst til. Vonandi mun 2009 ganga betur en 2008.

Stjórnsýslukæra

Eftir um 10 mánaða töf á afgreiðslu beiðni minnar um endurupptöku máls míns hjá mannanafnanefnd fékk ég endanlega nóg og sendi ég inn stjórnsýslukæru til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins vegna tafanna. Það lítur út fyrir það að nefndin hafi ætlað að kæfa málið með þögninni einni. Málið snýst um beiðni mína til að mega bera millinafnið Kjarrval en því var hafnað áður því það átti að vera of líkt ættarnafninu Kjarval.

Í lok janúar 2007 sendi ég inn beiðni um endurupptöku málsins þar sem ég mótmælti forsendum úrskurðarins en nefndin hefur enn ekki svarað mér. Hún virðist vera aðgerðalaus í málinu og hvorki hún eða ráðuneytið hafa haft samband til að útskýra hvað hafi tafið úrskurðinn eða hvenær hans sé að vænta. Þann 5. desember sl. ákvað ég að senda inn stjórnsýslukæru til að ýta á eftir málinu.

Hér eru umrædd skjöl:
Beiðni um endurupptöku máls 51/2007 hjá mannanafnanefnd
Stjórnsýslukæra varðandi mál 51/2007 hjá mannanafnanefnd